05.05.1964
Efri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal reyna að gera grein fyrir þessu máli í stuttu máli, m.a. vegna þess, að ég geri ráð fyrir því, að það sé orðið allkunnugt hv. þm., og enn fremur vildi ég mega vænta þess, að bæði í grg. og á fskj., sem fylgja þessu máli, sé gerð nokkuð ýtarleg grein fyrir því.

Þetta mál á orðið nokkuð langan aðdraganda, og mun vera um rúmlega áratugur síðan menn fyrst fóru að huga að því, að í botnleðju Mývatns mundi vera náma til þess að vinna svokallaðan kísilgúr úr, og af einstökum mönnum, hygg ég, að óhætt sé að segja, að Baldur Lindal efnaverkfræðingur sé einn af frumkvöðlum þessa máls og mun hafa fyrst hugað að. þessum málum, þegar hann var að vinna að athugunum á vegum raforkumálastjórnarinnar í sambandi við jarðhita við Mývatn. Síðan hefur bæði raforkumálastjórnin og rannsóknaráðið unnið að þessu máli, og 1961, hygg ég, að það Hafi verið, sem stóriðjunefnd var fengið málið til meðferðar af hálfu þáv. iðnmrh.

Þetta mál var af hálfu ríkisstj. talið komið á það stig, að rétt væri að leita heimilda þingsins, sem felast í þessu frv. Það eru að vísu ekki eingöngu heimildir, heldur er beinlínis samkv. 1. gr. ríkisstj. falið að beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisi og reki verksmiðju við Mývatn og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu til þess að vinna markaðshæfan kísilgúr úr botnleðju Mývatns. Þetta er í raun og veru framhald af tveimur ályktunum, sem Alþingi hefur gert 1958 og 1962, þar sem samþ. voru áskoranir til þáv. ríkisstj. um að beita sér fyrir framgangi þessa máls.

Í Nd. voru gerðar breytingar á stjórnarfrv. með samþykki ríkisstj., sem felast í því, að sveitarfélög á Norðurlandi skuli hafa sama rétt til þess að gerast hluthafar í félögum, sem stofnuð eru í þessum tilgangi, eins og ríkisstj. var ætlaður samkv. 4. gr., og einnig, þegar að því kæmi að stofna þetta félag, verksmiðjufélagið, þá skyldu fulltrúar ríkisstj. verða kosnir af hálfu Alþingis. Iðnn. Nd., sem hafði málið til meðferðar, leitaði ýmissa upplýsinga um málið, sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér nú, en ég hef afhent formanni iðnn. þessarar d. þær upplýsingar og vona, að það verði til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins.

Mér er það ljóst, að það getur verið nokkur áhætta í fyrirtæki eins og þessu. Það kom fram í Nd., og ég held, að þeir, sem hafa kynnt sér málið, geri sér það ljóst. Hins vegar er hér að vissu leyti um mjög merka framkvæmd að ræða og í fyrsta skipti ráðizt í hér á landi að vinna þennan kísilgúr. Það er talið, að í Mývatni sé ein af stærri námum, sem þekktar eru í þessu sambandi, og fyrir tilstuðlan íslenzkra sérfræðinga er það talið núna fullreynt, að þarna sé um mjög góða möguleika að ræða til þess að vinna kísilgúr, sem á að geta jafnazt á við þann bezta, sem er á heimsmarkaðinum.

Þá er einnig nýmæli í þessu máli, að það hefur verið gert ráð fyrir því frá öndverðu að hafa samvinnu við erlenda aðila og fyrst og fremst vegna markaðsöflunarinnar. Stóriðjunefnd hefur haft í því sambandi samband við hollenzkt fyrirtæki, svo sem fram kemur í grg. málsins og fskj. Þar er fyrst og fremst urri að ræða grundvallarsamkomulag milli hins hollenzka félags og íslenzku ríkisstj., sem fram kemur í fskj. VII, en mér þykir ástæða til þess að taka það fram, að öllu nánara samkomulag og samningar á grundvelli þessa samkomulags eiga eftir að gerast á milli aðilanna. Enda kemur það fram í nál. í Nd., að n. gerir ráð fyrir þar, að bæði í sambandi við tímalengd samnings, sem kynni að verða gerður víð þetta erlenda félag, og uppsagnarákvæði yrði nánar ákveðið í slíku samkomulagi.

Meginefni málsins er, að það er gert ráð fyrir því samkv. frv., að ef þetta frv. verður að lögum, verði hafizt handa um undirbúningsfélag, sem mundi taka alla nánari rannsókn þessa máls í sínar hendur, og ef niðurstöður þeirrar rannsóknar verða þær, sem nú má gera ráð fyrir, er ætlað, að hægt verði að hefjast handa um stofnun þessa félags á næsta ári. Þessi hugmynd um undirbúningsfélagið er komin fram í raun og v eru á síðasta stigi þessa máls, en þótti aðeins hagkvæmniástæða og hentara en að hefjast strax handa um stofnun sjálfs verksmiðjufélagsins.

Ég vona, að ég þurfi ekki á þessu stigi málsins að gera nánari grein fyrir því, en vænti þess, að þau gögn, sem ég hef fengið þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, verði talin fullnægjandi til þess að skýra málið nánar en ég hef nú gert.

Ég mundi svo vilja leggja til, herra forseti, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til hv, iðnn.