09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir þessu frv. og það mál, sem hér er um að ræða, skuli vera komið á það stig, sem raun ber vitni. Ég vil einnig í því sambandi leyfa mér að óska hv. 1. þm. Norðurl. e., sem fyrstur gerði þetta mál að þingmáli fyrir allmörgum árum, til hamingju með þá framvindu, sem þetta mál hefur tekið. Það er enginn vafi á því, að hér hefur verið unnið mjög langt og gott og mikið undirbúningsstarf.

Við umr., sem farið hafa fram, bæði hér í þessari hv. d. og einnig í hv. Nd., hafa ýmsir hv. þm. látið í ljós ánægju sína yfir því, hvern þátt íslenzkir tæknimenn hafa átt í því að undirbúa þetta mál og finna þær leiðir, sem hentuðu þeim sérstöku aðstæðum, sem þarna er við að etja. í grg. frv., sem liggur hérna fyrir, er einnig að þessu vikið, en þar stendur:

„Um leið og þetta frv. er lagt fram, er ástæða til þess að fagna því, hvern þátt íslenzkir vísindamenn hafa átt í að finna þá auðsuppsprettu, sem kísilgúrnáman í Mývatni er, og að leysa margvísleg tæknivandamál, sem eru samfara nýtingu hennar.“

Síðan er nefndur sérstaklega til einn íslenzkur verkfræðingur og raunar síðar í grg. a.m.k. tveir aðrir, og það er ástæða til þess að rifja það upp í þessu sambandi, hvernig svo hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningslið ætlar að kvitta fyrir framlag þessarar stéttar til tækniþróunarinnar í landinu. Næsta mál á dagskrá er að samþykkja á þessa stétt eina allra stétta í landinu sams konar þrælalög og ríkisstj. og hennar stuðningslið lyppaðist niður á að beita aðrar stéttir landsins hér fyrr í vetur.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta nú. Það mál verður væntanlega á dagskrá síðar í dag. En þetta mál, sem hér liggur fyrir, hlýtur, eins og ég sagði áður, að gleðja alla, sem áhuga hafa fyrir aukinni fjölbreytni og aukinni uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega. Þetta fyrirtæki, sem hér er um að ræða að koma á fót, er að vísu ekki stórt, en það er afar þýðingarmikið, vegna þess að við bindum allir við það þær vonir, að það sé upphaf að öðru meira. Ég hef í sjálfu sér engar aths. að gera við frv. sjálft og vil gjarna lýsa yfir stuðningi mínum við það, en athyglin beinist öllu frekar að samkomulagi, sem félagar hv. 6. þm. Norðurl. e, í stóriðjunefnd hafa gert, því að ég trúi honum ekki til að hafa gert þetta sam. komulag, og um það vildi ég fara örfáum orðum.

Það segir í upphafi frásagnarinnar af samkomulaginu, sem birtist aftast í þessari grg., að samkomulag þetta hafi verið gert milli stóriðjunefndar og fulltrúa frá hinu hollenzka félagi og það hafi síðar verið staðfest af Hollendingunum og af ríkisstj. Íslands, en staðfesting hennar hafi að sjálfsögðu verið með þeim fyrirvara, að Alþingi veitti nauðsynlega lagaheimild til þess að staðfesta samkomulagið.

Ef samþykkt þessara laga verður túlkuð á þann veg, að í henni sé fólgin eins konar staðfesting eða yfirlýsing um það, að Alþingi hafi ekkert við þetta samkomulag að athuga, eins og þetta orðalag gæti bent til, þykir mér rétt að gera við þetta samkomulag örfáar aths.

Ég skal ekki tefja tímann á því að vera að gera aths. við samkomulagið að því er lýtur að bráðabirgðafélaginu, sem gert er ráð fyrir að stofna. Það er í sjálfu sér ekki svo ákaflega veigamikið atriði. En undir 1. tölul. þessa samkomulags, þar sem talað er um kísilgúrfélagið við Mývatn, segir, að þetta félag skuli vera framleiðslufélag, sem starfi á Íslandi að því að framleiða kísilgúr-síunarefni og flytji þau til Rotterdam eða annarra geymslustöðva sölufélagsins. Hér virðist því vera slegið föstu strax í upphafi þessa máls, að öll framleiðsla kísilgúrfélagsins við Mývatn skuli fara í gegnum geymslustöðvar sölufélagsins. Ég vil aðeins benda á, að mér finnst það næsta óeðlilegt að slá þessu föstu þegar á þessu stigi málsins, en samt er þetta kannske ekki veigamesta atriðið.

