30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá meiri hl. heilbr.- og félmn. og frá báðum minni hlutum n., hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Þó hygg ég, að óhætt sé að segja, að allir nm. vilji mæla með samþykkt frv., svo langt sem það nær, þrátt fyrir það að hv. fulltrúar minnihlutaflokkanna leggi til fáeinar breytingar við frv.

Þetta mál var lengi til meðferðar í hv. Ed. og var rætt þar ýtarlega. Ed. gerði á upphaflega frv. nokkrar breytingar. Ég tel ekki fyrir mitt leyti ástæðu til að fara að rifja upp þær umr., sem orðið hafa um þetta mál í Ed., slíkt yrði aðeins endurtekning og tímaeyðsla, eins og háttað er störfum Alþ. nú. Sé ég ekki ástæðu til að fara um málið mörgum orðum.

Ég vil þó aðeins rifja það upp, að úthlutanir húsnæðismálastjórnar til íbúðarlána hafa á árunum 1955–1964 hækkað úr 35 millj. kr. í 160 millj, kr. Það, sem mest hefur skort á, að starfsemi húsnæðismálastjórnar væri fullnægjandi, hefur verið það, að stofnunin hefur ekki haft nógu mikið eigið fé til ráðstöfunar, heldur hefur hún orðið að útvega lánsfé og endurlána það húsbyggjendum.

Á s.l. ári voru gerðar tvennar ráðstafanir til þess að auka eigið fé húsnæðismálastjórnar: í fyrsta lagi með því að hækka skyldusparnað úr 6% í 15% og í öðru lagi með því að ákveða, að hluti af ráðstöfunarfé vátryggingarfélaga skyldi tekinn til kaupa á húsnæðismálastjórnarbréfum. Hvort tveggja þetta hefur orðið til nokkurra bóta, þótt ekki hafi orðið eins mikið úr kaupum vátryggingarfélaganna á verðbréfum húsnæðismálastjórnar og ráð hafði verið fyrir gert.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir og er í aðalatriðum til staðfestingar á júní samkomulaginu frá fyrra ári, eru gerðar nokkrar fleiri ráðstafanir til viðbótar til þess að auka eigið fé stofnunarinnar. Er þar fyrst að geta um 1% launaskatt, sem þegar er kominn til framkvæmda, og 40 millj. kr. nýtt stofnframlag frá ríkissjóði. Enn fremur verður nú ákveðið, ef frv. verður að lögum, að ríkissjóðsframlagið til atvinnuleysistrygginganna skuli ganga til kaupa á bréfum húsnæðismálastjórnar. Þetta hefur að vísu verið framkvæmt áður, en ekki verið lögboðið og því orðið að leita samninga um þetta í hvert sinn. Einnig er gert ráð fyrir í frv., að tekið verði upp nýtt kerfi íbúðalána fyrir lífeyrissjóði, þannig að meiri samræming eigi sér stað á lánveitingum húsnæðismálastjórnar og lífeyrissjóðanna, en áður hefur verið.

Þá er í frv. ákvæði um vísitölubindingu lána, sem er gerð fyrst og fremst í þeim tilgangi, að hægt verði að lækka vexti og rýmka lánskjörin frá því, sem verið hefur. Lánskjörunum er breytt til rýmkunar, þannig að þau verða afborganalaus í eitt ár og lánstími eða réttara sagt greiðslutími lánanna verður 25 ár, þannig að lánstíminn er í raun og veru 26 ár, og vextir verða 4%. Ársgreiðslurnar verða jafnar, þ.e.a.s. svokallaðar annuitetsgreiðslur. Þá er þess einnig að geta, að veðdeild Landsbankans er heimilað að gefa út allt að 400 millj. kr. í vaxtabréfum í stað 150 millj. kr. á ári. Nú verður þessi heimild ekki tímabundin við 10 ár, eins og áður var, heldur ótímabundin.

Ein af þýðingarmestu breytingunum, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að heimild er veitt til að veita sveitarfélögum lán til byggingar á leiguíbúðum.

Þetta, sem ég hef drepið á, eru nokkur helztu nýmælin í þessu frv. Húsnæðismálin hafa verið til umr. á hverju þingi undanfarin ár og mjög ýtarlega rædd, þannig að ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efni frv. Margt af því, sem þar er, er að sjálfsögðu að finna í eldri lögum, sem gilt hafa um þessi efni og hv. alþm. er vel kunnugt um.

Ég vil aðeins að endingu geta þess, að samkv. upplýsingum formanns húsnæðismálastjórnar við umr. í Ed, stóðu mál þannig í lok janúarmánaðar s.l., að um langt skeið höfðu ekki verið færri umsóknir liggjandi óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn en þá. Það má að vísu alltaf segja sem svo, að í þessu efni sé þörf á að gera meira og því neitar enginn. En sá árangur af þeim athugunum, sem fram hafa farið á þessum málum að undanförnu, sem liggur fyrir í þessu frv., er sú niðurstaða, sem menn hafa komizt að varðandi þann áfanga, sem fært væri að fara þessu sinni. En ef að venju lætur, megum við búast við, að þessi mál þurfi aftur að koma til kasta Alþ., áður en langt líður.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til fyrir hönd meiri hl. heilbr.– og félmn., að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það er komið til þessarar hv. deildar frá Ed.