26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég vil þegar lýsa andstöðu minni við þetta frv. Ekki vil ég með því taka neina afstöðu til þeirra efnisatriða, sem um er deilt í þeirri kjaradeilu, sem hér er um að ræða, heldur vil ég taka þá „prinsip“afstöðu, að slík deila skuli ekki leyst á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Gerðardómur í vinnudeilum er ekki í samræmi við þá stefnu, sem á að ráða í kjaramálum yfirleitt og ef þessari aðferð er beitt í einu falli, er ekki víst, hvenær þykir hæfilegt að beita henni aftur. Ég minnist þess, að hæstv. samgmrh. orðaði það þannig í blaðagrein, þegar hann hafði sett brbl. um gerðardóm í kjaradeilu verkfræðinga fyrir 11/2 ári, að nú hefðu verkfræðingar verið „afgreiddir“ með brbl. Nú á að „afgreiða“ flugmenn. Og hverjir verða svo „afgreiddir“ næst? Fram undan eru vandasamir og örlagaríkir kjarasamningar við allar helztu vinnustéttir landsins. Ég álít, að það starf, sem nú þarf að fara að vinna og er sjálfsagt þegar farið að vinna í því augnamiði að finna lausn á þeim vandamálum, sé ekki eðlilegt að hefja með því að beita eina stétt, sem nú á í kjaradeilum, þeim tökum, sem nú er gert ráð fyrir að gert sé. Það er ekki hentugt og ekki eðlilegt núna, einmitt sérstaklega á þessum tíma, þegar það er fram undan, sem við allir vitum, að skapa þá það fordæmi, sem skapað væri með samþykkt Alþ. á þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Í grg. þessa frv. er það fært fram sem höfuðástæða fyrir frv., að stöðvun á rekstri hinna nýju flugvéla valdi tilfinnanlegum truflunum á rekstri Loftleiða h/f og muni spilla því áliti, sem félagið hefur unnið sér á alþjóðavettvangi, og stofna framtíð þess í voða, ef ekkert er að gert og hæstv. ráðh. gerði einnig í framsöguræðu sinni hér áðan mikið úr því tjóni, sem Loftleiðir yrðu fyrir í sambandi við þessa deilu og raunar þjóðin öll. Það er í sjálfu sér engin nýjung, að fyrirtæki og þjóðin öll verði fyrir tjónum af verkföllum. Það er sannarlega ekki nýjung og þau stórfelldu tjón, sem af þeim hefur leitt, ættu að kenna okkur það að leita eftir þeim leiðum í þessum málum, sem líklegastar eru til þess að skapa gott samband milli vinnuveitenda og vinnuþega og ríkisvaldsins, að svo miklu leyti sem það kemur nálægt þessum málum, heldur en beita aðferðum eins og þessum, sem hér eru ráðgerðar. Valdi þetta verkfall, sem nú er um að ræða, tjóni, er víst, að það er ekki seinasta verkfallið, hvernig sem farið verður að, sem veldur tjóni á Íslandi og ekki heldur það fyrsta og það er þess vegna engin röksemd í sjálfu sér, enda engin nýjung.

Ég vildi mega láta í ljós þá skoðun að, að lausn þessarar deilu, sem hér er um að ræða, hafi ekki verið unnið á þann hátt, sem æskilegt hefði verið og ekki á þann hátt, að útséð sé um, að samningar hefðu ekki getað tekizt, ef þetta frv. hefði ekki verið lagt fram. Það hafa farið fram lauslegar umr. um þessi mál milli Loftleiða og flugmanna þeirra öðru hverju alla tíð síðan þessar nýju flugvélar komu til sögunnar á seinasta ári og einkum munu hafa farið fram nokkrir viðræðufundir um þetta sérstaklega milli flugmannanna og stjórnar Loftleiða á haustmánuðum síðustu. En árangur af þeim samtölum mun ekki hafa orðið viðunandi, og þess vegna er það, að flugmenn leggja fram ákveðnar kröfur í málinu með venjulegum hætti. Það gerðist í febrúarmánuði s.l. Þá er Vinnuveitendasamband Íslands komið í málið fyrir hönd Loftleiða og þá eru haldnir þrír fundir um þetta mál milli Vinnuveitendasambandsins og flugmanna. Þeir, sem þekkja til samninga um kjaramál, munu ekki geta fallizt á það, að í þessu sambandi beri að kalla það allmarga fundi, eins og hæstv. ráðh. gerði. Þrír eru ekki allmargir í þessu efni. Verkfall er svo boðað með 12 daga fyrirvara síðari hluta marz og átti að hefjast 3. apríl. Um leið, en ekki fyrr, kemur sáttasemjari í málið. Honum er send verkfallstilkynning með venjulegum hætti og hann tekur þannig málið að sér og hann heldur fyrsta fund með aðilum tveim dögum áður, en verkfallið á að hefjast. Flugmenn frestuðu verkfallinu um 1–2 sólarhringa til þess að gefa nægan tíma til þess að kanna málið, eins og það þá stóð. En á þessum fyrsta fundi sáttasemjara náðist ekki árangur. Aftur er svo haldinn fundur 5. apríl, tveim dögum eftir að verkfallið átti að hefjast og hálfum sólarhring eftir að það raunverulega var hafið. Síðan líður meira en vika, án þess að nokkur fundur sé haldinn um málið, en 13. apríl er haldinn fundur, árangurslaus og síðan á föstudaginn langa sá fjórði á vegum sáttasemjara og sá síðasti, áður en þetta frv. er lagt fram, sem hér liggur fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að frv. hefði verið lagt fram í þeirri von, að það gæti stuðlað að lausn málsins. Slíkt er ákaflega erfitt að skilja. Mér virðist, að það hljóti að liggja ljóst fyrir, að þegar slíkt frv. hefur verið lagt fram, hljóti það mjög að torvelda lausn málsins. Sá aðili, sem telur sig hafa hag af gerðardómi, mun auðvitað ekki samningsfús, meðan slíkt frv. liggur fyrir og þess vegna er það furðulegt, vægast sagt furðulegt, að þetta frv. skuli lagt fram á hv. Alþ. á miðvikudaginn og ekki tekið fyrir, fyrr en nú á mánudegi. Síðan hafa 5 dagar liðið. Sáttasemjari mun að vísu af sinni alkunnu skyldurækni hafa reynt sáttafundi, eina tvo, á þessu tímabili, en það kemur ekki á óvart, þó að þeir hafi verið árangurslausir.

