30.04.1965
Neðri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

188. mál, innlent lán

Frsm. 1. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kom af ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., hefur fjhn. ekki treyst sér til að gefa út sameiginlegt nál. um frv. það, sem hér er til umr. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka innlent lán og mun ég nú gera grein fyrir afstöðu minni og hv. 1. þm. Norðurl. v. til málsins.

Efni frv. er, eins og kunnugt er, það að auka heimild ríkissjóðs til að taka lán innanlands um 75 millj. kr. Í nóvembermánuði s.1. var samþykkt hér á Alþ. lagafrv. frá hæstv. ríkisstj. um sams konar lántöku, innlent ríkíslán að upphæð allt að 75 millj. kr. Lánskjörin voru ekki ákveðin í þeim l., en voru síðar kunngerð, og var lánstími allt að 10 árum, vextir 7.2% og auk þess viðmiðun við vísitölu byggingarkostnaðar. Þessi skuldabréf með þeim kjörum, sem ég hef nú lýst, seldust upp á örskömmum tíma. Það var upphaflega boðið út 50 millj. kr. og gert til reynslu, að því er sagt var. Það útboð stóð ekki yfir nema í nokkra daga, bréfin runnu svo ört út og þegar það var ljóst, hversu söluhæf vara bréfin voru, var afgangurinn settur á markaðinn og einnig þær 25 millj. seldust upp á örskömmum tíma. Þegar málið var til meðferðar hér í hv. d. í nóvembermánuði s.1., voru einhverjir, þ. á. m. að mig minnir hæstv. fjmrh., sem létu í ljós skoðun sína á því og ósk, að nokkur hluti og að mér skildist talsverður hluti af því fjármagni, sem mundi ganga til kaupa á þessum bréfum, mundi koma annars staðar frá, en frá bönkum og sparisjóðum. Og þetta kom í ljós, hvaðan fjármagnið kom og ég hygg, að það muni ekki valda deilum, þótt sagt sé, að það hafi svo að segja að öllu leyti verið tekið út úr innlánsdeildum viðskiptabankanna og sparisjóðanna.

Nú eru aðeins liðnir 4 mánuðir síðan þessi blóðtaka, vil ég segja, var framkvæmd á viðskiptabönkunum og enn er nú farið fram á sams konar heimild, þ.e. að selja með sömu kjörum eða hliðstæðum kjörum, aðeins breyttum vegna vaxtahreyfinga, sem orðið höfðu síðan fyrra útboðið fór fram, að selja enn til viðbótar 75 millj. kr. ríkisskuldabréf, sem fyrirsjáanlega munu einnig koma niður á bönkum og sparisjóðum landsins.

Undanfarin nokkur ár eða allt síðan 1960 hefur verið framkvæmd innstæðubinding hjá bönkum, sparisjóðum, innlánsdeildum samvinnufélaganna og yfirleitt öllum innlánsstofnunum landsins, og þeim hefur verið gert að skyldu að færa mánaðarlega tiltekinn hluta af innstæðuaukningunni til varðveizlu í Seðlabankanum. Þessi prósenta af innstæðuaukningunni, sem þannig hefur verið bundin, hefur verið nokkuð misjöfn, en yfirleitt há, hæst, að því er mig minnir, 35%. Nú er hún 25%. Eins og kunnugt er, hefur sparifjáraukning orðið talsvert mikil í krónutölu a.m.k. á síðustu árum, þ.e. síðan þessi innstæðubinding var upp tekin og þannig hefur í Seðlabankanum safnazt saman talsvert mikið fjármagn, sem nam um s.1. áramót 1.098,1 millj. kr., og þessi binding hafði á s.1. ári, 1964, aukizt um 300 millj. kr. Til viðbótar þessari skerðingu á ráðstöfunarfé viðskiptabanka og sparisjóða hefur nú á þessu ári eins og tvö undanfarin ár verið samið um það við bankana, að þeir skyldu verja 10% af innstæðuaukningu sinni á þessu ári til kaupa á ríkistryggðum skuldabréfum og ríkisskuldabréfum. Sparifjáraukning allra bankanna og sparisjóðanna á s.1. ári var um 715 millj, kr. og 10% af þeirri fjárhæð nema þá 711/2 millj. kr., sem á þennan hátt hefur til viðbótar verið tekið undan ráðstöfunarrétti viðskiptabanka og sparisjóða. Að vísu er skylt að geta þess, að minni sparisjóðirnir voru ekki skyldaðir til ríkisskuldabréfakaupa á þennan hátt, þannig að fjárhæðin, sem fundin var, er eitthvað lægri en þetta, en þá skiptingu hef ég ekki, en hún skiptir ekki verulegu máli, vegna þess að sparifjáraukningin á s.l. ári var að langmestu leyti í bönkunum og stærstu sparisjóðunum, sem undir reglurnar voru settir.

