06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég held ég geti lofað því að komast af með stutt mál, en þó get ég ekki látið vera að gera svolítið fyllri grein fyrir ýmsum atriðum, sem ég fann að höfðu verið misskilin, t.d. af hv. formanni húsnæðismálastjórnar, 12. þm. Reykv. Og má vera, að það sé von, að hann hafi misskilið þetta, því að hann var ekki viðstaddur, þegar framsögur fóru fram. Hann segir, að það sé tvennt, sem við í minni hl. leggjum áherzlu á að breyta þurfi, þ.e. að vísitölubinding megi ekki vera alger og annað, að það megi ekki krefjast fyrirframloforða á lánum. Það er misskilningur hjá hv. þm., að fleiri séu ekki aðalatriðin og ég vil segja, að ég taldi, að fyrirfram loforð að því er snertir lán handa þeim, sem ætla að byggja, mundu vera nauðsyn og væru eðlileg til þess að tryggja það, að stofnunin hefði yfirlit yfir verkefni sín. Ég geri þess vegna ekki tillögur um, að það sé upphafið að heimta, að fyrir fram hafi verið lofað lánum til þeirra, sem ætla að byggja. Og ég tel, að þeir geti yfirleitt sér að meinalausu fullnægt því að sækja um fyrir fram og aflað sér loforða. Hitt tel ég of strangt, að þeir, sem ætla að kaupa hús, nýtt hús, oft með sama sem engum fyrirvara og oft þannig, að þeir verða að segja af eða á, hvort þeir ætla að kaupa, verði að afla lánsloforða fyrirfram. ég tel það of strangt, að til þess sé ætlazt, að þeir sæki um fyrir fram í hverju tilfelli og afli sér loforðs, áður en þeir ráðast í kaup. Og till. mín er um það, að sú undantekning sé gerð með þá, að það sé ekki krafizt af þeim, að þeir sæki og fái loforð, áður en þeir fá afsal fyrir eigninni. Það tel ég eðlilegt. Og eftir því sem hv. 12. þm. Reykv. lét orð falla í sambandi við þessi atriði, þá vonast ég eftir því, að hann geti fallizt á brtt. mína. Ég veit, að þetta getur snert alla, hvar sem þeir eru staddir á landinu, en sérstaklega er það torvelt fyrir þá, sem eru fjarri vinnustöðum húsnæðismálastofnunarinnar, að fullnægja því, ef þeir ætla að kaupa, að afla lánsloforðs, áður en þeir ráðast í kaupin. En þeir geta samið þannig, að þeir geti sótt og aflað loforðs, áður en afsalið er gefið fyrir eigninni.

Hv. 12. þm. Reykv. sagði, að vísitölubinding væri samkv. júní samkomulaginu. Þetta er vitanlega rétt. Þarna brá hann upp róðukrossinum. En hann minnist þess vafalaust, að mennirnir, sem komu frá Alþýðusambandinu, þeir sem höfðu staðið að samningunum í júní s.l., einmitt óskuðu eftir því, að linað yrði á þessu ákvæði. Og þeir færðu gild rök fyrir því. Ekki það, að þeir héldu því fram, að júní samkomulagið hefði verið rofið og það er misskilningur hjá hæstv. félmrh., að ég hefði haldið því fram, að það hefði beinlínis veríð rofið. En þær viðmiðanir, sem hafðar voru, þegar júnísamkomulagið var gert, hafa breytzt þannig, að uppfylling þess eða efndir þess þyrftu að vera aðrar nú, ef þær ættu að vera jafngóðar og búizt var við, að þær gætu orðið eftir sömu reglu í júní. Það má á það minna, að byggingarvísitalan var þá 219, en hefur hækkað um 18 stig síðan, upp í 237. Þeir litu svo alvarlega á þetta, að ég held, að ég fari rétt með, að það kom meira að segja fram fsp. um það úr þeirri átt, hvort ekki gæti komið til mála að leyfa fólki að velja um, hvort það vildi heldur vísitölubindingar samninginn eða gömlu samningana með hærri vöxtum.

