13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Eftir 2. umr. þessa máls hefur heilbr.- og félmn. komið saman og athugað málið nánar. Niðurstaðan af því er sú, að meiri hl. n. hefur lagt fram brtt. á þskj. 478. Jafnframt hefur meiri hl. n. tekið aftur 1. brtt. á þskj. 401, sem áður var tekin aftur til 3. umr.

1. brtt., sem meiri hl. heilbr.- og félmn. gerir, er við 4. gr. frv., 4. mgr., b-lið og meiri hl. n. leggur til, að þessi liður orðist svo:

„Framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 40 millj. kr. Til þess að mæta þessum útgjöldum skal miða eignarskatt við gildandi fasteignamat þrefaldað. Ákvæði þetta gildir þó ekki um bújarðir í sveitum með tilheyrandi íbúðar- og peningshúsum og öðrum mannvirkjum.“

Breytingin á þessari till. frá þeirri till., sem tekin hefur verið aftur, er fólgin í því, að ákvæðin um þreföldun fasteignamats gildi ekki fyrir þá skattgreiðendur, sem eiga lögheimili á sveitabæjum, heldur að ákvæðið gildi um bújarðir í sveitum með tilheyrandi íbúðar- og peningshúsum og öðrum mannvirkjum, þ.e.a.s. að undanþáguákvæðið er ekki miðað við lögheimili skattgreiðenda, heldur við eignirnar, sem um er að ræða. Og undanþágan á við bújarðir í sveitum með tilheyrandi íbúðar- og peningshúsum og öðrum mannvirkjum, þ.e.a.s. þeim mannvirkjum, sem tilheyra sjálfum búrekstrinum.

Þá er 2. brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. við 4. gr., 4. mgr., c-lið. Það er lagt til, að þessi liður orðist svo:

„1% álag, er innheimta skal aukalega, á tekju– og eignarskatt og 1/2 % á aðflutningsgjöld samkv. tollskrá.“

Breytingin er fólgin í því, að felld eru niður á eftir „tekju– og eignarskatti“ orðin „og stríðsgróðaskatti.“ Það er gert með tilliti til þess, að við nánari athugun varð n. ljóst, að stríðsgróðaskatturinn hefur verið lagður niður fyrir allmörgum árum og þótti því rétt að leiðrétta þetta.

3. brtt. meiri hl. n. er við 12 gr. frv., en 12. gr. fjallar um framkvæmdaatriði varðandi skyldusparnaðinn. Meiri hl. n. leggur til, að við 1. mgr. 12. gr. bætist nýir málsliðir, svo hljóðandi:

„Kaupgreiðendur skulu krefjast þess, að launþegar færi sönnur á aldur sinn með framvísun nafnskírteinis, hvenær sem ástæða er til, þegar laun eru greidd. Launþegar skulu sýna kaupgreiðendum nafnskírteini, hvenær sem hinir síðarnefndu telja sig þurfa að sjá það vegna fyrirmæla þessarar mgr.

Þetta ákvæði er til komið með tilliti til þess, að Alþ. hefur núna nýlega eða rétt lokið við að samþykkja lög um útgáfu og notkun nafnskírteina. Það þykir eðlilegt, að með tilliti til hinnar nýju löggjafar sé þetta ákvæði sett inn í l. um húsnæðismálastjórn varðandi skyldusparnaðinn.

4. brtt., sem meiri hl. n. gerir, er við 19. gr. Hún er á þá leið, að á eftir orðunum „lög þessi öðlast þegar gildi“ komi: „og fer um álagningu eignarskatts á árinu 1965 samkv. b-lið 4. mgr. 4. gr. þessara laga.“ Þetta er sett til þess að taka af öll tvímæli um það, að ákvæðin um þreföldun fasteignamats verði gildandi við álagningu eignarskatts þegar á þessu ári.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. heilbr.- og félmn hefur lagt fram á þskj. 478. N. hefur á milli umr. einnig tekið til meðferðar brtt. þá, sem er á þskj. 436 frá þeim Helga Bergs og Ólafi Jóhannessyni. Hún er á þá leið, að heimilað sé að veita íbúðarlán til stjórnar stúdentagarðanna til byggingar íbúða fyrir kvænta háskólanema, þ.e.a.s. að ákvæði um þetta verði bætt inn, þar sem kveðið er á um það, að heimilt sé að lána sveitarfélögum og Öryrkjabandalagi Íslands lán til þess að byggja leiguíbúðir. N. þótti, að hér væri. um merkilegt mál að ræða, en meiri hl. n. treysti sér ekki til að mæla með því, að þessi till. verði samþ., vegna þess að ef við færum út á þessa braut yrði of mikið dreift því átaki, sem byggingarsjóði ríkisins er ætlað að gera í lánamálum til íbúðabygginga. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því, að hér er hreyft merkilegu máli, sem vafalaust er full þörf á að leysa. En meiri hl. n. telur, að það sé eðlilegt, að það sé gert með öðrum hætti, en að lögfesta þetta í þessum lögum.