20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um húsnæðismálastofnun ríkisins er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. með lítils háttar breytingum; sem nú hafa verið prentaðar á þskj. 484.

Húsnæðismálastofnun ríkisins og húsnæðismálin yfirleitt hafa um mörg undanfarin ár verið til umr. og að segja má nokkurt áhyggjuefni vegna þess, að þau fjárráð, sem fyrir hendi hafa verið til útlána hjá húsnæðismálastjórninni, hafa verið miklu minni en þurft hefði. Lög um húsnæðismálastjórn voru, eins og kunnugt er, samin og sett árið 1955, að ég ætla, og byrjuðu þá smátt og næstu árin þar á eftir voru útlán á íbúð hverja um 70 þús. kr. einungis, þó að gert væri ráð fyrir í þágildandi l., að sú upphæð mætti fara upp í 100 þús. Síðar var svo þessu ákvæði breytt og heimilað, að lánin mættu verða allt að 150 þús. kr. og það hafa þau verið allt til þessa. Enn var ríkisstj. ljóst, að þetta var of lág upphæð og betur mátti, ef duga skyldi og þess vegna hefur nú að undanförnu verið að því unnið að reyna að auka fé til þessarar starfsemi. Ég get í því sambandi nefnt, að fyrir skömmu var skyldusparnaðurinn hækkaður úr 6% og upp í 15%, sem ætti mjög að geta aukið það fé, sem húsnæðismálastofnunin hefur til ráðstöfunar, enda hefur það sýnt sig á því rúmlega hálfa ári, sem þetta ákvæði hefur verið í gildi, að það fé, sem komið hefur til húsnæðismálastjórnar af skyldusparnaðarfénu, hefur vaxið mjög verulega. Þá voru líka sett lög um, að tryggingafélögum væri skylt að greiða nokkurn hluta af sínu ráðstöfunarfé til kaupa á bréfum húsnæðismálastjórnar og það hefur gefið nokkurt fé, þó að ekki sé það eins mikið og gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. En s.l. sumar eða vor komst nokkur skriður á málið til viðbótar, þegar í samkomulagið, sem þá var gert milli verkalýðsfélaga og atvinnurekendasamtaka og ríkisstj., voru tekin upp ákvæði, sem miðuðu að því að auka fjármagn það, sem húsnæðismálastjórn hefði til umráða. Ég held, að það sé glöggast, að ég – með leyfi hæstv. forseta – lesi hér upp það, sem í þessu samkomulagi segir um þetta efni, en það er svo hljóðandi:

„1) Að aflað verði á þessu ári (þ.e. á árinu 1964) og fyrri hluta næsta árs 250 millj. kr. til þess að mæta þeim umsóknum, sem lágu óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn 1. apríl s.l. Húsnæðismálastjórn ákveður upphæðir þessara lána og setur reglur um uppgjör fyrri skuldbindinga sinna.

2) Að frá og með árinu 1965 verði komið á kerfisbreytingum í íbúðalánum, þannig að tryggt verði fjármagn til þess að veita lán til ákveðinnar tölu íbúða á ári, og verði loforð fyrir lánunum veitt fyrir fram. Fyrstu árin verði þessi lán ekki færri en 750 og lánsfjárhæð út á hverja íbúð ekki lægri en 280 þús. kr. eða 2/3 kostnaðar, hvort sem lægra er. Lánin greiðist að hálfu að hausti, en að hálfu næsta vor. Þessi tala sé við það miðuð, að tryggð verði bygging 1.500 íbúða á ári, er síðan fari smáhækkandi í samræmi við áætlanir um þörf fyrir nýjar íbúðir. Telji húsnæðismálastjórn það æskilegt, getur hím fækkað lánum á árinu 1965 samkv. nýja kerfinu, enda bætist þá samsvarandi upphæð við það fé, sem til ráðstöfunar verður samkv. lið 1 hér að framan (þ.e.a.s. til þeirra, sem eftir áttu að fá lán, en áður höfðu sótt um).

3) Hluta þess fjár, sem byggingarsjóður hefur til umráða, verði varið til viðbótarlána umfram þær 280 þús. kr. á íbúð, sem að framan getur, til þess að greiða fyrir íbúðabyggingum efnalitilla meðlima verkalýðsfélaga. Húsnæðismálastjórn ákveður lán þessi að fengnum till. frá stjórn þess verkalýðsfélags, sem í hlut á. Í þessu skyni skal varið 15–20 millj. kr. árlega.

