06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér er til umr, á þskj. 311. N. hefur haldið marga fundi og rætt málið ýtarlega. Á fund n. hafa komið formaður húsnæðismálastjórnar og fulltrúi veðdeildar Landsbanka Íslands í húsnæðismálastjórn og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar. N. hefur ekki orðið sammála. Meiri hl. n. hefur skilað áliti á þskj. 400 og mælir með, að frv. verði samþ. með breyt., sem fluttar eru till. um á þskj. 401. Þrír nm. hafa skilað séráliti.

Eins og kunnugt er, var með júní samkomulaginu 5. júní s.l. milli ríkisstj., A.S.Í. og Vinnuveitendasambands Íslands því lýst yfir, að það yrðu gerðar tilteknar, ákveðnar ráðstafanir í húsnæðismálunum. Sumar af þessum ráðstöfunum eru þess eðlis, að til þess að koma þeim í framkvæmd þarf að breyta lögum. Sú löggjöf, sem nú gildir um lánamál húsnæðisbygginga, er að stofni til frá því árið 1955. Þá var sett ýtarleg og sterk löggjöf um þessi mál, lög um húsnæðismálastjórn o.fl., þar sem komið var á nýju skipulagi í lánamálunum. Á þessum l. eða því fyrirkomulagi, sem þá var ákveðið, hafa verið gerðar breytingar. Sú veigamesta var gerð fyrst árið 1957, og þá þótti rétt að setja nýja löggjöf um þetta efni, lög nr. 42 frá 1957, sem nú eru í gildi. Þau lög voru að stofni til sömu lög og sett voru 1955, en þó voru gerðar á þeim breytingar. Ein sú veigamesta var, að leitt var í lög ákvæði um skyldusparnað og sett voru sérstök ákvæði um byggingarsjóð ríkisins, sem fólu í sér, að varasjóður almenna veðlánakerfisins var settur í fastara og ákveðnara form en áður var. Síðan hafa orðið nokkrar breytingar á þessum 1., eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Þær hafa miðað að því að efla byggingarsjóð ríkisins og lánastarfsemi til íbúðabygginga. Í því efni er skemmst að minnast, að á síðasta þingi var breytt ákvæðunum um skyldusparnað þannig, að skyldusparnaðurinn var hækkaður úr 6% í 15% og það var áætlað, að sú hækkun gæfi á fyrsta ári um 30 millj. kr. aukningu. Þá voru einnig á siðasta ári sett lög um ávöxtun fjár tryggingafélaga, þannig að 25% af ráðstöfunarfé tryggingafélaganna yrði ráðstafað til kaupa á íbúðalánabréfum hins almenna veðlánakerfis eða til þess að efla lánasjóðinn. Það var áætlað á sínum tíma, að þessar tekjur þýddu um 20 millj, á ársgrundvelli fyrir íbúðalánakerfið.

Þegar til koma svo fleiri breytingar, sem þurfti að gera samkv. júní samkomulaginu, þótti rétt, að það yrði samþ. ný heildarlöggjöf um þetta efni, og þetta frv. er þannig tilkomið. En frv. það, sem hér liggur fyrir, er enn sem fyrr að meginstofni samhljóða 1. frá 1955, með þeim breytingum, sem voru gerðar 1957, en nú eru svo felldar inn í breytingar, sem voru gerðar á síðasta þingi og svo koma til þær breytingar, sem lagt er til nú, að verði gerðar. Ég skal nú rekja nokkuð, hverjar eru í þessu frv. helztu breytingarnar frá því, sem nú er samkv. gildandi 1. um þessi efni.

