06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forsetl. Ég held, að hv. frsm. meiri hl., sem flutti mjög glögga og hógværa ræðu að mestu leyti, hafi ofmælt, þegar hann í niðurlaginu taldi, að með setningu þeirra laga, sem hér eru til umr., verði stigið stórkostlegt skref og í stórum stíl bætt aðstaða þeirra, sem þurfa að koma sér upp húsnæði. Ég hef hér fyrir framan mig blað um vísitölu byggingarkostnaðar eftir hagstofunni og sé þar, að það er að vísu rétt, sem hv. frsm. sagði, að í okt. 1958 var byggingarvísitalan 134 stig, og það er líka rétt, að hún er nú í febr. 237 stig, eins og hann sagði. En samt sem áður er ekki gerður hér sá réttasti samanburður, sem hægt er að gera um vísitöluna, vegna þess að í febr. 1958 er vísitalan ekki nema 117 stig, og það er sá tími, sem réttur er til samanburðar, febr. 1958 og febrúar nú, ef á að bera saman þessar vísitölur. En í okt. 1958 er vísitalan orðin 134 stig. Hvað verður hún orðin í október?

Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þó að margt sé til bóta gert í þessu frv., sé það svo, því miður, að ekki sé með umbótunum haft við þeirri geysilegu verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað og þó að lánsupphæðirnar verði 280 þús. eftir frv., er það miklu meira fé, sem byggjandinn þarf að útvega sér nú heldur en hann þurfti 1958 til þess að standa straum af sinum byggingarkostnaði þarna fyrir utan, og erfiðleikarnir á að fá slíkt fé hafa stórlega vaxið síðan 1958. Ég held þess vegna, að það sé rétt af hv. stjórnarstuðningsmönnum að hafa ekki stóryrði um það átak, sem nú er verið að gera. Með því er ég ekkert að gera lítið úr viðleitninni.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gerði ljóslega grein fyrir og þskj. bera með sér, varð nokkur ágreiningur í heilbr.- og félmn. um till. í þessu mikilsverða máli. Ekki var samt ágreiningur um, að málið væri þýðingarmikið og eitt af brýnustu málum þjóðfélagsins á líðandi stund. N. hélt um það, eins og hv. frsm. sagði, fund eftir fund og fékk til viðræðu við sig ýmsa fróða menn um framkvæmdir lánastarfsemi til húsnæðismála. Við nm. hlýddum á útreikninga þeirra um almennar þarfir fyrir lánsfé til íbúðarhúsabygginga og getu samfélagsins til að fullnægja þeim þörfum almennt. Slæmt er, að ekki er við fast að miða og engir útreikningar fullkomlega til þess að byggja á. Allir útreikningar, sem miðast við liðinn tíma í þessum efnum, eru að vissu leyti eins og myndir af Surtsey um þetta leyti í fyrra fyrir þann, sem vill vita, hvernig hún er í dag. Breytingarnar eru svo örar. Allir útreikningar fram í tímann eru bara líkindareikningar og ég ýst við, að hv. frsm. meiri hl. geti ekki sagt með nokkurri vissu, ekki með ábyggilegri vissu, jafnvel ekki haft skynsamlega ágizkun um það, fáist ekki til að nefna hana um það, hve byggingarkostnaðurinn verður kominn hátt í október í haust. A.m.k. eru allar slíkar tölur mjög umdeilanlegar. Fólkinu fjölgar og þess vegna þarf nýtt húsnæði. Fólkið flyzt þúferlum og þess vegna þarf líka nýtt húsnæði. Með bættum efnahag gerir fólk kröfur til meira eða betra húsnæðis og þess vegna þarf enn fremur nýtt húsnæði. Menn segja, að byggingarþörfin sé í ár 1.500 íbúðir á öllu landinu. Auðvitað er það ágizkun.

Byggingarkostnaður hækkar ár frá ári, mismunandi hratt, stundum í skrefum, stundum í stökkum. En alitaf er hann að hækka. Tvö síðustu árin hafa stökkin verið gífurleg, máske hafa þau verið heimsmet. Samkv. Hagtíðindum var vísitala byggingarkostnaðar í febr. 1957 113 stig, í febr. 1958 117 stig, eins og ég sagði áðan, í febr. 1959 133 stig, í febr. 1960 132 stig. Og gæti ég trúað, að hæstv. atvmrh., sem hér er staddur, gæti gefið skýringu á því, hvers vegna vísitalan hækkaði ekki á þessu tímabili og hann má eiga heiður fyrir sinn þátt í því. í febr. 1961 var byggingarvísitalan 152 stig, í febr. 1962 173 stig, í febr. 1963 182 stig, í febr. 1964 211 stig, hafði þá hækkað um 29 stig á árinu, og í febr. 1965 er hún orðin 237 stig og hefur þá hækkað á árinu um 26 stig.

