26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. gerði nokkra tilraun til þess í ræðu sinni hér áðan að færa rök fyrir flutningi þessa frv., en heldur þóttu mér þær röksemdir hans fátæklegar og ég skal strax snúa mér að örfáum þeirra nokkrum orðum.

Hæstv. ráðh. virtist hafa gert sér vonir um, að flutningur þessa frv. mætti verða til þess að ýta á lausn málsins. Það er, eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram, fáránlegt að hafa látið sér detta slíkt í hug. Það var fyrir fram vitað, að með flutningi frv. voru allar leiðir til samkomulags torveldaðar. Það er kunnugt, að atvinnurekendur yfirleitt telja sér hag af afnámi frjálsra samninga og í samræmi við það er eðlilegt, að Loftleiðir misstu áhugann á frekari samkomulagsumleitunum, eftir að frv. var komið fram.

Hæstv. ráðh. tók það fram í ræðu sinni, að hann teldi flugmenn eiga allt gott skilið. Ég get tekið undir þetta með honum, en vil aðeins benda á, að það er undarleg viðurkenning á starfi þeirra að flytja frv. sem þetta, þar sem einmitt rétturinn er níddur af þeim.

Þá taldi hæstv. ráðh. það nokkur rök fyrir flutningi frv., að hér væri um hagsmuni Loftleiða að ræða og jafnvel hagsmuni almennings. Ef slík rök ættu að hafa nokkurt gildi og vera annað, en gervirök, má segja nákvæmlega það sama um allar launadeilur og öll verkföll og ef hæstv. ríkisstj. vildi vera sjálfri sér samkvæm, ætti hún að koma með slíkt frv. sem þetta í hvert skipti, sem verkfall er á Íslandi. En það gerir hún ekki, vegna þess að hún þorir það ekki, en laumast með eitt og eitt frv. af þessu tagi til þess að ráðast þar á, sem garðurinn er lægstur að hennar dómi.

Þá hafði hæstv. ráðh, orð á því, að verkfall mætti ekki standa lengur vegna þeirra dýru tækja, þ.e. flugvélanna, sem hér væri um að ræða. Lausnin yrði að fást, vegna þess að þessi dýru tæki mættu ekki standa ónotuð. Hvað felst í þessum orðum hæstv. ráðh.? Það, að vegna dýrra tækja, sem þjóðin á, verður að fórna nokkru af frelsi mannanna, sem við tækin vinna. Ég þarf ekki að taka fram, að ég er algerlega á öðru máli en hæstv. ráðh. í þessu efni. Ég tel mennina miklu verðmeiri, en jafnvel dýrustu tæki.

Hæstv. samgmrh. er talsmaður fyrir þessu frv. Það er ekki, því miður, í fyrsta skipti, sem þessi hæstv. ráðh. kemur hingað til hv. þd. með gerðardóms- og verkfallsbannlagafrv. upp á vasann. Þetta er orðinn, eins og ég tók víst fram í fyrra, við sams konar tækifæri, fastur liður í starfsskrá þessa hæstv. ráðh. Ýmist eru það verkfræðingar eða flugmenn, sem verða fyrir barðinu á honum. Einhverra hluta vegna dæmist þetta óþurftarverk á þennan hæstv. ráðh., sem hversdagslega er hinn dagfarsbezti maður og mesta prúðmenni í allri framgöngu. En það dæmist samt á hann að flytja árlega lagafrv. um skerðingu hinna sjálfsögðustu réttinda í lýðfrjálsu Iandi. Þetta vil ég, vegna þess að ég þekki þennan hæstv. ráðh., nefna meinleg örlög.

Ég kemst ekki hjá því í sambandi við umr. um þetta mál að minna á lítinn pésa, sem hæstv, ríkisstj. gaf út árið 1960 og nefndi „Viðreisn“. Þessi pési hefur inni að halda loforð hæstv. ríkisstj., sem þá var að byrja starfsferil sinn eða valdaferil og henni var mjög umhugað um, að öllum landslýð mætti verða kunnugt um þessi fyrirheit, sem hún gaf þá. Það var lögð mikil áherzla á að dreifa þessum pésa inn á hvert einasta heimili í landinu, til þess að helzt enginn landsmaður kæmist hjá því að vita, hvað hún ætlaði að gera. Ég minni á þetta, af því að eitt atriði í þessum pésa kemur þessu máli mjög mikið við.

