27.04.1964
Efri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

148. mál, tollskrá o.fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér mikið almennt um það frv., sem hér liggur fyrir. Ég er alveg sammála því, sem hér hefur komið fram, að með þessu frv. er ekki um neina stefnubreytingu að ræða í tollamálum, heldur einvörðungu tæknilegar breytingar, sem líklega og reyndar vafalaust eru til bóta við framkvæmd tollheimtunnar, en skipta litlu sem engu um byrðar á landsmenn. í samræmi við það, að hér er ekki um neina slíka stefnubreytingu að ræða, er ekki hreyft við neinu í þessu frv., sem varðar rekstur heimilanna í landinu. Þar situr allt við það sama og áður. Stefna hömlulausrar tollheimtu og skattheimtu af hinni almennu neyzlu er trúlega fylgt eins og áður, og það er sýnilegt með flutningi þessa frv., að þar er ekkí meiri vilji til breytinga frá því, sem verið hefur, heldur en áður. Með hliðsjón af þessu tel ég tilgangslaust að flytja nú brtt. í þá átt að létta byrðar hins almenna neytanda í landinu, þar sem það verður að telja fullreynt að svo komnu a.m.k., að enginn bilbugur er á hæstv. ríkisstj. til þess að slaka nokkuð á í þeim efnum, hversu brýn nauðsyn sem væri þó á því nú heldur en oftast áður að létta nokkuð það dýrtíðar- og verðbólguflóð, sem nú er fremur en nokkru sinni áður að kaffæra afkomumöguleika láglaunafólks í landinu.

Við setningu tollskrárlaganna á síðasta Alþingi flutti ég allmargar brtt. í þá átt að létta byrðar af hinni almennu og óhjákvæmilegu neyzlu, og þær till. voru allar felldar. Ég mun því ekki freista þess nú að leggja hæstv. ríkisstj. undir neitt nýtt próf í þessum efnum. Og auk þess bætist það svo við, að tillögugerð varðandi þetta frv. er örðugri af hálfu okkar Alþb.-manna heldur en áður, þar sem við eigum engan fulltrúa í þeirri n., sem um frv. hefur fjallað. Ég hef hins vegar ákveðið að leyfa mér að flytja tvær brtt. við 2. gr. frv. Þær till. varða ekki að neinu heildarstefnuna í tollamálum og eru þess eðlis, að um þær ætti að geta orðið samkomulag, þó að deildar meiningar séu um heildarstefnuna. Þessar brtt. varðandi 2. gr. frv. eru efnislega þær, að í stað þess, að lagt er til að gefa eftir aðflutningsgjöld af 150 bifreiðum til fatlaðra og lamaðra, verði þeirri tölu breytt í 250, og enn fremur, að það verði sett inn í lögin, að aðflutningsgjöldin verði afskrifuð á ákveðnu árabili, á 6 árum, og að þeim tíma liðnum komi þeir, sem njóta þeirrar eftirgjafar, til greina með nýja eftirgjöf. Þessar till. eru mjög í samræmi við það, sem samtök öryrkja hafa barizt fyrir nú um margra ára skeið, en hefur ekki verið til þessa sinnt nema að litlu leyti.

Í grg. þessa frv. er sagt, að í stað þess, að í gildandi lögum sé heimild fyrir eftirgjöf af 50 bifreiðum árlega, sé nú lagt til, að þær verði 150. Þetta er að vísu rétt, svo langt sem það nær. En þó er þetta sagt á nokkuð villandi hátt, vegna þess að a.m.k. á 2 s.l. árum hefur verið leitað sérstakrar heimildar um þessar eftirgjafir og þær hafa verið um 150 bifreiðar á ári, svo að hér er ekki um neina fjölgun að ræða frá því, sem verið hefur. Það verður að telja fullkomlega rétt hjá öryrkjasamtökunum, að hér sé um algerlega ófullnægjandi tölu að ræða. Mér er kunnugt um það, að öll árin, síðan þessar eftirgjafir fóru að tíðkast, hafa umsóknir verið mörgum sinnum fleiri en unnt hefur verið að sinna og oft og tíðum a.m.k. 4–5 sinnum fleiri en hér er gert ráð fyrir. Það er því suðsætt, að mikill fjöldi umsækjenda, sem á sama eða svipaðan rétt á að fá eftirgjöf eins og þeir, sem hana geta fengið vegna þessarar takmörkunar, fær ekki sinnt að neinu leyti þörfum sínum í þessum efnum.

