13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh: sagði. Honum fannst ekki sanngjarnt, að ég ræddi það í sambandi við þetta mál, að réttara væri að hafa þann hátt á, að í þeim n., sem undirbyggju veruleg nýmæli, sem snertu stefnur í atvinnumálum, ættu sæti fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum, öðrum en stjórnarflokkunum, og aðrir en þeir, sem væru beinlínis á vegum stjórnarflokkanna þá og þá. Ég notaði hins vegar tækifærið og reyndi að undirstrika enn einu sinni í sambandi við þetta mál þá skoðun, sem ég hef oft látið í ljós, að hyggilegra muni vera, þegar um stórmál er að ræða og sérstaklega þegar um verulegar nýjungar ér að ræða, að hafa til ráðuneytis annaðhvort þingkjörnar mþn. eða þá að ríkisstj. hefði þann hátt á að velja ekki einlitt pólitískt í slíkar nefndir. Ég benti núna á þetta vegna þess m.a., að stóriðjunefndin hefur haft þetta mál með höndum, en hún er einmitt valin, að því er mér virðist, á þann hátt, sem ekki er heppilegur, og vísa ég þar til þess, sem ég hef sagt um heppilegri allsherjarreglu en kemur fram í vali hennar. En stóriðjunefndin hefur haft þetta mál með höndum, og taldi ég þess vegna rétt að vekja enn einu sinni athygli á þessu vinnubragðaatriði í sambandi við þetta mál.

Vona ég, að hæstv. ríkisstj. taki þetta til yfirvegunar og þá m.a. þá uppástungu, sem ég og fleiri höfum gert á öðru þskj. um að breyta til varðandi athuganir á stórvirkjunum og stóriðju yfirleitt, með sérstöku tilliti til þess, hvað þar er um nýstárleg mál að ræða.

Ég hef ekki deilt á hæstv. ríkisstj. fyrir að leitast við að framkvæma þáltill. um athugun á því að koma upp verksmiðju til vinnslu kísilgúrs við Mývatn, síður en svo. Það var hins vegar þetta fyrirkomulagsatriði, sem er mjög þýðingarmikið og ég leyfði mér að benda á í þessu sambandi.

Þá minnti ég hér á nokkur atriði um daginn, sem mér sýndist ástæða til að draga fram, sérstaklega í sambandi við samninginn, sem birtur er með frv., samninginn við hina erlendu aðila. Ég sagði þá, að það væri ekki alveg ljóst, hvort hér væri birtur orðréttur þýddur samningur, sem gerður væri við þessa aðila, eða hvort hér væri að einhverju leyti um útdrátt að ræða, en þó væri ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að öll efnisateiði þess samkomulags, sem gert hefði verið, væru tekin fram. En það er tekið fram. að samkomulag þetta hafi verið gert 27. febr. 1964 milli stóriðjunefndar og fulltrúa fyrirtækisins erlenda, sem þá voru staddir í Reykjavík, og samkomulagið er birt hér á þskj. Í þessu samkomulagi stendur, að hlutafélagið, sem á að koma á fót erlendis og á að vera eign útlendinga að meiri hluta til, skuli eitt hafa rétt til þess að selja framleiðslu kísilgúrfélagsins utan Íslands. Og þar er enginn fyrirvari á og ekkert gefið í skyn um það, að sá samningur skuli vera tímabundinn eða með nokkrum fyrirvörum. Það var þetta atriði, sem ég leyfði mér sérstaklega að gera að umtalsefni og sýna fram á, að jafnvel þótt menn kæmust að þeirri niðurstöðu, að það væri nauðsynlegt eða hyggilegt að fela einhverju félagi sölu á vörum verksmiðjunnar, þá mætti slíkt ekki með nokkru móti vera þannig, að það væri óafturkallanlegt, heldur yrðu að vera á því sterkir fyrirvarar, en ekki þannig um búið, að íslenzka verksmiðjan væri í raun og veru alveg lögð undir sölufélagið. Ég færði rök fyrir því, að svona þyrfti þetta að vera, það þyrfti að vera þannig, að samningur væri tímabundinn og einnig uppsegjanlegur, ef þessi leið með sölufélagið dæmdist skynsamleg eða nauðsynleg.

