20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þurfti ekki upplýsingar frá hæstv. ráðh, um það, að heimilt væri að breyta vaxtakjörum á íbúðalánunum. Mér var það kunnugt og ég spurði ekki um það. En ég spurði um það, hvar væri heimild í l. til þess að hafa öll lánin vísitölubundin. Og hæstv. ráðh. hefur ekki svarað því enn þá. Í 6. gr. l. um húsnæðismálastofnun o. s. frv. frá 1957 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lán til hverrar íbúðar skal vera í tvennu lagi, A- og B-lán. Skulu þeir, sem fengið hafa A-lán hjá bönkum, sparisjóðum eða öðrum, sem taldir eru í C-lið 5. gr. þessara l., eiga rétt á B-láni, sem má vera allt að því jafnhátt, enda sé A-lánið að öllu leyti veitt í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar og það staðfest af henni.“

Þarna segir, að lánin skuli vera í tvennu lagi, A- og B-lán og eins og hæstv. ráðh. las upp, A-lánin skulu vera jafngreiðslulán með 7% ársvöxtum til allt að 25 ára, B-lánin skulu vera með 51/2 % ársvöxtum og jöfnum afborgunum til allt að 15 ára, en að öðru leyti með hliðstæðum kjörum og vísitölubundnu verðbréfin. Þarna finnst mér það koma greinilega fram, að það er ekki heimilt að vísitölubinda A-lánin, heldur aðeins B-lánin. Og þannig var þetta framkvæmt allt þar til á miðju ári 1964. Þar sem hæstv. ráðh, hefur ekki svarað þessu, hvar væri lagastafur, sem veitti heimild til þess að binda öll lánin við vísitölu, verð ég að líta svo á, að l. hafi verið brotin. Ég verð að lita svo á, þangað til ég fæ upplýsingar, sem sýna annað. Ég fæ ekki betur séð en þarna hafi verið framkvæmdur hlutur, sem ekki átti að gera samkv. gildandi l., að vísitölubinda lánin að öllu leyti.