13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég verð að lýsa bæði vonbrigðum mínum og raunar einnig undrun á afgreiðslu hv. heilbr.- og félmn. á till. minni og hv. 3. þm. Norðurl. v. á þskj. 436.

Þær undirtektir, sem þessi till. fékk við 2. umr. þessa máls, höfðu gefið mér vonir um það, að hún mundi geta fengið aðra afgreiðslu í n. en raun er á orðin. Hæstv. félmrh. lét þau orð falla við 2. umr., að það væri ástæða til þess að athuga þessa till. vandlega í n. og það gaf mér vissulega ástæðu til þess að ætla, að n. mundi taka undir hana á jákvæðari hátt en raun ber vitni.

Hv. frsm. segir að vísu, að hér sé um merkilegt mál að ræða, en n. treystir sér ekki til þess að mæla með því, vegna þess að ef farið er út á þessa braut, væri dreift því átaki, sem verið væri að gera í húsnæðismálum. Svona röksemdafærslu skil ég ekki. Ég hélt, að það átak, sem væri verið að gera í húsnæðismálum, væri til þess að byggja íbúðir og ég sé ekki, að þær íbúðir séu minna virði fyrir þjóðfélagið, sem byggðar eru til þess að láta ung hjón, sem nema við Háskóla Íslands, búa í þeim, heldur en hverjar aðrar íbúðir, sem byggðar eru í landinu. Þeir aðilar, sem í slíkum íbúðum búa, mundu ekki taka upp aðrar íbúðir á meðan og þessar íbúðir eru nákvæmlega jafnnauðsynlegar og nákvæmlega jafnmikill þáttur í úrlausn húsnæðismálanna í landinu eins og hverjar íbúðir aðrar. Þess vegna er þessi röksemd, sem þarna var fram borin, auðvitað einskis verð.

Ég vil þess vegna skora á hv. þdm. að samþykkja þessa till. eigi að síður þrátt fyrir þessar undirtektir, sem eru ekki þess eðlis, að ástæða sé til þess að taka þær hátíðlega, eins og ég hef reynt að gera grein fyrir.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að hv. frsm. heilbr.- og félmn. lýsti því yfir, að hann teldi eðlilegt að leysa þennan vanda, ef þessi till. verður felld, á annan veg og fari svo, að þessi till. verði felld, mun verða eftir því gengið, að hv. formaður n. standi við það og fylgzt með því, á hvern hátt hann leggur til, að þessi vandi verður leystur.