Það er þá í fyrsta lagi það, að með þessu frv. er því slegið föstu, að lán húsnæðismálastjórnar skuli vera til 25 ára með 4% ársvöxtum og afborgunarlaus fyrsta árið. Hver ársgreiðsla, vextir, afborganir og kostnaður veðdeildar, sem er nú 1/4 %, breytist samkv. vísitölu framfærslukostnaðar, eins og það er í frv., sem hér er lagt fram. Hér er um að ræða veigamikla breytingu frá því, sem verið hefur. Eins og kunnugt er, var strax 1955 tekinn upp sá háttur að hafa lánið tvenns konar, annars vegar svokölluð A-lán, sem voru til 25 ára með 8 1/2% vöxtum og svokölluð B-lán til 15 ára, sem voru með 53/4% vöxtum og bundin við vísitölu framfærslukostnaðar. Nú er gert ráð fyrir, að það verði einungis um eins konar lán að ræða, öll lán verði vísitölubundin og öll lán verði til 25 ára og afborgunarlaus í eitt ár. Hér er bæði um þá breytingu að ræða, að vextirnir eru lækkaðir stórlega, árgreiðslur, vextir og afborganir, bundnar við vísitölu, svo og er lánstíminn lengdur. B-lánin, sem áður voru, voru aðeins til 15 ára. Nú eru öll lánin til 25 ára. Það kemur og út fyrir lántakanda sem lenging lánanna, að þau eru afborgunarlaus fyrsta árið.

Þá er það önnur veigamikil breyting í þessu frv., að gert er ráð fyrir, að lánshámark, sem var 150 þús., hækki núna upp í 280 þús. kr. Þetta er það mesta stökk, sem hefur verið tekið í þessum efnum, frá því að löggjöfin var fyrst sett 1955. Þá var gert ráð fyrir, að lánshámarkið væri 100 þús., en það var tekið fram í grg., að það væri reiknað með því, að lánin yrðu ekki hærri en 70 þús. Fyrstu árin var það svo í raun í 70 þús. kr. hámarki. Eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, var ákveðið á árinu 1961 að hækka lánin úr 100 þús. hámarki upp í 150 þús. Það var veruleg hækkun á sínum tíma, en það jafnast ekki á við þá miklu hækkun, sem nú er ráð fyrir gert í þessu frv.

Þá er sú breyting gerð með frv. þessu, að veðdeild Landsbanka Íslands er heimilað að gefa út bankavaxtabréf sem nemur 400 millj. kr. á ári ótímabundið. Samkv. núgildandi l. var heimildin bundin við 150 millj. kr. á ári í 10 ár. Það er lagt til, að öll þessi bréf, sem verða gefin út, verði með vísitölukjörum samsvarandi því, sem gildi um útlánin sjálf.

Þá er með frv. þessu gert ráð fyrir, að það verði auknar árlegar tekjur Byggingarsjóðs ríkisins, m.a. með því, að ríkissjóður leggi fram til byggingarsjóðsins árlega fjárhæð að upphæð 40 millj. kr.

Enn fremur er gert ráð fyrir, að árlegu framlagi ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga verði varið til kaupa á vaxtabréfum veðdeildarinnar til þess að efla útlánastarfsemina. Þetta mun, eins og nú er ástatt, nema um 40 millj. kr. á hverju ári.

Þá er í frv. það nýmæli, að árlega skuli verja 15–20 millj. kr. af tekjum byggingarsjóðs ríkisins til að veita hærri lán en almennt er ráð fyrir gert, þ.e.a.s. hærri en 280 þús., til efnalítilla meðlíma verkalýðsfélaganna. Þetta er. eins og ég sagði, nýmæli í þessari löggjöf. En um þetta var samið í júní samkomulaginu, eins og um ýmis önnur atriði.

Þá er merkilegt nýmæli, að heimilað er í þessu frv., að sveitarfélögum megi lána til byggingar leiguíbúða. Það hefur ekki verið heimilt að lána sveitarfélögunum hin venjulegu lán húsnæðismálastjórnar. Hins vegar hefur húsnæðismálastjórn haft yfirstjórn á þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru af opinberri hálfu til þess að stuðla að útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Svokölluð IV.–kafla lán hafa verið veitt til sveitarfélaga, sem hafa staðið fyrir byggingum íbúða til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði. En til viðbótar við þessi lán, sem hafa verið mjög þýðingarmikil, hefur hins vegar ekki verið hægt að fá A– og B–lán, eins og var áður, nema viðkomandi sveitarfélag seldi íbúðina einstaklingi. Með þeirri breytingu, sem hér er gerð á, skapast grundvöllur fyrir sveitarfélögin til þess að reisa íbúðir og leigja síðan og njóta samt þeirrar aðstöðu að geta fengið lán úr byggingarsjóði ríkisins.

