30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimsson):

Herra forseti. Þetta frv. er að efni til fyrst og fremst fullnæging á því samkomulagi, sem gert var í sambandi við launamálauppgjörið í júnímánuði s.l. og hefur hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. gert grein fyrir helztu efnisatriðum frv., þ.e. a, s. þeim nýmælum, sem í því eru fólgin. Breytingarnar og nýmælin, sem þarna var samið um, eru eins og menn sjá, felld inn í húsnæðismálalöggjöfina, sem liggur þá hér fyrir í heild, eins og hún var og verður nú með þessum breytingum.

Þegar frv. kom fram, áttu fulltrúar frá Alþýðusambandinu viðræður við heilbr.- og félmn. Ed. og ræddu við nefndina um möguleika þess, að nokkrar smábreytingar yrðu gerðar á frv., — nokkrar, sem voru í raun og veru nýmæli, en aðrar, sem við töldum betur samrýmast samkomulaginu, sem gert var í júní s.l., en í öllum meginatriðum þræddi frv. þau samningsatriði, sem samkomulag hafði orðið um. Tvær smábreytingar voru gerðar skv. þessum óskum okkar í Ed. og skal ég ekki fjölyrða um það. Þær voru komnar inn í frv., þær breytingar, þegar það kom hingað til hv. Nd.

Eins og frv. er nú, tel ég það vera í samræmi við gert samkomulag og að því leyti hlýt ég sem einn aðili að því samkomulagi að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. og tel nauðsyn á, að það verði gert að lögum á þessu þingi og er mér því fjarri skapi að vilja bera fram nokkrar þær breytingar við þetta frv., sem verða kynnu til þess að bregða fæti fyrir afgreiðslu þess, svo að hún færist fyrir núna undir þinglokin. Því miður er frv. nokkuð seint á ferðinni og valda því sjálfsagt ýmsar ástæður, ef til vill gildar ástæður.

Það var hugmyndin, þegar júní samkomulagið var gert og samkomulagið um húsnæðismálin sem einn liður í því, að tryggðar yrðu um það bil 1.500 íbúðir á ári og fjármagn útvegað til þess, að svo mætti verða og það var talið af fróðustu mönnum, að ef hægt væri að byggja um 1.500 íbúðir á ári, mundi það fullnægja húsnæðisþörfinni, bæði að því er varðaði nýjar íbúðir og íbúðir til viðhalds því íbúðarhúsnæði, sem úr sér gengi og í þriðja lagi íbúðarhúsnæði, sem fullnægði þörfum stækkunar þjóðarinnar árlega. Mig minnir, að menn hugsuðu sér þetta á þá lund, að það væru um 100–150 íbúðir, sem væru byggðar á ári af fjármagnssterkum einstaklingum, sem þyrftu ekki að sækja lánsfé í húsnæðismálakerfið, um 150 íbúðir yrðu byggðar í sveitunum skv. þeim lögum, sem þar um gilda og lífeyrissjóðir landsins mundu hafa veitt lánsfé á undanförnum árum eða hafa getu til þess nú, sem nægði til sams konar lánveitinga til 450 íbúða, þannig að húsnæðismálastofnunin þyrfti að sjá fyrir fjármagni til 750 lána, en það, sem fjármagn kæmi að öðru leyti til í gegnum lífeyrissjóðina og til bygginga í sveitum og framlagt fé af fjársterkum einstaklingum, sem þyrftu á lánsfé að halda, yrði um 750 íbúðir, þannig að þetta yrðu um 1.500 íbúðir.

Nú er það samkv. þessu einn liður í samkomulaginu, að nýtt kerfi sé sett upp, sem geri ráð fyrir jafnháum lánum úr lífeyrissjóðunum og hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins og að lífeyrissjóðs þegarnir fái þannig 280 þús. kr. lán og að þau geti orðið á vegum þeirra ekki færri en um 450. Nú vil ég spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. hafi tekizt að koma þessu lánakerfi á, þannig að öruggt sé, að lífeyrissjóðs þegarnir fái fullkomlega sömu aðstöðu og það fólk, sem lánin á að fá gegnum húsnæðismálakerfið. Ef svo væri ekki, að þarna væri ekki séð fyrir þessu og þetta mál, væri ekki komið í höfn, sem ég hef á tilfinningunni, að hafi verið hæstv. ríkisstj. nokkuð erfitt, gæti svo farið, að lífeyrissjóðsmennirnir yrðu að sækja inn í húsnæðismálakerfið með sínar lánbeiðnir og þannig skerða þann stofn, sem ætlaður var takmarkaðri fjölda og þá mundi þetta jafnvel raska því samkomulagi, sem gert var. En ég vona, að þetta sé komið í höfn eða komist örugglega í höfn, svo að til þessa þurfi ekki að koma. Um þetta vona ég að fá svar hæstv. ráðh. eða þeirra, sem þar um vita, hvernig það mál standi.