Hæstv. ráðh. lét að því liggja í ræðu sinni hér áðan, að flugmenn mundu, úr því sem komið er, vilja gerðardóm fremur en áframhaldandi samninga umleitanir. Ég leyfi mér að draga þetta mjög í efa og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. að því. Hafa flugmenn beðið um það, að gerðardómur yrði settur í þessari deilu? Er það að þeirra óskum, sem þetta frv. er flutt? Mér er nær að halda, að það kunni e.t.v. að vera einhverjir aðrir, sem hafa fremur haft hug á að fá það flutt.

Eins og ég sagði áðan, hef ég ekki hugsað mér að taka hér afstöðu til þeirra efnisatriða, sem um er deilt í þessari kjaradeilu. En ég get þó ekki stillt mig um að geta þess hér, því að mér er kunnugt um það, hversu gífurlega hefur verið sagt ósatt frá þeim kröfum, sem flugmenn hafa gert, á opinberum vettvangi. Ég hef séð því haldið fram opinberlega, að kröfur flugmanna muni hafa numið allt upp í 800–900 þús. kr. árslaunum fyrir elztu flugstjóra á þessum vélum. En þegar betur er að gáð, er þessi upphæð fundin þannig, að ofan á kaup þessara manna og þess gjalds, sem þeir fá fyrir flogna tíma, er bætt kostnaði af sumarfríum, launum þeirra, sem leysa þá af, meðan þeir eru í sumarfríum. Það er bætt ofan á áætluðum veikindadögum þeirra, það er bætt ofan á dagpeningum, sem þeir fá til þess að standa undir kostnaði sínum, þegar þeir dveljast milli ferða fjarri heimili sínu, það er bætt við tryggingagjöldum; það er bætt við áætlaðri yfirvinnu og það er bætt við einkennisbúningum. Með þessum hætti hefur tekizt að reikna kröfur flugmanna upp í æðiháar tölur, sem svo eru notaðar til þess að gera kröfur þeirra, félagsskap þeirra og samtök þeirra óvinsælli, en efni standa til. Sannleikurinn mun vera sá, ef utan af þessu er skafið það, sem eðlilegt er að skafa utan af, að kröfur flugmannanna munu nema því, að laun þeirra og þóknun fyrir flogna tíma, sem er það, sem raunverulega er hægt að kalla tekjur þessara manna, kröfur þeirra fyrir elztu flugstjórana munu nema um 500 þús. kr., en hvorki 800 eða 900 þús. Nú má vel vera, að mönnum finnist þetta ofrausn og óhóf, ég skal engan dóm á það leggja. En hitt er ljóst, að í þessari deilu eru launakröfurnar ekki það, sem fyrst og fremst er deilt um, heldur miklu frekar vinnutíminn eða raunar flugtíminn, sem alls ekki er sama og vinnutími, eins og allir geta sjálfsagt sagt sér sjálfir, en þó nokkurt hlutfall á milli.

