30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkrar upplýsingar, sem ég vildi afla mér og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um, þar sem hv. frsm. er nú í forsetastól.

Í fskj. VII, á bls. 23, með þessu frv, er birt samkomulag við AIME, sem gert var 27. febr. 1964. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkomulag þetta var gert 27. febr. 1964 milli stóriðjunefndar og fulltrúa AIME, sem þá voru staddir í Reykjavík. Það hefur síðan verið staðfest af AIME og ríkisstjórn Íslands. Staðfestingin var að sjálfsögðu með þeim fyrirvara, að Alþingi veitti nauðsynlega lagaheimild til að framkvæma samkomulagið.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Lítur hann svo á, að þegar búið er að samþ. þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, þá sé hæstv, ríkisstj. búin að fá heimild til þess að framkvæma það samkomulag, sem birt er sem fskj. með þessu frv.?

Ef það er svo, að skilja á frv. sem heimild til ríkisstj. til þess að framkvæma þetta samkomulag, þá sýnist mér, að það sé samkomulagið, eins og það liggur fyrir. Og ekki getur Alþingi verið að veita heimild til þess að framkvæma eitthvert annað samkomulag en þarna er. Ég lít svo á, ef þetta er heimild fyrir hæstv. ríkisstj. til að framkvæma þetta samkomulag, þ.e. þennan samning eða samningsuppkast eða hvað á að kalla það, sem birt er hér með, þá verði það samkomulag eða samningur að vera þannig.

Í öðru lagi vil ég benda á, að í þessu samkomulagi, sem ég minntist á, segir á bls. 24 í þskj., með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutafélag þetta skal eitt hafa rétt. til þess að selja framleiðslu kísilgúrfélagsins við Mývatn utan Íslands.“

Nú hefur hv. frsm. getið þess, að n. hafi fengið þær upplýsingar hjá hæstv. ráðherra, að þetta ákvæði, eins og hann orðar það, sé háð endurskoðun, ef samkomulag verði um. Á þá að skilja það svo, að eftir að búið er að stofna þetta hlutafélag, þá eigi að óska samkomulags við hið erlenda félag um að breyta þessu, eða á að stofna hlutafélagið um þennan samning og félagið hafi þennan einkarétt? Eiga Íslendingar að fara bónarveg að hinu erlenda félagi, eftir að búið er að gera þennan samning og staðfesta hann, eða á að breyta þessum samningi, áður en hlutafélagið er stofnað?