Þá er eitt atriði, sem tekið er upp í frv., sem hér liggur fyrir, að það er sett það skilyrði fyrir láni, að bygging sé ekki hafin, áður en loforð fyrir láni er gefið. Samkv, núgildandi 1. var heimilt að setja slíkt skilyrði. Það er gerð sú breyting með frv. þessu, að það skuli mælt svo fyrir, að það sé ekki hægt að lána, nema loforð hafi verið fengið fyrir láni, áður en byggingin er hafin. Þetta er í samræmi við þá venju, sem hefur nú hin síðari missiri verið að skapast hjá húsnæðismálastjórn.

Enn er ein breyting í frv. þessu. Það hefur verið, gert ráð fyrir frjálsum innlögum í innlánsdeild byggingarsjóðs ríkisins og að viss forgangsréttur fylgi slíkum innlánum. Forgangsrétturinn hefur verið bundinn við innlán í 5 ár og 5 þús. kr. innlánsupphæð á hverju ári. Það hefur þótt rétt að breyta þessu þannig, að innlögin í innlánsdeild þurfa að hafa átt sér stað í 10 ár og a.m.k. 10 þús. kr. á árl. Og í samræmi við þetta hefur einnig verið breytt ákvæðum varðandi sjálfan skyldusparnaðinn. Til þess að njóta vissra fríðinda, sem honum fylgja, þarf skyldusparandi samkv. núgildandi 1. að hafa sparað 50 þús. kr. Þessi upphæð er færð upp í 100 þús. kr.

Þetta eru helztu breytingarnar, sem eru í frv. þessu frá gildandi lögum. Eins og ég sagði áðan, ræddi heilbr: og félmn. ýtarlega um frv., og meiri hl. n. leggur fram á þskj. 401 till. til breytinga á frv. og skal ég nú rekja þær till. í aðalatriðum.

Fyrsta brtt. er við 4. gr. frv., b–lið. Þessi gr. fjallar um tekjuöflun byggingarsjóðs ríkisins, m.a. hverjar árlegar tekjur sjóðsins skulu vera. Þar segir í b–lið: Framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 40 millj. Meiri hl. heilbr.- og félmn. gerir þá brtt., að við bætist undir þessum lið eftirfarandi: „Til þess að mæta þessum útgjöldum skal miða eignarskatt við gildandi fasteignamat þrefaldað. Þetta gildir þó ekki fyrir þá skattgreiðendur, sem eiga lögheimili á sveitabæjum.“ Hér er um að ræða, að breyting er fyrirhuguð á matsgrundvelli eigna til eignarskatts, það er ekki breyting á skattstigum, heldur á sjálfum matsgrundvelli eignarinnar til eignarskatts, en ákvæði um það, hver matsgrundvöllurinn á að vera, er að finna í a–lið 22. gr. 1. nr. 55 frá 1964, um tekju– og eignarskatt. En hér er tekið fram, að þetta gildi þó ekki fyrir þá skattgreiðendur, sem eiga lögheimili á sveitabæjum. Það er vegna þess, að fyrir lánum til íbúðarhúsabygginga í sveitum er gert ráð fyrir að séð verði af stofnlánadeild landbúnaðarins og tekna til stofnlánadeildarinnar er aflað með sérstökum hætti.

Önnur brtt. meiri hl. heilbr.– og félmn. er við 5. gr. frv., 2. mgr. Í 2. mgr. 5. gr. frv. eru ákvæði um það, að vaxtabréf þau, sem veðdeild Landsbankans sé heimilt að gefa út til fjáröflunar fyrir veðlánakerfið, skuli vera með föstum vöxtum og afborgunum, en með vísitölukjórum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu framfærslukostnaðar. Það hefur verið talið m.a. af fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, að það mundi verða meira öryggi fyrir launþega, sem taka íbúðarlán, að þau skuli vera bundin kaupgreiðsluvísitölu, en ekki vísitölu framfærslukostnaðar. Þannig sé öruggt, að meira samræmi verði á milli greiðslubyrðarinnar og möguleika viðkomandi til þess að standa undir henni. N. fyrir sitt leyti hafði ekki á móti því að gera þessa breytingu og því er lagt til, að hún verði gerð.

