26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna, sem hér liggur fyrir, er flutt eftir að sáttasemjari ríkisins hafði haldið allmarga fundi með deiluaðilum og verkfallið, sem hefur stöðvað hinar nýju og stóru flugvélar Loftleiða, skall á. Þetta verkfall hefur staðið síðan 4. apríl og allt millilandaflug á hinum nýju millilandaflugvélum Loftleiða af gerðinni Rolls Royce 400 stöðvazt vegna stöðvunar, sem Félag ísl. atvinnuflugmanna boðaði frá og með 3. s.m. til þess að knýja fram kjarabætur flugmönnum til handa, sem stjórna umræddum flugvélum. Sáttasemjari ríkisins hefur ekki náð samkomulagi. Ég talaði við hann síðast í morgun, — hann hefur haldið tvo fundi síðan þetta frv. kom fram og satt að segja héldum við nú, að frv. mætti verða til þess að ýta á lausn málsins, — þá sagði hann, að hann teldi ekki ástæðu til þess að boða til fundar, því að hann hefði ekki eygt neina lausn á málinu á síðasta fundi, sem haldinn var. En vitanlega er það æskilegt, að deila sem þessi leysist með fullkomnu samkomulagi.

Það er ánægjulegt, hvað íslenzk flugfélög hafa fært út kvíarnar og Loftleiðir hafa sýnt mikið áræði með því að kaupa þessar dýru og stóru flugvélar, sem hér er um að ræða. Ég ætla mér ekki að setjast í dómarasæti og segja neitt um það, hvort kaup og kjör flugmanna á þessum vélum eru hæfileg, miðað við þau störf, sem þeir vinna, hvort þau eru of lág eða of há. Ég þekki ekki þetta starf svo. Ég mundi vilja segja það, að flugmenn eiga allt gott skilið. Þeir eiga það skilið að hafa góð kjör. En þessi deila er staðreynd, að þessar dýru vélar eru ónotaðar og tjónið af þessu verkfalli er mér sagt að sé alveg ómetanlegt. Það er ekki aðeins í krónum talið nú bókstaflega, heldur er trausti félagsins út á við stofnað í hættu og farþegar, sem hafa keypt farseðla með þessum stóru og hraðskreiðari vélum, eru e.t.v. ekki allir ánægðir með það að fá svo far með hæggengari vélum, DC 6, eins og Loftleiðir leigja nú í stað stóru vélanna.

Þetta frv. er flutt, eftir að verkfallið hafði staðið alllengi, eftir að sáttatilraunir höfðu ekki borið árangur. Það er flutt til þess að leysa deilu, sem verður að leysast og ég er alveg sannfærður um, að flugmennirnir vilja það helzt, að deilan leysist í dag eða á morgun. Þeir hefðu vitanlega helzt viljað, að deilan leystist með því, að það væri gengið að því, sem þeir fóru fram á. Þeir hefðu helzt viljað, að deilan leystist með frjálsum samningum. En úr því að þess er ekki kostur, veit ég, að þeir vilja eftir atvikum þessa leið frekar en að verkfallið standi.

Flugmenn hafa vitanlega hjálpað til að byggja upp þetta stóra fyrirtæki, Loftleiðir, sem er mjög stórt á íslenzkan mælikvarða, er orðið þekkt um allan heim og hefur skilyrði til þess að stækka enn meira og auka íslenzkt flug landa í milli. Veit ég, að flugmenn bera þann hug til félagsins, að þeir vilja að því stuðla, að það gæti orðið. En menn vilja e.t.v. spyrja: Hvað um Loftleiðir? Hvað með félagið? Vill það ekki, úr því að hagsmunir þess eru í svona mikillí hættu, eins og ég nefndi áðan, vill það þá ekki stuðla að lausn deilunnar? Ég efast ekki um það, að Loftleiðir vilja leysa deiluna, en þegar út í deilu er komið, skulum við segja, að það er sjaldan annar aðilinn, sem á alla sök og þetta mál er komið í stífni og það virðist vera svo, að hvorugur aðilinn vilji slaka til, svo að duga mundi.