Nú heyri ég, að hæstv. ráðh. tekur þessu vel og segir, að hér sé aðeins um drög að samkomulagi að ræða, en ekki fullgerða samninga. Það eru því nýjar upplýsingar, sem hér koma fram í málinu, að hér sé ekki um fullgerðan samning að ræða, heldur aðeins drög að samkomulagi, sem svo sé eftir að útfæra á ýmsar lundir. Og þ. á m. segir hæstv. ráðh., að í þann samning, sem kæmi til greina, yrði að setja ákvæði, sem sýndu greinilega, að hér væri ekki ætlazt til, að fyrirtækið hefði einkarétt um aldur og ævi, og gera aðra fyrirvara, sem væru nauðsynlegir til að innlenda verksmiðjan væri raunverulega frjáls og þarna væri raunverulega um sölufélag að ræða. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að þessu er svona varið, að hér er aðeins um lausleg drög að ræða, en ekki búið að ganga frá neinu, og líka ánægju minni yfir undirtektum hæstv. ráðh. um, að þetta þurfi einmitt að tryggja í því samkomulagi, sem síðar verði gert. Vænti ég og, að þetta verði tekið til athugunar í þeirri n., sem málið fær til meðferðar.

Annað atriði drap ég einnig á, og það var, að talað er um í fskj. eða þessum drögum að samkomulagi, sem ég vil nú kalla eftir þessar upplýsingar ráðh., að félögin tvö skuli gera með sér samkomulag, sem tryggi sanngjarna skiptingu hagnaðar milli félaganna. Mér kom þetta einkennilega fyrir og kemur enn. Ég hafði gert ráð fyrir því, að hér væri um tvö fyrirtæki að ræða, annað, sem framleiddi vöruna og ætti að hafa rekstrarútkomu í samræmi við framleiðsluna, þ.e.a.s. fá eðlilegt verð fyrir sínar framleiðsluvörur og standa og falla með því, en á hinn bóginn væri svo um sölufélag að ræða, sem ætti að fá þóknun og greiðslu fyrir að selja vöruna. Ég bað um skýringar á, hvernig á þessu ákvæði stæði og hvað það raunverulega þýddi, hvernig þetta væri hugsað. En hæstv. ráðh. gaf engar upplýsingar um þetta. Má vera, að hann hugsi sér að upplýsa það nánar í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar. En þetta atriði þarf að skýrast, áður en meðferð málsins er lokið á hv. Alþingi, hvernig þetta er hugsað.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að firmað, sem hér hefur verið haft samband við, sé verzlunarfirma og hafi ekki neitt sérstaklega fengizt við að selja þessa vöru, en eftir því sem hann hafi fengið upplýsingar um og þeir, sem að þessu máli standa, njóti það góðs álits og hafi myndarlega sölustarfsemi.

Ég spurði um þetta aðallega til þess að fá að vita, hvort þetta firma hefði yfir nokkurri sérþekkingu að ráða í þessu sambandi, sem þyrfti að slægjast eftir, og svar hæstv. ráðh. er náttúrlega ótvírætt um, að ekki er um slíkt að ræða, a.m.k. ekki tæknilega þekkingu.

