20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt, að það stendur í 6. gr., hvernig útlánum skuli hagað og hvaða vextir skuli teknir, hvað skuli tekið með vísitölutryggingu og hvað skuli tekið með vöxtum á venjulegan hátt. Þetta allt eru vaxtakjör. Það eru vaxtakjör, hvort lánið er veitt með vísitölubindingu eða hvort það er ekki veitt með vísitölubindingu og það eru vaxtakjör, hvort prósentan á að vera 7%, 71/2 % eða 4%. Það er líka, hvort lánstíminn skuli vera langur og allt þess háttar, en um allt þetta telur rn. og þetta var margrætt í rn., að heimildin í F-lið gr. gildi, þ.e.a.s. að húsnæðismálastjórn sé heimilt að breyta vaxtakjörum og lánstíma á nýjum lánum, að fengnu samþykki ríkisstj. Þetta er talið af bæði mér og öðrum að sé óvefengjanlegt og allt tal hv. þm. um, að lög séu brotin, alveg út í hött.