Í upprunalegum kröfum flugmanna mun vera gert ráð fyrir því, að mánaðarlegur flugtími styttist sem svarar því, sem þessar vélar eru hraðgengari, þannig að þeir fljúgi jafnmargar ferðir á mánuði hverjum og þeir hafa áður gert. Það geta auðvitað verið um það skiptar skoðanir, hvort þetta sé eðlilegt, en þó er það nú svo, að ferðin, frá því að farið er að heiman og þar til komið er heim aftur, tekur ekki svo ýkja miklu styttri tíma, þó að flugið sjálft geri það og þess vegna er það að sjálfsögðu eðlilegt, að með hraðskreiðari vélum styttist sá flugtími, sem flugmennirnir vinna. Þeir munu hafa sett fram þær kröfur, að mánaðarlegur flugtími styttist úr um það bil 100 tímum og ofan í 60. Nú mun það vera þannig, að samkvæmt áætlunum Loftleiða mundi vera hentugt fyrir félagið að ætla flugmönnum 68 klst. flug á mánuði hverjum og mér er kunnugt um það, að flugmenn hafa strax látið í ljós, að þeir mundu reiðubúnir til þess að fallast á að fljúga eins og þarf, til þess að þeirri áætlun verði fylgt. Í samninga umleitunum mun það hafa komið fram í sambandi við flugtímann, að flugmenn á þrýstiloftsflugvélum SAS–flugfélagsins norræna fljúgi 85 flugtíma á mánuði hverjum. Og flugmenn hér munu líka hafa boðið það að fljúga svo lengi, ef þeir nytu sömu reglna um hvíldartíma og flugmenn hjá SAS. En hjá SAS eru mjög fullkomnar reglur um hvíldartíma milli einstakra ferða og það gerir mögulegt að hafa mánaðarlegan flugtíma og takmörkin í sambandi við hann eitthvað lengri. En þegar þetta er athugað, vaknar sú spurning: Hvers vegna eru ekki hér fullkomnar hvíldarreglur fyrir áhafnir flugfélaga? Í loftferðalögunum, sem afgreidd voru frá hv. Alþ. á s.1. ári, eru ákvæði í 52. gr., þar sem segir: „Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til þess að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“ Hver er þessi reglugerð? Hefur hún verið gefin út, og hefði ekki verið nær fyrir hæstv. ráðh. að setja þær reglur um hvíldartíma flugverja, sem hefðu getað auðveldað samninga í þessu máli, heldur en að setja gerðardómslög af því tagi, sem hér er gert ráð fyrir?

Því miður verður það að segjast, að gerðardómslög af þessu tagi eru ekki líkleg til þess að bæta það andrúmsloft, sem nú er í kjaramálum og málefnum launþega yfirleitt gagnvart atvinnurekendum sínum. Það er ekki líklegt, að frv.-flutningur af þessu tagi af hálfu hæstv. ríkisstj. muni auðvelda það hlutverk, sem fram undan er í þessum málum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að flugmenn yrðu bundnir af gerðardómnum í hálft ár eða þar til kjarasamningur flugmanna almennt rennur út. Þegar hliðstæð lög og hliðstæðar reglur voru settar með brbl. í ágústmánuði 1963 viðvíkjandi verkfræðingum, voru þau látin hafa gildi í 21/2 ár og þau eru í gildi enn þá. Ég hef á þessu þingi ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. flutt frv. um það, að þau lög yrðu úr gildi numin. Það frv. var flutt fyrir alllöngu, ég hef ekki gáð að, hve langt er síðan það var tekið til 1. umr., en það eru líklega 2 mánuðir og því var vísað til hv. allshn., en hefur ekki fengið þaðan afgreiðslu. Ég sé nú ekki hér í d. hv. formann allshn., en ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að þetta frv. fái eðlilega afgreiðslu og verði afgreitt frá n.

Ég hef hér áðan reynt að færa að því nokkur rök, að ástæða hefði verið til að leggja meiri áherzlu á samningaumleitanir í þessari deilu heldur en gert var, áður en þetta frv. var lagt fram. Sáttasemjari hefur ekki lagt fram neina sáttatill. í þessu máli og honum hefur ekki verið skipuð til aðstoðar nein sáttanefnd, eins og oft hefur verið gert í erfiðum vinnudeilum. Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að hlutast til um það, að samningaumleitanir hefðu verið reyndar miklu meir, en gert hefur verið og hún hefði átt, eins og stundum áður, að skipa sáttanefnd sáttasemjara til aðstoðar í þessu máli. En að ætla að leysa það með þessum hætti, sem hér er gert ráð fyrir, er ekki neinum til góðs. Ég tel, að á meðan þetta frv. liggur fyrir hv. Alþ., séu litlar vonir um samninga. Og ég tel þess vegna, að það hafi verið alrangt af hæstv. ríkisstj. að leggja þetta frv. fram, áður en Alþingi frestaði fundum í 4 daga. Þess vegna tel ég enn fremur, að það sé rétt að flýta efnislegri afgreiðslu þessa frv. eins og hægt er, þannig að það standi ekki samningum fyrir þrifum, lengur en búið er og þess vegna mun ég greiða atkv. gegn því, nú þegar við 1. umr. að vísa því til 2. umr., en verði það eigi að siður gert, mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. með því, að það fái athugun í nefnd.