24.04.1964
Efri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa tækifæri til þess að tala fyrir þessu frv. hér nú við 1. umr., en með því að hann hefur lögmæt forföll, er ekki um að sakast og varla þess að vænta, að hann geti unað því öllu lengur, að málið tefjist sökum veikindaforfalla hans. Það eru örfá atriði, sem mig langar til á þessu stigi að hafa orð á meðfram vegna þess, að minn flokkur á ekki sæti í þeirri hv. n., sem væntanlega fær þetta frv, til meðferðar.

Ein veigamesta breyt, í þessu frv. frá gildandi lögum snertir útsvörin: Samkv. frv. skal skattstiginn lækkaður í heild. Þetta er talið fært að gera að fenginni reynslu af útsvarsstiga, sem unnið hefur verið eftir til þessa og sýnt sig vera óþarflega hár, þannig að sveitarfélögin hafa getað gefið afslátt á útsvörum álögðum samkv. þeim skattstiga frá 10 og upp í 90%. Með þessari lækkun útsvarsstigans verður þá um leið að gera ráð fyrir því, að möguleikar sveitarfélaga til slíks afsláttar minnki að sama skapi, enda gert ráð fyrir því í þeim aths., sem frv. fylgja. Þetta tel ég í raun og veru kost við þetta frv., að möguleikarnir til þessa afsláttar sveitarfélaganna minnki, því að að mínum dómi hefur þessi afsláttur sveitarfélaganna verið í sumum sveitarfélögum mjög hár, ekki verið réttlátur. Hann hefur sem sé verið með þeim hætti að þeir menn, sem hæstu tekjurnar hafa haft, hafa fengið mesta afsláttinn reiknað í krónutölu. Að því leyti sem breytingin kynni að hafa það í för með sér, að úr drægi þessu misrétti, tel ég, að um kost sé að ræða, sem ég vil hafa hér orð á.

En svo eru önnur atriði í þessu frv., sem meira orka tvímælis, þegar um endurbætur er að ræða frá gildandi lögum. Það er gert ráð fyrir því, um leið og útsvarsstiginn í heild er lækkaður, að þá sé gjaldþrepum skattstigans fækkað úr 8 niður í 2. Hvaða afleiðingu hefur þetta í för með sér fyrir útsvarsgreiðendur? Ég sé ekki, að það hafi aðra breytingu en þá í för með sér, að með þessu ákvæði sé hinum tekjulægstu í þjóðfélaginu íþyngt á kostnað þeirra, sem tekjuhærri eru. Það er sem sagt með þessu spori stefnt í þá átt að draga úr hinni stighækkandi útsvarsálagningu, þannig að menn greiði í hækkandi hlutfalli við tekjurnar. Þetta er að vísu í samræmi við annað í stefnu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum: Stefna hennar í skattamálum hefur frá öndverðu verið sú að draga úr allri stighækkun skatta, þannig að fátæki maðurinn komi til með að greiða svipað og sá ríki. Þetta kom berlega fram, þegar söluskattur var lögfestur hér fyrir nokkrum áram. Þetta tel ég mikinn ljóð á stefnu hæstv. ríkisstj.

Í gildandi lögum er heimild fyrir því, að ef útsvarsstiginn reynist of hár og sveitarfélag geti lækkað útsvör, megi gera það með því móti að draga vissa upphæð, allt að 800 kr., frá útsvörum allra. M.ö.o.: það er heimild fyrir því, að draga megi sömu krónutölu frá öllum útsvörum. Þetta verkar í öfuga átt við það, sem ég gat um áðan; og er hinum tekjulága til hagsbóta. Ef þessi heimild ér notuð, fær hann tiltölulega meiri afslátt á sínu útsvari en sá ríki. En þessa heimild á nú að nema úr lögum samkv. þessu frv. Ég tel það mikinn galla, því að heimildarákvæðið, hvort sem það hefur verið notað að litlu eða miklu leyti, var sanngjarnt og átti fyllilega rétt á sér í lögum um útsvör.

Samkv. þessu frv. eiga allir að lækka í útsvari, jafnt þeir, sem tekjulágir eru, og þeir tekjuháu. Þetta er þó ekki alveg undantekningarlaust. Ef við lítum á lágtekjumann og reiknum hans tekjur ekki í krónum, heldur sem þurftartekjur, hækkar útsvar hans nú samanborið við árið 1962. Ef miðað er við þurftartekjur samkv. vísitöluútreikningi hagstofunnar, ber þeim manni, sem þær hefur, að greiða hærra útsvar nú en 1962, og nemur mismunurinn hér um 2000 kr. Á þetta þykir mér einnig vert að benda í sambandi við þetta frv.