Hvað lætur svo hæstv. ríkisstj. vísitöluna hækka framvegis? Auðvitað getur hún ekki svarað því. Hún getur ekki svarað því, ég ætlast ekki til þess. Hún og við með henni erum á reki í þessu tilliti, eins og bandaríska vísindastöðin á ísjakanum, sem mest er umtöluð í blöðunum þessa dagana. Okkur rekur hratt, eins og hana á jakanum, án þess að ráða förinni, þó að við höfum í ríkisstj. menn, sem halda, að þeir séu að stýra. En það er ekki þægilegt að stýra slíkum jaka, ég skal viðurkenna það. Sá er einn aðalmunurinn á okkar ferðum og bandarísku stöðvarinnar, að okkur rekur ekki í þágu vísindanna, því að það telst varla í þágu vísinda mannkynsins, þótt hagfræðingar okkar reikni og reikni, að við séum á réttri leið og aðeins ókomnir til gósenlandsins, meðan vísitölur, sem þeir í líf og blóð reyna að möndla með hagræðingum á kúnstugan hátt til lækkunar, sýna mikinn hraða eigi að síður til hækkunar í öfuga átt.

Við þessar aðstæður er að etja í húsbyggingarmálum. Auðvelt er að reikna í liðinn tíma og segja, það er stærri fjárhæðum varið af þjóðfélagsins hálfu, en fyrrum til lána handa fólki, sem er að byggja íbúðir. En hvað sannar það um, að gert sé það, sem ætti að gera og hægt væri að gera, ef rétt væri að farið. Tímarnir eru aðrir, þarfirnar reka enn meira eftir og afrakstur tæknialdar gefur stjórnendum landsins miklu meira fé í hendur til þess að verja til þessara mála, en áður var, ef vel er með farið. Að sætta sig við samjöfnuð við liðna tíð á þessu sviði er að sætta sig við að vera þeirrar tíðar mönnum minni.

Frá þessum hæðum, sem ég hef nú minnzt á, ber að líta á frv. það um húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér liggur fyrir. Vitanlega eru því takmörk sett, sem hægt er að gera til lánsfjáraðstoðar þeim, sem þurfa að koma sér upp húsnæði. En batnandi þarf sú aðstoð að vera, annað væri afturför. Gæta þarf þess að setja ekki í löggjöf þessa ákvæði, sem leiði það af sér, að verðbólgan fari miklu verr með lánþega húsnæðismálastofnunarinnar en fjárfestingarlántakendur almennt. Við hv. 1. þm. Vesturl. litum svo á, að hvorki sé með frv. gert það, sem hægt ætti að vera að gera í lánsfjárveitingum, né lánakjör nægilega og eðlilega tillitssöm vegna verðbólguþróunarinnar. Þess vegna klufum við n. og skilum séráliti og brtt. Við teljum elgi að síður margt af því, sem nýtt er í frv., til bóta og styðjum það, t.d. eins og að lána megi sveitarfélögum til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum og fátækum verkamönnum viðbótarlán. Við stöndum með meiri hl. n. að 6 af þeim till., sem hann flytur á þskj. 401 og hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir. Við áttum í n. þátt í því, að þær komu fram, þessar 6 till., en þær eru till. nr. 2, 3, 5, 6, 7 og 8 á þskj. 4. till. er ekki studd af okkur nema þá sem varatill., því að við flytjum till. um sama efni, sem gengur lengra. Aftur á móti erum við mótfallnir því, að 1. till. verði samþ., ekki af því, að við séum endilega mótfallnir því, að aflað sé fjár handa húsnæðismálastofnuninni með því að hækka eignarskatt, heldur af því að þessi till. yrði til óprýði á þessari lagasetningu. Ákvæði þau, sem hún inniheldur, eiga ekkert erindi þangað, eins og hver maður getur séð. Þau eiga, ef annars verður á þau fallizt, að verða í lögum um eignarskatt. Það er ákveðið í frv., að framlag úr ríkissjóði skuli vera 40 millj. kr. á ári, hvorki meira né minna. Hrein tilviljun væri, ef eignarskattur á þrefalt fasteignamat, sem auðvitað fellur saman við annað eignarframtal á ýmsum stigum hjá gjaldendum, yrði 40 millj. Nei, hér er um að ræða meinloku og ég vil kalla þetta ónáttúru í lagasetningu. Ef þessi klausa verður sett inn í frv., er hún þar eins og spikæxli á líkama, æxli, sem kannske veldur ekki verkjum, en er til leiðinda og lýta, svo að bæði sá, sem hefur æxlið og læknir telur sjálfsagt að skera brott. Hvers vegna vill nú hv. meiri hl. vera að græða svona æxli á frv.? Hann ætti að falla frá því og taka till. aftur og fleygja henni í ruslakörfuna, láta hana koma fram á sínum stað, þar sem hún auðvitað verður líka að koma fram.

