11.03.1965
Efri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur byggingarkostnaður farið nokkuð ört vaxandi, hér hin síðustu ár og kallar það vitanlega á aðgerðir eða fjárútvegun til þess að standast þessa kostnaðaraukningu. Vísitala byggingarkostnaðar var um áramótin 1955–56 sett í 100, en um s.l. áramót var hún orðin 220 eða hafði hækkað um 120 stig og nokkuð jafnt allt þetta tímabil. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að ríkisstj. hefur leitt hugann að því, hvernig hækka mætti þetta framlag, sem húsnæðismálastjórn veitir árlega til bygginga og eftir hvaða leiðum.

Í upphaflegu lögunum um húsnæðismálastjórn var gert ráð fyrir því, að lánveitingar á íbúð gætu numið allt að 100 þús. kr., en var fljótlega vegna mikillar eftirspurnar og takmarkaðra fjármuna lækkað ofan í 70 þús. kr. Þetta hefur svo verið hækkað nú aftur, fyrst upp í 100 þús. kr. og síðan upp í 150 þús. kr. á íbúð og við það hefur setið nú allengi.

Þetta hefur orðið til þess, að það hefur ekki verið hægt að sinna á hverju ári nærri öllum þeim umsóknum, sem borizt hafa og hafa menn því þurft að biða, ég vil segja óeðlilega lengi, eftir því að fá afgreiðslu sinna mála. Féð, sem hefur verið úthlutað til húsbyggjenda, lánsféð hjá húsnæðismálastjórn, hefur verið eftirfarandi, síðan stofnunin tók til starfa:

1955 var úthlutað 35 millj. (ég les bara í heilum millj.), 1956 50 millj., 1957 var úthlutað 53 millj., 1958 34 millj., 1959 35 millj., 1960 71 millj., 1961 65 millj., 1962 86 millj., 1963 voru veittar 111 millj. og 1964 160 millj., þannig að þetta hefur hækkað nokkuð á þessu tímabili, þó að það sé hvergi nærri fullnægjandi.

Það athyglisverðasta í þessu er þó það, að eigið fé húsnæðismálastjórnar hefur ekki verið aukið neitt að ráði, heldur hefur þetta aukna fé, sem komið hefur til ráðstöfunar, að mestu leyti verið tekið að láni.

Ríkisstj. hefur leitað eftir því, á hvern hátt úr þessu væri hægt að bæta og byrjaði á því verulega á síðasta þingi, þegar samþ. var hækkun á skyldusparnaðinum úr 6% upp í 15% og sömuleiðis voru þá líka sett lög, sem skylduðu vátryggingarfélag til þess að leggja nokkuð af sínu ráðstöfunarfé fram til kaupa á húsnæðisstjórnarlánabréfum. Síðan kom það til, að um mitt s.l. ár voru gerðir samningar á milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins annars vegar og ríkisstj. hins vegar um ýmis atriði í sambandi við kjaramál og hagsmunamál launþega og eitt af þeim atriðum, sem þar kom til umr., var einmitt að ráða bót á húsnæðismálunum á þann veg fyrst og fremst að auka framlög til þeirra.

Ég tel rétt, að ég lesi hér upp þetta samkomulag, að því er tekur til húsnæðismálanna, en það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir ráðstöfunum til úrlausnar í húsnæðismálum, er hafi þann tilgang annars vegar að létta efnalitlum fjölskyldum að eignast íbúðir og hins vegar að tryggja nægar og stöðugar íbúðabyggingar í landinu. Í þessu skyni mun ríkisstj. tryggja eftirfarandi:

1) Að aflað verði á þessu ári (þ.e.a.s. á árinu 1964) og fyrri hluta næsta árs 250 millj. kr. til að mæta þeim umsóknum, sem lágu óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn 1. apríl s.l. Húsnæðismálastjórn ákveður upphæðir þessara lána og setur reglur um uppgjör fyrri skuldbindinga sinna.