Þá sagði hv. 12. þm. Reykv., að menn ættu að standa líkt að vígi, þó að vísitölubundin væru lánin, vegna þess að nú væri tekin upp kaupgjaldsvísitala eða vísitala á kaupgjald. Þetta er rétt, það sem það nær. En eins og ég sagði áðan, þá er engin trygging fyrir því, að kaupgjaldsvísitalan verði alltaf og í öðru lagi eru aðrir aðilar í þjóðfélaginu, sem eru ekki bundnir þessum kjörum, heldur semja upp á það að mega borga í sömu krónutölu. Ég er ekki að segja, að það væri ekki æskilegt að hafa öll lán vísitölutryggð. Fyrst og fremst ætti helzt að hafa allt sparifé tryggt og þá leiðir það af sér, að lán þurfa að vera tryggð á móti. En meðan það er ekki upp tekið, er ekki rétt að setja þessi skilyrði við suma menn, og ég finn ekki betur, en að úr því að húsnæðismálastofnunin ætlar sér að lána á þessu ári helmingnum af þeim, sem byggja, bara helmingnum og binda þá þessum samningum, en hinn helmingurinn sækir lán sín á aðra staði, sem ekki gera þessar kröfur, þá séu viðskiptamenn húsnæðismálastofnunarinnar verr leiknir en hinir. En þar sem hún er ríkisstofnun og skv. tilgangi hennar þá finn ég ekki betur, en það sé bein fjarstæða, að þjóðfélagið, sem heldur uppi þessari stofnun, leiki þennan hóp manna þannig.

Nú sagði hæstv. fjmrh. og það var ný upplýsing fyrir mig, að verið væri að athuga það að vísitölubinda öll fjárfestingarlán. (Gripið fram í: Löng lán.) Öll löng lán? Það eru út af fyrir sig fréttir. En það eru ekki nægar fréttir fyrir mig til þess, að ég breyti um skoðun á því, að það eigi ekki að vísitölubinda lánin hjá húsnæðismálastofnuninni nema að því leyti sem svarar til þess vísitölutryggða útlánsfjár, sem hún hefur yfir að ráða og notar til lánastarfseminnar, því að ég tel, að það sé engin ástæða til þess að byrja á þessum aðilum. Ég tek undir það með hv. 9. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, að ég tel, að það sé byrjað á öfugum enda með því og það er til þess að gera svo auðvelt að breyta lögum, að það ætti að mega breyta þessari löggjöf, þegar hin löggjöfin er sett. Ég legg áherzlu á það og ég skil varla í öðru en að menn séu yfirleitt þannig hugsandi, að þeir telji rétt, að það nýja lánakerfi, sem sett verður væntanlega eftir upplýsingum frá hæstv. ráðh., hvernig það mál hefur verið í athugun og að hverju stefnir í því, að þegar það kerfi verður sett, þá gangi það yfir alla samtímis, en húsnæðismálastofnunin eigi ekki að byrja nú þegar.

En það var fleira, en þetta tvennt, sem hv. 12. þm. Reykv. taldi aðeins, að við hefðum gert að aðalatriðum í brtt. okkar minni hl. þm. Við lögðum áherzlu á lánsfjárhæðir. Við í 1. minni hl. viljum hækka lánsfjárhæðina upp í 300 þús. og skírskotum til þess, að það svari til þess ástands, sem var, þegar júní samkomulagið var sett. Það svarar til þeirra viðmiðana, sem þá voru fyrir hendi. Enn fremur viljum við, að vísitala sé notuð á lánsfjárhæð, svo að hún hreyfist með byggingarkostnaði. Þá viljum við enn fremur lengingu lánstímans, því að við teljum fráleitt að hafa skemmri lán en 35 ára lán, þegar um fjárfestingu sem þessa er að ræða og gerum það að einu aðalatriðinu í okkar brtt. En hv. 12. þm. Reykv. hefur ekki athugað þessar till. nægilega. Hann hefur yfirleitt talið sjálfsagt að fylgja því, sem búið var að samþ. hjá hæstv. þingmeirihluta, skilst mér.