Það var um það samið á vordögum í fyrra, að lánsupphæð til íbúðar yrði eigi lægri, en 280 þús. kr., í staðinn fyrir að lánshámarkið var 150 þús. áður. Þetta þótti þá nokkuð veruleg bót. Og enn fremur var um það samið, að 15–20 millj. kr. kæmu til viðbótar lánum fyrir efnaminni einstaklinga innan verkalýðsfélaganna, svo að þeirra lán gætu e.t.v. orðið með allt að 50 þús. kr. viðbótarláni upp í 330 þús. kr. Síðan í fyrra hafa þessar umsömdu upphæðir skerzt, en hinu er ekki að neita, að við sömdum um krónutölu og telja fróðir menn, að nú sé meðalíbúðin orðin a.m.k. allt að 70 þús. kr. dýrari, en hún var á sama tíma í fyrra. Ég tel, að það sé hægt að halda því fram, að það sé andi samkomulagsins, að nú, þegar gengið er frá löggjöfinni, sem á að lögfesta innihald þess samkomulags, sem gert var, verði sett inn tala um lánsupphæðina, sem jafngildi, hefði sama verðgildi og sú tala, sem við sömdum um í fyrravor, þá 280 þús. kr. Ég mundi því segja, að núna ætti að setja inn þá tölu í frv., sem væri jafn margir hundraðshlutar af byggingarkostnaði meðalíbúðar og 280 þús. kr. námu s. 1, vor, þannig að raungildi tölunnar væri óbreytt. Þetta teldi ég nánast ekki breytingu á frv., heldur viðleitni Alþ. til þess að láta það standa í fullu gildi, sem um var samið s.l. vor.

Það er af þessum ástæðum, sem ég flyt brtt., sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, og er prentuð á þskj. 561. Það er til þess ætlazt, að 1. málsl. í B–lið 7. gr. frv. orðist svo: „Lánsupphæðin skal nema allt að 310 þús. kr. á hverja íbúð og breytist upphæðin samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar, eins og hún er á hverjum tíma. Lánsupphæðin má þó ekki nema meira en 3/4 hlutum verðmætis íbúðar skv. mati trúnaðarmanna veðdeildar Landsbankans.“ Þarna er sem sé gert ráð fyrir því, að upphæðin væri nú sem nánast í samræmi við það verðgildi, sem um var samið í fyrravor, og að siðan breytist hún frá ári til árs eftir byggingarvísitölu, þannig að hún héldi sem næst verðmæti sinu áframhaldandi.

Hin breytingin, sem ég legg til að gerð verði á frv. og er eiginlega sama eðlis, er þess efnis, að ákv. til brb. bætist aftan við frv. á þessa leið: „Unz sett hafa verið lög um verðtryggingu lána almennt, er lántakendum heimilt að velja milli lánskjara skv. lögum þessum, sbr. ákvæði C–liðar 7. gr. um ársvexti og vísitölutryggingu og þess, að lánin séu með 71/4 % ársvöxtum og án vísitöluálags.“

Við sömdum vissulega um það, að lánin yrðu með vísitölukvöð. En þá var forsendan sú, að öflugar ráðstafanir yrðu gerðar til stöðvunar verðbólgunni. Nú er liðið eitt ár og maður verður að játa, að illa virðist hafa tekizt að stöðva verðbólguna. Hún hefur ætt fram á síðasta ári með svipuðum hraða og undanfarin ár. Og ef svo yrði á næstu 26 árum, en lánstíminn er í raun og veru 26 ár, mundi fara svo á síðari hluta lánstímans, að vísitölukvöðin væri búin að gera þessi lán mjög óhagstæð og jafnvel óhagstæðari, en lánskjörin voru, þegar við settumst að samningaborði. En það var vitanlega ekki tilgangur aðila, hvorugu megin við borðið, að ég vil fullyrða, að gera lánskjörin óhagstæðari, heldur var það undirstaða viðræðnanna, að samninga kjörunum skyldi breytt þannig, að þau yrðu hagkvæmari og léttbærari húsbyggjendum en áður.