2) Að frá og með árinu 1965 verði komið á kerfisbreytingu íbúðarlána, þannig að tryggt verði fjármagn til þess að veita lán til ákveðinnar tölu íbúða á árinu og verði loforð fyrir lánunum veitt fyrir fram. Fyrstu árin verði þessi lán ekki færri en 750 og lánsfjárhæð á hverja íbúð ekki lægri en 280 þús. kr. eða 2/3 kostnaðar, hvort sem lægra er. Lánin greiðast að hálfu að hausti og að hálfu næsta vor. Þessi tala sé við það miðuð, að tryggð verði bygging 1.500 íbúða á ári, er síðan fari smáhækkandi í samræmi við áætlanir um þörf fyrir nýjar íbúðir. Telji húsnæðismálastjórn það æskilegt, getur hún fækkað lánum á árinu 1965 samkvæmt nýja kerfinu, enda bætist þá samsvarandi upphæð við það fé, sem til ráðstöfunar verður samkvæmt 1. lið hér að framan (þ.e.a.s. til þess að lána þeim, sem ekki koma undir nýja kerfið).

3) Hluta þess fjár, sem byggingarsjóður hefur til umráða, verði varið til viðbótarlána umfram þær 280 þús. kr. á íbúð, sem að framan getur, til að greiða fyrir íbúðabyggingum efnalitilla meðlima verkalýðsfélaga. Húsnæðismálastjórn ákveður lán þessi að fengnum till. frá stjórn þess verkalýðsfélags, sem í hlut á. Í þessu skyni skal varið 15—20 millj. kr. á ári. Jafnframt því mun ríkisstj. beita sér fyrir öflun lánsfjár til byggingar verkamannabústaða.

Eftirfarandi atriði eru forsendur fyrir því að ríkisstj, taki á sig skuldbindingar þær, sem að ofan getur:

Að lagður verði á launagreiðendur almennur launaskattur að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum, en tekjum af landbúnaði, renni skatturinn til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag. Til viðbótar við launaskattinn og það eigið fé, sem byggingarsjóður þegar ræður yfir, mun ríkisstj. tryggja honum 40 millj. kr. nýtt stofnframlag á ári með framlagi úr ríkissjóði, álagningu nýs skatts á fasteignir eða með öðrum hætti. Svo verði frá gengið, að ríkisframlag til atvinnuleysistryggingasjóðs gangi árlega til kaupa á íbúðarlánabréfum hins almenna veðlánakerfis. Komið verði á nýju kerfi íbúðarlána fyrir lífeyrissjóði til samræmis við þær reglur, sem gilda hjá húsnæðismálastjórn. Til þess að þessar aðgerðir nái tilgangi sinum og hið nýja veðlánakerfi geti byggt sig upp með öruggum hætti og hægt verði að lækka vexti og haga lánskjörum í samræmi við greiðslugetu alþýðufjölskyldna, verði tekin upp vísitölubinding á öllum íbúðalánum. Er þá gert ráð fyrir því, að lánskjör af íbúðalánum verði þannig, að lánin verði afborgunarlaus í eitt ár og greiðist síðan á 25 árum með 4% vöxtum og jöfnum ársgreiðslum vaxta og afborgana. Full vísitöluuppbót reiknist siðan á þessa ársgreiðslu.“

Þetta er það, sem samkomulagið frá 5. júní gerði ráð fyrir og þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið miðað við. Breytingar frá núgildandi lögum um þetta efni eru í samræmi við þetta samkomulag og þó raunar ein eða tvær að auki. En helztu breytingarnar frá núgildandi lögum eru þessar:

