03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í þessu frv. er það nýmæli, að afborganir og vextir af öllum lánum hjá húsnæðismálastofnuninni eiga hér eftir að breytast með vísitölu. í gildandi l. er hins vegar svo fyrir mælt, að aðeins nokkur hluti lánanna skuli vera vísitölubundinn. Ákvæði um þetta eru í 6. gr. l., sem enn gilda um húsnæðismálastofnunina. Þar segir svo í C–lið gr., með leyfi hæstv. forseta: „Lán til hverrar íbúðar skal vera í tvennu lagi, A– og B–lán.“ Og í E–lið sömu gr. segir enn fremur, að A–lánin skuli vera jafngreiðslulán með 7% ársvöxtum til allt að 25 ára, B–lánin skuli vera með 51/2% ársvöxtum og jöfnum afborgunum til allt að 15 ára, en að öðru leyti með hliðstæðum kjörum og vísitölubundnu verðbréfin. Þarna eru sem sagt fyrirmæli um það, að B– lánin aðeins skuli vera vísitölubundin, en A– lánin ekki. Þannig eru lögin nú. Ég vakti athygli á því við 1. umr. um frv. hér í hv. þd., að þessi laga fyrirmæli hefðu verið brotin árið sem leið, þar sem húsnæðismálastofnunin tók upp þann hátt á miðju ári 1964 að veita eingöngu vísitölubundin lán. Lántakendur hefðu þurft að sameinast um að mótmæla þessum ólöglegu aðförum, en það hafa þeir því miður ekki gert. Margir þeirra hafa verið í fjárhagskröggum vegna bygginganna og metið það mest að fá nokkurt lánsfé til að grynna á skuldum. Hafa þeir þá e.t.v. ekki veitt því athygli, að skuldabréfin, sem þeir undirskrifuðu, voru í ósamræmi við gildandi lög. En það er ósæmilegt af opinberri stofnun að nota sér þannig vandræði manna til þess að leggja á þá meiri kvaðir, en lög leyfa. Úr þessu ætti að bæta með því að breyta lánunum þannig, að þau verði tvenns konar eins og áður, A–lán með hærri vöxtum, en án vísitöluálags og B–lán vísitölubundin.

Eins og áður segir, er ráð fyrir því gert í frv., sem hér liggur fyrir, að framvegis verði öll lánin frá húsnæðismálastofnuninni vísitölubundin. Þetta verður að teljast mjög óeðlilegt, þar sem aðeins nokkur hluti af fjármagni húsnæðismálastofnunarinnar er vísitölutryggður. Þann hluta af fé stofnunarinnar, sem ekki er háður vísitölubreytingum, á vitanlega að lána út án vísitöluálags, eins og áður hefur verið gert. Þær kvaðir, sem hér á að leggja á húseigendur, að hafa lánin til þeirra að öllu leyti vísitölutryggð, eru því ákaflega ósanngjarnar, meðan það fyrirkomulag er ekki upp tekið yfirleitt við lánveitingar. Sagt er, að þessi fyrirmæli í frv. séu í samræmi við oft nefnt júní samkomulag launamanna, atvinnurekenda og ríkisstj. frá í fyrra. Ef svo er, virðist það benda til þess, að þeir mörgu menn, sem þurfa á byggingarlánum að halda, hafi ekki haft örugga málsvara fyrir sig við þá samningagerð.

Hér hefur verið og er skortur á húsnæði, einkum í höfuðstaðnum og sumum öðrum kaupstöðum. Húsin eru ákaflega dýr, dýrari en þau þyrftu að vera, ef skynsamlega væri unnið að byggingu þeirra. Eitt af því, sem hækkar verðið, er gróði einstakra manna, sem hafa það að atvinnu að byggja hús til þess að selja húsnæðislausu fólki. Þeir byggja oft stórhýsi með mörgum íbúðum, sem þeir selja hálfsmíðaðar með miklum ágóða fyrir sig. Eftirspurnin eftir nýjum íbúðum er mikil og við það skapast þessum mönnum tækifæri til að græða fé á húsbyggingum. Ríkisstj. hæstv. og flokkar hennar halda uppi svonefndu verðlagseftirliti. Hér er sem sagt opinbert verðlagseftirlit og sérstök stofnun til að annast það, sjálfsagt með ærnum kostnaði, en trúlega til lítils gagns. Engar fréttir hafa borizt af því, að sú stofnun hafi komið við sögu hjá þeim mönnum, sem safna gróða af húsbyggingum og húsasölu. Þeirra starfsemi virðist vera í náðinni hjá yfirvöldunum a.m.k. munu ráðamenn Reykjavíkurborgar fúslega veita þeim byggingarlóðir á góðum stöðum í borginni, þó að nokkur tregða sé stundum á slíkri fyrirgreiðslu við aðra menn, sem þurfa að fá lóðir undir hús til eigin nota. Og þessir menn, sem hafa það að atvinnu að byggja hús til að selja öðrum með gróða, fá til þess lánsfé án þess að þurfa að taka á sig nokkra vísitölukvöð í því sambandi, enn sem komið er a.m.k. Sú óþarfa álagning húsabygginga- og húsasölumanna á íbúðaverðið, sem ég hef hér nefnt og ýmislegt fleira veldur því, að húsnæðiskostnaður almennings er hér miklu meiri, en hann þyrfti að vera, einkum þó í höfuðstaðnum. Afleiðingarnar af þessu eru svo þær, að menn þurfa að fá hærra kaup fyrir sína vinnu til þess að geta greitt þennan kostnað og menn þurfa hærri byggingarlán, m.a. til þess að geta greitt hagnaðinn í vasa húsasölumannanna. Og svo er lagður launaskattur á atvinnuvegina, m.a. til þess að hægt sé að veita lán til þess að borga þessa óeðlilegu álagningu á húsverðið. Ekki er von að vel fari, meðan slíku fer fram. En lagfæringa í þessum efnum er tæplega að vænta, meðan núv. ríkisstj. situr að völdum. Þeir menn, sem taka óeðlilegan hagnað af byggingu og sölu íbúða, eru undir verndarvæng hæstv. stjórnar. Hins vegar hygg ég, að þeir, sem geta notið laga um verkamannabústaði, geti komizt hjá að greiða slíkan skatt til einstakra manna og sama máli gegnir um félagsmenn í byggingarsamvinnufélögum. Það er því mjög hyggilegt fyrir þá menn, sem þurfa að koma upp íbúðum fyrir sig, að sameinast í slíkum félögum.