08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ýkjamikið, sem ég þarf að svara þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað. Hv. 9. þm. Reykv. taldi, að það lýsti nokkurri raka fátækt hjá mér, þegar ég hefði drepið á það í ræðu minni hér í gær, þetta orðalag, að ríkisstj. hefði ekki staðið „sem skyldi“ við júní samkomulagið. Mér þykir það bara undarlegt nokkuð, að menn skuli ekki annaðhvort standa við það, sem þeir segja, eða þeir standa ekki við það. Og að standa við eitthvað „sem skyldi“, það hugtak kannast ég varla við. Þess vegna þótti mér það skrýtilega til orða tekið hjá hv. 9. þm. Reykv. En aðalástæðan fyrir því, að hann taldi, að ekki hefði verið staðið við samkomulagið „sem skyldi“, væri sú, að skattarnir s.l. sumar hefðu farið langt fram úr því, sem til hefði verið ætlazt. En ég benti í því sambandi á, að þessir skattar hefðu verið settir samkv. l., sem voru orðin lög, áður en til júní samkomulagsins var gengið, svo að það gekk enginn gruflandi að því. Þetta eru full rök fyrir því, að útsvör og tekjuskattur og eignarskattur voru eins og þau voru s.l. sumar. Það vissu allir, að hverju gengið var með það.

En ég stóð nú aðallega upp til þess að svara með nokkrum orðum aths. hv. 3. þm. Norðurl. v., aths. hans um 1. brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 401. Hann taldi í fyrsta lagi, alveg eins og hv. 1. þm. Norðurl. e., að þessi skattlagning, sem hér er gert ráð fyrir, ætti ekki heima í þessu frv., heldur í l. um tekjuskatt og eignarskatt. Ég skýrði frá því í gær við umr. þá, hvers vegna þetta ákvæði hefði verið tekið upp hér og ekki beðið eftir að setja það inn í skattal. Það væri til þess að undirstrika, að þetta væri ekki tekjuöflun í ríkissjóðinn, heldur eingöngu tekjuöflun til húsnæðismálastofnunarinnar. Þess vegna var það ákveðið í ríkisstj. að óska eftir því, að þessi till. væri borin fram. Hv. þm. sagði, að um þetta mundu allir lögfræðingar vera sammála og það væri þess vegna tæpast rétt að haga þessu svo í þessu tilfelli. En ég vil aðeins geta þess, að í ríkisstj, eiga nú sæti hvorki meira né minna en fimm ágætir lögfræðingar og sumir, sem gegnt hafa álíka trúnaðarstöðum og þessi hv. þm. gerir nú og ég get upplýst hann um það, að þessir fimm ágætu lögfræðingar allir voru á því að hafa þennan hátt á. Það getur vel skeð, að þeim yfirsjáist, ég dæmi ekki um það, því að ég er ekki löglærður maður, en mér þótti það nokkur styrkur í þessu, að þeir skyldu allir vera á þessu máli.

Þá sagði hv. þm. og það var raunar aðaluppistaðan í hans ræðu, að þessi skattheimta væri þannig, að mönnum væri mismunað eftir því, hvar þeir ættu heima og það er að vissu leyti rétt. Ég gat þess í ræðu minni í gær, að það hefði verið nokkur skoðanamunur uppi um það, hvaða leið skyldi farin til þess að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem hér er um að ræða, þessara 40 millj., sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram til húsnæðismálastofnunarinnar sem óafturkræft framlag. Í júní samkomulaginu var þetta orðað þannig, eins og ég líka lýsti þá, að þetta skyldi tekið annaðhvort með fasteignaskatti eða beint úr ríkissjóði eða á annan hátt. Ástæðan til þess, að horfið var frá því að taka það með fasteignaskatti, var sú, að það var talið, að bæirnir hefðu fengið nokkurs konar hefð á því að nota fasteignaskattinn sem sinn tekjustofn. En þó að hv. 3. þm. Norðurl. v. haldi því fram, að hér sé nánast orðalagsmunur á því, eins og hann sagði, hvort um fasteignaskatt er að ræða eða hvort fasteignirnar séu þrefaldaðar í mati, er það vissulega ekki svo, því að fasteignaskattur er tekinn af fasteigninni, hvort sem á henni hvíla nokkrar skuldir eða ekki. En þegar maður á nýbyggt hús, sem í fasteignamati er metið svo og svo, eru skuldirnar, sem hann hefur orðið að stofna til, kannske í flestum tilfellum miklu hærri, en þrefalt fasteignamat, þannig að hann losnar við að greiða þetta gjald. Og þeir einir koma til með að gera það, sem eiga fasteign og skulda ekki meira en svo, að þeir eiga nokkrar eignir umfram skuldir, því að þetta er eignarskattur, en ekki fasteignaskattur, þó að inn í þennan eignarskatt gangi þetta þrefalda mat á fasteigninni. Ég vil þess vegna alls ekki gera lítið úr þeim efnismun, sem er á því að taka þetta sem beinan fasteignaskatt eða taka það á þann hátt, sem hér er ráð fyrir gert.