Eins og grg. frv. ber með sér, eru meginbreytingarnar, sem frv. felur í sér frá núgildandi I. um húsnæðismálastofnunina, byggðar á hinu svokallaða júní samkomulagi, sem ríkisstj. beitti sér fyrir. Þegar við óskuðum eftir verulegum breytingum í heilbr.– og félmn. á frv., signdu stjórnarstuðningsmennirnir sig og báru fyrir sig júní samkomulagið eins og munkur róðukross. Nú er það alls ekki meining mín að gera lítið úr júní samkomulaginu, þó að ég telji það ekki alfullkomið, enda eru 10 mánuðir síðan það var gert og jakann okkar hefur rekið langar leiðir á þeim mánuðum. Við höfum því við annað að miða nú en þá. Byggingarkostnaðarvísitalan hefur stórlega hækkað, eins og ég hef áður nefnt. Hún mun hafa verið 219 stig, þegar júní samkomulagið var gert, en í febrúar núna 237 stig og hefur því hækkað um 18 stig, frá því að samkomulagið var gert og enn er hún vafalaust að hækka. Íbúð, sem er 360 rúmmetrar, kostaði samkv. þessu rúmlega 731 þús., eða um 63 þús. kr. minna en hún kostar nú. Okkur hefur rekið á aðra breiddargráðu. Það eru léleg vísindi að taka ekki tillit til þessa, en ríghalda sér í staðarákvörðun frá því í júní.

Fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands komu tvisvar á fund heilbr.- og félmn. Þetta voru menn, sem höfðu sjálfir tekið þátt í samningunum í júní 1964. Þeir fóru hógværlega fram á það m.a. að lán væru hækkuð og vísitölubindingu væri ekki beitt í sama mæli og talað hafði verið um í júní Róðukrossinn kom á loft, tákn heilagleikans. Þessir menn signdu sig ekki, en þeir guðlöstuðu ekki heldur, létu á sér skilja, að þeir bæru fulla virðingu fyrir júní samkomulaginu, en sögðu; eins og satt var, að mikil breyting væri orðin síðan sáttmáli sá var gerður og búizt hefði verið við, að einmitt hann mundi hafa meiri áhrif, en orðið hefðu, á þróun dýrtíðarinnar. Eg fyrir mitt leyti tel rétt, að júní samkomulagið, að því er snertir þessa lagasetningu, verði framkvæmt með tilliti til þeirra breytinga, sem orðið hafa á þeim viðmiðunaratriðum, sem í samkomulaginu voru lögð til grundvallar. Það tel ég vera að standa við samkomulagið. Allar brtt. okkar hv. 1. þm. Vesturl. eru á þeim grundvelli byggðar, samdar í þeim anda. Engin till. er utan þess ramma. Skal ég nú víkja að þeim hverri um sig.

Brtt. eru allar við 7. gr. í A–lið 7. gr. er tekið fram, að lán skuli því aðeins veitt, að loforð um lánveitingu hafi verið gefið, áður en hlutaðeigandi framkvæmd hófst eða kaup á nýjum íbúðum eru gerð. Þetta eru ströng ákvæði, en þau eru sennilega nauðsynleg stofnunarinnar vegna, að því er byggingu nýrra íbúða snertir, enda eru þau framkvæmanleg í sambandi við byggingu nýrra íbúða. Aftur á móti eru þau sjálfsagt stundum óframkvæmanleg að því er kaup snertir á nýjum íbúðum, af því að kauptækifæri ber oft svo bráðan að. Þess vegna leggjum við til, að þess sé ekki krafizt, að lánsloforðs sé aflað, áður en kaupsamningur er gerður, heldur áður en afsal er gefið út. Ég sé ekki, að það skapi stofnuninni óþægindi, en það er þeim, sem kaupir, til hagræðis, einkum ef hann á langan veg að sækja til húsnæðismálastjórnarinnar.