Vegna ummæla, sem hæstv. ráðh. lét falla almennt um sölu á íslenzkum vörum, þar sem hann sagði, að hann væri ekki alveg viss um, að það hefði verið sérstakt happ að byggja upp okkar eigin sölukerfi á hraðfrysta fiskinum, eins og gert hefði verið, vil ég aðeins enn og aftur nota þetta tækifæri til að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel það alveg sérstakt happ, einmitt alveg sérstakt happ, að Íslendingum hefur tekizt að byggja upp erlendis eigin sölukerfi fyrir jafnþýðingarmikla vöru og hraðfrysta fiskinn og framleiða hann beint inn í þetta sölukerfi í stað þess að leggja fiskinn inn í sölukerfi erlendra aðila. Ég tel þetta eitt hið allra þýðingarmesta fyrir smáþjóð, að geta haft vald á framleiðsluvöru sinni og selt hana þar, sem bezt býðst, og geta annazt sölu sjálf, en vera ekki háð dreifingarkerfum annarra. Það eru til í heiminum ýmsir stórir hringar, sem hafa með höndum fiskiðnað t.d., og þeir hafa mjög stór sölukerfi víðs vegar um heiminn. Þeir leggja alveg gífurlegt kapp á að hafa söluna með höndum sjálfir sem víðast í heiminum til þess að fá allt út úr þessu, sem hugsanlegt er, til sín og vera ekki öðrum háðir.

Ég tel, að það sé mikið neyðarúrræði fyrir Íslendinga að þurfa að notfæra sér þjónustu annarra í þessu tilliti, því að með því móti verða menn aldrei eins frjálsir. Það er ætíð sú hætta, að menn verði háðir þeim, sem hefur söluna með höndum, ef hann hefur sölukerfið í sínum höndum. Þetta tel ég stórkostlegt mál fyrir Ísland, að einmitt hefur svona skipazt með sölu á þessum aðalafurðum, freðfiskinum.

Ef við lítum svo til framtíðarinnar t.d. varðandi sölu á vörum eins og niðurlagðri síld og niðursoðinni síld og öðru þess konar, þá er auðvitað við mikinn vanda að fást. Það væri auðvitað langæskilegast, að Íslendingar gætu komizt upp á lagið með að framleiða slíkar vörur og selja þær sem íslenzkar vörur, sem sínar vörur, á erlendum mörkuðum og gætu sjálfir náð verzlunarsamböndum með þessar vörur, eins og með hraðfrysta fiskinn. Þetta finnst mér að væri langsamlega æskilegast og þyrfti að verða. En svo er aftur önnur leið, sem dálítið er komin til greina hér. Vegna þess, hve erfitt er að afla markaðanna fyrir niðurlögðu vörurnar og niðursoðnu vörurnar, er orðin tilhneiging hjá ýmsum áhugamönnum að koma upp samböndum við erlenda aðila, sem hafa sölukerfi. T.d. hygg ég, að sé í uppsiglingu hér að hafa samvinnu við norskan aðila, sem framleiðir þessar vörur, og þá skilst mér, að varan, sem hér er framleidd, verði sett inn í sölukerfi hans. Menn eru frjálsir að því að reyna slíkar aðferðir, og ég vildi óska þess, að það gengi sem bezt fyrir þeim, sem reyna þetta. En ekki finnst mér þetta vera eins æskileg leið og hin. Það æskilegasta væri að geta haft þetta á eigin vegum eins og freðfiskinn, og þess vegna hefði ég verið miklu ánægðari með þetta mál, ef menn hefðu treyst sér til, að verksmiðja við Mývatn brytist sjálf í því að koma þessum vörum á markað og selja þessar vörur erlendis, fengi sér umboðsmenn með venjulegum hætti, en þyrfti ekki að lúta því, að búið væri til félag af þeirri tegund, sem hér er gert ráð fyrir og kallað sölufélag. Ég hefði verið miklu ánægðari, ef menn hefðu treyst sér til að ganga í þetta mál á þennan hátt. En það má vera, að slíkt væri of áhættusamt og það þurfi að hafa sérstakt samband við félag í þá átt, sem hér er ráðgert. En þá er auðvitað þýðingarmikið, að sem bezt sé frá öllu gengið og menn séu ekki háðari þessu félagi erlendra, sem hefði sölukerfið, en ástæður standa til og góðu hófi gegnir. Ég heyri, að hæstv. ráðh. hefur opin augun fyrir því, að um þetta þurfi að setja ákvæði í þá samninga, sem endanlega kunna að verða gerðir, og að hér er aðeins um drög að ræða. Ég vona því, að það verði samkomulag um að ganga vel frá þessu.