Hæstv. ríkisstj. sparaði ekki loforðin snemma árs 1960. Þau voru bæði mörg og stór, fyrirheitin sem hún gaf þjóðinni þá. Ég vil leyfa mér að minna á örfá loforð, áður en ég kem að því loforði, sem þetta mál snertir sérstaklega. Það var lofað miklu. Verðgildisrýrnun sparifjár skyldi stöðvuð. Nú skyldu sparifjáreigendur ekki lengur hlunnfarnir. Þá var lofað, að hvers konar greiðslum útflutningsstyrkja og sérbóta skyldi hætt með öllu. Því var lofað hátíðlega, að svo vel skyldi búið að sjávarútveginum, að jafnvel rekstur togara yrði hallalaus eftirleiðis, þrátt fyrir afnám bótakerfisins. Hæstv. ríkisstj. lofaði því, að vísitala framfærslukostnaðar skyldi ekki hækka nema um ein 3% á fyrstu mánuðum, eftir að hennar ráðstafanir væru komnar í gagnið, en úr því ekki neitt. Þá var því lofað, að þótt grunnlaun hækkuðu, þá skyldi ekki leyfð nein verðhækkun á innlendum vörum og þjónustu vegna kauphækkana. Framleiðslan sjálf skyldi fá að bera alla kauphækkun eftirleiðis, á meðan hún sæti við völd. Hún hét því einnig, að skattar skyldu stórlækkaðir og raunar alveg felldir niður af almennum launatekjum.

Hér hef ég nefnt örfá dæmi þeirra mörgu loforða, sem hæstv. ríkisstj. gaf fyrir hálfu sjötta ári, en á þessa leið voru öll hennar fyrirheit efnislega. En hvernig hefur svo verið staðið við þessi loforð? Nú talar reynslan og hún er ólygnust. Ég skal minna á í sambandi við þau dæmi, sem ég taldi upp, að sparifjáreigendur hafa haldið áfram að tapa fé sínu í verðbólguhítina. Á því hefur ekkert lát orðið öll þessi ár. Útflutningsbætur hafa ekki horfið, heldur farið vaxandi með ári hverju og þykja aldrei nógar, eins og kunnugt er, hér á hinu háa Alþingi. Rekstur togara er svo langt frá því að vera hallalaus, að hann hefur einmitt aldrei óhagstæðari verið en nú. Vísitala framfærslukostnaðar hefur ekki staðið í stað í tíð núv. hæstv. ríkisstj. né hækkað um ein 3%, heldur hefur hún hækkað í tíð hæstv. stjórnar hvorki meira né minna en um 93% síðan 1960. Sérhverri launahækkun, sem orðið hefur, síðan viðreisnin hófst, hefur umsvifalaust og með góðri aðstoð hæstv. ríkisstj. verið velt yfir á neytendur í hækkuðu verði vöru og þjónustu. Skattar af almennum launum hafa ekki verið afnumdir. Skattpíningin alræmda á síðasta ári sýndi áþreifanlega, hverjar efndir hafa orðið á loforðinu um skattalækkun og um afnám skatta á almennum launatekjum. Þannig fór um þessi fyrirheit hæstv. ríkisstj., þau er hún gaf árið 1960 og lét prenta með mikilli viðhöfn í viðreisnarbæklingi sínum.

Eins og ég hef tekið fram, hef ég talið upp aðeins örfá þeirra loforða, sem hæstv. ríkisstj. gaf árið 1960, þau voru miklu fleiri. Eitt þeirra, eins og ég hef sagt, snertir sérstaklega það mál, sem nú er til umr. Það er fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. gaf og prentað er á tveim stöðum í viðreisnarpésanum, um að láta samninga launþega og atvinnurekenda um kjaramál afskiptalausa. Þetta loforð er að finna í bæklingnum „Viðreisn“ á bls. 4, og það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er stefna ríkisstj., að það sé og eigi að vera verkefni samtaka launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör.“ Ég endurtek: „Það er stefna ríkisstj., að það sé og eigi að vera verkefni samtaka launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör.“