Þá benti hann á það, að ef ætti að fara að hækka lánin, þá mundi það ekki leiða annað af sér, en meiri biðröð og lagði ríka áherzlu á, hvað það væri þýðingarmikið að eyða biðröðinni, sem verið hefði. Frá vissu sjónarmiði er það vitanlega rétt: En nú kemur okkur yfirleitt saman um það, að það fé, sem fyrir hendi er til útlána, sé of lágt og það þurfi að stefna að því í framtíðinni að fá meira fé inn í húsnæðislánakerfið. Og ég efast ekki um það, að biðröðin hefur rekið eftir, hún hefur hjálpað húsnæðismálastjórn til þess að leggja áherzlu á kröfur sinar um meira fé til lána. Mér er sem

ég heyri undirtektir ríkisvaldsins við beiðni húsnæðismálastjórnar, þegar hv. formaður húsnæðismálastjórnar tilkynnir um leið: Nú er engin biðröð. — Það er þess vegna bæði kostur og galli af þessum biðröðum. (EggÞ: Það er ekki rétt, ég sagði, að það væri ársbiðröð fyrir utan það.)

Hæstv. félmrh. sagði, að ég hefði gefið villandi upplýsingar um vísitöluhækkun á síðustu árum. Mér skildist á honum, að vísitöluhækkunin síðustu árin hefði verið 11.8% og það væri mjög sambærilegt við tímabil áður. Mér finnst, að í þessu muni vera einhver villa, sem að sjálfsögðu er óviljandi, því að ég sé ekki betur eftir upplýsingum frá Hagstofunni, en að hækkunin frá 1960–61 hafi verið 20 stig, frá 1961–62 21 stig, frá 196–63 9 stig, frá 1963–64 29 og frá 1964–65 26, eða samtals á þessum 5 árum 105 stig. En það má líka skoða þetta í stigunum. Hann tekur inn í þetta dæmi sitt „árið sitt“, sem hann má á vissan hátt grobba af; að þá varð lækkun í vísitölunni um 1 stig, hvað sem það er nú í prósentum. En allt bendir glögglega á það, að hraðinn hafi aukizt og það mjög mikið, frá því að hæstv. félmrh. beitti sér fyrir því sem forsrh., að niðurfærslur áttu sér stað.

Ég vil ekki lengja þessar umræður meira. Það er náttúrlega endalaust hægt að tala um þessi mál. Það er hægt að láta ýmsar tölur tala. Þær segja aldrei allan sannleikann. Þær eru til viðmiðunar, en ég leyfi mér að vænta þess, að þessar till., sem við í 1, minni hl. flytjum, fái góða meðferð hjá öllum þeim, sem gera sér það fullkomlega ljóst, að hér er mikilsvert mál og að hægt er að gera mikið, ef rétt er á haldið og vel notaðir þeir tekjumöguleikar, sem eru hjá þjóðfélaginu og vil ég þar með skírskota til þess, að tekjuöflun ríkissjóðs hefur a.m.k. fjórfaldazt á síðustu árum.

Að lokum vil ég svo geta þess, að ég er mótfallinn 1. till. meiri hl., sem hæstv. ráðh. vill réttlæta, þó að hann viðurkenni hins vegar, að það geti verið spursmál, hvort ekki sé betri staður til og rökréttari fyrir þessa viðbótartillögu heldur en þetta. Ég tel hiklaust, að þessi till. eigi ekki þarna heima. Ég tel það fyrst og fremst af því, að þetta er tekjuöflun, sem gengur í ríkissjóðinn og ríkissjóður skilar, og hann skilar ekki heldur þessari upphæð, því að hún er ekki miðuð við 40 millj. Það er mjög handahófslegt vitanlega að þrefalda undir eignarskatt fasteignir og ómögulegt að segja fyrir fram, hvað það muni gera, vegna þess að það fellur inn í annað eignaframtal hjá gjaldendum. Ég tel það óprýði á löggjöfinni að vera að hengja þennan posa þarna, þar sem á að hengja hann við löggjöfina um húsnæðismálastofnunina. Það minnir mann á þá fjáröflunarmenn í gamla daga, sem söfnuðu í vettlinga, marga vettlinga og geymdu einn á þessum stað og annan á hinum. Ég held, að menn ættu að leggja dálitla áherzlu á það, að löggjöfin sé heilsteypt og rökrétt, en ekki gerð með svona vettlingatökum.