30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Lánamál húsbyggjenda eru eitt þeirra mála, sem ég hygg, að hafi verið til umræðu á hv. Alþingi öll þau ár, sem ég hef átt hér setu og stundum margoft á einu og sama þinginu. Þetta er eðlilegt, því að lánamál húsbyggjenda eru eitt af stóru málunum, sem verið hafa efst á baugi í þjóðlífi okkar Íslendinga nú undanfarna áratugi.

Ég hef við þau tækifæri, sem ég hef tekið þátt í umr. um þessi mál, ítrekað, að meginatriði þeirra væri að efla sjálft lánakerfið, þ.e.a.s. byggingarsjóð ríkisins, svo mjög, að hann gæti sinnt þeirri eðlilegu eftirspurn, sem til hans væri gerð á hverju ári um lánsfé.

Ég hef ævinlega litið á það sem mikinn galla við lánakerfið, að byggingarsjóður skuli ekki hafa tryggða árlega, fasta tekjustofna umfram það, sem reynslan hefur sýnt okkur hann búa við á hverjum tíma, því að þetta hefur leitt til þess, að forustumenn byggingarsjóðs ríkisins hafa ár eftir ár orðið að standa í samningum við ýmsar lánastofnanir í landinu og sjálfa ríkisstjórnina til þess að fá bráðabirgðalán til útlána, svo að sjóðurinn gæti leyst úr mestu erfiðleikunum í það og það skiptið.

Þetta öryggisleysi um tekjuöflun og lánamöguleika byggingarsjóðs ríkísins hefur að sjálfsögðu sagt til sín á marga vegu í þjóðfélaginu. M.a. hafa húsbyggjendur, þegar þeir hefja sínar íbúðabyggingar, aldrei getað fengið ákveðin svör um það, hvenær þeir mættu vænta þess að fá hámarkslán afgreidd til sin. Þetta hefur leitt til mikils öryggisleysis í íbúða byggingastarfseminni og skapað húsbyggjendum margan vandann.

Það er rétt að viðurkenna, að á undanförnum árum hafa veruleg átök verið gerð í því að efla eigin tekjur byggingarsjóðs ríkisins. En þrátt fyrir nokkra viðleitni í þessum efnum blasir samt sú sorglega staðreynd við okkur í dag, að af völdum verðbólgu og hækkandi byggingarkostnaðar hafa hinar auknu tekjur byggingasjóðsins ekki gert meira, en að vega upp á móti hækkun byggingarkostnaðar í landinu, þannig að hagur sjálfra húsbyggjendanna hefur ekkert batnað, þrátt fyrir það, að lánin frá byggingarsjóðnum hafi verið hækkuð að undanförnu.

Ég vil ekki, vegna þess, hvað langt er komið störfum þessa þings og vegna þess, hve þessi mál eru margrædd hér á hv. Alþ., eyða miklu lengri tíma til þess að ræða þessi mál almennt. Hins vegar vil ég víkja í stuttu máli að þeim brtt., sem við fulltrúar Framsfl. í heilbr.– og félmn. þessarar hv. deildar flytjum á þskj. 563.

Áður en ég vík að þeim brtt., vil ég þó taka undir það, sem kom fram hjá frsm. meiri hl., að við fulltrúar Framsfl. í nefndinni erum að sjálfsögðu samþykkir frv., svo langt sem það gengur, þó að við höfum talið ástæðu til þess að flytja brtt. þær, sem ég ætla nú að mæla fyrir í stuttu máli.

Fyrsta brtt. okkar er við 7. gr. frv., eins og það liggur fyrir afgreitt frá Ed. Fyrsti breytingarliðurinn er við A–lið 7. gr., þannig, með leyfi hæstv. forseta, að í stað orðanna „eða kaup á nýjum íbúðum eru gerð“ í 1. málsgr. komi: eða afsal vegna kaupa á nýrri íbúð er gefið út.