Þannig er þetta orðað. Hvernig hefur þá hæstv. ríkisstj. farnazt í þessu efni? Það má segja, að henni hafi farnazt í því hvorki betur né verr, en í flestum öðrum efnum. Hún hefur þverbrotið þetta heit sitt eins og öll góð fyrirheit, sem hún gaf árið 1960. Hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir því árið 1960, að tengsl kaupgjalds og vísitölu voru rofin og átti það að vera flestra meina bót þá. En um leið og hún gerði þetta, hét hún því sem sagt að skipta sér ekki að öðru leyti af samningum um kaup og kjör. Það áttu að vera eins konar sárabætur launþegum, þegar þeir voru sviptir vísitöluálagi á kaup sitt. En þetta litla stefnuskráratriði hefur hún ekki getað staðið við frekar en svo margt annað. Hún hefur brugðizt kirfilega loforði sínu um hlutleysi í launadeilum og það hlutleysi hefur hún leikið sér að því að brjóta siðan 1960, ekki einu sinni, heldur oft og mörgum sinnum.

Efst á bls. 23 í áróðursbæklingi hæstv. ríkisstj. frá 1960 standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvörðun grunnlauna verður eftir sem áður,, háð frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga.“ — „Ákvörðun grunnlauna verður eftir sem áður háð frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga.“ Þessi orð standa þarna í þessum ágæta pésa. Nú er þess vert að rifja upp litillega, hvernig farið hefur um þetta samningsfrelsi í reynd, að svo miklu leyti sem hæstv. ríkisstj. hefur þar komið við sögu. Ég skal rekja það mjög stuttlega.

Á fyrsta ári hæstv. ríkisstj., nánar tilgreint hinn 5. júlí 1960, voru gefin út brbl. um bann við fyrirhuguðu verkfalli atvinnuflugmanna. Þá höfðu flugmenn um skeið átt í samningaþófi við flugfélögin. Gildandi samningar voru orðnir meira en þriggja ára gamlir. Það gekk treglega að fá samið þá eins og oft endranær, enda mun Vinnuveitendasambandið hafa þá blandað sér í málið og bannað flugfélögunum blátt áfram að ganga inn á nokkrar tilslakanir við flugmennina. Þó gerðist það, rétt áður, en verkfallið skyldi skella á, að flugfélögin sýndu einhvern lit á samkomulagsvilja og gerðu flugmönnunum tilboð, en skyndilega, ég hygg daginn sem brbl, voru sett, snerist flugfélögunum hugur og þau tóku tilboð sín aftur án nokkurra skýringa. Þetta gerðist sem sagt 5. júlí 1960 og þannig lauk samningunum eða samningaumleitununum nokkrum klukkustundum áður en brbl. voru birt, en þau voru gefin út daginn áður, en verkfallið skyldi hefjast. Þetta var, að ég hygg, fyrsta tilræði hæstv. ríkisstj. við samningafrelsið og verkfallsréttinn í landinu, fyrsta skiptið, sem hún braut hátíðleg loforð sín og fyrirheit um að skipta sér ekki af frjálsum samningum milli atvinnurekenda og launþega.

Félag íslenzkra atvinnuflugmanna mótmælti þessari lagasetningu þegar í stað, að sjálfsögðu. Hið sama gerði fjöldi verkalýðsfélaga og auk þess Alþýðusamband Íslands. Ég vil lesa upp mótmæli Alþýðusambandsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur á fundi sínum rætt um brbl. ríkisstj., sem banna boðað verkfall atvinnuflugmanna. Miðstjórnin mótmælir harðlega setningu þessara brbl. og lýsir yfir því, að hún telur lagasetninguna óréttmæta og harkalega árás á helgasta rétt verkalýðssamtakanna. Skorar miðstjórnin því á ríkisstj. að nema lögin þegar úr gildi.“

Það varð nú bið á því, að hún næmi lögin úr gildi. Það átti annað að ske en það, því að tæpu ári síðar, hinn 6, júní 1961, voru enn sett brbl. af hæstv. ríkisstj. og í það sinn um bann við stöðvun eða hindrun millilandaflugs íslenzkra flugfélaga. Þar var lagt blátt bann við, að hindruð yrði afgreiðsla eldsneytis til flugfélaga í áætlunarflugi milli landa. Þessi brbl. urðu ekki til fyrir það, að flugmenn væru í verkfalli. Nú þurfti að verja blessuð flugfélögin fyrir fátækum verkamönnum, sem stríddu um þær mundir í erfiðu verkfalli. En hvað sem erfiðleikum verkamannanna leið, þá taldi þessi hæstv. ríkisstj, sér skylt að vernda hagsmuni hinna voldugu flugfélaga í landinu. Fyrri brbl. voru sem sagt sett til höfuðs tiltölulega tekjuháum flugmönnum, en hin siðari til þess að ná sér niðri á tekjulægstu launþegunum í landinu, en í bæði skiptin var verið að gæta hagsmuna sömu atvinnurekenda, hinna stórauðugu flugfélaga.