4) Að jafnframt mun ríkisstj. beita sér fyrir öflun lánsfjár til byggingar verkamannabústaða.“

Síðan segir áfram í þessu samkomulagi: „Eftirfarandi atriði eru forsendur fyrir því, að ríkisstj. taki á sig skuldbindingar þær, sem að ofan getur:

Lagður verði á launagreiðendur almennur launaskattur að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum en tekjum af landbúnaði, renni skatturinn til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag. Til viðbótar við launaskattinn og það eigið fé, sem byggingarsjóður ræður yfir, mun ríkisstj. tryggja honum 40 millj. kr. nýtt stofnframlag á ári með framlagi úr ríkissjóði, álagningu nýs skatts á fasteignir eða með öðrum hætti. Svo verði frá gengið, að ríkisframlag til atvinnuleysistryggingasjóðs renni árlega til kaupa á íbúðalánabréfum hins almenna veðlánakerfis. Komið verði á nýju kerfi íbúðalána fyrir lífeyrissjóðina til samræmis við þær reglur, sem gilda um lán húsnæðismálastjórnar. Til þess að aðgerðir þessar nái tilgangi sínum og hið nýja veðlánakerfi geti byggt sig upp með öruggum hætti og hægt verði að lækka vexti og haga lánskjörum í samræmi við greiðslugetu alþýðufjölskyldna, verði tekin upp vísitölubinding á öllum íbúðalánum. Er þá gert ráð fyrir því, að lánskjör á íbúðalánum verði þannig, að lánin verði afborgunarlaus í eitt ár og greiðist síðan á 25 árum með 4% vöxtum og jöfnum ársgreiðslum vaxta og afborgana og full vísitöluuppbót reiknist síðan á hverja ársgreiðslu.”

Þetta er það samkomulag, sem gert var milli þessara þriggja aðila, sem ég nefndi, Alþýðusambandsins, atvinnurekendasamtakanna og ríkisstj., þar sem lagðar voru línurnar um þessi mál, eins og ég nú hef rakið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur að geyma nýmæli þau, sem í samkomulaginu felast og til viðbótar hefur sá háttur verið tekinn upp, að l. eru „kódífseruð,“ þau eru prentuð upp í einu lagi eins og þau eru nú með öllum þeim breytingum, sem á þeim hafa verið gerðar á fyrri árum, sem eru margar og erfitt er að finna út úr, nema þær séu hafðar allar á einum stað og þess vegna bezt komnar í þessu frv. ásamt með þeim breytingum, sem nú er lagt til að gerðar séu. Þær breytingar, sem nú er lagt til, að gerðar verði í samræmi við júní samkomulagið, eru þessar helztar:

Í fyrsta lagi, að auknar verði árlegar tekjur byggingarsjóðs ríkisins með því að leggja á almennan launaskatt, sem renni í sjóðinn, en um það hafa áður verið gefin út brbl., sem hafa hlotið staðfestingu og þessi tekjuöflun er þegar í fullum gangi.

2. Lagt er til, að ríkissjóður greiði árlega framlag til byggingarsjóðsins að fjárhæð 40 millj. kr. Þegar frv. var flutt, var ekki enn þá lokið við að athuga, á hvern hátt tekna í þessu skyni skyldi aflað og stóð það þess vegna opið, þegar frv. var flutt. Nú hefur við meðferð málsins í hv. Ed. verið frá þessu gengið á þann hátt, að til þess að mæta þessum útgjöldum verði eignarskattur miðaður við gildandi fasteignamat þrefaldað. Ákvæði þetta gildir þó ekki um bújarðir í sveitum með tilheyrandi íbúðar– og peningshúsum og öðrum mannvirkjum. Það er ekki fullvist, hvað þessi hækkun á fasteignamati muni gefa ríkissjóði í auknar tekjur á móti þessum 40 millj., en talið er líklegt, að það verði heldur minna, en þessar 40 millj. eða a.m.k. ekki að ráði meira og verður það að ráðast, hvað út úr því dæmi kemur. En fyrir fram er ákaflega erfitt um þetta að segja og eiginlega ógerningur, vegna þess að lán hvíla svo misjafnlega mikil á byggingum eða fasteignum og koma þau vitanlega til frádráttar við útreikning eignarskatts, þó að þau komi ekki til frádráttar, ef gjaldið hefði verið lagt á sem hreinn fasteignaskattur. En það þótti eðlilegra og réttlátara að fara heldur þessa leið, þannig að tekið yrði tillit til þeirra skulda, sem á fasteignunum hvíla, heldur en að leggja þessa upphæð sem fast gjald á fasteignirnar sjálfar án tillits til þess, hvort nokkur lán hvíldu á þeim eða ekki.

