28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

89. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, rennur fé erfðafjársjóðs til lánveitinga og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum fyrir öryrkja og gamalt fólk í því skyni, að starfsgeta þeirra geti komið að sem fyllstum og beztum notum. Einn þátturinn í því að gera þessa öryrkja og þetta gamla fólk starfhæft er að endurhæfa það á sérstakri endurhæfingarstöð, sem komið hefur verið upp að nokkru leyti og er verið að koma upp að öðru leyti. Það hefur verið nokkur vafi um það, hvort nota mætti fé erfðafjársjóðs í þessu skyni og stjórn Öryrkjabandalagsins hefur lagt á það mikla áherzlu, að þessi stofnun, þessi endurhæfingarstöð, yrði styrkhæf á borð við vinnuheimili. Í frv. felst ekki annað en það, að því hefur verið bætt inn í 2. gr., að á eftir orðunum „til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum“ komi: „og öðrum stofnunum fyrir öryrkja og gamalmenni í því skyni, að starfsgeta þeirra komi að sem fyllstum notum“. Í þessum orðum, „öðrum stofnunum“, á að felast, að endurhæfingarstöðin og aðrar þær stofnanir, sem vinna beint að þessu marki, að reyna að auka og efla starfsgetu gamla fólksins og öryrkjanna og skapa þeim skilyrði til þess að verða sem nýtastir þjóðfélagsborgarar, komi undir þetta. Annað er ekki efni frv. og ég vænti, að því verði vel tekið hér eins og í hv. Ed., sem samþykkti það óbreytt og samhljóða.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni visað til hv. heilbr.– og félmn.