Það stendur einnig í samkomulaginu, að félögin tvö skuli gera með sér samkomulag, er tryggi sanngjarna skiptingu hagnaðar milli félaganna, og hv. 6, þm. Norðurl. e. notaði aftur þetta orðalag í framsöguræðu sinni hér áðan. þetta er að mínum dómi ákaflega óljóst orðalag, óvenjulegt og óvænt, vegna þess að sölufélag hefði maður haldið að mundi fá sölulaun og það þyrfti ekki neina flókna samninga um skiptingu hagnaðarins milli félaganna. En einmitt af því, að þetta orðalag er notað, hljóta menn að velta svolítið vöngum yfir því, hvernig er gert ráð fyrir, að þessi félög skuli vera upp byggð. Það er þá gert ráð fyrir því, að kísilgúrfélagið við Mývatn skuli vera upp byggt þannig; að íslenzka ríkið eigi a.m.k. 51%, og þessu ákvæði er ég fyllilega sammála og fagna því. Ég álít, að þetta sé þess eðlis, að ríkið eigi að hafa tryggðan algeran meiri hluta í félaginu. En síðan er gert ráð fyrir því, að hollenzka félagið skuli leggja fram eigi minna en 10% og eigi meira en 20% hlutafjárins. M.ö.o.: það er gert ráð fyrir, að einhvers staðar milli 80 og 90% hlutafjárins skuli vera í íslenzkri eign. Það er í sjálfu sér ánægjuefni, að það geti verið sem mest, sem er í höndum íslenzkra eigenda. En ég álít þó, að það sé kannske ekki afgerandi atriði í þessu máli. Það er afgerandi atriði, að íslenzka ríkið eigi meiri hl., en hitt finnst mér ekki skipta meginmáli, hvort Íslendingar ættu 80–90% af félaginu, fyrst þeir eiga það þá ekki allt. En á hinn bóginn, ef hér er um það að ræða, eins og gefið er í skyn með þessu samkomulagi, að félögin eigi með einhverju samkomulagi sín á milli að skipta á milli sín arðinum af þessari starfsemi allri, þá álít ég, að það geti verið hættulegt og líklegt til þess að skapa erfiðleika í þessari sambúð, að eignahlutföllin í þessum tveimur félögum, annars vegar framleiðslufélaginu og hins vegar sölufélaginu, séu svo gerólík eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég álít þess vegna, að það eigi að vera til athugunar a.m.k. fyrir undirbúningsfélagið að leitast við að eignast sem mest af hlutafé sölufélagsins, þó að það kostaði það að láta hlut Hollendinganna í framleiðslufélaginu vera í stærra lagi. Ef þessi leið yrði farin, mundi það verða til þess að draga úr hættunni á því, að þarna yrði hagsmunaárekstur.

Mér virðist, að þetta samkomulag sé ekki þannig, að ástæða sé til að láta það fara fram hjá án þess að gera við það aths. Að vísu tók ég eftir því með ánægju, þegar hæstv. iðnmrh. lagði þetta frv. fram hér við 1. umr. í þessari deild, að hann lét þess getið, að frekari samningar um þessi efni, þ. á m. um tímalengd og uppsagnarákvæði samnings við Hollendingana um sölumálin, verði á valdi undirbúningsfélagsins að gera og það sé í veigamiklum atriðum óbundið. Það var mér ánægjuefni að taka eftir þessari yfirlýsingu, sem ég held að sé mjög þýðingarmikil, því að ótímabundinn einkarétt fyrir hið hollenzka fyrirtæki til að selja þessar framleiðsluvörur er vissulega mjög hæpið fyrir okkur Íslendinga að fallast á.

Ég skal nú ekki tefja tímann á því að fara frekari orðum um þetta. Ég hef gert nokkrar aths. við þetta samkomulag og lýst því, að ég tel ekki, að samþykkt lagafrv. eigi að skiljast sem yfirlýsing um það, að menn séu fyllilega ánægðir með þetta samkomulag í öllum atriðum, og ég vísa til yfirlýsingar hæstv. iðnmrh., sem ég var að rekja hér áðan, og mæli með samþykkt frv.