05.05.1964
Efri deild: 81. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

20. mál, loftferðir

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram nokkrar skriflegar brtt. við þetta frv. og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þeim. Þessar till. eru ekki veigamiklar, ég vil taka það strax fram, og óþarfi að hafa mörg orð um þær, þær skýra sig sjálfar.

Aðeins vil ég taka fram, að 1. till. mín er sú, að 1. gr. frv. verði felld niður. Hún er, eins og ég tók fram við 1. umr. málsins, ófullkomin skilgreining á hugtakinu loftfar, og þar sem hún er mjög ófullkomin og vandræðaleg, tel ég miklu betra að fella greinina alveg niður og það, sem í henni felst, líkt og aðrar þjóðir hafa gert við endurskoðun sinna 1. um loftferðir, t.d. Noregur, Sviss og fleiri lönd.

Í 104. gr. er dálítið óljóst orðalag í staflið c. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta, að „flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjársáttmálans að lögum, sem til líka við sáttmálann takmarka að jafnaði ábyrgð flytjanda á glötun” o.s.frv. hér hygg ég, að hafi orðið prentvilla einhvern tíma í árdaga, en sú prentvilla síðan orðið föst við endurprentun frv. Hér mun eiga að standa, að „flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjár-sáttmálans eða lögum, sem til líka við sáttmálann takmarka að jafnaði ábyrgð“ o.s.frv. Ég tel rétt, af því að frv. mun vera á förum héðan úr þessari hv. d., að benda á þetta og gera um það brtt., að þetta verði leiðrétt, því að eins og þetta er, er það með öllu óskiljanlegt.

Allar aðrar brtt. mínar eru orðalagsbreytingar og breyta ekki í neinu meiningu frv. Ég skal aðeins nefna sem dæmi, að ég geri till, um, að orðalaginu „árekstrar milli loftfara“ verði breytt, því að auðvitað er hér um að ræða „árekstur loftfara“, en ekki neinn árekstur, sem milli þeirra verður. Aðrar brtt. mínar eru í svipuðum dúr, þ.e. orðalagsbreytingar, og ég skal nefna annað dæmi. Í 150. gr. er talað um afhendingu brennis (eldsneytis). Vitanlega er hér ekki átt við afhendingu brennis, sem er ein ákveðin tegund eldsneytis. en alls ekki sú tegund, sem flugvélar undir nokkrum kringumstæðum nota. Hér vil ég láta koma í staðinn afhendingu eldsneytis, það er alveg nóg.

Ég vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessum skrifl. brtt., þannig að þær megi komast til afgreiðslu í tæka tíð.