Í fyrsta lagi, að auknar verði árlegar tekjur byggingarsjóðs ríkisins með því að leggja á almennan launaskatt, sem renni í sjóðinn. Þessi lög um launaskatt hafa nú verið samþ., voru upphaflega sett sem brbl. og komu til framkvæmda síðari helming ársins sem leið. Enn fremur er lagt til, að ríkissjóður greiði árlega til sjóðsins 40 millj. og er opið, hvernig fjár til þess verður aflað. Um það hefur ekki neinu verið slegið föstu enn þá. Upphaflega var hugsunin að taka þetta sem fasteignaskatt, en frá því hefur nú verið horfið og verður ríkissjóður að leggja féð fram í bili og taka síðar ákvörðun um, hvernig tekna til þess verður aflað, ef þess er talin þörf. Þetta hvort tveggja, bæði launaskatturinn og framlag ríkissjóðsins, eru hrein tekjuaukning sjóðsins, þannig að þar er mikill munur á eða þeirri fjárútvegun, sem áður hefur verið framkvæmd, sem að mestu leyti hefur verið í lánsformi. En þetta er fé, sem húsnæðismálasjóðurinn fær til eignar og umráða og fær þá vitaskuld einnig tekjur af því, sem lánað hefur verið út til íbúðabyggjenda.

Í öðru lagi er hér gert ráð fyrir þeirri breytingu, að heimild veðdeildar Landsbanka Íslands til útgáfu bankavaxtabréfa verði hækkuð. Hún er nú 150 millj. kr. á ári og bundin við 10 ár, en hér er lagt til, að heimildin verði hækkuð upp í 400 millj. kr. á ári og ótímabundin.

Í þriðja lagi er því slegið föstu í þessum lögum, að árlegu framlagi ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga verði varið til kaupa á vaxtabréfum veðdeildar samkvæmt því, sem um það hefur áður verið rætt. Nú hefur að vísu atvinnuleysistryggingasjóður lánað allverulega mikið fé í þessu skyni, en það hefur á hverju ári þurft undir högg að sækja með að fá þau lán hjá stjórn sjóðsins og ekki legið fyrir nein örugg vissa um, hvort lánið fengist eða ekki eða hversu mikið, en með þessu ákvæði er því nú slegið föstu, að framlag ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginganna skuli lánað í þessu skyni.

Þá er tekið upp í þetta frv. það ákvæði, að ekki megi veita lán til byggingar, nema áður hafi verið gefið loforð fyrir láninu og áður, en bygging er hafin. Í lögum þeim, sem nú eru í gildi, er að vísu heimild til að setja þetta skilyrði fyrir láni, en sú heimild hefur, að ég ætla, ekki verið notuð, en hér er þetta tekið upp sem alveg föst regla.

Þá er nýtt atriði, sem raunar er ekki í því samkomulagi, sem ég las upp áður, en ég fyrir mitt leyti tel all þýðingarmikið og það er, að hér er nú veitt heimild til þess að veita sveitarfélögum lán til bygginga á leiguíbúðum. Það er nú komið svo, að það er mjög erfitt að fá íbúð á leigu og margir, sem undan því kvarta að geta ekki fengið neina íbúð fyrir sig eða sina á leigu, og fjöldi manna, sem vitaskuld hefur ekki tök á því að fara út í byggingu hvenær sem er og þess vegna er þetta fólk oft í vandræðum. Sérstaklega vildi ég ætla, að fyrir ungt fólk, t.d. menn, sem eru nýkomnir frá námi og farnir að eiga með sig sjálfir, en í flestum tilfellum eru ekki færir um að byggja yfir sig strax, yrði það mikill ávinningur að geta fengið hæfilegt húsnæði á leigu, sem sveitarfélögin byggðu og leigðu fyrir sanngjarnt gjald. Ég hef viljað ætla, að þessar íbúðir þyrftu ekki að vera stórar. Það væri fyrir þá, sem væru að byrja búskap og hugsað þannig, að það væri um takmarkaðan árafjölda, sem sama fjölskyldan byggi þar, bæði þangað til hún gæti hugsað sér að ráðast í íbúðarbyggingu eða fjölskyldustærðin hefði orðið það mikil, að hún rúmaðist ekki lengur í þessum litlu íbúðum. En með því að veita lán til þessara íbúða, jafnhá og önnur íbúðalán eru, þá ætti að vera kleift fyrir mörg sveitarfélög að byggja einhverja tölu af slíkum íbúðum, sem gætu þá verið til ráðstöfunar fyrir þetta fólk, sem hefur ekki komizt til þess að byggja.