Þegar nú er haft í huga, að í fyrsta lagi 25% sparifjáraukningu bankanna og sparisjóðanna á að halda áfram að bera í Seðlabankann til geymslu þar, í öðru lagi, að 10% af sparifjáraukningunni eiga samkv. samningum að ganga til kaupa á ríkisskuldabréfum og ríkistryggðum skuldabréfum og i þriðja lagi, að fyrirsjáanlegt er, að svo til allt það fjármagn, sem gengur til innlausnar þeirra ríkisskuldabréfa, sem hér er farið fram á heimild til að gefa út, auk þess sem Seðlabankinn hefur nú þegar ótakmarkaða heimild til útgáfu gengistryggðra skuldabréfa, þó að hún hafi ekki verið notuð enn, þá er sýnt, að kosti viðskiptabanka og sparisjóða er þrengt langtum meira, en nokkur sanngirni og nokkur rök hníga að. Allir viðskiptabankarnir hafa sérstöku hlutverki að gegna, sem Alþ. hefur með sérstökum lögum hverjum um sig falið. Og ég tel það ranga stefnu að þrengja svo kosti þessara þýðingarmiklu stofnana í landinu, að þeir verði með öllu ófærir um að gegna sínu hlutverki. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að stöðvast á þessari leið og það geti ekki gengið lengur að herða svona að í lánsfjármálum bankanna og sparisjóðanna. Ef sparifjáraukningin væri raunveruleg, ef hér væri í raun og veru um nýtt sparifé að ræða, má segja, að nokkur réttur væri fyrir því að binda hluta þess til að draga úr verðbólguþróun. En ég held því fram, og ég býst ekki við, að því sé mótmælt, að verulegur hluti af þeirri sparifjáraukningu, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, sé verðbólguafleiðing. Krónunum fjölgar, án þess að þar sé um raunverulega verðmætaaukningu að ræða.

Þegar viðskiptamenn viðskiptabankanna koma til viðtals þar, geta þeir þess vegna með fullum rétti og tölulegum sönnunum fært mönnum heim sanninn um það, að vegna vaxandi tilkostnaðar þurfi þeir að fá fleiri krónur að láni til þess raunverulega að standa í stað, heldur en þeir áður þurftu. Bankastjórar viðskiptabankanna og aðrir forsvarsmenn þeirra verða að mæta þessum óskum með neitun, vegna þess að svo mikill hluti af innstæðuaukningunni, sem raunverulega er verðbólguafleiðing, en ekki nýtt fé, er tekinn undan ráðstöfunarrétti þeirra og fluttur annað. Af þessu skapast lánsfjárkreppa, sem verður að ráða bót á.

Ég hef því gert till. um það í sambandi við meðferð þessa máls hér á hv. Alþ., að úr þessari aðför að bönkunum verði dregið. Ef það telst nauðsynlegt að selja nú þau skuldabréf, sem hér er farið fram á, 75 millj. kr., verður að draga úr á öðrum vettvangi, því að það er ekki hægt endalaust að þrengja kosti þessara stofnana, eins og ég hef hér gert grein fyrir. Till., sem ég flyt í þessu efni, er því sú, að frá 1. júli n. k. verði hætt þeirri innstæðubindingu, sem framkvæmd hefur verið undanfarin 41/2 ár, til þess að bankarnir geti bókstaflega haldið áfram starfrækslu sinni. Það kann vel að vera, að það sé fullt eins eðlilegt, að ríkissjóður afli sér fjármagns með því að taka lán, eins og með hinu mótinu, að binda með þvingunarráðstöfunum hluta af sparifé bankanna. Það má vel vera, að sú leið sé æskilegri og það sé þess vegna rétt að samþykkja þetta frv. og þessa aðferð. Ég er ekki sérstaklega að hafa á móti því. En það, sem ég vil undirstrika, er það, að það er ekki hægt að vega að bönkunum eins og gert hefur verið úr öllum áttum í senn. Einhvers staðar verður að slaka til, og ef menn vilja halda þessari fjáröflunarleið til streitu, verður að slaka til á öðrum vígstöðvum og þá kemur fyrst í hugann að draga úr eða hætta helzt þeirri innstæðubindingu, sem framkvæmd hefur verið.