Þriðja brtt. heilbr.– og félmn. er við 7, gr., A–lið, 3. mgr. Í þessari 3. mgr. frv. segir, að húsnæðismálastjórn geti enn fremur veitt sveitarfélögum lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum. En það hafa komið fram eindregin tilmæli frá Öryrkjabandalagi Íslands um það, að Öryrkjabandalagið fái hliðstæða aðstöðu og sveitarfélög til þess að geta fengið íbúðalán og þannig reist leiguhúsnæði, sem yrði til leigu fyrir félagsmenn Öryrkjabandalagsins. N. hefur talið eðlilegt að verða við þessum óskum, og því er sú till. gerð.

Fjórða till. n. er við 7. gr. B–lið. Þar er talað um í framhaldi af ákvæðum um hámarkslán, 280 þús. á hverja íbúð, að upphæðin megi þó ekki nema meira en 2/3 hlutum verðmætis íbúðar samkv. mati trúnaðarmanna veðdeildar Landsbankans. Við nánari athugun hefur þótt rétt að breyta þessu hlutfalli, 2/3, í 3/4 til þess að tryggja það, að ekki komi til þess, að einhver verði sviptur möguleikum til lántöku. Þess vegna er þessi breyting gerð.

Þá er við sömu gr., B–lið, gerð kerfisbreyting í sambandi við lán til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga. Í frv. er kveðið svo á, að húsnæðismálastjórn ákveði lán þessi að fengnum till. miðstjórnar Alþýðusambands Íslands vegna viðkomandi verkalýðsfélags. N. leggur til, að þetta ákvæði orðist svo: „Húsnæðismálastjórn ákveður lán þessi að fengnum till. stjórnar viðkomandi verkalýðsfélags.“ Þetta er samkv. ósk frá Alþýðusambandi Íslands sjálfu.

Í framhaldi af þessu segir í frv., að um viðbótarlán þessi megi setja nánari ákvæði með reglugerð. N. hefur lagt til, að það séu bein ákvæði um það, að slíkt skuli vera gert í samráði við Alþýðusamband Íslands.

Þá er 2. mgr. B-liðar 7. gr. N. gerir till. um breytingu á orðalagi þar. Samkv. frv. segir, að ef fleiri íbúðir eru í sama húsi, megi lána út á hverja íbúð fyrir sig. Þó skal engum einstaklingi veitt lán, sem byggir fleiri en eina eigin íbúð. Samkv. orðanna hljóðan þýðir þetta það, að sá, sem byggir fleiri en eina íbúð, getur ekkert lán fengið, ekki einu sinni út á eina íbúð. Það má segja, að þetta sé nokkuð í samræmi við það, sem við hefur gengizt hjá húsnæðismálastjórn í praxis, miðað við þær útlánareglur, sem húsnæðismálastjórn hafa verið settar. Samkv. þeim reglum hefur sá, sem hefur átt nothæfa íbúð fyrir, ekki getað fengið lán fyrr en 2 árum eftir að hann seldi þá íbúð. Meðan mikil eftirspurn er eftir lánum og margir biða um langan tíma, eins og verið hefur, hefur þetta þótt eðlilegt. Hins vegar, ef breyting verður á þessu, er það ekkert óeðlilegt, að maður geti fengið lán út á eina íbúð, þótt hann eigi aðra fyrir, ef sjóðurinn getur fullnægt því og við það er miðað orðalagið á gildandi 1. um þetta efni núna. Heilbr.-- og félmn. taldi, að það væri eðlilegt að breyta þessu ákvæði ekki frá gildandi 1. og leggur því til, að þessi mgr. verði orðuð þannig: „Ef fleiri en ein íbúð er í sama húsi, má lána út á hverja íbúð fyrir sig. Þó skal engum einstaklingi veitt lán nema út á eina íbúð.“ Þetta þýðir aðeins það, eins og ég sagði áðan, að ef meiri fjárráð verða, er heimilt samkv. 1., eins og þau eru núna, að veita slíkum aðilum lán út á eina íbúð. En það væri útilokað, ef ákvæði frv. héldist óbreytt.

Þá er 5. brtt. n. við 7. gr. C. Þar eru ákvæði um það, hver skuli vera kjör á lánunum og eins og ég gat um áðan, taldi n. rétt að leggja til, að kjörin yrðu bundin við kaupgreiðsluvísitölu, en ekki framfærsluvísitölu. Til samræmis við það þarf að breyta orðalagi í þessum lið 7. gr.