Þá er í þessu frv. einnig lagt til, að hámarkslánin verði hækkuð úr 150 þús. og upp í 280 þús. kr. Upphaflega var ætlunin, að þessi hámarkslán yrðu 300 þús. kr., en sá háttur var tekinn upp í samkomulags umræðunum við þá aðila, sem ég nefndi áðan, í júnímánuði s.l. að lækka heldur hámarksupphæðina, sem almennt væri lánuð, en nota það fé, sem við það sparaðist, til þess að veita viðbótarlán efnalitlum meðlimum verkalýðsfélaganna, sem ætla verður að eigi þrengst um að byggja og meiri ástæða væri kannske til þess að lána. Ef 750 lán eru veitt á ári og hvert þeirra lækkað um 20 þús. kr., úr 300 þús. í 280, þá eru það 15 millj., sem við það sparast og það er þá sú upphæð, sem gert er ráð fyrir í frv. að veitt verði sem viðbótarlán. Þó er þar aðeins rýmra tekið til orða, eða 15—20 millj. kr.

Þá er enn lagt til, að lánskjörunum verði breytt þannig, að lánin verði raunverulega til 26 ára. Það hafa orðið smámistök hér í prentun grg. Þar stendur, að „lagt er til, að lánskjörunum verði breytt þannig, að lánið verði til 25 ára“ og það er með vissum hætti rétt, þau eiga að endurgreiðast á 25 árum, en fyrsta árið er gert ráð fyrir að verði afborgunarlaust, þannig að lánið verður raunverulega til 26 ára. Þetta er rétt í frv. sjálfu, en það hefur við prentun grg. gætt þessara mistaka, sem ég ætla að geri ekki til eða hafi neitt að segja, þegar vakin er athygli á því. Það er gert ráð fyrir því sem sagt, að lánin verði veitt til 26 ára með 4% ársvöxtum og jöfnum ársgreiðslum eða annuitetslán og hver ársgreiðsla, vextir og afborganir, breytist samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar.

Þá eru í frv, tekin upp nokkkuð strangari ákvæði fyrir því, að bæði þeir, sem leggja frjáls framlög í innlánsdeild húsnæðismálastjórnarinnar og eins hinir, sem safna lögbundnum skyldusparnaði, fái rétt til umframlána fram yfir aðra. Áður var það svo að öðru jöfnu, eins og það var orðað, að þá áttu þeir að eiga kost á 25% hærri lánum en almennt gerðist, ef þeir hefðu safnað 50 þús. kr., en nú er þessi upphæð, 50 þús. kr., hækkuð upp í 100 þús. Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að ríkissjóður láni til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum fé á móti því, sem kaupstaðirnir eða aðrir leggja fram í þessu skyni, en það verði bundið við fjárframlög samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Nú hefur þetta verið ótakmarkað og rokið svo upp, að ríkissjóði hefur eiginlega orðið það um megn, en nú er gert ráð fyrir því, að þetta verði ákveðið hverju sinni í fjárlögum, hvað þessi upphæð geti orðið há.

Þetta eru þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir. Þær eru flestar í samræmi við það samkomulag, sem gert var í júnímánuði og aðeins tvær, vil ég segja, sem voru ekki teknar þar með, þar af önnur að mínu viti mjög þýðingarmikil, lán til leiguhúsnæðis, sem ég gat um áðan.