2. till. okkar um breytingu á A–lið 7. gr. er um það, að meiri áherzla sé á það lögð, en orð frv. gera, að byggingarfélag, sem nýtur ríkisábyrgðar, fái hjá húsnæðismálastjórn bráðabirgðalán til starfsemi sinnar. í stað orðanna „getur húsnæðismálastjórn“ komi „skal húsnæðismálastjórn, ef unnt er, veita bráðabirgðalán“. Meiri vilji eða tilætlun liggur í orðalagi brtt. Eru mér þá sérstaklega í huga byggingarsamvinnufélög, sem vantar tilfinnanlega rekstrarfé og verða að byggja starfsemi sína á sölu ríkistryggðra bréfa, sem venjulega seljast ekki nema fyrir 60–70% af nafnverði. Húsnæðismálastjórn hefur að undanförnu þar til seinni hluta s.l. árs veitt út á nýbyggingar lán í tvennu lagi, A–lán, sem kalla hefur mátt venjuleg fjárfestingarlán og B–lán, sem hafa verið vísitölubundin. B-lánin hafa verið minni hlutinn og allt niður í 10% af samtölu lánanna. Nú mælir frv. svo fyrir, að allt lánið skuli vera vísitölubundið, vextirnir af því einnig og kostnaðargjaldið til veðdeildar Landsbankans. Þar segir hreint og beint: „Hver árs greiðsla, afborgun, vextir og kostnaður, skal hækkuð eða lækkuð eftir því sem við á samkv. vísitölu.“ Við teljum, að rétt gæti verið að vísitölutryggja sparifé landsmanna almennt, og höfum tekið þátt í flutningi till. um, að athugun fari fram á því, hvort það sé ekki framkvæmanlegt og þá um leið verður að sjálfsögðu að vísitölubinda útlánsféð. Það mundi, ef þetta væri gert, m.a. hafa mikla þýðingu til mótspyrnu gegn verðbólguvextinum. En á meðan slíkt kerfi er ekki upp tekið í bankastarfsemi þjóðarinnar yfirleitt, teljum við óþolandi misrétti, að einn hópur manna sé látinn sæta þeirri útlánastarfsemi hjá ríkisstofnun, að því er snertir fé, sem sú stofnun getur fengið og hefur fengið til útlánanna án þess að þurfa að vísitölutryggja eigendum fjárins það. Og að sjálfsögðu eykur það ekki réttlæti, að hér er um að ræða sem lántakendur fyrst og fremst láglaunamenn. Hér veltur ekki heldur á smámunum fyrir þessa menn, haldi svo áfram sem horfir í verðlagsþróuninni. Talið er, að um skeið að undanförnu hafi byggingarvísitalan hækkað um 9% á ári til jafnaðar og samkv. frv. á að mega lána til íbúða 280 þús. kr., lánstími á að vera 25 ár, árgjöldin jöfn, nema sem nemur vísitöluröskun. Upplýst er, að fyrsta árgjaldið verði, eins og sakir standa nú, 18.400 kr. og 7 aurar. Það var upplýst í n. Sú upplýsing kom frá veðdeild Landsbankans. Haldi verðbólguþróunin áfram með 9% hækkunarhraða á ári, eins og síðustu ár, verður árgjaldið orðið nálega tvöfalt eftir 11 ár og það verður farið að nálgast 60 þúsundin á síðustu gjaldárunum. Ég nefni þetta sem dæmi til skýringar á svona kjörum. Lánþegar, sem eiga að sæta þessum kjörum, eru hafðir sér í flokki hjá þjóðfélagi sínu. Þeir eru með slíkum lánakjörum hlekkjaðir við verðbólguófreskjuna, eins og ég hef leyft mér að komast að orði. Það er áætlað, að það þurfi að byggja 1.500 íbúðir á ári. Það er gert ráð fyrir því, að húsnæðismálastofnunin, eftir að þetta frv. hefur orðið að l., hafi aðstöðu til þess að lána helmingnum af byggjendunum og yfirleitt má segja, að í þeim hópi séu fyrst og fremst fátækari menn þjóðfélagsins, eins og ég sagði áðan. Nú veit ég ekki til þess, að hinir 750 byggjendur, sem fá lán hjá öðrum aðilum, þurfi að búa við slík kjör og þetta, að lán þeirra verði öll vísitölubundin og þeir verði dregnir nauðugir viljugir áfram aftan í vagni verðbólgunnar. Svör við þessu eru þau, að mér skilst, að kaupgjald þeirra, tekjur þeirra vaxi að krónutölu líka með verðbólgunni. En ekki er fullkomin trygging fyrir því, en fullkomin trygging er fyrir því, að þeir þurfi að borga samkv. vísitölu, ef þeir hafa verið látnir semja um það. Og í öðru lagi er það, að aðrir, sem þeir hafa viðskipti við og lifa með, eru látnir hafa betri kjör í þessum efnum og ekki á sama hátt þrælbundnir í sínum samningum við dýrtíðarvöxtinn.

