29.04.1964
Efri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

148. mál, tollskrá o.fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að brtt. okkar hv. 9. þm. Reykv. (AG) á þskj. 501 skuli ekki hafa getað fengið náð fyrir augum a. m, k. formanns hv. fjhn. Að vísu orðaði hann það svo, þegar hann ræddi um till., að hann gæti ekki persónulega mælt með till., og kann því að vera, að meiri hl. n. eða aðrir nm. séu þessu máli fylgjandi, og vil ég vona, að svo sé, og hann hafi þarna eingöngu verið að tala fyrir sína hönd persónulega, en ekki fyrir hönd n. En þetta eru mér því meiri vonbrigði sem ég hafði ástæðu til að ætla, sérstaklega vegna þess, að hv. formaður fjhn. var því a.m.k. hlynntur, áður en atkvgr. fór fram við 2. umr., að n. fengi þessar till. til athugunar, — þá hafði ég ástæðu til að ætla, að á þær yrði litíð með nokkurri sanngirni. En ég sé að vísu, og undrar mig það ekki, að hv. formaður n. hefur þurft 2–3 daga til þess að geta fundið mótrök gegn því, að þessar að mínu viti sjálfsögðu till. yrðu samþ. Og ég verð að segja það, að mér fundust þau harla einkennileg. Hann sagði, áður en hann fór að telja þessi rök íram, að það hefðu ekki borizt nein erindi til fjhn., og skildist mér, að það eitt fyrir sig kynni að vera næg ástæða til þess að hafna þessum till. Ég held, að þarna misminni hv. þm. Að vísu er það rétt, að það mun ekki hafa borizt erindi beint til fjhn., en ég held, að hver einasti þm. eigi að eiga í fórum sínum ýtarlegar samþykktir og bréf frá öryrkjasamtökunum um þetta mál, og það kom meira að segja snemma á þessum vetri, sennilega áður en þetta tollskrárfrv. var lagt fram, svo að ekki finnst mér sú ástæða geta verið veigamikil.

Mig undrar það ekki, að hv. formaður fjhn. skuli ekki vefengja það, að æskilegt væri, að fleiri bifreiðar kæmu til úthlutunar, enda er það mála sannast og hefði verið auðvelt fyrir hann að fá upplýst hjá þeirri n., sem hefur haft með þetta að gera, að umsóknir hafa venjulega verið 4–5 sinnum fleiri en unnt hefur verið að sinna. Og það er auðvitað mjög fjarri því, þó að þessi tala hefði verið hækkuð um 100 bifreiðar, að ófatlaðir hefðu farið að njóta þessara hlunninda, eins og hann gaf í skyn að hætta væri á og taldi fram, að sú hætta væri fyrir hendi, vegna þess að það væri ekki til neitt hlutlægt mat, sem þarna lægi til grundvallar. Ég hygg, að a.m.k. læknastéttinni þyki það ákaflega einkennileg kenning, ef ekki er til hlutlægt mat á örkumlum, því að þau eru metin og það meira að segja mjög nákvæmlega, og þarna er þess vegna um hreina gerviástæðu að ræða, enda eru ákvæðin, sem úthluta á eftir, það ströng, að ekkí virðast vera neinir möguleikar að ganga fram hjá þeim.

Viðvíkjandi hinni mótbárunni hjá hv. formanni n., að þarna sé um nokkurt fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð, þar er ég á algerlega öndverðri skoðun. Að vísu er það rétt, að eftirgjöf á 100 bifreiðum til viðbótar mundi þýða, ef maður gerði ráð fyrir því, að þetta fólk gæti flutt þær inn á fullu verði, 5–7 millj. kr. á ári. En málið er bara ekki þannig vaxið, að hægt sé að reikna út frá því, vegna þess að áreiðanlega er svo ástatt fyrir langsamlega mestum hluta af þessu fólki, að það hefur enga möguleika á því að eignast farartæki nema með þeim skilmálum, sem eftirgjafirnar veita.

Ég get þess vegna ekki, af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint frá, tekið þessi rök hv. formanns fjhn. gild að neinu leyti, og við munum vissulega halda fast við till. okkar. Og ég vil vona, að aðrir fjhn: menn og aðrir hv. þm. í d. séu ekki á sama máli og hv. síðasti ræðumaður.