Breyting þessi felur það í sér, ef samþykkt verður, að í stað þess, eins og frv. gerir ráð fyrir, að kaupandi íbúðar verði að hafa vilyrði eða loforð húsnæðismálastjórnar fyrir láni, áður en hann festir sér íbúð með kaupsamningi, þá skuli vera nægilegt, að hann hafi fengið loforð húsnæðismálastjórnarinnar, áður en afsal er gefið út til hans fyrir íbúðinni.

Þetta er gert vegna þess, að eins og vafalaust allir þm. vita, þá eru kaup á íbúðum oft gerð með litlum fyrirvara og menn festa sér e.t.v. íbúð án þess að hafa nokkurt tækifæri til þess að sækja um lán út á hana hjá húsnæðismálastjórn ríkisins. Skv. frv. á það að þýða, að þeir geti aldrei fengið lán út á slíka íbúð. Sérstaklega er þetta bagalegt fyrir fólk, sem býr fjarri höfuðstöðvum húsnæðismálastjórnarinnar, þ.e.a.s. Reykjavík og kemur sér illa. Við teljum því, að það sé sjálfsagt að gefa þessu fólki frest allt til afsalsdags um að sækja um lán út á íbúðir sínar til húsnæðismálastjórnar.

B–liður brtt. okkar fjallar um það, að ef byggingarfélag, sem nýtur ríkisábyrgðar, hefur sótt um lán til húsnæðismálastjórnar, þá sé skylt að veita slíku félagi bráðabirgðalán, ef ástæður húsnæðismálastjórnar eru þannig, að fjárráð eru til slíkra lánveitinga. Eins og frv. er núna, er hér einungis um heimild að ræða, en við teljum, að breyta eigi því heimildarákvæði í fortakslausa skyldu.

Við 7. gr. flytjum við enn fremur eina brtt. enn þá, þ.e.a.s. að við fyrri málslið 3. málsgr. bætist: og einnig stjórn stúdentagarðanna til byggingar íbúða fyrir kvænta háskólanema. En í 3. málsgr. 7. gr. húsnæðismálafrv. er húsnæðismálastjórn heimilað að veita sveitarfélögum og Öryrkjabandalagi Íslands lán til byggingar á leiguhúsnæði.

Að undanförnu hefur verið uppi í samtökum háskólastúdenta verulega sterk hreyfing fyrir því að byggja svokallaðan hjónagarð. Öllum, sem til þessara mála þekkja eða hafa kynnt sér þau, er Ijós hin brýna nauðsyn, sem til þessa ber. Við viljum því koma til móts við þá baráttumenn þessa máls í háskólanum og utan hans með því að flytja þá brtt., er ég hér var að lýsa og ef samþykkt yrði gæti ráðið úrslitum um það, að hægt væri að ráðast í byggingu hjónagarðs fyrir háskólastúdenta.

Þetta er 1. brtt. ásamt undirliðum, sem við fulltrúar Framsfl. í heilbr.– og félmn. flytjum. 2, brtt. okkar á þskj. 563 er nokkuð löng og sé ég ekki ástæðu til þess að lesa hana alla. Ég ætla aðeins að minnast örfáum orðum á þær breytingar, sem samþykkt hennar mundi hafa í för með sér. Í fyrsta lagi leggjum við til, að hámark íbúðarlánanna verði hækkað úr 280 þús. í 300 þús. kr. Eins og hér hefur komið fram hjá talsmönnum beggja nefndarhluta, sem talað hafa á undan mér, þá er frv. þetta flutt til efndar á samkomulagi, sem gert var á s.l. sumri, í júní mánuði, á milli vinnuveitendafélaganna í landinu og vinnuþiggjendafélaganna og ríkisstj. átti aðild að. Hámark lánanna var þá að sjálfsögðu miðað við það ástand, sem þá ríkti, við þann byggingarkostnað, sem þá var staðreynd. Síðan hefur byggingarkostnaðurinn hækkað mjög verulega með hinni ofboðslegu dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur síðan. Við leggjum því til, að hámarkslánin séu hækkuð til samræmis við þá hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaði, frá því að samkomulagið var gert, um 20 þús. kr.