Frv. sjálft þarf ég svo varla að rekja, því að í því felast ekki aðrar breytingar, en þær, sem lýst er í grg. og ég var nú að rekja. Fyrsti kafli er um stjórn stofnunarinnar og hlutverk hennar. Það eru litlar breytingar frá því, sem nú er, nema orðalags breytingar og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja þær. Það er að vísu fært lítils háttar á milli greina og atriði, sem ekki hafa komið til framkvæmda, felld niður. Í 3. gr., sem er samhljóða núverandi 2. gr., er t.d. gert ráð fyrir, að síðasta mgr. þeirrar gr. 2. gr. í gömlu 1., verði felld niður, en hún gerir ráð fyrir því, að húsnæðismálastjórn semji árlega skýrslu um íbúðabyggingar til birtingar. Þetta hefur ekki verið gert, heldur hafa aðrir aðilar gert það og þykir þess vegna ekki ástæða til þess að halda því í lögum. í öðru lagi er svo hér í 2. kafla rakið, hvernig lán eru veitt og hvernig fjár er aflað. Það er í samræmi við það, sem ég hef áður getið um.

3. kaflinn er svo um sparnað til íbúðabygginga, frjálsan sparnað og skyldusparnað og þarf ekki heldur frekari skýringa. Þá kemur 4. kaflinn um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, síðan ýmis ákvæði.

Það er eitt atriði, sem ég vil vekja athygli hv. nefndar á, sem þetta frv. fær til meðferðar, og það er, að í 19. og síðustu gr. í frv. er gert ráð fyrir, að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1965. Það er nú tilkomið vegna þess fyrst og fremst, að frv. var samið fyrir áramótin og þótti þá hæfilegt, að það tæki gildi um áramót. Ef þetta stenzt ekki eða ekki þykir heppilegt að hafa það svo að láta það verka aftur fyrir sig um 2—3 mánuði, þá er sjálfsagt að breyta því, og vildi ég biðja hv. n., sem frv. fær til meðferðar, að taka þetta til athugunar.

Þá hefur a.m.k. hluti úr stjórn Alþýðusambands Íslands, aðallega þeir, sem tóku þátt í samningaviðræðunum í sumar, komið að máli við mig og óskað eftir athugun á nokkrum atriðum, sem ég hef fullkomlega fallizt á, að gert yrði.

Það er í fyrsta lagi varðandi viðbótarlánin, sem gert er ráð fyrir í frv. að veitt verði þannig, að leitað verði umsagnar Alþýðusambands Íslands um lánveitingar. Þetta þótti þeim betur fara að hafa á annan hátt, þ.e.a.s. að þessum viðbótarlánaumsóknum fylgdu vottorð frá viðkomandi stéttarfélagi, sem gengju beint til húsnæðismálastjórnar án milligöngu Alþýðusambandsins. Þessu sé ég enga ástæðu til að amast við, þetta er kannske eðlilegra að gera á þennan hátt og vildi ég einnig biðja hv. n. að taka þetta til athugunar.

Þá barst einnig í tal sú vísitölutrygging, sem á lánagreiðslurnar á að koma og í frv. segir, að þetta skuli vera framfærsluvísitala, sem þar sé lögð til grundvallar. Náttúrlega kemur þetta þannig út fyrir lántakanda, eftir að vísitölutrygging hefur verið sett á kaup, að það á ekki að vera þyngra fyrir lántakanda að standa undir sínum greiðslum með vísitöluálagi, þegar hann fær vísitöluálag á kaupið og ætti þetta þess vegna ekki að skapa honum óþægindi. En á það var bent, að vísitalan á kaupi er ekki framfærsluvísitala, heldur kauplagsvísitala, sem að vísu er ekki mjög fjarri framfærsluvísitölunni, a.m.k. ekki enn sem komið er, en þó ekki sú sama og væri þess vegna til athugunar að binda þetta við kaupgjaldsvísitölu, en ekki við framfærsluvísitöluna. Vildi ég einnig taka undir það, að þetta yrði athugað.

