29.04.1964
Efri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Að gefnu tilefni vegna ræðu hv. 6. þm. Sunnl. vildi ég aðeins taka það fram, að s.l. mánudagskvöld afhenti fulltrúi tollskrárnefndar mér brtt. n. og gat þess ekki við mig, að n. hugsaði sér að athuga nánar önnur erindi, sem borizt höfðu, en ég hafði lagt á það áherzlu við tollskrárn., að hún lyki athugun sinni, áður en málið yrði afgreitt úr þessari hv. d. Nú upplýsir hv. 6. þm. Sunnl., að hann hafi átt tal síðar við einn tollskrárnefndarmanninn og hafi hann tjáð honum, að n. hygðist afgreiða endanlega eitt eða fleiri erindi, eftir að málið væri komið til meðferðar í Nd. Ég vefengi ekki, að svo sé. Þetta er vafalaust rétt, en við því er þá ekkert að gera. Ef þessi mál fá jákvæða afgreiðslu, þá verður frv. breytt í Nd. og sent hingað aftur.

Í tilefni af orðum þeim, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. mælti hér áðan, er rétt, að ég staðfesti það, að það, sem ég sagði um brtt. hans, er eingöngu frá eigin brjósti. Vegna þess, hve hraða hefur þurft meðferð þessa máls af ástæðum, sem ég gerði grein fyrir við 2. umr., hefur ekki verið mögulegt að taka þessa brtt. til meðferðar í n., svo að það var eingöngu mitt persónulega viðhorf, sem ég túlkaði áðan. En að öðru leyti hef ég ekki neinu að bæta við það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni um þetta atriði, nema aðeins það, að ég talaði um, að það væri ekki til neitt hlutlægt mat á verðleika manna í þessu sambandi. Það stend ég við. En mér er vel kunnugt um það, sem hv. þm. nefndi, að það eru til aðferðir til þess að meta örorku, sem kunna að vera meira eða minna umdeildar eða ekkí eftir atvikum. Ég er ekki fær að dæma um það. En að mínu áliti getur það ekki verið hlutlægt mat, heldur huglægt mat.