Hrammur hæstv. ríkisstj. hefur náð til fleiri stétta, en flugmanna og verkamanna þessi árin. Tvær starfstéttir aðrar a.m.k. hafa orðið illa fyrir barðinu á þessari hæstv. stjórn. Hinn 30. sept. 1961 voru að tilhlutan hæstv. ríkisstj. gefin út brbl., þar sem íslenzkir læknar voru þvingaðir til að starfa í þágu sjúkrasamlaga í allt að þrjá mánuði. Læknarnir höfðu þá sagt upp samningum sínum við sjúkrasamlögin með löglegum fyrirvara og samkomulag um nýja samninga hafði ekki tekizt, en bæði læknar og sjúkrasamlög bjuggu sig undir þá skipulagsbreytingu, sem hlaut að leiða af samningsslitum og lög um almannatryggingar þá í gildi gerðu og gera enn raunar ráð fyrir, að slíkt geti komið fyrir. Ekkert verkfall var þá í aðsigi, læknar ætluðu vissulega að stunda sjúklinga eftir sem áður. Í lögum um almannatryggingar var gert ráð fyrir fullkomnu samningsfrelsi lækna gagnvart sjúkrasamlögunum og þetta frelsi hugðust þeir nota haustið 1961. En þá kom hæstv. ríkisstj. til skjalanna hinn 30. sept. Hún skarst í leikinn málstað vinnuveitendanna til stuðnings gegn hagsmunum launþeganna. Þessi þvingunarlög voru önnur brbl. um þetta efni á sama árinu, árinu 1961, í annað sinn á því eina ári, sem hún blandaði sér að þarflausu í kaupdeilur á heldur hrottafenginn hátt.

En sagan er ekki öll. Enn og aftur voru brbl. sett af hæstv. ríkisstj. Það gerðist næst 2. maí 1962. Þá voru útgefin þvingunarlög um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf og var með þeim ógilt ný gjaldskrá, sem íslenzkir verkfræðingar höfðu sett sér á fullkomlega löglegan hátt. Í hennar stað skyldu skv. lögunum verkfræðingar búa áfram við gömlu gjaldskrána, sem orðin var úrelt að álíti allra í flestum greinum, m.a. orðin úrelt af tæknilegum ástæðum. Hæstv. ríkisstj. hafði um þessar mundir, í maí 1962, átt í útistöðum við íslenzka verkfræðinga nærri því frá því að hún sjálf varð til og barizt af alefli gegn kröfum þeirra um kjarabætur og launalækkanir. Hún gat m.a. ekki unnt þeim þess, þessi hæstv. ríkisstj., að verða launalega séð hálfdrættingar á við útlenda verkfræðinga, sem sambærileg störf unnu hér á landi og voru á snærum hæstv. ríkisstj. Þetta gerðist í maí 1962.

Rúmu ári siðar var aftur vegið í sama knérunn af hæstv. ríkisstj. Hinn 17. ágúst 1963 voru brbl. útgefin um gerðardóm, er ákveða skyldi kjör verkfræðinga og um bann við verkföllum þeirra. Þessi þvingunarlög voru sett vegna þess, að hin fyrri, þau frá árinu áður, þóttu ekki duga nógu vel sem hnapphelda á verkfræðingastéttina. Stéttarfélag verkfræðinga hafði staðið í verkfalli í sjö vikur á þessu tímabili og hæstv. ríkisstj. kvaðst hrædd um, að launakröfur þeirra fælu í sér hættu fyrir allt efnahagskerfi landsins og stofnaði hagsmunum almennings auk þess í hættu. En sannleikurinn var auðvitað miklu frekar sá, að lögþvingun hæstv. ríkisstj. er það eina, sem stofnar hagsmunum almennings í hættu í sambandi við þetta mál, kjaramál verkfræðinganna.

Það er ekki í fyrsta sinn, sem hæstv. ríkisstj. tekur mikið upp í sig, þegar hún er að verja gerðir sínar með setningu þvingunarlaganna. Þarna var hvorki um meira né minna að ræða en að hagsmunum almennings var stofnað í hættu og allt efnahagskerfi landsins riðaði til falls, þótt örfáir verkfræðingar heimtuðu betri kjör.