Till. þessi fer einungis fram á það, að ef svo skyldi fara, að verðbólgan umturnaði þessum lánakjörum svo, að þau yrðu óhagstæðari en þau, sem áður giltu, þá mættu lántakendur, áður en þeir taka sitt lán, velja á milli þess, að lánin væru með 4% vöxtum í byrjun og með vísitölukvöð og þannig hækkandi annuitetsgreiðslum, eða þá, að þeir undirgengjust að taka sitt lán með 71/4% vöxtum og án vísitölubindingar. Mér finnst sanngjarnt, að menn megi velja um þetta, af því að það var ætlun beggja aðila, að lánskjörin yrðu hagstæðari og þá, ef menn ættu frjálst val um þetta, hefðu lántakendur ekki neinn annan að sakast við, en sjálfa sig um það, ef þeir hefðu valið hinn verri kostinn. Ég tel því þessa till, líka vera í anda samkomulagsins, sem gert var.

Vissulega hefði verið full þörf á því að flytja margar aðrar brtt. um húsnæðismálin núna, því að þeim var vitanlega ekki komið í höfn í eitt skipti fyrir öll á fullnægjandi hátt með samkomulaginu s.l. vor, þó að ég teldi það samkomulag til mikilla bóta og þá mest varðandi það átak, sem samkomulag fékkst um, að efla fjármagnsstyrk húsnæðismálasjóðsins, byggingarsjóðs ríkisins, því að hann er stórum mun sterkari og verður það í framtíðinni, fyrir þær aðgerðir, sem þarna voru gerðar. Það er í raun og veru höfuðatriði þess samkomulags, sem gert var. Hann fær nú líklega á annað hundrað millj. kr. sem eigið fé á hverju ári og það mun auðvelda sjóðnum að veita, þegar fram í sækir, batnandi kjör.

Lánsupphæðin, þó að hún fari nú úr 150 þús. í 280 og þó að verðbólgan hefði ekki höggvið verulega skarð í þá upphæð, þá er þessi lánsupphæð innan við 40% af byggingarkostnaði í landi okkar. í flestum öðrum löndum eru lánsupphæðirnar um 70–75% upp í 90–95% af byggingarkostnaði. Við eigum því ærið langt í land með að veita þvílíka aðstoð, sem veitt er húsbyggjendum í okkar nágrannalöndum.

Hlutskipti húsbyggjandans, ekki sízt unga fólksins, er mjög erfitt hjá okkur og þjóðfélagið, þó að það hafi gert vafalaust hvað það hefur getað, þá hefur það ekki getað bætt svo úr á því sviði sem skyldi. Og allir vita, að húsnæðiskostnaðurinn hjá okkur er einn mesti dýrtíðarvaldur fólks með venjulegar tekjur. Það hefði þess vegna vissulega þurft að hækka hámark lánanna meira en þetta, sem um var samið, langtum meira. En ég tel ekki rétt, að við, sem áttum aðild að þessu samkomulagi, flytjum breytingar, sem raunverulega breyti innihaldi og efni þess samkomulags, sem gert var. Það eru samningar að hefjast nú á ný um kjaramálin og þar á meðal um húsnæðismál við hæstv. ríkisstj. og það af nýjum umbótum, sem um gæti verið að ræða í þeim efnum, teldi ég rétt að kæmi a.m.k. fyrir okkar tilverknað inn í það samkomulag og verður maður að vona, að eitthvað fáist út úr því.

Þetta er ástæðan til þess, að ég taldi ekki rétt, að ég flytti aðrar brtt. en ég gæti rökstutt, að væru í raun og veru nákvæmlega í anda þess samkomulags, sem gert var og héldu raungildi þess óbreyttu, eins og það var, þegar staðið var upp frá samningaborði. Báðar till. mínar eru í raun og veru þess efnis.

Ég læt svo máli mínu lokið og mæli með samþykkt frv.