28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

188. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í lögunum um heimild fyrir ríkisstj. til að taka erlent lán, sem þetta frv. felur í sér breytingar á, frá 19. nóv. 1964, er svo ákveðið, að lánsfé, sem aflað er með sölu spariskírteina, skuli verja til framkvæmda á vegum ríkisins og til greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) spurðist fyrir um það, hvernig ráðstafað hefði verið því fé, sem kom inn fyrir spariskírteini, sem seld voru í vetur. Því miður hef ég ekki þá sundurliðun við höndina, enda ekki búið að ganga endanlega frá ráðstöfun þeirra 75 millj., en vil aðeins taka það fram, að verulegur hluti af því fór til Rafmagnsveitna ríkisins, til jarðborana og til hafna. Að öðru leyti er sjálfsagt, að hv. fjhn. fái upplýsingar um það.

Varðandi ráðstöfun á því fé, sem nú er ætlað að afla með þessu nýja lánsútboði, þá er gert ráð fyrir, að það gangi aðallega til fjögurra framkvæmdaliða: til rafvæðingarinnar, til hafna, til vegagerða og til flugvalla.

Út af athugasemdum hv. 11. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Austf. finnst mér sjálfsagt, að þau atriði, sem þeir hreyfðu, komi til umr. og athugunar í hv. fjhn. og er sjálfsagt að veita nefndinni og nm, upplýsingar, eftir því sem þeir óska og unnt er að veita á þessu stigi.

En varðandi samband milli þessarar verðbréfasölu fyrirhuguðu og bankanna vil ég taka það fram, að um þetta mál hefur verið haft samráð við bankana, en ætlunin er að afla vegna framkvæmda– og fjáröflunaráætlunarinnar fyrir 1965, 75 millj. frá bankakerfinu, auk þessara 75 millj., sem í þessu frv. er gert ráð fyrir að afla. Ég veit ekki betur, en bankarnir hafi út af fyrir sig fallizt á þetta.

Ég vil taka það enn fremur fram, að bankarnir eða fulltrúar þeirra óskuðu eftir því, að ef ríkisstj. færi í slíkt lánsútboð, þá yrði það gert sem fyrst, en ekki beðið með það fram eftir árinu.

Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál hér að sinni, en sem sagt munu fjhn. veittar þær upplýsingar í sambandi við þetta mál, sem nefndin og nm. óska eftir og fyrir liggja.