Þetta er þá í fáum orðum sagt það helzta, sem ég þekki til af afrekum hæstv. ríkisstj., og þessi afrek eru ekki lítil að mínum dómi, þótt neikvæð séu í mesta máta. Hún hefur sem sagt ekki vanrækt það eitt einasta ár að svíkja gefin loforð um afskiptaleysi af samningum launþega og atvinnurekenda

Þá kem ég að því lagafrv., sem hér liggur fyrir til 1. umr. (Forseti: Ég hefði nú helzt viljað mælast til þess, að hv. þm. frestaði ræðu sinni, vegna þess að ég þarf að fresta fundinum vegna nefndarfunda, sem hafa verið boðaðir nú klukkan fjögur.) Sjálfsagt, stendur vel á. — (Fundarhlé.)

Herra forseti. Í ræðu minni í dag minnti ég á þá ofgnótt fagurra loforða, sem hæstv. ríkisstj. dembdi yfir þjóðina í byrjun árs 1960. Ég rakti í einstökum atriðum allmörg þessara loforða og sýndi fram á, að öll þau loforð hafi verið vanefnd. Sérstaklega gerði ég síðan að umtalsefni þá yfirlýstu stefnu hæstv. ríkisstj. snemma árs 1960 að skipta sér ekki af vinnudeilum og láta atvinnurekendur og launþega eina um það að semja um kjörin. Ég minnti á það, hvernig farið hefur með efndirnar á þessu loforði. Ég minnti á, að strax á miðju ári 1960 hefði hæstv. ríkistj. horfið frá þessari yfirlýstu stefnu sinni fyrr á árinu og borið fram brbl., sem fólu í sér bein afskipti af vinnudeilum. Svipað gerðist aftur í júní 1961, sept. 1961, maí 1962, ágúst 1963 og svo loks nú með því frumvarpi, sem hér liggur fyrir þinginu.

Það má segja, að með þessu frv., sem hæstv. ríkisstj. flytur nú, vegi hún í annað skiptið að íslenzkum flugmönnum og jafnframt, að með því taki hún í þriðja sinn upp hanzkann fyrir flugfélögin. Samkv. þessu frv. á að lögbanna verkfall flugmanna, en það hefur nú staðið á fjórðu viku. í frv. er einnig svo fyrir mælt, að gerðardómur skuli ákveða kjör þeirra flugmanna, sem hér koma við sögu. Það fer því ekki á milli mála, að enn einu sinni hyggst hæstv. ríkisstj. beita sér fyrir verkfallsbanni og afnámi samningsréttar atvinnustétta landsins. Hver eru svo rök hæstv. ríkisstj. fyrir þessum aðgerðum? Í grg. segir, að stöðvun á rekstri hinna nýju flugvéla valdi tilfinnanlegum truflunum á rekstri Loftleiða h/f og muni spilla því áliti, sem félagið hafi unnið sér á alþjóðavettvangi og stefni framtíð þess í voða, ef ekkert er að gert. Þá er einnig sagt í grg. frv., að það verði því að teljast þjóðarnauðsyn að koma í veg fyrir frekari stöðvun umræddra flugfélaga. Þetta eru þá þau rök, sem hæstv. ríkisstj. ber fram.