Við 1. umr. um þetta frv. hér í hv. Nd. bárum við nokkrir þm. fram fsp. og óskir til hæstv. fjmrh. um það, að við fengjum upplýsingar um hvort tveggja, til hvers lánið frá 1964 hefði verið notað og til hvers lánið 1965, það sem nú er ætlunin að samþykkja, muni eiga að ganga. Hæstv. ráðh. hafði ekki þessar upplýsingar við höndina, sem ekki var heldur kannske von. En hann lét okkur vita það, fyrirspyrjendur, að við mundum fá allar þessar upplýsingar til athugunar og afnota, þegar málið væri til afgreiðslu f hv. fjhn. og við þessi svör sættum við okkur að sjálfsögðu. Við töldum og teljum enn nauðsynlegt, að Alþ. viti, hvað það er að samþykkja. Við teljum sjálfsagt, að alþm., sem eiga að veita ríkisstj. heimild til lántöku á innlendum markaði, fái allar upplýsingar um það, hvað á að gera við það fjármagn, sem þannig er aflað. Þetta sýnist vera sjálfsögð krafa. Í fjhn. fengum við nokkrar upplýsingar, upplýsingar, sem ég skal gera grein fyrir.

Um árið 1964 fengum við þær upplýsingar, að þegar væri ráðstafað til ríkisspítalanna 2 millj. 250 þús. kr., til Ennisvegar 3 millj. kr., til Múlavegar 2 millj., til landshafnar í Rifi 9 millj. 300 þús., til landshafnar i Njarðvík 4 millj. 500 þús. og til raforkusjóðs 5 millj., þ.e.a.s. af 75 millj. kr. væri þegar búið að ráðstafa 26 millj. 50 þús. Til viðbótar fengum við upplýsingar um það, að ráðstafað mundi fljótlega til raforkusjóðs 9 millj. og til jarðborana 7 millj., og svo um afganginn fengum við þær upplýsingar, að hann biði ráðstöfunar, en hann er 32 millj. 950 þús. kr.

Þetta er náttúrlega gott, svo langt sem það nær. En þó er ekki hægt að segja, að hér sé um neinar fullnaðar upplýsingar að ræða um ráðstöfun fjárins. Við spurðum t.d. um það, í hvaða tilteknu framkvæmdir fjármagnið hefur farið. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Það hefur ekki heldur verið upplýst, í hvað óráðstafað fé á að ganga.

Að því er snertir ráðstöfun væntanlegs láns samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir, segir í aths. þess, að í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár þurfi að afla nokkurs lánsfjár til ýmissa framkvæmda. Við nm. í fjhn. fengum nokkrar upplýsingar um þetta, sem ég skal einnig hér greina frá, þ.e. að til rafveitna ættu að ganga 9 millj. kr., til flugvalla 10 millj. kr. Hins vegar fengum við engar upplýsingar um það, hvaða tilteknu framkvæmdir það væru, sem hér ætti að veita fjármagn til. Þó spurðum við um það. Við spurðum t. d. um það, hvort lánin til hafnargerða ættu að fara eingöngu til landshafna eða hvort þar ættu aðrar hafnir að koma til greina, njóta góðs af þessu og þá hverjar. Við fengum ekki svar við því. Við spurðum líka um þessar 27 millj. kr., sem hér er áætlað að verja til vegaframkvæmda, til hvaða framkvæmda þær ættu að ganga. Við fengum ekkert svar við því. Hér hefur nýlega verið lagt fram frv. frá hæstv. ríkisstj. um lánsfjáröflun til vegaframkvæmda upp á 135 millj. kr. En við fáum ekki svar við því, í hvað á að nota þessar 27 millj., í hvaða vegaframkvæmdir þær eiga að ganga. Eina svarið fyrir utan þetta, sem ég hef lesið upp, er alltaf það sama: Þetta fjármagn á að ganga til framkvæmda samkv. framkvæmdaáætlun fyrir árið 1965. Þetta svar væri ágætt, ef við hefðum fengið umrædda framkvæmdaáætlun. Við báðum um þessa framkvæmdaáætlun, þótt aðeins væri í stórum dráttum. Við gátum ekki fengið hana. Ég segi, að það sé ekki eðlilegt, að alþm. séu mjög ákafir að samþykkja slik heimildarlög, þegar þeim er neitað um svar við jafnsjálfsögðum hlutum og ég hef hér verið að gera grein fyrir: Hvað er að í umræddri framkvæmdaáætlun, sem við megum ekki sjá, úr því að verið er að fara fram á heimild Alþ. til þess að afla fjármagns til þess að framkvæma hana? Ég vil mjög eindregið óska þess, að þessar upplýsingar, sem ég hef hér gert að umtalsefni, gætu legið fyrir við meðferð þessa máls hér f hv. d., þó að seint sé og ég tel, að það sé alls ekki neitt úrhendis með, að svo geti orðið, þó að málið sé nú komið til 2. umr.