Við erum á móti því, að þetta sé gert. Við leggjum til, að sama regla gildi og áður, að lántakendur hjá húsnæðismálastjórninni fái

A-lán og B–lán, A–lánin verði ekki vísitölubundin, B–lánin verði vísitölubundin aðeins að því er sjálfa afborgun lánanna snertir og þau verði aldrei hærri, en nemur sama hlutfalli af samtölu lánanna beggja og er hlutfall vísitölutryggðs fjár og óvísitölutryggðs fjár, sem húsnæðismálastjórnin hefur til útlánanna á hverjum tíma. Ég sé ekki betur, en það sé allmikið fé og allmikið hlutfall, sem þarf ekki að vera vísitölutryggt. Launaskatturinn á að gefa, að mér skilst, 65–70 millj. Engin ástæða er til að vísitölutryggja það fé, sem er eignarfé húsnæðismálastofnunarinnar. Hvers vegna á húsnæðismálastofnun að vísitölutryggja sitt eigið fé gagnvart sínum viðskiptamönnum, á meðan aðrar lánsstofnanir gera það ekki? Ríkissjóðstillagið, 40 millj., er heldur engin ástæða til að vísitölutryggja. Eigið fé annað skilst mér að séu 30 millj. Hið sama gildir um það. Aðflutningsgjöld og hluti af tekju– og eignarskatti 10 millj. Það verður eignarfé. Lánið frá atvinnuleysistryggingunum virðist mér ekki ástæða til, að húsnæðismálastofnunin þurfi að vísitölutryggja, því að mér skilst, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn hafi ekki vísitöluákvæði á lánum sínum til annarra. Það er fyrst og fremst skyldusparnaðurinn, sem sjálfsagt er að vísitölutryggja og einnig þann frjálsa sparnað, sem gert er ráð fyrir að ungt fólk geti lagt inn í stofnunina. Það þarf að vísitölutryggja þetta fé. Og það er ekki óeðlilegt, þó að það sé tryggt eins og áður. Það hlutfall af láni til hvers lántakanda, sem svarar til þess hlutfalls, sem þetta fé er af heildarfé stofnunarinnar, er eðlilegt, að sé vísitölubundið. Ég sé ekki betur, en þetta muni geta munað geysílega miklu til hagsbóta fyrir lánþegana frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, enda verður að leggja á það áherzlu að ofþjaka þeim ekki. Ég tek það enn fram, að ríkisstofnun, sem sett er á laggirnar til þess að liðsinna sérstökum hópi manna, gæti þess, að aðstaðan, sem hún veitir, verði þeim mönnum ekki fjötur um fót og einangri þá ekki til ókjara í samanburði við aðra þegna þjóðfélagsins.