Það er ekki lítið, sem virðist vera í húfi í þessu verkfalli, sem örlítill hópur manna stendur að. Framtíð og sæmd Loftleiða er í veði og þjóðarnauðsyn að grípa í taumana. Hér finnst mér nú fast kveðið að orði og raunar miklu fastar, en nokkur efni standa til. Hér er hæstv. ríkisstj. svo sannarlega að gera úlfalda úr mýflugunni og á því kraftaverki og því einu byggir hún afsökun sína fyrir að troða á rétti flugmannanna. Ég skal viðurkenna það, að öll verkföll kosta meira eða minna þjóðfélagið og einstaka aðila þess og ég skal líka viðurkenna, að vinnudeilur eru aldrei neitt fagnaðarefni. En hér er um að ræða sjálfsagðan rétt í lýðfrjálsu landi, rétt sem ekki má skerða og sízt af öllu að tilefnislausu og í léttúð. Auðvitað valda öll verkföll, ekki frekar það, sem nú stendur yfir, heldur en önnur, alla jafna tilfinnanlegum truflunum og þau eru svo sannarlega sjaldan álítsauki fyrir atvinnurekandann, sem þar á hlut að máli. Að því leyti til er þetta Loftleiðaverkfall, sem nú stendur yfir, ekkert einsdæmi. Ég vil meina, að þetta verkfall kosti miklu minni fjármuni, en mörg önnur verkföll, sem háð hafa verið hér á landi og engum stjórnvöldum hefur dottið í hug að skipta sér af. Hér er aðeins um stöðvun örfárra flugvéla að ræða og ef forráðamönnum Loftleiða h/f vex í augum gróðamissir í sambandi við þær, ættu þeir hreinlega að semja við starfsmenn félagsins, en vera ekki að efna til verkfalls og stofna þannig eigin hagsmunum í hættu. Það hefði verið þessu ágæta félagi miklu meiri vegsauki ,en það, sem gert var, að siga ríkisvaldinu á þessa flugmenn, eins og gert var nú og raunar ekki í fyrsta sinn. Það, að Loftleiðir h/f semja ekki nú, þótt það væri félaginu vitanlega í lófa lagið, þar sem um svo fáa verkfallsmenn er að ræða, er augljóslega af þeirri ástæðu, að forráðamenn Loftleiða vita það, að félagið á hauk í horni, þar sem hæstv. ríkisstj. er. Það treystir á það af fyrri reynslu, að það geti att hæstv. ríkisstj. fram gegn launþegum félagsins nú eða hvenær sem á þarf að halda.

Ég get ekki látið hjá líða í sambandi við þetta mál, að mér finnst þess gæta of mikið hér á landi, að litið sé á flugfélögin sem eins konar „súper“-stofnanir, eins og það mundi vera nefnt nú á dögum, einhverjar velgerðarstofnanir eða jafnvel sem helga dóma, er standi ofan við lög og rétt í landinu. Auðvitað er slíkt álit mesta fjarstæða, því að íslenzku flugfélögin eru ekki annað, en rétt og slétt gróðafyrirtæki, sem fyrst og fremst eru rekin með hagsmuni hluthafanna fyrir augum. Þetta finnst mér ekki ástæðulaust að taka fram í sambandi við umr. um þetta mál, því að ég hef grun um, að hæstv. ríkisstj. kunni að líta þannig á málið, að hér sé um einhverja einstaka aðila að ræða, sem raunverulega standi utan við öll lög. Vissulega eru flugvélar ómissandi farartæki, ég dreg ekki úr því. En flugvélar eru ómissandi farartæki á nákvæmlega sama hátt og skip og bifreiðar eru ómissandi farartæki. Samgöngur á sjó og landi hafa margsinnis truflazt vegna lögmætra verkfalla og þó held ég, að engum hafi nokkru sinni dottið í hug, þjóðarvoði eða þjóðarvansæmd, í því sambandi. Þá hefur ekki verið svo mikið gert úr nauðsyn þess að bjarga fjárhagsafkomu skipafélaganna, eigenda bifreiðanna o.s.frv., en það þykir sjálfsagt, þegar um flugfélög er að ræða, að þeirra gróða megi ekki með verkfalli skerða um svo mikið sem einn eyri.

Það er daglegur viðburður í öðrum lýðfrjálsum löndum, að mikilvægustu samgöngutæki eru ekki í notkun lengri eða skemmri tíma vegna verkfalla. Hér gerir hæstv. ríkisstj. mjög mikið veður út af því, að stöðvun flugvéla íslenzku flugfélaganna sé vansæmd og álitshnekkir erlendis vegna ferðamanna. Í mesta ferðamannalandi Evrópu, Ítalíu, eru járnbrautarstöðvanir vegna verkfalla mjög algengur viðburður, sömuleiðis í Frakklandi. Og ég hef ekki lesið það í fréttum, að ríkisstj. þessara landa hafi hlaupið upp til handa og fóta og sagt: Sæmd þjóðarinnar er í veði. Það verður að setja þvingunarlög á verkamennina. — En hér er það gert hverju sinni sem blakað er við flugfélögunum hér á Íslandi.