Satt að segja skil ég ekki þann ákafa, sem lýsir sér í meðferð þessa máls hér hv. Alþ. Hvað liggur á að afla þessarar heimildar til skuldabréfasölunnar; svo að dm. og nm. geti ekki fengið hæfilegan athugunartíma á þessu máli? Liggur svona mikið á peningunum, sem ætlað er að fá inn fyrir skuldabréfasöluna? Ég býst ekki við því og ástæðan til þess, að ég býst ekki við því, er sú, að af skuldabréfasölu fyrra árs, er þegar óráðstafað verulegri fjárhæð, sem sjálfsagt virðist að gríp til, meðan Alþ. er að gera sér fullnaðargrein fyrir umræddu máli.

Ríkisskuldabréfin og spariskírteinin, sem áformað er að gefa út samkv. frv. þessu, eiga, eins og áður var, að vera undanþegn skatti og undanþegin framtalsskyldu. Þegar málið var til meðferðar í nóv. s.1., bárum við v. 1. þm. Norðurl. v. fram till. um það, að hér yrði nokkuð bætt úr, að þessi umræddu lánaskjöl yrðu skráð á nöfn. Það var ekki hægt að fá því framgengt, að þau yrðu framtalsskyld. Það var talið, að þau væru of skyld almennri sparifjársöfnun til þess, að það væri rétt að gera þar upp á milli. Ég meina nú, að það sé verulegur munur á þessu samt sem áður, þessu tvennu, en þó geri ég það ekki að neinu aðalatriði málsins. En mér finnst nú eins og þá, að hv. Alþ, ætti að gera ráðstafanir til þess í sambandi við umrædda verðbréfasölu að auðvelda eftirlit með framtölum og koma í veg fyrir skattsvik, eins og verða má, með því að skrá þessi spariskírteini og ríkisskuldabréf á nafn. Mér vitanlega eru engin þau vandkvæði á framkvæmd þess, sem útiloki þessa málsmeðferð og á meðan þau eru ekki dregin fram, sé ég ekki annað en fullkomin rök hnígi að því, að brtt. í þessa átt verði samþ. hér í hv. d. Óumdeilanlega auðveldar slík málsmeðferð skattayfirvöldum þeirra starf. Auk þess getur að þessu fyrirkomulagi verið verulegt hagræði fyrir þá einstaklinga, sem slík bréf eignast og hugsa sér ekki annað, en verja fjármunum sínum í góðum viðskiptum. Ef maður, sem á sparifé, vill síðar breyta því í fasteign, skulum við segja, getur verið nokkuð erfitt fyrir hann að gera grein fyrir því, með hverju hann hefur greitt þá fasteign, sem hann festir kaup á. Ef hann á ríkisskuldabréf, sem er innleysanlegt, eftir að 3 ár eru liðin,og skráð á hans nafn, er það mjög mikið hagræði gagnvart skattayfirvöldum að geta bent á það, að þetta bréf hafi hann keypt á tilteknum tíma i tiltekinni lánastofnun og það sé það fjármagn, sem hann nú er að breyta f fasteignir, svo að frá hvaða sjónarhóli sem litið er á þetta fyrirkomulag tel ég, að það hljóti ævinlega að vera til bóta, en aldrei til tjóns, nema þá menn hugsi sér eitthvað annað í sambandi við þau skuldabréfakaup, sem hér er um að tefla, en ég tel ekki, að slík sjónarmið þurfi sérstaklega að lögvernda.