Þá er gert ráð fyrir því í frv., að heildalán megi hæst vera 280 þús. kr., sem mér skilst að hv. stjórnarstuðningsmönnum þyki vera myndarleg fjárhæð. Þetta hámark var ákveðið með svonefndu júní samkomulagi s.l. sumar. Síðan hefur vísitalan hækkað mikið og við leggjum til, að í stað 280 þús. verði hámarkið 300 þús. kr., og teljum, að það sé alls ekki of mikið miðað við þá dýrtíðaraukningu, sem hefur orðið síðan í júní. Enn fremur teljum við, að það sé í fullu samræmi við óskir þeirra manna frá Alþýðusambandinu, sem komu til fundar við heilbr.– og félmn. og báru þar fram óskir og bentu á það, að þó að þeir mundu halda júní samkomulagið, væri júní samkomulagið byggt á öðrum grundvelli, en nú væri til staðar og það hefði í raun og veru brugðizt því, sem ætlazt hefði verið til, að draga úr dýrtíðinni. Og vegna þeirrar reynslu, sem er af breytingum á verðgildi peninganna, teljum við nú rétt, að vísitala sé höfð við ákvörðun um lánsupphæð frá síðustu áramótum að telja. Þá er hægt að segja, ef hún er notuð sem mælikvarði, að þá fái hver það, sem lögin hafa gert ráð fyrir að hann ætti að fá, fái það hlutfall af byggingarkostnaði eftirleiðis. Við teljum þessi lán að vísu of lág miðað við möguleika manna til að hafa hér út lánsfé og geta risið undir því að koma sér upp húsnæði. En við flytjum þó ekki brtt. um meiri hækkun á lánsfjárupphæðinni en þessa, 280 þús. upp í 300 þús., en með því að bæta við ákvæðinu um, að lánsfjárhæðin skuli reiknuð eftir vísitölu og 300 þús. séu grundvöllur, sem gengið er út frá, er þó svolítið stigið í áttina. Nú er það svo, að enn hefur ekki komið til framkvæmda hækkunin á lánunum upp í 280 þús. og enginn hefur viljað segja neitt um það, hvenær hún kunni að koma til framkvæmda. Mér skildist á þeim, sem höfðu veríð við júní samkomulagið og mættu í n., að þeir hefðu búizt við því, að hún yrði komin til framkvæmda um þetta leyti. Og af því að það er áreiðanlegt, að þeir, sem ákváðu sig til húsbyggingar, eftir að júní samkomulagið var gert, hafa búizt við því, að þeir fengju að njóta þessarar hækkunar, finnst okkur vera svo langt um liðið, að fráleitt sé að láta menn hrekjast í vafa í þessu efni lengur og því leggjum við til, að lánsfjárhækkunin komi til framkvæmda hjá þeim, sem sótt hafa um lán eftir 1. apríl 1964, en þá hefur mér skilizt, að hafi verið nokkur þáttaskil, að því er umsóknir snerti. Það er áreiðanlegt, að þeir menn, sem byggja samkv. þeim umsóknum, sem eftir þann tíma koma fram, lenda í þeirri dýrtíð, sem miðað var við og alltaf er miðað við í júní samkomulaginu, og meiri dýrtíð þó.

Þá er það lánstíminn. Hv. frsm. meiri hl. sagði frá því með nokkru stolti, að lánstíminn hefði verið færður upp í 25 ár í frv. Þetta er vitanlega góðra gjalda vert, en samt sem áður, ef miðað er við efnahagsástæður almennings og líka við það, hvað eðlilegt er, að þeir, sem koma sér upp húsnæði, sem er varanlegt húsnæði fyrir langan tíma, fái löng lán, virðist okkur í 1. minni hl., að lánstíminn sé enn of stuttur, og leggjum til, að hann verði færður upp í 35 greiðsluár. Hann hefði þurft að verða lengri, en af því að við erum hófsamir og tökum fullt tillit til aðstæðna, þó að við séum stjórnarandstæðingar, göngum við ekki lengra í þessu efni. Samkv. upplýsingum, sem starfsmaður hjá veðdeild Landsbankans gaf n., mundi árgjaldið lækka við þetta um hér um bil sjötta part og það er spor í rétta átt og veitir ekki af. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Ég á ofurlítið eftir. (Forseti: Kannske rétt að ljúka henni þá.) Já, það skal ég gera.

Ég skal þá koma beint að tillögublaðinu. Ég hef þegar rætt tvær fyrstu till., a og b undir 1. tölulið. En till. undir lið 2 er um hækkun lánsfjárhæðarinnar í 300 þús. kr. og um, að framkvæmd þeirrar hækkunar nái til allra lánveitinga til þeirra umsækjenda, sem sendu umsóknir eftir aprílbyrjun 1964, enn fremur um það, að fjárhæðin, 300 þús., hækki hlutfallslega með hækkun byggingarvísitölu frá árslokum 1964 að telja. Að öðru leyti inniheldur þessi till., till. 2, líka öll önnur efnisatriði, sem tilheyra B–lið 7. gr. í frv. og samkomulag varð um í n. að breyta. Þannig er till. sett upp, til þess að hún geti verið heilsteypt fyrir B–liðinn.

