11.03.1965
Efri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi Bergs:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefur nú upplýst, að það sé meiningin, að frjálst innlánsfé samkv. 9. gr. sé vísitölutryggt með sama hætti og skyldusparnaðurinn og mér þykir vænt um það, að svo skuli eiga að vera. En ég vil eigi að síður láta í ljós þá skoðun mína, að þetta kemur á algerlega ófullnægjandi hátt fram í frv. Og ég mundi telja það æskilegt, fyrst hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir, að þetta sé meiningin, að hv. n. athugi þá, að þetta komi alveg greinilega fram. Það stendur í 9, gr.: „Þeir, sem leggja fé inn í deildina, skulu að minnst 10 árum liðnum, frá því að innlög hófust, eiga kröfu á að fá það útborgað að viðbættum innlánsvöxtum, sbr. 10. gr.“ (Gripið inn í.) Já, en það segir ekkert um það, að þetta skuli vera vísitölutryggt. Það segir ekkert um það, því að í 10. gr. eru ákvæði um fjöldamargt annað. (Gripið fram í.) Ég get ekki litið svo á, að þeir, sem leggja fé í þessa deild, fái í sínar hendur vaxtabréf á móti. Er það hugsunin með þessu, ráðh.? (Sjútvmrh.: Nei) Nei, þá segir 5. gr. ekkert um þetta. Og í grg. segir svo aftur á móti, eins og hæstv. ráðh. benti á: „Lagt er til, að innlánsvextir verði hinir sömu og af skyldusparnaði samkv. 10. gr.“ Þetta segir bara til um innlánsvextina. Mér finnst þetta ekki nægilega skýrt, ef þetta á við það einnig, að þessir fjármunir, sem talað er um í 9. gr., skuli vera verðtryggðir. Hins vegar ef það er meiningin, að svo sé, eins og hæstv. ráðh. hefur nú upplýst, þá þykir mér vænt um það og vildi beina því til hv. n., að hún komi því þá skýlaust inn í frv.