30.04.1964
Efri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta frv. gerði ég grein fyrir áliti mínu á þeim breyt., sem í frv. felast. Ég benti á, að þetta frv. bæri allan svip hæstv. ríkisstj. og hennar stefnu í skattamálunum, eins og hún hefur komið fram hin síðari ár. En sú stefna hefur einkum lýst sér í því að jafna skattana, ekki eftir efnum og ástæðum, heldur frekar eftir höfðatölu og án tillits til getu þeirra, sem byrðarnar eiga að bera. Þetta kemur greinilega fram í frv., sem hér er til umr. Hér er enn vegið í sama knérunn, byrðunum frekar létt af hátekjumönnum og þyngdar að sama skapi á lágtekjumönnum og fólki, sem hefur þunga fjölskyldu. Þetta kemur greinilegast fram í þeim greinum frv., sem fjalla um útsvör og álagningu útsvara.

Það er einkum tvennt, sem ég við 1. umr. og eins nú vil finna að í þessu frv. Í fyrsta lagi er persónufrádrátturinn of lágur, eins og hann er ákvarðaður í frv., og í öðru lagi er gengið of langt í frv. í átt til afnáms stighækkunar útsvara. Persónufrádrátturinn er að vísu hækkaður frá því, sem var 1962. Hann er hækkaður að nokkru leyti í samræmi við aukningu dýrtíðar á þessum tveimur árum. Þó kemur þetta alls staðar fram, og eins og ég benti á við 1. umr., kemur þessi hækkun persónufrádráttar sízt fram þar sem helzt skyldi. Ég benti á sem dæmi, að hjón með 3 börn og 70 þús. kr. nettótekjur fá enga hækkun á persónufrádrætti. Persónufrádráttur slíkrar fjölskyldu á að vera 4400 kr., en var ákveðinn 4100 kr. 1962. Hins vegar fær jafnstór fjölskylda, hjón með 3 börn, með 200 þús. kr. nettótekjur 6700 kr. í frádrátt, sem er nærri lagi, að frádrátturinn sé, með tilliti til aukinnar dýrtíðar eða borið saman við 1962.

Ég hafði vænzt þess, að persónufrádráttur yrði hækkaður mun meira en gert er í þessu frv. Einkanlega hafði ég búizt við því vegna gefinna loforða hæstv. ríkisstj. undanfarin missiri. Hún hafði heitið því við tvennar breytingar á l. um almannatryggingar, að persónufrádráttur við álagningu útsvara og tekjuskatts skyldi hækkaður verulega. Þetta boðaði hæstv. ríkisstj. sér til afsökunar á því, að fjölskyldubætur hafa ekki verið hækkaðar neitt að krónutölu árum saman. Sé tekið tillit til þessa, hefði ég vænzt, að persónufrádráttur við álagningu útsvara yrði mun hærri en hann er í þessu frv. ákveðinn. Ég vil segja, að persónufrádrátturinn er ákveðinn í þessu frv. nokkurn veginn til samræmis við aukna dýrtíð, til þess að ná því, sem tapazt hefur síðan 1962, en hann er ekkert hækkaður með tilliti til þess, að fjölskyldubætur hafa verið látnar standa í stað árum saman. Þetta vantar. Gjaldþrepum útsvarsstigans er fækkað úr 8 niður í 2. Þetta segir sína sögu um stefnu hæstv. ríkisstj. í skattamálum. Það er dregið úr stighækkun skatta jafnt og þétt og að því stefnt, að allir borgi tilsvarandi upphæð án tillits til þess, hvort menn eru tekjulágir eða tekjuháir. Þetta er stefna. sem hæstv. ríkisstj. af einhverjum ástæðum aðhyllist, vinnur að, en margir eru andvígir og telja mjög óréttláta. Þetta kemur einnig fram, þegar reiknað er út, hverjir græði mest á þeirri breytingu, sem hér um ræðir. Þá er það enginn vafi, að það eru hátekjumennirnir, sem græða mest á breytingunum, en lágtekjufólkið minnst. Ég vil aðeins nefna eitt dæmi um það, og það er, að vísitölufjölskyldan, fjölskylda af vísitölustærð með þurftartekjur, greiðir hærra útsvar 1964 en hún gerði 1962, og mismunurinn nemur hvorki meira né minna en 2000 kr. Þetta er eitt lítið dæmi um það, hvert stefnir með þessa skattapólitík hæstv. ríkisstj.

Ég hef nú endurtekið sumt af því, sem ég sagði við fyrri umr., en takmarkað mig þó alveg við tvö meginatriði í þessu frv., persónufrádráttinn og fækkun gjaldþrepa útsvarsstigans, enda tei ég þetta vera höfuðgallana á frv. Ég stend upp hér að þessu sinni til þess að benda á þetta og til þess að leggja fram tvær brtt. við frv., sem einmitt miða að því að leiðrétta þetta nokkuð.

Fyrri brtt. mín er við 5. gr., þar sem ræðir um persónufrádrátt. Ég legg til, að frá hreinum tekjum skuli draga, þegar um hjón er að ræða, 40 þús. kr. Þá legg ég til, að gerð verði sú breyt. á sömu gr., að frádráttur barna verði einnig hækkaður. Hann er í frv. ákveðinn 5 þús. kr. fyrir hvert barn, en ég legg til, að svipuðu fyrirkomulagi verði haldið og er í gildandi 1., í þessu efni, þ.e.a.s. að frádráttur vegna barna fari stighækkandi. Ég legg til, að fyrir fyrsta barn verði dregið frá 6000 kr., fyrir annað barn 6500, fyrir þriðja barn 7000 kr. og þannig áfram, að frádrátturinn hækki um 500 kr. fyrir hvert barn. Ég hygg, að ef báðar þessar breytingar fengjust á gr., mundi mjög bætt úr því, sem að mínum dómi fer mest aflaga í þessu frv.

Hin brtt. mín er við 6. gr. og er þess efnis, að gjaldþrepunum verði ekki fækkað úr 8 niður í 2, heldur úr 8 niður í 5, og að lagður sé lægri hundraðshluti á lægstu og lægri tekjur en gert er ráð fyrir í frv. Ég legg þannig til, að einstaklingar og hjón greiði af útsvarsskyldum tekjum af fyrstu 30 þús. aðeins 10%, af 30–40 þús. kr. 3 þús. af 30 þús. og 15% af afganginum og þannig áfram, unz náð er 60 þús. kr. tekjum, þá skuli af þeirri upphæð greiðast 9 þús. kr. af 60 þús. og 30% af afganginum.

Í gildandi lögum er heimild í þeirri gr., sem hér um ræðir, til þess að fella niður útsvarsálagningu á tekjur, sem eru lægri en svo, að útsvar af þeim nemi 1000 kr. Þetta tel ég þarfa og góða heimild, og ég er því andvígur, að hún sé felld niður, en það er einmitt gert ráð fyrir því í þessu frv. Það felst því í minni 2. till., að heimildin haldist og að hún orðist á þessa leið:

„Heimilt er að fella niður útsvarsálagningu á tekjur, sem lægri eru en svo, að útsvar af þeim nemi 2000 kr.“

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Brtt. er of seint fram komin, og ég vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni, þannig að hún geti komið til atkv. við þessa umræðu.