Þetta eru tvær meginbreytingarnar, sem nú koma til framkvæmda með þessu frv., ef að lögum verður, þ.e.a.s. þetta 40 millj. kr. framlag ríkissjóðs og launaskatturinn, sem ætlað var að gæfi 50 millj. kr. á ári, en mun sennilega gefa verulega meira, þannig að húsnæðismálastjórn fær í þessum tveim tekjustofnum aukningu á eigin fé sínu á ári, sem nemur sennilega upp undir 100 millj. kr. Þetta er lang mesti styrkur við starfsemi húsnæðismálastjórnar, sem nokkru sinni hefur verið veittur og náttúrlega miklu notadrýgri fyrir stofnunina heldur en hitt, þó að hægt hafi verið að útvega frá ári til árs lán, sem þá hefur þurft vitanlega að endurgreiða og þess vegna verið um leið nokkur gjaldabyrði fyrir húsnæðismálastjórnina, sem þetta verður ekki. Þessi aukning á eigin fé húsnæðismálastjórnarinnar tel ég vera það þýðingarmesta, sem í þessu frv. felst.

Í öðru lagi er lagt til í frv., að heimild veðdeildar Landsbanka Íslands til útgáfu bankavaxabréfa, sem nú er bundin við 150 millj. kr. og 10 ár, verði samkv. þessu frv. hækkuð í 400 millj. og ótímabundin. Það er ljóst, að útgáfa bankavaxtabréfa veðdeildarinnar hlýtur að vaxa og hækka, þegar lánveitingarnar til einstakra íbúða og í heild hækka, eins og hér er gert ráð fyrir.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að festa þann praxis, sem nú um nokkur undanfarin ár hefur tíðkazt, þó að ekki væri lögbundinn, að árlegu framlagi ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga verði varið til kaupa á vaxtabréfum veðdeildarinnar, sem að vísu hefur verið gert, eins og ég sagði, nú að undanförnu, en í frv. er þetta lögboðið. Og þetta verður sjálfsagt einn stærsti og hefur verið einn stærsti lántökumöguleiki, sem húsnæðismálastjórnin hefur til viðbótar við sitt eigið fé.

Þá er lagt til í frv., að heimilað verði að setja það skilyrði fyrir láni, að bygging sé ekki hafin, áður en loforð fyrir láni er gefið, og gert þá ráð fyrir, að byggingarnar verði ekki hafnar eða ekki byrjað á þeim, fyrr en búið er að kanna umsóknir og gefa loforð.

Þá er nýmæli, sem segir, að heimilað verði að veita sveitarfélögum lán til byggingar á leiguíbúðum. Þetta atriði var ekki í samkomulaginu á milli aðilanna að júní samkomulaginu, sem ég nefndi áðan, heldur er þetta nýtt atriði, sem sett var inn að tilhlutan félmrn. til þess að freista þess, hvort sveitarfélögin vilji ekki taka að sér að byggja leiguíbúðir, kannske tiltölulega smáar íbúðir, sem geta verið nokkurs konar bráðabirgðahúsnæði fyrir fólk, sem hefur ekki í þann svipinn efni á því að byggja sjálft, en þar sem það getur dvalizt við sæmileg skilyrði, þangað til það getur hafið eigin byggingarstarfsemi. Ég held, að þetta sé mjög þýðingarmikið atriði, ef vel tekst til um framkvæmd þess og sjálfsagt að húsnæðismálastjórn verði heimilað að veita þeim sveitarfélögum, sem út í þetta fara, lán til þeirrar starfsemi.

Þá er gert ráð fyrir, að einstök lán verði hækkuð úr 150 þús. kr. og upp í 280 þús. kr. Raunverulega var þó ætlunin að hafa þessa upphæð hærri, eða 300 þús. kr., en það varð úr, að upphæðin var lækkuð úr 300 þús. og niður í 280, til þess að það, sem út af stæði, eða 20 þús. kr. á íbúð, sem á 750 íbúðir gerir 15 millj., yrði þá notað til þess að hækka lánveitingar til þeirra, sem erfiðast eiga og mest lánsfé þurfa. Raunverulega er þetta því ekki 280 þús. kr. á íbúð, heldur eru það 300 þús. kr. á íbúð að meðaltali, þegar tekið er tillit til þessa aukalánsfjár, sem aflað var með því að lækka almennu lánveitingarnar niður í 280 þús. Þessar 280 þús. kr. lánveitingar, þó að maður miði eingöngu við þá upphæð, eru mjög mikil aukning frá því, sem verið hefur, en lánsfjárhæðin á íbúð hefur, eins og kunnugt er, verið 150 þús. kr. upp á síðkastið, var þar áður 100 þús. og enn áður 70 þús. kr. á íbúð.