Þá er önnur efnisbrtt. okkar sú, að frá og með árslokum 1964 skuli hámarkslán frá húsnæðismálastjórn hækka til samræmis við þá hækkun, er verða kann á byggingarvísitölu frá þeim tíma. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt ákvæði og furðulegt, að það skuli ekki hafa verið í lögum húsnæðismálastjórnar undanfarandi ár, ef hafðar eru í huga þær geysilegu verðbreytingar, sem hér hafa orðið í landinu á undanförnum árum og hafa gert það óumflýjanlegt fyrir Alþingi að taka hámarkslána ákvörðunina til endurskoðunar, ég vil ekki segja á hverju ári, en mjög oft a.m.k. Ég tel, að sú hámarkslána ákvörðun, sem við leggjum til að lögfest verði, sé sú allra minnsta, sem hægt sé að leggja til að lögfesta. Og við flm. viljum, að hún hækki til samræmis við þá hækkun, sem verða kann á byggingarkostnaði í framtíðinni.

Þriðja efnisbreytingin, sem þessi brtt. okkar hefur í för með sér, er sú að með henni er lagt til, að allir þeir, sem skilað hafa löglegum umsóknum um íbúðarlán til húsnæðismálastjórnarinnar eftir 1. apríl 1964, skuli eiga þess kost að koma undir þá lánahækkun, sem ákveðin hefur verið.

3. brtt., sem við flytjum, hefur inni að halda þrjár eða jafnvel fjórar efnisbreytingar, í fyrsta lagi er með brtt. lagt til, að áfram skuli haldið að veita A– og B–lán, eins og gert hefur verið til þessa tíma, í stað þess að lána eingöngu svokölluð vísitölulán, eins og frv. gerir ráð fyrir. Við teljum, að það sé í alla staði óeðlilegt og mjög ósanngjarnt gagnvart húsbyggjendum að taka þá út úr, einn hóp manna í landinu og lögákveða, að öll lán til þeirra skuli bundin vísitölu, meðan slík regla er ekki almennt gildandi. En frv. gerir ráð fyrir, að svo verði gert. Við teljum eðlilegt, að sami háttur verði áfram hafður í þessum efnum og verið hefur til þessa, þ.e.a.s. að meginhluti þeirra lána, sem frá húsnæðismálastjórninni eru veitt, sé venjuleg lán með föstum vöxtum og afborgunum til ákveðins tíma og nokkur hluti heildar lánveitinga sjóðsins sé svokölluð vísitölulán. Við teljum eðlilegt að miða þann hluta heildar lánanna, sem bundinn er við vísitölu, við það fjármagn, sem lagt er til þessarar starfsemi og þarf að verðtryggja. Það teljum við, að eðlilegt sé að lána út með vísitölutryggingu, en ekkert umfram það.

Önnur efnisbreytingin er um lengingu lánstímans. Við leggjum til, að lánstíminn, sem ákveðinn er í frv., 25 ár, verði lengdur í 35 ár. Fyrir þeirri brtt. liggja svo augljós rök, að ég tel ástæðulaust að orðlengja um hana.

Þriðja efnisbreytingin er svo sú, að við leggjum til, að vísitala á útlán frá húsbyggingasjóðnum nái aðeins til afborgana af svonefndum B–lánum, en hvorki til vaxta né lántökukostnaðar.

Fjórða efnisbreytingin, sem er smávægileg, er um það, að B–lán megi veita með 1. samhliða veðrétti ásamt með A-lánum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að við fulltrúar Framsfl. erum samþykkir frv., eins langt og það nær, þó að við teljum hins vegar, að ástæða hafi verið til þess fyrir okkur að flytja við það nokkrar brtt., sem ég hef hér verið að lýsa og að okkar álíti eru mjög hóflegar og sanngjarnar og sníða ýmsa vonda agnúa af frv., sem þar er nú að finna.