Þetta mál varðar ekki aðeins flugmenn eina eða Loftleiðir. Þetta mál varðar íslenzku þjóðina, okkur, sem stundum ekki flug, okkur sem höfum ekki beinna hagsmuna að gæta í Loftleiðum vegna hlutabréfaeignar þar eða annars þess konar, okkur kemur þetta mál við. Þetta félag veitir hundruðum manna atvinnu. Það eru þúsundir, sem hafa lífsframfæri hjá þessu félagi og þetta félag vinnur inn erlendan gjaldeyri. Þetta félag gerir Ísland stærra. Það hefur skilyrði til þess að gera íslenzkt þjóðfélag sterkara. Það er þess vegna, sem það er skylda íslenzku ríkisstj. að blanda sér inn í þetta mál, þegar lausn hefur ekki fengizt með öðrum hætti.

Ég tel, að það sé út af fyrir sig ástæðulaust að fjölyrða mikið um þetta. Við erum hér að ræða um staðreynd og við getum gert það án allra stóryrða, við getum gert það án allra ádeilna á einn eða annan. Við ættum að geta verið sammála um, að á þennan hnút verður að skera og það er það, sem ríkisstj. leggur til með þessu frv. Ef hv. þm. vilja, að málið leysist, greiða þeir atkv. með þessu frv., þá hjálpa þeir til þess, að það fái greiðan gang gegnum þingið og þá er hnúturinn leystur, að vísu ekki nema í bili, en það er gert ráð fyrir, að ef þetta frv. verður að lögum, gildi sá dómur, sem upp verður kveðinn um laun og kjör flugmanna, til 1. febr. næsta árs, en þá er útrunninn sá samningur, sem gildir við flugmenn.

Það er samkv. 1. gr. þessa frv. gert ráð fyrir því, að verkfall íslenzkra atvinnuflugmanna, sem boðað var 3. apríl s.l., sé óheimilt frá gildistöku þessara laga og samkv. 2. gr., að hæstiréttur tilnefni 3 menn í gerðardóm, sem ákveði kjör flugmanna á flugvélum af gerðinni Rolls Royce 400. Hæstiréttur kveður á um, hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins. Gerðardómurinn setur sér starfsreglur. Hann aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim, sem dómurinn ákveður. Samkv. 3. gr. skal gerðardómurinn við ákvörðun launa, vinnutíma og annarra starfskjara hafa hliðsjón af kjörum annarra sambærilegra launþega hér á landi. Samkv. 4. gr. er verkfall í því skyni að knýja fram aðra skipan en lög þessi ákveða óheimilt. Og samkv. 5. gr. skulu ákvarðanir gerðardóms samkv. 2. gr. gilda frá gildistöku laga þessara til 1. febr. 1966. 6. gr.: Kostnaður við gerðardóm, þ. á m. laun gerðardómsmanna eftir ákvörðun ráðh., greiðist úr ríkissjóði. 7. gr.: Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála, og varða brot sektum. 8. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Hv. alþm. getur sýnzt sitt hvað í þessu máli. Það má vel vera, að einhverjir segi sem svo: Loftleiðir gátu samið með því að ganga að því, sem flugmenn vildu hafa og það var sanngjarnt. Það má vel vera, að einhverjir vilji segja það. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort það hefur verið sanngjarnt eða ekki. Ég skal engan dóm leggja á það, hvort Leiftleiðir hefðu með góðu móti getað gengið að þessum kröfum. En það er staðreynd, að það hefur ekki verið gert, deilan er óleyst. Og ég hygg, að hvernig sem við að öðru leyti lítum á þetta mál, getum við, þegar við skoðum þetta mál ofan í kjölinn, verið sammála um, að við svo búið má ekki standa, að þessi dýru tæki, sem voru keypt á síðasta ári og sams konar tæki er verið að kaupa til viðbótar, verði stöðvuð með verkfalli, að þessi tæki verði ekki notuð og millilandaflugi og þeirri þróun, sem það hefur átt á undanförnum árum, verði gersamlega spillt.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.