Þá vildi ég aðeins fara nokkrum orðum um persónufrádráttinn, eins og hann er hugsaður í þessu frv. Fyrir ekki allmörgum vikum var rætt hér í hv. ð. um frv. til l. um hækkun bóta almannatrygginganna. Það kom þá í ljós og raunar í fjórða sinn, að fjölskyldubætur skyldu ekki hækkaðar, enda þótt allar aðrar bætur almannatrygginganna hækkuðu. Þannig hafa fjölskyldubæturnar, sem eru svo mikils virði barnmörgu fólki, staðið í stað, á meðan aðrar bætur hafa a.m.k. hækkað um 40—50%. Þetta afsakaði hæstv. ríkisstj, í vetur með því, að til stæði að gera stórfellda breyt. á lögum um álagningu útsvars og tekjuskatts í þá útt að auka persónufrádráttinn stórkostlega. Aðstoðin við barnmörgu fjölskyldurnar skyldi sem sagt öll koma á þennan frádrátt við álagningu skatta í stað þess að láta fjölskyldubseturnar hækka að krónutölu í samræmi við dýrtíð. Það er ekki óeðlilegt að nú sé á þetta atriði litið hér í þessu frv. hvað útsvörin snertir. Þá kemur í ljós, að hækkun persónufrádráttar, eins og hún er hugsuð í þessu frv., nemur rétt liðlega 50% eða nálægt því sem svarar til dýrtíðaraukningar, síðan ákvæði voru sett í lög um þetta efni 1962. Það má því segja, að hækkun persónufrádráttarins í þessu frv. samsvari dýrtíðaraukningunni, miðað við það, sem var 1962, en það er alls ekki gert ráð fyrir að bæta stórum fjölskyldum það upp, að fjölskyldubæturnar hafa ekki hækkað. Ég vildi gjarnan benda á þetta nú á þessu stigi málsins og á það, að ef rétturinn á að ske gagnvart barnmörgum fjölskyldum í landinu, þarf nú að hækka persónufrádráttinn við álagningu tekjuskatts og útsvars um hvorki meira né minna en 90–100%. Annars er gengið á þeirra rétt við skattlagningu.

Það er annað, sem ég rak augun í í sambandi við þessa breytingu á persónufrádrættinum, þessa breytingu, sem fyrirhuguð er í frv., og það er, að persónufrádrátturinn, eins og hann er áformaður, er því lægri sem tekjur eru minni. Þetta kemur mér ákaflega spánskt fyrir, en svona mun þetta vera. Samkv. gildandi lögum fær maður, sem hefur fyrir konu og 3 börnum að sjá, 4100 kr. í persónufrádrátt, en samkv. frv. á sami maður að fá 4400 kr., eða sem næst alveg sömu upphæð í krónutölu og ákveðið var 1962. Þetta á að gilda um mann, ef hann hefur 70 þús. kr. í hreinar tekjur. En hafi hann 100 þús. kr. í hreinar tekjur, fa?r hann 6600 kr., ekki 4400, heldur 6600 kr. í frádrátt, og hafi hann 140 þús. kr. hreinar tekjur, fær hann 6700 kr. í frádrátt. Þetta er maður með konu og 3 börn á sínu framfæri. Hann fær því meiri frádrátt sem hann er tekjuhærri, a.m.k. upp að vissu marki, eins og fram kemur í þessu dæmi. Ég vil sérstaklega benda hv. d. á þetta atriði, að það virðist svo sem persónufrádrátturinn eigi að fara hækkandi með tekjunum, og ég hef þar ekki ómerkari heimild fyrir mér en samanburðinn, sem gerður er á bls. 4 og 5 í aths., sem frv. fylgja.

Þetta er það helzta, sem ég vildi koma á framfæri þegar við 1. umr., ekki sízt vegna þess, að við í Alþb. höfum ekki tækifæri til að ræða þetta í einstökum atriðum í n. Ég verð að ljúka máli mínu með því að láta í ljós nokkur vonbrigði með þetta frv. Það virðist fela í sér of fáa kosti og of fáar leiðréttingar á ranglæti, sem allir eru annars orðnir sammála um, að orðið hafi með vaxandi dýrtíð í skatta- og útsvarsmálum. Breytingarnar eru að vísu talsverðar, en koma því miður allt of lítið að gagni þeim, sem helzt þurfa þess með, þeim, sem tekjulægstir eru eða þyngstar byrðarnar hafa að bera sem gjaldþegnar. Ég læt máli mínu lokið að þessu sinni, en vænti þess, að þessi fáu atriði, sem ég benti á, verði athuguð rækilega, áður en frv. verður að lögum.