Þá er lagt til, að lánskjörunum verði breytt þannig, að lánin verði til 26 ára, afborgunarlaus í eitt ár, en síðan greiðist þau upp á 25 árum með 4% ársvöxtum og jöfnum ársgreiðslum, þannig að saman verði lagðir vextir og afborgun í jöfnum ársgreiðslum í 25 ár. Og enn fremur breytist hver ársgreiðsla samkv. vísitölu, sem í fyrstu var gert ráð fyrir, að væri vísitala framfærslukostnaðar, en var í meðförum í Ed. breytt í kaupgreiðsluvísitölu samkv. ósk, að ég ætla, Alþýðusambandsfulltrúanna, sem töldu það réttlátara og ég er alveg sammála um að sé, því að ef kaupgreiðsluvísitala og vísitala á greiðslur af byggingarlánunum eru þær sömu, stendur lántakandinn svipað að vígi, þó að vísitalan hækki.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að þeir, sem með frjálsum innlögum í innlánsdeild greiði 10 þús. kr. á ári í 10 ár, þ.e. 100 þús. kr. í allt, eigi rétt á að fá lán sin hækkuð um 25%. Það er sami réttur og skyldusparnaðarfólkið hefur.

Loks er sú breyting gerð, að framlagið til heilsuspillandi íbúða, sem ríkissjóður greiðir á móti sveitarfélögunum, verði bundið því framlagi, sem veitt er á fjárl. hverju sinni.

Þetta eru aðalbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir í frv. Undir meðferð málsins í Ed. komu fram, eins og ég sagði, nokkrar breytingar, þ.e.a.s. þar var sett inn ákvæði um, hvernig þessara 40 millj. kr., sem ríkissjóður á að leggja fram, yrði aflað. Þar var líka breytt ákvæðinu um það, að vísitala framfærslukostnaðar skyldi gilda, yfir í það að miða við kaupgreiðsluvísitölu. Loks var þar líka bætt við, að Öryrkjabandalagi Íslands yrði heimilað að taka lán hjá húsnæðismálastjórn til byggingar leiguíbúða á svipaðan hátt og sveitarfélögum. Það er enginn vafi á því, að það er eitt mesta áhugamál Öryrkjabandalagsins að leitast við að hjálpa meðlimum sínum um húsnæði og þessi breyting var gerð samkv. eindreginni ósk frá þeim.

Aðrar breytingar, sem gerðar voru í hv. Ed. og þýðingu hafa, tel ég ekki að þurfi að nefna. Með því að rekja þessar breytingar, sem gerðar hafa verið, bæði eins og þær komu fram í júní samkomulaginu svokallaða og eins og þær koma fram í frv. ríkisstj., hefur efni þessara breytinga verið rakið svo, að ég tel ekki þurfa að fara í hverja grein, því að þær eru ýmist teknar upp úr gömlu l. með þeim breytingum, sem áður hafa verið á gerðar, eða inn hafa verið færðar þessar breytingar, sem ég nú hef getið.

Ég vil leggja á það áherzlu, að ég tel, að með þessu frv. og þeim till., sem í því felast, hafi verið staðið við að fullu það samkomulag, sem gert var við Alþýðusambandið í júní samkomulaginu og það lítið, sem bætt hefur verið við það nú, sé þó heldur til bóta, eins og byrjun á byggingu leiguíbúða, bæði hjá sveitarfélögunum og hjá Öryrkjabandalaginu, sem húsnæðismálastjórn er heimilað að lána fé til og sé það allt í rétta átt, þó að út af fyrir sig megi e.t.v. segja, að enn sé ekki nógu langt gengið til þess að aðstoða þá menn, sem í byggingum standa. En hitt vil ég þó fullyrða, að með þessu frv. er mjög verulega bætt úr því ástandi, sem nú er, og ég mun einnig telja, að með þessum ráðstöfunum og þessum lánsfjárupphæðum, sem ætlaðar eru til íbúðabygginganna nú, sé aðstaða þeirra, sem byggja, betri en hún hefur verið nokkru sinni áður, frá því að þessi lög voru sett 1955.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.