Ég rakti í fáum orðum röksemdir hæstv. ríkisstj. fyrir þeim aðgerðum, sem hér eru fyrirhugaðar. Rekstur Loftleiða h/f truflast. Álit félagsins spillist. Framtíð þess er stofnað í hættu. Og svo er talað um þjóðarnauðsyn í sambandi við þetta verkfall. Þetta eru ósköp svipuð rök og notuð hafa verið áður af þessari hæstv. ríkisstj. Orðatiltækin eru ákaflega lík og notuð voru 1960 og 1961. Í forsendum fyrri brbl., laganna frá 1960, var talað um, að afkoma flugfélaganna þyldi ekki stöðvun vegna verkfalla og með henni væri framtið þeirra teflt í hættu. Þá sagði þar einnig, að verkfall yrði flugfélögunum álitshnekkir erlendis og innlendum mönnum til óþæginda og tjóns. Hvenær eru ekki verkföll til óþæginda og tjóns? Í forsendum síðari brbl.; laganna frá 1961, var bent á, að stöðvun frá benzínafgreiðslu mundi valda flugfélögunum tjóni og tefla rekstrargrundvelli þeirra og framtíðarstarfsemi í tvísýnu og jafnvel beinan voða. Þessi stöðvun á benzínafgreiðslu yrði félögunum enn fremur óbætanlegur álitshnekkir og allri íslenzku þjóðinni til vansæmdar. Það er ekki laust við það, að djúpt sé tekið í árinni í þessum tilfellum. Þetta er aldrei nefnt né orðað í sambandi við verkföll yfirleitt, en eingöngu þegar um þessi „súper“-fyrirtæki er að ræða, flugfélögin, sem virðast eiga hæstv. ríkisstj. með húð og hári og kannske allt löggjafarvaldið í landinu. Nei, söngurinn er sá sami í öll þessi skipti. Það er umhyggjan fyrir afkomu þessara tveggja hlutafélaga, þessara tveggja gróðafélaga. Það er rétt til afsökunar og til smekkbætis, að talað er um þjóðarnauðsyn, þjóðarvoða og þjóðarsæmd. Það er talað um þjóðarnauðsyn og þjóðarvoða af þeirri augljósu ástæðu að réttlæta aðgerðirnar samkv. stjórnarskránni, en slík slagorð og orðatiltæki hafa ekki mikið gildi og vitanlega voru brbl. 1960 og 1961 og öll brbl. varðandi lögþvingun starfsstéttanna stjórnarskrárbrot að anda til, hvað sem dómstólarnir mundu hafa sagt um það.

Það er mjög greinilegt, að það er rekstrarafkoma flugfélaganna, sem er hér sett í hásætið og fyrir henni verða síðan launastéttirnar, hvort sem það eru verkamenn eða flugmenn, að beygja kné sín. Samningsfrelsi þessara stétta og verkfallsréttur skal víkja fyrir hagsmunum gróðafélaganna. Þetta þykir mér ástæða til að átelja og átelja harðlega.

Nú mun margur skilja orð mín svo, að ég sé hér með harða gagnrýni á flugfélögin yfirleitt. Það er ég ekki. Ég gagnrýni aðeins framkomu þeirra gagnvart starfsfólki sínu, þegar um launasamninga, kjarasamninga er að ræða. Ég hef líka með orðum mínum reynt að skipa þessum fyrirtækjum þann sess, sem þau eiga með réttu í þjóðfélaginu, en ekki þar sem þau hafa verið sett skýjum ofar. En ég hef enga tilhneigingu til þess að varpa rýrð á flugfélögin og tel þeirra verðleika marga. Þau hafa margt gert vel, bæði fyrr og síðar. En það er aðeins, eins og ég sagði, framkoma þessara félaga gagnvart starfsfólkinu 1960, 1961 og nú árið 1965, sem ég tel vægast sagt ekki lofsverða. Ef flugfélögin yrðu fyrir alvarlegum skakkaföllum, eins og öll fyrirtæki geta orðið, vegna náttúruhamfara eða annarra sérstakra óhappa, bæri vissulega að hjálpa þeim á allan mögulegan hátt. En ef þau eins og nú tefla rekstri sinum og afkomu í voða með þjösnaskap í samningum við starfsfólkið, tel ég, að um sjálfskaparvíti sé að ræða, og þá verðskulda þeir enga samninga. Og það er þessum flugfélögum sannarlega ekki til málsbóta að geta flúið til ríkisvaldsins hvenær sem þeim sýnist og fengið það til að troða á rétti launþeganna.