Það er líka vandamál, hvernig með skuli fara þá umsækjendur, sem höfðu ekki sent umsóknir fyrir 1. apríl s.l. og þar af leiðandi verður ekki hægt að sinna með þeim fjármunum, sem fyrir hendi eru. Mér hefur verið tjáð, að þessar 250 millj., sem gert er ráð fyrir að afla og verður aflað til þess að greiða fyrir þeim, sem höfðu sótt um fyrir 1. apríl, muni nægja og eiginlega vel það, þannig að þar muni nokkuð standa út af, sem ekki þarf til að fullnægja öllum þeim lánsbeiðnum, sem borizt höfðu fyrir 1. apríl, en hins vegar verður sá afgangur hvergi nærri nægur til þess að leysa vanda þeirra, sem sótt hafa eftir 1. apríl og áður, en hið nýja kerfi kemur til framkvæmda. Hvernig þetta verður leyst, er ekki ráðið, en í frv. er ákvæði um það, eins og ég las upp, að það er heimilt að fækka þessum nýju lánum eitthvað og láta þá fjármuni, sem við það sparast, ganga til þeirra, sem þarna lenda á milli og mætti sjálfsagt eitthvað leysa þeirra vanda með þessu. En það sem sagt stendur opið og verður að vera til athugunar, hvernig fjár til þess verði aflað, sem umfram þarf það, sem í samkomulaginu er.

Þetta allt, sem ég nú hef nefnt, vildi ég biðja hv. heilbr: og félmn., sem ég geri ráð fyrir að fái málið til meðferðar, um að athuga.

Nokkuð hefur komið til álíta, hvort hægt væri að hækka lánsupphæðina úr þessum 280 þús. kr. eða raunverulega úr 300 þús., eins og ég skýrði frá áðan, að raunverulega er veitt á íbúð, á þessar 750 íbúðir. En því höfum við ekki, eða ég ekki a.m.k., eins og sakir standa, treyst mér til að mæla með.

Það hafa þegar komið til framkvæmda nokkur atriði af þessum ráðstöfunum, sem gerðar eru í sambandi við þessa lagabreytingu. Skyldusparnaðurinn var t.d. hækkaður á miðju ári 1964 og hefur komið til framkvæmda með 15% síðan, og hefur gefið fullkomlega það, sem ætlað var. Launaskatturinn var líka tekinn síðari helming ársins 1964 og hann hefur gefið öllu meira; fé en ætlað var. Tryggingafélögin aftur á móti hafa ekki keypt nema fyrir lítið brot af því, sem gert var ráð fyrir að þau keyptu og þess vegna skortir þar verulega á, að náðst hafi sú upphæð, sem gert var ráð fyrir. En hvort umframtekjur af skyldusparnaði og launaskatti verða það miklar, að þær nægi til þess að vega upp á móti því, sem tryggingafélögin vantar á þá upphæð, sem gert var ráð fyrir frá þeim í upphafi, skal ég ekki segja, því að það er ekki búið að gera þetta endanlega upp, en það má ætla, að það verði ekki langt frá því.

Það má náttúrlega endalaust deila um, hvað er hæfilegt og hvað er nægilegt, hvað er hægt að komast af með í þessu skyni og sjálfsagt má segja, að æskilegt hefði verið að ganga lengra til móts við þá, sem í byggingum standa, og leitast við að fá þeirra hlut betri með enn hækkuðum lánum, því að það hefði sjálfsagt verið æskilegt. En eins og sakirnar standa, virðist eins og það sé svo miklum vandkvæðum bundið að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegar eru skv. þessu frv., að varla sé hægt að gera því skóna, að þessa upphæð verði hægt að hækka, svo að nokkru nemi.

Ég held svo ekki, að ég þurfi að rekja þetta mál frekar að sinni, en vil leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til hv. heilbr: og félmn. Þetta er mikið mál og krefst ýtarlegrar athugunar. Það er nokkuð liðið á þingið, en ég vildi beina þeim tilmælum til hv. n., að hún freistaði að hraða störfum við afgreiðslu málsins, svo að málið næði örugglega fram að ganga, því að það hefur tafizt að koma því fram, aðallega vegna þess, að það var ekki fyrr, en nú nýlega, gengið frá því, hvort þessar 40 millj., sem samkomulagið gerir ráð fyrir, að ríkissjóður sjái um, verði teknar með fasteignaskatti eða ekki. Það var upphaflega ætlunin, en frá því var horfið og verður nú greitt beint úr ríkissjóði.