6. brtt. er við 2. mgr. 9. gr. frv. Þar er fjallað um hinn frjálsa sparnað og þar segir, að þeir, sem leggja fé inn í innlánsdeildina, skuli að minnst 10 árum liðnum, frá því að innlög hófust, eiga kröfu á að fá það útborgað að viðbættum innlánsvöxtum, sbr. 10. gr. Það þótti rétt til þess að taka af allan vafa, ef vafi gæti verið í þessu efni, að bæta við orðunum „og uppbótum“ eftir innlánsvöxtum, þannig að ekki gæti orkað tvímælis, að þeir, sem þetta ákvæði á við, njóti sömu kjara og þeir, sem eru skyldaðir til sparnaðar samkv. 10. gr.

Í 9. gr., 2. mgr., er svo breyting í sambandi við matsverð eigna, þar sem er hækkað upp í 3/4 úr 2/3 af matsverði til samræmis við það, sem áður getur um það efni og sams konar breyting er lögð til við 10. gr. um hækkun úr 2/3 hlutum af matsverði upp í 3/4.

Þá er lokatill., brtt. n. við 19. gr., en í 19. gr. frv. segir: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1965“. Þetta er vegna þess, að gert var ráð fyrir, þegar frv. þetta var samið, að það yrði fyrir lagt fyrir Alþ. og afgreiðslu þess yrði lokið fyrir áramót. Með tilliti til þess, að það hefur ekki orðið, er nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði og lagt er því til, að lögin öðlist þegar gildi.

Ég hef nú getið í helztu atriðum þeirra breytinga, sem meiri hl. heilbr.– og félmn. leggur til að verði gerðar við það frv., sem hér er til umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu. Það er náttúrlega öllum ljóst, að hér er um mjög merkan áfanga að ræða í húsnæðismálunum, ef frv. þetta verður að lögum. Ég hika ekki við að fullyrða, að frv, þetta marki að vissu leyti tímamót í þessum þýðingarmiklu málum, sem húsnæðismálin eru. Ég vil geta þess, að þær till., sem nú eru gerðar, og þær breytingar, sem þegar hafa verið gerðar í sömu átt, þ.e.a.s. að auka tekjur byggingarsjóðs ríkisins og almenna veðlánakerfisins, þýða það, að árlegar tekjur til ráðstöfunar til íbúðalána verða sennilega um 220–230 millj. kr. Það þýðir það, að með slíkum tekjum á að vera hægt að veita 750 lán frá húsnæðismálastjórn á ári hverju að upphæð 280 þús. kr. hvert, auk þess sem hægt verður að veita sérstök lán til efnalitilla félaga verkalýðsfélaganna. Og þegar menn hafa í huga þessar tölur og bera saman við það, sem áður fyrr á árum var í þessu efni, sjá menn, hve gífurlega framför er hér um að ræða. Og það er enn fremur ástæða til þess að benda á, að þó að margt standi til bóta í þessum efnum og þó að okkar takmark hljóti að vera það að lána stöðugt meira og meira í hlutfalli við byggingarkostnað, er með þeim aðgerðum, sem núna eru fyrirhugaðar, stigið stórkostlegt skref fram á við í þessu efni. Það sjáum við bezt, þegar við tökum til samanburðar, að í árslok 1958 er byggingarvísitalan 134 stig. Byggingarvísitalan í dag er 237 stig, og hefur því hækkað um 76.9% síðan 1958. Á sama tíma hefur upphæð íbúðalánanna, þegar frv. þetta verður að lögum, hækkað úr 70 þús. kr. í praxis upp í 280 þús. kr. eða um 300% eða ef menn vilja frekar reikna það úr 100 þús. kr., sem var undantekning 1958, upp í 280 þús., eru það 280%. Lánin munu hækka um 280% á sama tíma og vísitala byggingarkostnaðarins hefur hækkað um 76.9%. Ég bendi á þetta til þess að undirstrika, hvílíkt átak er gert í þessum efnum með þeim till., sem hæstv. ríkisstj. leggur fram með frv. þessu. Það er, eins og ég tók fram áðan, mesta átak, sem hefur verið gert í þessum málum fram til þessa og þess er að vænta, að hæstv. deild afgreiði vel og með skjótum hætti slíkt stórmál sem hér er um að ræða.