24.04.1964
Efri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir, að þeir hafa fyrir sitt leyti fallizt á þá meðferð málsins að vísa því til n, nú, og vil þá, af því að mér láðist það í ræðu minni áðan, leggja til, herra forseti, að því verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr: og félmn.

Í ræðum þessara tveggja hv. þm. komu fram ýmis atriði, sem fróðlegt hefði verið að gera að umtalsefni, en ég skal ekki langt út í þær umr. fara. Það er eðlilegt og verður vafalaust gert nánar, þegar hæstv. ráðh. hefur aðstöðu til þess að vera hér viðstaddur við framhaldsmeðferð málsins. En þó eru aðeins örfá meginatriði, sem mig langaði til að minnast á og leggja áherzlu á til frekari skýringar á bæði þessu frv. og frv: um breyt. á l. um tekju- og eignarskátt, sem hér hefur einnig verið til meðferðar og hv, 1, þm. Norðurl. e. (KR) vék lítið eitt að í sambandi við þetta mál.

Hann sagði, að það hefði mikið verið gumað af þessum tveimur málum, og kallaði þau sumargjöf, að því er mér skildist af lítilli hrifningu. Ég held, að í þessu sé fólginn ákaflega mikill misskilningur hjá hv. þm. Það hefur ekkert óeðlilega verið gumað af þessum málum, heldur hreinskilnislega sagt, hvað í þeim falist, og það er langt síðan að því var vikið af hæstv. fjmrh., þegar í haust í fjárlagaræðu, að það stæði til að gera tilteknar breytingar á þessum lögum, fyrst og fremst l. um tekju- og eignarskatt, sem snertu skattamál ríkisins, og það var beinlínis á þann hátt að leiðrétta þessi lög með hliðsjón af þeim dýrtíðarhækkunum, réttara sagt hækkunum á kaupgjaldi, sem orðið hefðu frá því, að tekjuskattslögin vom sett, til þess að þau meginhlunnindi, sem gert hafði verið ráð fyrir í þeim lögum; yrðu áfram í fullu gildi. Við þetta hefur fullkomlega verið staðið í því frv. um tekju og eignarskatt, sem hér liggja einnig fyrir hv. d. til meðferðar, en svo sem kunnugt er, var það grundvallaratriði, þegar tekjuskattslögin voru sett, að þurftartekjur, sem kallað var, eða almennar launatekjur yrðu gerðar skattfrjálsar. Auðvitað má löngum um það deila, hvað séu almennar launatekjur, en þar var þó miðað við ákveðið form, eins og var gengið frá því í þeim lögum, og á því hefur engin breyting orðið nú, þannig að frádrátturinn, sem gert er ráð fyrir; persónufrádrátturinn, er hækkaður sem þessu nemur, þannig að þeir, sem lægstar tekjur hafa, eru gerðir jafnsettir gagnvart sköttunum og áður vom þrátt fyrir þær hækkanir, sem orðið hafa. Hitt er rétt, að í sambandi við, það mál eru ekki samsvarandi lækkanir gerðar á öllum tekjustigum, enda hefur því aldrei verið lofað í sambandi við skattamálin, að það skyldi gert, heldur miðað við hinar lægstu tekjur, þannig að á vissum tekjubilum verður mismunurinn minni og lækkunin minni en sem þessu svarar, þegar allt kemur til alls. En þar ber þó þess að gæta að lokum, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, sem fram hefur komið, að það gæti verið villandi, vegna þess að fram hefur komið hér í þessum umr., að hvorki í þessu frv. né frv. um tekju- og eignarskatt er gert ráð fyrir neinum óeðlilegum lækkunum á hátekjum. Það er gert ráð fyrir sömu skölum þar sem áður og engar breytingar gerðar til óeðlilegrar lækkunar miðað við þá, sem lægri eru í tekjum, frá því, sem áður var, nema síður sé, þannig að vitanlega er það rétt, að þegar komið er upp í visst tekjubil, verður auðvitað, má segja, kaupgeta þeirra tekna alls ekki sambærileg við það, sem var, þegar tekjuskattslögin voru sett. En það er annað mál. Það var höfuðatriði þessa máls og það, sem var höfuðtilgangurinn með núverandi breytingu á skattalögunum, að persónufrádrátturinn væri aukinn þannig að hlunnindin, sem menn nytu af honum á hinum lægri tekjubilum eða á hinum almennu launatekjum, væru jafnmikil og gert var ráð fyrir í núgildandi skattalögum.

Varðandi útsvörin, sem hér liggja fyrir, hefur það mál alltaf horft öðruvísi við, og auðvitað er þá takmarkað, hvað hægt er af hálfu ríkisvaldsins að ráða í því efni. Það eru vissar þarfir sveitarfélaganna, sem verður að taka tillit til, og því ekki hægt fyrir ríkið einfaldlega að slá því föstu, að svona og svona mikið skuli veittur afsláttur frá útsvörum eða breytt til frádráttarheimildum að vild. Þar verður að hafa hliðsjón af því, hverjar þarfir þessara aðila eru fyrir tekjur. Því hefur, eftir því sem ég bezt veit, aldrei verið haldið fram, að þetta frv, fæli í sér einhver stórkostleg hlunnindi í því efni. Hitt er staðreynd málsins, að það felur í sér mikilvæg hlunnindi engu að síður fyrir þá einmitt, sem hafa lægstu tekjurnar. Og það er, eins og hefur raunar verið upplýst hér af hv. 9. þm. Reykv., í þessu frv. einmitt um að ræða mjög verulega hækkun á persónufrádrættinum, þar sem breytt er algerlega um form á honum og hann mjög verulega aukinn frá því, sem nú er.

