04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég bjóst nú satt að segja ekki við, að þetta yrði tekið alveg undireins, og ætlaði að geta ráðgazt nokkuð við aðra hv. þm. um eina brtt., sem ég vildi gjarnan leggja hér fram, og ég mun leggja hana fram nú, en mér hefði þótt mjög vænt um, ef hæstv. forseti hefði nú viljað fresta umr., þannig að hugsanlega væri hægt að breyta henni á eftir.

Það var út frá því, sem ég talaði hér við 2. umr., að svo fremi sem hæstv. ríkisstj. þætti nokkuð tvísýnt að leggja í byggingu þessarar verksmiðju, þegar búið væri að rannsaka þetta mál vel, væri rétt að heimila henni að nota engu að síður þá lánsheimild, sem í þessu frv. felst, til þess að koma þá upp öðrum verksmiðjum á Norðurlandi. Ég veit, að eitt af því, sem vakir fyrir öllum þm, í sambandi við afgreiðslu þessa máls, er að gera verulega myndarlegan hlut hvað snertir eflingu iðnaðar á Norðurlandi, sýna dreifbýlinu það svart á hvítu, að menn vilja gjarnan leggja í verulega mikla nýja framleiðslu þar, ef þess er nokkur kostur. Nú kann það vel svo að vera, þegar farið verður að vinna betur að þessari undirbúningsstarfsemi, sem á að vera fyrsti þátturinn í undirbúningi þessa máls, að menn reki sig á það, sérstaklega vegna söluhoríanna og vegna útlitsins um fjárhagslega afkomu fyrirtækisins, að þó að ýmislegt annað mæli með því að leggja í þetta, bæði gæði kísilgúrsins og eins að þetta skuli vera staðsett í dreifbýlinu, komi það í ljós, að hæstv. ríkisstj, þyki þetta fulltvísýnt. Þá álít ég, að Alþingi ætti að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til þess að taka engu að síður að láni allt að 150 millj. kr., eins og gengið er út frá að hún ýmist leggi fram eða taki að láni til þess að koma upp kísilgúrverksmiðjunni, og þá megi verja því til annarra verksmiðja á Norðurlandi, til að koma upp öðrum verksmiðjum á Norðurlandi. Og ég mundi leggja til að hafa þann hátt á, að ef hæstv. ríkisstj. þætti tvísýnt að leggja í kísilgúrverksmiðjuna, kallaði hún saman á ráðstefnu nefnd, sem þannig væri skipuð, að sýslufélög á Norðurlandi og hver bæjarstjórn á Norðurlandi skipaði þar einn fulltrúa, og þessi ráðstefna fengi síðan tilboð frá ríkisstj. um það, að hún láni til þessara sýslufélaga og bæjarstjórna á Norðurlandi alls allt að 150 millj. kr. til þess að koma upp verksmiðjum víða um Norðurland samkv. nánari till. Þá mundu bæjarstjórnirnar og sýslufélögin, þegar þau vissu þetta, náttúrlega fara strax að athuga þessa hluti, til þess að hafa til varatill., ef illa skyldi fara um þetta verkefni, sem sett er með þessu frv. um svona kísilgúrverksmiðju, og hæstv. ríkisstj. mundi að sínu leyti athuga þetta líka.

Við vitum, að það hafa komið fram margar óskir nú þegar, bæði frá Norðurlandskjördæmi vestra, og víð vitum, að það er líka mikill áhugi í Norðurl. e., ekki sízt í Suður-Þingeyjarsýslu í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna, þannig að ég býst við, að það mundi vera bæði nokkurt frumkvæði frá hálfu Norðlendinga í þessum efnum og góðar athuganir. Það eru uppi nú þegar ýmsar uppástungur, eins og ýmsir hv. þm. þegar hafa flutt; og sú upphæð, sem kísilgúrverksmiðja og vegur í sambandi við hana mundi kosta, mundi nægja til að koma upp mörgum verksmiðjum á Norðurlandi, sem vafalaust gæfu líka mun meiri útflutningsverðmæti en kísilgúrverksmiðjan gæfi, eins og ég gat um hér við 2. umr. Ég vildi þess vegna leyfa mér að flytja svo hljóðandi till. um, að aftan við frv. bætist svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

„Nú þykir ríkisstj. að rannsökuðu máli tvísýnt að hefja byggingu kísilgúrverksmiðju, og heimilast ríkisstj. þá að taka engu að síður lán allt að 150 millj. kr. og verja því láni sem hér segir: Ríkisstj. kallar saman ráðstefnu fulltrúa bæjarstjórna og sýslufélaga norðanlands. Skal vera einn fulltrúi frá hverju sýslufélagi og hverri bæjarstjórn. Ríkisstj. gefur síðan þessari ráðstefnu kost á að fá handa bæjunum og sýslunum lán, alls að upphæð 150 millj. kr., til þess að koma upp nýjum verksmiðjum viða norðanlands samkv. nánari áætlun, sem ríkisstj. og þessir aðilar gera í sameiningu.“

Þessa till. vildi ég leyfa mér að leggja fram, en jafnframt, af því að ég ætlaði að nota tímann til þess að geta rætt við fleiri þm. um þetta, æskja þess við hæstv. forseta, hvort hann mundi nú ekki fresta þessum umr. á meðan, svo að menn gætu athugað þetta ofur lítið betur, áður en málið færi frá d., en leita að öðru leyti afbrigða.