Við höfum því flutt brtt. einnig að þessu sinni, sem gengur út á það að nafnskrá umrædd spariskírteini. Það mætti kannske benda á það í þessu sambandi, að í nýframlögðu frv. til l. um verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem var til 1. umr. í dag á hv. Alþ., er skýrum stöfum tekið fram, að þær verðtryggðu kröfur og skuldbindingar, sem stofnað verður til samkv. þeim l., skuli ætíð skráðar á nafn og í grg. fyrir aths. með frv, er nauðsyn þess arna sérstaklega undirstrikuð. Hvað er það, sem veldur því, að það er svo nauðsynlegt að skrá þau lán, sem um ræðir í þessu frv. um verðtryggingu fjárskuldbindinga, en ekki á við, þegar um er að ræða sölu ríkissjóðs sjálfs á vísitölutryggðum bréfum? Ég held, að það væri ágætt að fá það upplýst, hvaða reginmunur er á þessu, þannig að í öðru tilfellinu er alveg óhjákvæmilegt að nafnskrá bréfin og í hinu tilfellinu er það gersamlega óframkvæmanlegt. Hvernig stendur á þessum mismun? Það vildi ég gjarnan fá að vita.

Ég sagði hér, þegar þessi heimild var fyrst til umr. í nóv. s. 1., að það, sem mér fyndist einna hagstæðast og jákvæðast við þessa tilraun, væri það, að með því móti væri almenningi gefinn kostur á því að verðtryggja sparifé sitt og það var í mínum huga a.m.k. talsverð forsenda fyrir því, að ég greiddi atkv. með því frv. þá. Nú má segja, að þessi forsenda sé að einhverju leyti fallin brott eða að falla brott, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fram frv. um að vísitölubinda sparifé að verulegu leyti. Og ég vil leyfa mér að skilja umrætt frv. um verðtryggingu fjárskuldbindinga á þann veg, að heimildin í 5. gr. þess, sem Seðlabankanum er gefin, verði notuð til þess að heimila innlánsstofnunum og bönkum að taka við vísitölutryggðu sparifé alveg ótakmarkað. Og ég held, að það hljóti að vera tilgangur frv., m.a. vegna þess, að í aths. með 5. gr. er sérstaklega gert ráð fyrir því, að sparifé verði lagt inn í innlánsstofnanirnar og bundið þar í skemmri tíma en lánin, sem þó eru aðeins til þriggja ára, svo að ég tel, að það sé réttur skilningur hjá mér, að þessi sé tilgangur frv. Og ég er enn þá þeirrar skoðunar, að það, sem helzt réttlætir þetta innanríkislán, séu möguleikar fólksins til þess að fá vísitölubindingu, vísitöluviðmiðun á sparifé sitt, því að það er óhæfilegt, hvernig hlutur sparifjáreigenda hefur stöðugt rýrnað að undanförnu og ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur nú fundið, að því er ég tel, einhvern flöt á því að bæta úr því. Að vísu er sú trygging sparifjáreigenda, sem hér um ræðir, í skuldabréfasölu ríkissjóðs verulegum takmörkunum háð. Það eru aldrei nema fáir, sem geta notfært sér það að kaupa þessi bréf, þ.e.a.s. það eru svo margir, sem geta ekki bundið sparifé sitt til eins langt tíma og bréfin hljóða upp á, jafnvel þó að það séu ekki nema 3 ár, t.d. sparifé ungs fólks, sem er að safna fyrir námi og slíku, þannig að það getur ekki bundið það, þótt ekki sé nema til þriggja ára. Enn fremur er sparifé eldra fólks að verulegu leyti þannig, að það kemur ekki því til góða. Samt sem áður tel ég, að það sé æskilegt, að þessi leið fólks til verðtryggingar sparifjár síns sé fyrir hendi. En til þess að þetta frv. megi að fullum notum koma, tel ég fyrir mitt leyti nauðsynlegt, að á því séu gerðar þær breytingar, sem ég hef nú verið að tala fyrir, og ég flyt um það brtt. á sérstöku þskj. ásamt hv. 5. þm. Austf. og hv. 1. þm. Norðurl. v., en þær eru þess efnis í fyrsta lagi, að skuldabréfin og spariskírteinin skuli skráð á nöfn eigenda og í öðru lagi, að ekki skuli aukið við bundnar innstæður innlánsstofnana í Seðlabankanum eftir 1. júlí n.k. Ég tel, að ég hafi gert nægilega skýra grein fyrir þessum brtt. og skal ekki orðlengja um það frekar.