Þá er það varðandi afskriftirnar. Það er að sjálfsögðu bæði óhentugt og dýrt fyrir alla að eiga gamlar bifreiðar, og það kemur auðvitað sérstaklega hart niður á þessu fólki, sem þarna ræðir um og hverra fjárhagur oftast er þrengri en almennt gerist. Það segir sig svo líka sjálft, að möguleikar þessa fólks til þess að halda bifreiðum sinum við eru á margan hátt óhægri en flestra annarra. Það er því auðsætt, að þegar þessar bifreiðar eru orðnar úr sér gengnar og viðkomandi þarf að endurnýja þær, eru þeir oftast nær í sömu sporum og þeir, sem aldrei hafa áður fengið eftirgefin aðflutningsgjöld á bifreiðum. Það mun vera svo, að aðflutningsgjöldin af þessum bifreiðum séu að vísu afskrifuð á 5 árum, að ég held, það mun vera framkvæmdin á þessu, en hins vegar er það aðeins gert í eitt skipti fyrir öll, þannig að þeir, sem einu sinni hafa fengið eftirgjöf, koma ekki til greina upp frá því. Það er að vísu svo, að öryrkjasamtökin hafa verið með fleiri og fleiri óskir í þessum efnum, sem vafalaust væri rétt að athuga og taka að einhverju leyti til greina, en ég tel, að það ætti þá frekar heima í reglugerð um þessi efni. Það er t.d. það, að þeir hafa mjög sótt eftir því, að það væri frjálst val bifreiða, en ekki bundið við bifreiðainnflutning frá vissum löndum, sem a.m.k. fyrir suma þá aðila, sem hér er um að ræða, kemur sér mjög illa. T.d., svo að einhver dæmi séu nefnd um þetta efni, má nefna það, að frá þeim löndum, sem þessi innflutningur hefur verið bundinn við, er ekki unnt að fá bíla, sem eru sjálfskiptir, en það er oft mjög nauðsynlegt fyrir fatlað fólk að hafa ráð á slíkum bifreiðum og getur beinlínis ráðið úrslitum um það, hvort það er fært um að aka þeim eða ekki. T.d. maður með staurfót, það getur verið erfitt fyrir hann að skipta gírum á venjulegum bíl, en hins vegar auðvelt fyrir hann að aka bíl, sem er sjálfskiptur. Það má nefna það, að handarvana maður, þ.e.a.s. maður, sem vantar aðra höndina, getur auðveldlega ekið slíkum bíl, ef hann er með vökvastýri, en naumast að öðrum kosti. Það eru einmitt svona ástæður til þess, að öryrkjasamtökin hafa oft, árlega held ég, óskað eftir því, að á þessu yrði breyting. En ég tel, eins og ég sagði, að þarna eigi frekar að vera um framkvæmdaratriði að ræða, þar sem það á við, heldur en að það sé ástæða til að festa það í lögum.

Um þessar eftirgjafir er það annars að segja, að það verður að telja, að hér sé um að ræða einhverja handhægustu aðferð, sem hugsazt getur, til þess að létta undir með þessu fólki, sem þarna kemur til greina, í lífsbaráttu þess. Og það er ekki aðeins, að það sé handhæg aðferð af hálfu ríkisvaldsins, heldur er hún kostnaðarlaus með öllu. Og auðvitað er það svo, að ríkið hirðir ekki svo litlar tekjur, jafnvel þó að aðflutningsgjöldin séu felld niður að mestu eða öllu leyti af olíu, varahlutum og öðrum þörfum þessara farartækja, og það er því síður en svo, að það geti verið nokkur skaði fyrir ríkissjóðinn, þó að þessi ákvæði séu ekki ákaflega þröng, og mætti vel verða við óskum öryrkjasamtakanna í þessum efnum, án þess að um nokkurn skaða geti verið að ræða fyrir hið opinbera. Það er líka sjálfsagt að hafa það í huga, að þessar eftirgjafir og þeir möguleikar, sem skapast fyrir öryrkja til sjálfsbjargar, beinlínis gera það að verkum, að mörgum er mögulegt að bjargast af án annarrar aðstoðar af hálfu hins opinbera, og þannig gæti raunverulega verið um beinan sparnað þjóðarheildarinnar að ræða.

Það virðast því öll rök mæla með því, að það verði í ríkara mæli en áður orðið við tilmælum öryrkjasamtakanna og heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv, og það verður að telja, að ekki verði með sanngirni a.m.k. gengið á móti þeim till., sem þau hafa árum saman beint til stjórnarvaldanna í þessum efnum.

Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 8. þm. Reykv. að flytja skriflega brtt. um þau efni, sem ég hef rakið, og vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir till., þar sem þær eru bæði skriflegar og of seint fram komnar.