Í till. undir tölulið 3 á þskj. okkar eru ákvæði um, að lánum til hverrar íbúðar verði skipt í A– og B–lán, eins og áður var gert og að lánin greiðist á 35 árum, B–lánin verði vísitölubundin og þannig, að afborgunarhlutinn í ársgreiðslu reiknist árlega samkv. byggingarvísitölu, aðeins afborgunarhlutinn. B–lánið sé, þegar það er veitt, hundraðshluti, sem svarar til vísitölutryggðra fjármuna, sem húsnæðismálastjórn hefur til umráða til útlána á hverju ári. Ég sé ekki, að það sé samboðið húsnæðismálastofnuninni að vísitölubinda meira fé, en hún þarf sjálf að vísitölutryggja. Og hvað þarf hún að vísitölutryggja? Það hef ég áður minnzt á. Ég sé ekki, að hún þyrfti að vísitölutryggja, eins og sakir standa, miklu meira en skyldusparnaðinn og frjálsu sparifjárframlögin. Mér virðist, að ef húsnæðismálastofnunin fer að vísitölutryggja eigið fé í útlánum til íbúðabygginga, megi segja, að hún vilji nota sér neyð lánþega og skattleggja þá fyrir sinn sjóð.

Ég tel að, að því beri að stefna, að húsnæðismálastjórn sé heimilað að veita lán til endurbóta á eldra húsnæði og um það var nokkuð rætt í n. Ég geri þó ekki till. um þetta að þessu sinni, af því að ég viðurkenni, að það sjónarmið, sem kom fram í n., að undirbúa þurfi reglur um þær lánveitingar, þannig að sú lánastarfsemi verði ekki misnotuð og til þess þarf tíma og athugun, sé réttmæt. Og ég tel, að húsnæðismálastofnunin sjálf ætti að gera þessa athugun. Það væri mjög mikilsvert, ef menn gætu átt kost á lánum til umbóta á eldri íbúðum. Með því gæti hagnýtingartími eldra húsnæðis lengzt og það létt nýbyggingarþörfinni. Ég álít, að húsnæðismálastjórn ætti að vinda bráðan bug að því að athuga þetta og leggja skynsamlegar till. um það fyrir næsta Alþ. Ég tel einnig, að það ætti að vera markmið, að húsnæðismálastefnunin gæti tekið að sér að hjálpa mönnum með að gera kaup á eldra húsnæði, þeim sem eru í erfiðleikum, það ætti að vera markmið hennar, en geri þó engar till. um það nú.

Ég verð að harma það, að ég sé ekki, að þess sé getið í sambandi við þetta frv., að í júní samkomulaginu hafi verið lögð áherzla á þann mikilsverða þátt löggjafarinnar um húsnæðismálastofnun ríkisins, að hún eigi að koma á fót og annast leiðbeiningarstarfsemi í því skyni að lækka byggingarkostnað og koma á hvers konar umbótum í húsagerð og vinnutækni við byggingu íbúðarhúsa, eins og segir í eldri lögum og upp er tekið í þetta frv. Ég held, að þarna sé ákvæði, sem hafi verið vanrækt að framfylgja. En ég sé ekki, að það hafi þýðingu að kveða sterkara að orði um þessa skyldu húsnæðismálastofnunarinnar, en gert hefur verið í lögum um hana og gert er enn ráð fyrir, að standi í 1., af því að það er tekið upp í frv. En ég vil minna þá sem fyrir þessum málum standa á, að þetta má ekki vera dauður bókstafur og vil líka beina því til þeirra, sem kunna að verða þátttakendur við næsta júní samkomulag, að þarna er þörf á mikilsverðum umbótum og mikilsvert og þýðingarmikið samningsefni til hagræðingar. Að svo mæltu lýsi ég því yfir, að ég vildi mega vænta þess, að hv. d. geti fallizt á brtt. á þskj. 410 og ég veit í raun og veru með sjálfum mér, að t.d. hv. frsm. meiri hl., sem vill vel í þessum málum, mundi hafa löngun til að ganga inn á okkar sjónarmið og ég held, að það sé honum ekki of mikil dirfska að gera það. – (Fundarhlé.)