08.05.1964
Efri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

20. mál, loftferðir

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls komu fram nokkrar brtt. frá hv. 9. þm. Reykv., sem sumar voru samþ., en ein þeirra var dregin til baka til 3. umr. Þessar till. áttu sammerkt um það, að í þeim fólst ekki nein efnisbreyting, heldur var þar eingöngu um að ræða að færa ákvæðin til betra máls.

Í tilefni af þessu athugaði samgmn. það á milli 2. og 3. umr., hvort ástæða væri til að gera fleiri brtt, á svipuðum grundvelli. Það getur auðvitað verið mikið álitamál, hvort menn séu ánægðir með málfar og orðalag á frv., og þar hefur hver sinn smekk. Sumum finnst margt í þessu vera sérvizkulegt og stirt, ólipurt, öðrum finnst þetta hins vegar fallegt mál. En ég álít, að þegar stjórnarfrv. koma fram, ætti í raun og veru svo að vera gengið frá þeim af hálfu ráðuneytanna, að þm. þyrftu ekki að liggja yfir því að breyta málfari, þar sem um engar efnisbreytingar væri að ræða, það ætti að mega treysta því, að þau væru þannig úr garði gerð.

En niðurstaðan af þessari athugun n. var sú, að það væri á svo margt að líta, ef ætti að fara frekar út í þessa hluti en gert var við 2. umr., að það væri alls ekki tiltækilegt á þeim stutta tíma, sem nú væri til stefnu. Þess vegna var það niðurstaða n. að flytja enga brtt. En að gefnu tilefni við 2. umr. varðandi þá till., sem þar var dregin til baka til 3. umr., sem var brtt. við c-lið 104. gr. frv., en c-liðurinn hljóðar þannig, að flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjár-sáttmálans að lögum, sem til líka við sáttmálann takmarka að jafnaði ábyrgð flytjanda á glötun eða tjóni á varningi, — mönnum fannst þetta ákvæði lítt skiljanlegt og töldu annaðhvort hafa orðið einhverja brenglun þar eða prentvillu eða einhver mistök. Ég lét þess vegna athuga sérstaklega, hvort svona væri frá þessu gengið frá höfundarins hendi, og það reyndist svo vera, að þetta ákvæði hljóðar eins og höfundar frv. hafa gengið frá því. En þýtt á skiljanlegra mál er efni þess ákvæðis, að flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjár-sáttmálans eftir lögum; sem til jafns við sáttmálann takmarka að jafnaði ábyrgð flytjanda á glötun eða tjóni á varningi.

Þá vil ég að lokum benda á, að í 2. mgr. 164. gr. frv, er prentvilla. Þar segir: „Sömu refsingu skal sé flugstjóri sæta, sem brýtur gegn ákvæðum 91. gr.“ — á augljóslega að vera: „Sömu refsingu skal sá flugstjóri sæta“ o.s.frv. — og er vitanlega hægt að leiðrétta það án brtt.