13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. forseta og þó sérstaklega til hæstv. ríkisstj., að mér sýnist það óhæfilegt að ætla þessari hv. d. ekki nema 6 klukkustundir eða svo að jafnaði til fundarhalda á viku, þegar svo langt er liðið á þing og mál eins og t.d. þetta frv. bíða ýtarlegrar afgreiðslu í nefnd. Eins og ég sagði, ætla ég ekki að verða langorður um málið sjálft, en ég vil segja það, að enda þótt ég sjái ýmis missmíði á undirbúningi þessa frv. og að sumu leyti á frv. sjálfu, þá vil ég eigi að síður lýsa yfir ánægju minni yfir því, að þetta mál skuli nú vera fram komið á Alþingi á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að reist verði kísilgúrverksmiðja við Mývatn.

Alla tíð síðan Baldur Líndal efnafræðingur og síðar Tómas Tryggvason jarðfræðingur um eða laust eftir 1950 vöktu athygli á notagildi skeljaleirsins á botni Mývatns, hefur verið mikill áhugi fyrir þessu máli heima í héraði og þess beðið með nokkurri eftirvæntingu, að úr því yrði skorið, hvort þarna væri fyrir hendi rekstrargrundvöllur nýrrar útflutningsframleiðslu til styrktar atvinnulífi og byggð í héraðinu. Það var fyrir mörgum árum eða á Alþingi 1958, sem þáv. þm. S-Þing., núv. hv. þm. Norðurl, e., Karl Kristjánsson, flutti till. til þál. varðandi þetta mál, svo hljóðandi, með leyfi hæstv, forseta.

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar á þessu ári ganga til hreins um það með fullnaðarrannsókn og áætlunum, hvort arðvænlegt sé að vinna til útflutnings kísilleir þann, sem er á botni Mývatns og meðfram Laxá í Aðaldal. Komi í ljós að fullathuguðu máli, svo sem líkur virðast benda til, að vinnsla leirsins sé arðvænleg, leiti ríkisstj. úrræða til þess, að vinnslan verði hafin sem allra fyrst.“

Þetta var á Alþingi 1958—1959, sem þessi till. var flutt og hlaut þá samþykkt Alþingis, en síðar, eða á Alþingi 1961, fluttu þm. Norðurl. e. ásamt tveim hv. landsk. þm. enn á ný till. til þál. um málið, sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fá úr því skorið, hvort ekki sé arðvænlegt að koma upp verksmiðju til vinnslu kísilgúrs úr Mývatni, og kanna þá jafnframt, hverjar leiðir séu heppilegastar til þess að tryggja fjárhagsgrundvöll þeirrar framleiðslu.“

Þessi till. var þá einnig samþykkt sem ályktun Alþingis um kísilgúrverksmiðju við Mývatn.

Ég vil nú mega vænta þess, að sú verði niðurstaða þessa máls hér á Alþingi, að kísilgúrverksmiðjan við Mývatn verði reist eigi síðar en á árunum 1965—1966, eins og rætt er um í grg. frv. Hér væri um að ræða merkilegt nýmæli í atvinnulífi Íslands, þátt ekki sé e.t.v. sérlega stórt í sniðum, og staðsetning verksmiðjunnar er til þess fallin að efla byggð í landshluta, sem eins og sakir standa á eins og fleiri landshlutar í vök að verjast.

Um einstök atriði frv, ætla ég ekki að ræða hér, enda líkur til þess, að það verði til meðferðas í nefnd, sem ég á sæti í. En ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, vekja athygli á einu atriði, sem er það, að mér finnst, að ef þetta frv. eða annað um þetta mál verður að lögum, þá ætti í þeim lögum beinlínis að gera ráð fyrir því, að ýmsir aðilar í þeim landshluta, sem hér á hlut að máli, eigi þátt í stofnun fyrirtækisins og hlutdeild í meðferð mála, eftir að það hefur verið stofnað. Það er að vísu vikið orðum að því í grg., að það mundi standa opið, ef framleiðslufélag verður stofnað, opið sveitarfélögum, sýslufélögum og bæjarfélögum að gerast eigendur að einhverju, a.m.k. að þeim hluta væntanlegs hlutafjár, sem ekki yrði í eigu ríkisins og ekki í eigu útlends aðila. En ég lít svo á, að í l. ætti beinlínis að áskilja þeim aðilum, sem standa nærri þessu máli á Norðurlandi, þátttökurétt í sambandi við stofnun þess fyrirtækis, sem hér er um að ræða, og stjórn þess.