Þriðja mótbára hv. þm. var svo sú, að það væri mjög hæpin ráðstöfun að leggja þessa kvöð á fasteignir nokkurra landsmanna, en ekki allra. Það, sem á bak við þetta liggur, er það, að það er ekki gert ráð fyrir að leggja þennan skatt á aðra en þá, sem eiga aðgang að húsnæðismálastjórn til þess að fá lán þar. Þá, sem eru ekki þess megnugir eða hafa ekki aðstöðu til þess að fá lán hjá húsnæðismálastjórn, tel ég rangt að skattleggja til húsnæðismálastjórnar. Ég tek sem dæmi launaskattinn. Þegar launaskatturinn var lagður á, stendur í 2. gr. þeirra l., með leyfi hæstv. forseta:

„Skattskyldir samkv. l. þessum eru allir launagreiðendur, svo og einstaklingar, félög, sjóðir og stofnanir, sveitarfélög og stofnanir þeirra, ríkissjóður og ríkisstofnanir, erlendir verktakar“ o.s.frv. En í niðurlagi gr. segir: „Undanþegin skattskyldu eru laun eða þóknanir fyrir störf við landbúnað, jafnt vinna bóndans sjálfs og þeirra, sem hann greiðir laun.“

Um þetta mál, sem hér liggur fyrir, gilda sömu rök. Það er ekki ætlazt til, að þeir séu skattlagðir í þessu skyni, sem ekki njóta þess eða geta notið þess að fá lán hjá húsnæðismálastjórn. Og það geta ekki þeir, sem í sveit búa. Þeir eiga annan sjóð, sem þeir þurfa að efla til þess að geta fengið úr honum lán til sinna þarfa. Og það kæmi mér ekki á óvart, að það yrði ákveðin einhver ráðstöfun til þess að skattleggja þá menn, sem í sveitinni búa og eru undanþegnir þessum skatti hér. Það kæmi mér ekki á óvart, að þeir yrðu einnig skattlagðir í einhverju formi til þess að styrkja byggingarsjóð sveitanna. Ég held þess vegna, að þetta sé á engan hátt óeðlilegt eða rangt, að mismuna þessum mönnum nokkuð eftir því, hvort þeir eiga möguleika til þess að fá lán úr sjóðnum eða ekki. Það hefur verið gert, fordæmið er í l. um launaskattinn, sem hv. Alþ. er nú nýbúið að samþykkja og hugsunin í þessari brtt., sem hv. meiri hl. heilbr.– og félmn. hefur hér borið fram að tilmælum ríkisstj., gengur í sömu átt. Hins vegar kann vel að vera, að það hafi mátt finna á þessu eitthvert betra orðalag, en þó er það mjög vitur og góður lögfræðingur, sem greinina samdi og hefur ekki verið frýjað vits í þessum efnum af neinum. En ég hef engan veginn á móti því, að þetta verði tekið til athugunar á milli umr., ef það þykir henta. Ég legg það alveg á vald hv. n., hvort hún vill gera það eða ekki. En efnislega tel ég, að hugsunin, sem á bak við þessi ákvæði felst, sé rétt og eðlileg og sjálfsögð.

Mér þykir gott, að hv. 6. þm. Sunnl. hefur tekið sina till. um stúdentagarðana aftur til 3. umr., þannig að hana megi athuga á milli umr. Ég hafði sjálfur hugsað mér að óska eftir því við hann, ef hann hefði ekki gert það sjálfur, en það liggur nú fyrir.

Ef sem sagt hv. heilbr.- og félmn. þykir rétt að athuga betur orðalagið á þessari 1. brtt. sinni á þskj. 401, vil ég siður en svo hafa á móti því, ef hún vill gera það á milli umr.