30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Iðnn. hefur á nokkrum fundum ra2tt frv. á þskj. 425 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og orðið sammála um að mæla með, að það verði samþ. með viðaukatill. við 4. og 6. gr. þess, eins og fram kemur í nál. Tveir nm. hafa áskilið sér rét2 til þess að flytja og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Fulltrúi frá Alþb. sat fundi n. og fylgdist með störfum hennar.

Eins og fram kemur í aths., sem lagafrv. fylgja, er það árangur langs undirbúningsstarfs, er unnið hefur verið á undanförnum árum, og hafa margir þar lagt hönd á plóginn.

Stóriðjunefnd mun hafa annazt hinar viðskiptalegu athuganir og samningaviðræðurnar, sem við það hafa verið tengdar. Hins vegar hefur hin tæknilega hlið málsins verið í höndum raforkumálastjóra og rannsóknaráðs ríkisins.

Frv. fylgir ýtarleg grg. og aths. við hverja einstaka gr. þess. Þá fylgja því og 6 álitsgerðir og samkomulag við hollenzkt félag, sem skammstafað er AIME. Að álitsgerðum þessum hafa m.a. unnið Baldur Líndal efnaverkfræðingur, Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri og Ólafur Jóhannesson lagaprófessor:

Varðandi efni frv. og tilgang leyfi ég mér að vísa til fyrrnefndra gagna og þá einnig til hinnar ýtarlegu framsöguræðu hæstv. iðnmrh., sem hann flutti hér við 1. umr. málsins.

Hæstv. iðnmrh. mætti á fundi hjá n. og gaf henni margar upplýsingar og vil ég mega leyfa mér að geta nokkurra þeirra, sem hann lagði skriflega fyrir nefndina.

Varðandi aðgerðir við að tryggja sanngjarna skiptingu hagnaðar á milli félaganna, sem á að stofna, upplýsti ráðh., að í viðræðum við hið hollenzka félag hefði komið fram, að gera þyrfti sérstakt samkomulag á milli sölufélagsins og framleiðslufélagsins, annaðhvort um sölukostnaðinn eða verð til framleiðslufélagsins pr. tonn, og byggja þar á þeim áætlunum og upplýsingum, sem fyrir lægju um bæði framleiðslukostnað og sölukostnað. Með slíku samkomulagi yrði stefnt að því, að hagnaður af hlutafé í sölufélaginu yrði ekki meiri en af hlutafé í framleiðslufélaginu. Ekki er hægt að ganga frá slíku samkomulagi, fyrr en fyrir liggur, hvernig salan fer fram í einstökum atriðum. Um sölufélagið upplýsti ráðh. m.a., að aldrei hefði verið rætt um annað við AIME en einkasöluréttur sölufélagsins yrði háður endurskoðun, sem semja þyrfti um. Hin gagnkvæma hlutafjáreign á að stuðla að því, að slíkt samkomulag geti náðst.

Þá er varðandi rétt ríkisins til þess að eignast hlutabréf hinna erlendu aðila í sölufélaginu eftir tiltekinn tíma. Ríkið hefur ekki formlega áskilið framleiðslufélaginu rétt til að eiga meira en 40% hlutafjárins í sölufélaginu. Hins vegar er því áskilinn forkaupsréttur að þeim bréfum í sölufélaginu, sem AIME kann að vilja selja síðar meir. Telja verður líklegt, að í samningum um einkasölurétt félagsins muni AIME áskilja, að ríkið kaupi hlutabréf þess í báðum félögunum, ef sölufélagið yrði svipt einkasöluréttindum. Engir örðugleikar ættu að vera á því að ná samkomulagi í þessa átt.

Þá lágu fyrir nokkrar upplýsingar um væntanlegt sölufélag. Sölufélagið er miðlungsstórt fyrirtæki, sem upphaflega hafði með höndum námurekstur í nýlendum Hollendinga, en annast nú fyrst og fremst sölu og dreifingu á ýmiss konar efnavörum, einkum mangan og öðrum hráefnum. Fyrirtækið hefur umboðsmenn um alla Evrópu auk eigin sölumanna. Dreifingarkerfi þess virðist henta sérlega vel til dreifingar á kísilgúr. Á hinn bóginn hefur það ekki reynslu í dreifingu á kísilgúr sérstaklega. Sala á honum er svo til eingöngu í höndum núverandi framleiðenda, þ.e.a.s. væntanlegra keppinauta okkar. Hér er því ekki um annað að ræða en að byggja upp nýtt og sjálfstætt sölu- og dreifingarfyrirkomulag.

Í s.l. 3 ár hefur félagið unnið mikið starf við að kanna kísilgúrmarkaðinn og m.a. komið upp skrá yfir þær þúsundir aðila, sem kaupa kísilgúr í Evrópu. Hefur fyrirtækið gert sér far um að vera sem bezt undir það búið að annast beint eða óbeint kísilgúrsölu í Evrópu. Ef við ættum að annast söluna sjálfir, mundi það áreiðanlega krefjast mjög mikils undirbúnings í langan tíma.

Helztu markaðslöndin fyrir kísilgúr munu verða Bretland, Frakkland, Vestur-Þýzkaland, Holland og Belgía.