Það er vert að hafa í huga ýmislegt í sambandi við flugfélögin íslenzku. Ég veit ekki betur en þau hafi lengst af flotið á því, að sjóður almennings og þar með sjóður launþeganna í landinu, ríkissjóðurinn, hefur gengið í ábyrgðir og skuldbundið sig fjárhagslega þeirra vegna. Þess vegna finnst mér sitja illa á þessum sömu félögum að leita ásjár ríkisvaldsins í þeim tilgangi einum að fá dýrmætustu réttindi þessa almennings, starfsstéttanna, samningsfrelsið og verkfallsréttinn, fótum troðin.

Það má einnig hafa annað í huga í sambandi við þetta mál. Öllum er kunnugt, að umsvif íslenzku flugfélaganna fara nú ört vaxandi og fjárhagsafkoma þeirra batnar stórum á síðustu árum. Þetta er auðvitað gott fyrir félögin og um leið fyrir alla þjóðina. En hverjum er þetta að þakka? Auðvitað er þessi aukni gróði félaganna fyrst og fremst að þakka almenningi, sem skiptir við félögin og færir félögunum gróðann í háum fargjöldum og framgjöldum. Mér finnst, að einnig þessi staðreynd ætti nokkuð að draga úr tilhneigingu þessara félaga til þess að traðka á grundvallarréttindum fólksins í landinu. En það virðist öðru nær en svo sé. Það má segja í þessu sambandi: Sjaldan launar kálfur ofeldi.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu. En ég vildi þó aðeins taka það fram sem mína skoðun, að ef það á að fara að verða regla án undantekninga að lögbanna hvert það verkfall, sem flugfélögin íslenzku eiga sinn þátt í að valda, verður það alvarlegt íhugunarefni öllum hugsandi mönnum, hvort þessi félög í sinni núverandi mynd eigi rétt á sér í íslenzku þjóðfélagi. Þá kemur til álíta að mínum dómi, hvort ekki sé rétt, að hið opinbera taki við öllum rekstri flugfélaganna. Við vitum, að eins og sakir standa ábyrgist ríkissjóður fjárhagslegt tap félaganna að verulegu leyti. Ríkið gæti þá allt eins vel tekið að sér allan reksturinn, einnig gróðahlið hans. Þetta finnst mér mjög til athugunar, einmitt í sambandi við þetta mál, sem hér er til umr. og önnur hliðstæð á undanförnum árum. Mér finnst það koma sérstaklega til greina, þegar voldug fyrirtæki taka að misbjóða réttarvitund hins almenna manns og gerast ríki í ríkinu.

Það er hæstv. ríkisstj., sem flytur þetta gerðardóms- og verkfallsbannlagafrv., þótt flugfélögin vitanlega standi þar að baki. Þess vegna verða l. að þessu frv. samþ. eingöngu á ábyrgð hæstv. ríkisstj., svo og þess þingmeirihl., sem greiðir frv. atkv.

Ég vil benda á að lokum, að hér er ekki um neitt smámál að ræða. Þótt ákvæði þessa frv. hitti að vísu aðeins örfáa einstaklinga, er það ekki aðalatriði málsins. Það, sem er alvarlegt að mínu álíti og gerir þetta mál stórt er, að með valdboði ofan frá skuli ein af vinnustéttum þjóðarinnar svipt rétti til frjálsra samninga um kaup og önnur kjör meðlima sinna. Þetta er það eina, sem ég tel máli skipta og hefur valdið því, að ég hef orðið svo fjölorður í dag um þetta frv. Þessu ranglæti ber að mótmæla og það ber að mótmæla því kröftuglega. Þetta ranglæti snertir ekki aðeins örfáa flugmenn, heldur alla meðlimi allra frjálsra stéttarfélaga í landinu. Því ber að fordæma innihald þessa frv.

Hæstv. ríkisstj. og hæstv. samgmrh. veifa pálmanum í dag og geta leyft sér að láta andmæli eins og þau, sem ég hef nú viðhaft, sem vind um eyru þjóta. En ég vil aðeins minna á, að oft fer það nú svo, að ranglætið hittir um síðir þann, sem framdi það. Og það er öldungis víst, að enginn, hvorki ríkisstj. né einstaklingur, vex af því að fara með ójöfnuð á hendur þeim, sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég læt þá máli mínu lokið og vil að lokum skora á hv. þdm. að fella þetta frv. nú þegar við 1. umr.