11.03.1965
Efri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þar sem fundartíminn er nú á enda, skal. ég ekki rekja þessar umr., sem hér hafa farið fram, að öðru leyti en því, að ég vildi aðeins segja nokkur orð um það, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 6, þm. Sunnl., sagði um verðtryggingu þess fjár, sem til húsnæðismálanna rennur. Hann taldi og það er náttúrlega rétt, að það er ekki síður þörf á að verðtryggja það fé, sem sparifjáreigendur leggja til þessara mála, heldur en að tryggja það, að lánin séu vísitölutryggð, sem lántakendur þurfa að greiða. En í þessu sambandi vil ég benda á, að í 5. gr. þessa frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu skyni skal veðdeild Landsbankans heimilt að gefa út skuldabréf (bankavaxtabréf), sem nema allt að 400 millj. kr. árlega. Vaxtabréf þessi skulu vera með föstum vöxtum og afborgunum, en með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu framfærslukostnaðar.“

Nú eru þessi bankavaxtabréf gefin út fyrir öllum lánum, sem húsnæðismálastjórn tekur. Þau koma þar undir. Í 9. gr. er aftur rætt um þá, sem leggja af frjálsum vilja fé í innlánsdeild. Það er að vísu ekki sérstaklega tekið fram í sjálfri gr., að þetta fé skuli vera vísitölutryggt, en í grg., í umsögninni um 9. gr., kemur greinilega fram, hvað fyrir vakir og hvað ákveðið er. Þar stendur: „Lagt er til, að innlánsvextir verði hinir sömu og af skyldusparnaði samkv. 10. gr.“ Skyldusparnaður samkv. 10. gr. er með vísitölukjörum og í umsögninni um 9. gr. er sagt, að lagt sé til, að innlánsvextir samkv, henni verði þeir sömu og vextirnir af skyldusparnaði samkv. 10. gr. Það getur ekki farið á milli mála, hvað hér er meint: að öll lán, sem húsnæðismálastjórn tekur, eru vísitölutryggð, alveg eins og öll lánin, sem hún veitir, eru vísitölutryggð.

Það voru nokkur atriði önnur, sem ég hefði gjarnan viljað ræða, í ræðum þeirra, sem hér hafa talað, sem yfirleitt hafa verið málefnalegar og ég kann þeim þökk fyrir það. En af því að klukkan er nú orðin þetta margt, skal ég láta það bíða.