Í n. var allmikið rætt um hina Svonefndu tvísköttunarsamninga, og kom þar m.a. eftirfarandi fram: Í fyrsta lagi, að Ísland er aðili að eftirtöldum samningum til þess að koma í veg fyrir svonefnda tvísköttun. Í fyrsta lagi er samkomulag milli Íslands og Stóra-Bretlands um gagnkvæmar undanþágur frá tekjuskatti af hagnaði af skipaútgerð. Þetta samkomulag var gert 1928 og birt í Stjórnartíðindum 1930. Í öðru lagi er samningur milli Íslands og Belgíu til þess að forðast tvísköttun á tekjum siglingafyrirtækja landanna. Þessi samningur var undirritaður 1928 og gekk samkvæmt sérstöku ákvæði í gildi 1930 og birtur í Stjórnartíðindum 1931. í þriðja lagi samkomulag milli Íslands og Svíþjóðar til þess að komast hjá tvísköttun á tekjum og eignum. Samningurinn var undirritaður 1937 og birtur 1938. Í fjórða lagi samningur milli Íslands og Danmerkur til þess að komast hjá tvísköttun á tekjum og eignum. Sá samningur var undirritaður 1939 og birtur síðar á árinu 1939. Í engum þessara samninga er gert ráð fyrir því, að skattlagður sé hér á landi sá arður, sem greiddur er til erlendis búsettra aðila og á rót sína að rekja til hlutafjáreignar af íslenzku fé. Sama máli gegnir um nýjan tvísköttunarsamning við Svíþjóð, sem nú er í undirbúningi. Samkv. upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur sú stefna verið tekin að viðhalda skattfrelsi að þessu leyti, þegar Norðurlöndin eiga í hlut, á hinn bóginn megi ætla, að gagnvart öðrum löndum verði stefnt að því að skattleggja að einhverju leyti hér á landi þann arð, sem greiddur er út úr landinu.

Í 8. gr. kísilgúrfrv. er þannig gert ráð fyrir, að heimilt sé að skattleggja umræddan arð að nokkru leyti hér á landi. Er talið eðlilegt að fylgja í því efni till. Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, enda á lausn á þeim grundvelli mestu fylgi að fagna meðal aðildarríkja. Till. er birt í íslenzkri þýðingu sem fskj. nr. V, með frv. Samkv. henni mundi heimilt að leggja skatt á arðgreiðslu kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn til sölufélagsins og mætti sá skattur mest nema 15% af brúttóupphæð arðsins. Með fyrirkomulagi því, sem 8. gr. frv. gerir ráð fyrir, er gengið skemmra til móts við hagsmuni útlendinga en gert hefur verið í þeim tvísköttunarsamningum, sem Ísland er aðili að.

Hjá n. mættu, auk hæstv. iðnmrh., Baldur Líndal efnaverkfræðingur og Steingrímur Hermannsson, formaður rannsóknaráðs ríkisins. Þeir greiddu úr ýmsum spurningum varðandi hina tæknilegu hlið málsins og lýstu fyrir n. sölumöguleikum á kísilgúr. Þeir töldu m.a., að jarðhitinn réði úrslitum um það, að unnt væri með hagkvæmu móti að vinna kísilgúr úr Mývatni, einnig að söluhorfur mættu teljast góðar, þar sem efnið væri mikið notað við margvíslega framleiðslu og ekki væru horfur á, að eftirspurn eftir því mundi fara minnkandi. Kísilgúrinn væri t.d. notaður sem fylliefni við lyfjagerð, framleiðslu á málningu og síun fyrir margvíslega vökva. Sölumöguleikarnir ættu því að fara vaxandi.

Fyrir atvinnulíf okkar íslendinga er það án efa þýðingarmikið að fá nýjar framleiðslugreinar, sem ekki eru allt of háðar aflabrögðum og duttlungum veðráttunnar. Hafa verður það í huga, að þjóðinni fjölgar ört og því meiri og meiri þörf fyrir ný verkefni og aukna fjölbreytni í atvinnuháttum. Að sjálfsögðu er enn margt ógert á því sviði að hagnýta betur en verið hefur sjávaraftann og landbúnaðarframleiðsluna, en ekki má vanrækja iðnaðinn, ef vel á að fara, og í fallvötnum landsins höfum við orku, sem endast mun langt fram í tímann. Með stofnun og starfrækslu kísilgúrverksmiðjunnar er farið inn á nýjar brautir, þar sem framleiðsla hennar verður útflutningsvara, sem allir vona að afli þjóðinni öruggra gjaldeyristekna á komandi árum. Staðsetning verksmiðjunnar við Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu er og tvímælalaust æskileg frá því sjónarmiði séð, að allur iðnaður landsmanna eigi ekki að vera á allt of takmörkuðum svæðum.

Eins og ég gat um, flytur n. tvær brtt. við frv., að sveitarfélög á Norðurlandi skuli hafa rétt til þess að gerast hluthafar í félögunum, sem stofnuð verða um verksmiðjuna, og að fulltrúar ríkissjóðs í stjórn hlutafélags samkv. 1. gr. frv. skuli kosnir af Alþingi. Þarfnast þessar till. ekki nánari skýringa.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.