Einstök atriði málsins skal ég hins vegar ekki út í fara, en þetta er áreiðanlega mjög veigamikið og þýðingarmikið atriði einmitt fyrir þá, sem verr eru settir, og það er alveg rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði hér, að það er auðvitað til mikilla bóta einmitt fyrir þá, sem minni tekjur hafa, að sú breyt, er nú gerð að breyta útsvarsstíganum í þá átt, að ekki sé möguleiki til þess að gefa eins stórfelldan afslátt frá útsvari og áður var, vegna þess að afsláttur var gerður í ákveðnum prósentum, þannig að sjálfsögðu fengu þeir miklu meiri afslátt; sem höfðu hæstu útsvörin og hæstu tekjurnar. Af því leiðir þess vegna, að raunverulega eru hlunnindi þessa frv:, að bilið á milli þeirra, sem er í lágum tekjum og háum tekjum, er með þessu frv. raunverulega mjög verulega aukið; en ekki hið gagnstæða, þegar við athugum það, sem um var að ræða, mjög verulegar prósentulækkanir á álögðum útsvörum. Og prósentulækkanir munu hafa verið gefnar, að ég hygg, í öllum sveitarfélögum og sums staðar mjög verulegar, þannig að að þessu leyti held ég, að sé engum efa bundið, að þetta er til bóta einmitt hvað snertir þá, sem eru tekjuminni og eru því í rauninni harðar úti að segja má í útsvörum eftir hinni fyrri reglu.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. ræddi um það, að ekki væri í þessu frv. að finna neinar lagfæringar á tekjumálum sveitarfélaga. Það er alveg rétt, og það hefur heldur aldrei staðið til, að það væri í þessu frv. En það var hins vegar rétt, sem hann sagði í sinni ræðu, að tekjuþarfir sveitarfélaganna hafa auðvitað vaxið mjög verulega á síðustu árum, þannig að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að hægt sé að veita stórkostleg útsvarsfríðindi, þó að, eins og ég áðan sagði, hér sé um að ræða þó verulegar lagfæringar, því að sveitarfélögin verða náttúrlega að ná á einhvern hátt inn sínum tekjum. Ég hygg hins vegar, að það séu óneitanlega hlunnindi fyrir sveitarfélögin og fólkið, sem í þeim býr þá fyrst og fremst, að það er gert ráð fyrir því að setja viss takmörk og það strangari takmörk en áður varðandi aukaálagningu útsvara, þannig að ef þarfirnar fara umfram það, verði það bætt sveitarfélögunum með öðrum hætti. Þarna er um að ræða aukið aðhald að sveitarfélögunum hvað snertir útsvarsálagningu, sem er auðvitað til bóta fyrir fólkið, sem þar býr.

Varðandi svo almennar hugleiðingar hans um dýrtíð og annað þess konar, skal ég alveg stilla mig um að ræða það á nokkurn hátt. Það hins vegar hljómar dálítið einkennilega að vísu alltaf hjá framsóknarmönnum, þegar þeir eru að óskapast yfir því, að ekki skuli vera svona og svona stór hluti af söluskatti látinn renna til sveitarfélaganna, því að við munum þá tíð, þegar hv. núv. formaður Framsfl. hótaði stjórnarslitum, ef það yrði samþykkt í þingi, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskatti. Þetta er staðreynd, sem ekki er hægt fram hjá að ganga. Hitt er annað mál, að það er rétt, að það hefur alltaf verið áhugamál sveitarfélaganna að fá hluta af söluskatti, og það hefur komið í ljós, sem vitað var, að sá hluti, sem þau hafa fengið af söluskatti að undanförnu, hefur orðið þeim til mikilla hagsbóta og m.a. lagt grundvöllinn að því, að þeir verulegu aíslættir hafa verið gefnir frá útsvörum, sem að undanförnu hafa verið gefnir.

Að öðru leyti vil ég svo ekki fara að efna til neinna frekari umr. um það mál né heldur um skattamálin almennt. Ég tel eðlilegt, að það verði þá rætt við framhaldsumr. hér, þegar hæstv. fjmrh. er viðstaddur, en vildi aðeins neina þessi meginatriði, sem mér fannst nauðsynlegt, að fram kæmu. Það getur vel verið rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að það væri æskilegt, að það væru fleiri leiðréttingar í þessu frv. á útsvarsmálum. Það skal ég ekkert um dæma, og það er auðvitað alltaf álitamál og vafalaust alltaf töluvert meira, sem til bóta stendur, heldur en hverju sinni er hægt að gera. Það getum við vafalaust verið sammála um. En ég held, að það sé engum efa bundið, að bæði þetta frv. hér og frv, um tekju- og eignarskatt sé það mikið til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu, að það sé alveg ástæðulaust að vera að hafa þau mál að nokkru sérstöku grínefni.