26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þær umr., sem hér hafa farið fram, að neinu marki, en það eru tvö, þrjú atriði í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa verið fluttar, sem ég get ekki látið hjá líða að gera aths. við.

Báðir þeir hv. stjórnarandstæðingar, sem töluðu hér á undan síðasta ræðumanni, létu mjög liggja að því, að það, að þetta frv. hefur komið fram, hefði gert forráðamenn Loftleiða miklu tregari til samninga, en ella hefði verið og annar þessara hv. ræðumanna komst þannig að orði, að það væri vegna þess, að reynslan hefði sýnt, að gerðardómar gengju að jafnaði atvinnurekandanum í vil. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hæstiréttur tilnefni 3 menn í gerðardóm, sem skeri úr um þessa deilu. Ég tel það algerlega ómaklega aðdróttun að hæstarétti, æðsta dómstól landsins, sem í þessu felst, þannig að þessu megi ekki vera ómótmælt. Hver hefur ástæðu til að ætla, að hæstiréttur, þegar honum er treyst til þess með löggjöf á Alþ. að skipa hlutlausa menn í þennan dóm, hljóti ávallt að velja menn í dóminn, sem séu hlutdrægir, þannig að þeir hljóti að draga taum atvinnurekanda? En annan skilning get ég ekki lagt í þau ummæli, sem hér er um að ræða.

Hitt atriðið, sem ég vildi aðeins gera örlitlar aths. við, kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, 4. þm. Norðurl. e., því að mér virtist, að sú túlkun, sem hann gaf á afstöðu flugmanna til deilunnar, komi mjög í bága við þær greinargerðir, sem flugmennirnir sjálfir hafa birt um þetta í blöðum. Hann virtist telja það kjarna málsins, að flugmenn vildu samræma sig við erlenda starfsbræður sina. Mér hefur hins vegar skilizt, að flugmennirnir hafi haldið því fram, sem auðvitað er miklu skynsamlegra frá mínu sjónarmiði séð, að það, sem þeir væru að berjast fyrir, væri innbyrðis samræmi á milli þeirra flugmanna, sem nú hafa fasta samninga, og þeirra, sem í deilunni eiga. Þeir telja eðlilegt að greiða allmiklu hærra kaup á Rolls Royce flugvélunum heldur en á DC 6 flugvélunum. Það má vel vera, að svo sé erlendis og að þetta sé sanngjarnt, ég er alls ekki dómbær á það. En það ber mjög að harma, að aðilar hafa ekki komið sér saman í þessu máli og vegna þess að flugreksturinn er nú einu sinni þannig, að hann þolir ekki verkföll, finnst mér, að ástæða sé til að reyna þessa leið, að fá hlutlausan dómstól til þess að skera úr þessu atriði, fyrst svo illa hefur tekizt til, að aðilar hafa ekki komið sér saman um það. Það er ekki í þessu sambandi hægt, eins og hv. 9, þm. Reykv. gerði, að gera samanburð á því, að járnbrautarverkföll væru leyfð í Frakklandi o.s.frv., því að sá meginmunur er á, að íslenzku flugfélögin eru rekin í samkeppni við erlenda aðila, en um slíkt er auðvitað ekki að ræða hvað snertir járnbrautarrekstur, hvort sem er í Frakklandi, Ítalíu eða annars staðar. Hitt hygg ég, að ekki sé sjónarmið flugmannanna, að þeir beri sig saman við erlenda starfsbræður sína og krefjist kjara til jafns við þá. En þannig virtist hv. 4. þm. Norðurl. e. líta á og í rauninni ekki hafa neitt að athuga við það, þótt þessi samræming ætti sér stað.

Það er auðvitað hægt að skilja þetta sjónarmið, þó að það virðist, eins og ég sagði, ekki liggja bak við þessa flugmannadeilu. En því hefur verið haldið fram af ýmsum stéttum öðrum, sem borið hefur á góma einmitt við þessar umr., svo sem í sambandi við læknadeiluna og verkfræðingadeiluna og síðast, en ekki sízt í sambandi við kjaramál opinberra starfsmanna. Þá vil ég einmitt minna á það, að í sambandi við kjaramál opinberra starfsmanna var þessi hv. þm. álit annarrar skoðunar en þeirrar, sem hann lætur í ljós nú. Það var eins og hann gengi út frá því, að jafnvel þó að það sjónarmið væri lagt til grundvallar lausn vinnudeilunnar, að íslenzku flugfélögin ættu að greiða starfsmönnum sinum það sama og erlend flugfélög gerðu, þá mundi slíkt ekki valda neinni röskun í þjóðfélaginu. Það þýddi aðeins það, að gróði Loftleiða yrði þá minni, og vafalaust er það rétt hjá honum, miðað við afkomu félagsins síðustu 1—2 árin a.m.k., að það mundi ekki skipta verulegu máli. En það voru talsvert aðrar skoðanir í þessu efni, sem komu einmitt fram hjá þessum hv. þm. og ekki eingöngu hjá honum, heldur yfirleitt hjá forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, þegar kjaramál opinberra starfsmanna voru á döfinni 1963. Nú var það þannig, að til grundvallar þeim kröfum, sem opinberir starfsmenn báru fram, lá einmitt samanburður við Norðurlöndin og kröfurnar, sem ýmsum virtust að vísu óheyrilegar, þar eð farið var fram á miklar kauphækkanir, voru þó miðaðar við það Norðurlandanna, þar sem opinberir starfsmenn hafa lægst kaup eða Noreg. Nú fór því auðvitað fjarri, að með þeim kjaradómi, sem upp var kveðinn í júlí 1963, væri gengið inn á þessar kröfur að fullu. Þau laun, sem opinberum starfsmönnum voru ákveðin, voru til muna lægri, en kröfurnar eða það kaup, sem lægst er annars staðar á Norðurlöndum og ég býst nú í rauninni ekki við því, að neinn opinber starfsmaður hafi gert sér vonir um það, að kröfurnar yrðu teknar til greina að fullu, enda er það nú einu sinni þannig, að við Íslendingar verðum í kjaramálum að sætta okkur við það, sem íslenzka þjóðarbúið gefur af sér, en ekki bera okkur saman við það, hvað Svíar, Bandaríkjamenn eða aðrir geta greitt, miðað við þjóðartekjur í þeim löndum.

Það er að vísu vel skiljanlegt, að ýmsar starfsstéttir hér á landi, svo sem læknar, verkfræðingar og ég býst við, að það sama eigi við um flugmennina, vilji gjarnan fá svipað kaup og greitt er í þessum öðrum löndum og e.t.v. eiga þessir aðilar oft kost á því að fá stöður erlendis og þá auðvitað með því kaupi, sem þar er greitt og auðvitað er ekki hægt að gera neitt til þess að hindra það, að þessir aðilar taki slíkum tilboðum. Ef menn hins vegar vilja vinna hér á landi og sérstaklega á þetta auðvitað við sérmenntaða menn, sem vinna ábyrgðarmikil störf, eins og flugmenn, verkfræðinga o.s.frv., þá verða þeir að kaupa það því verði að sætta sig við þau kjör, sem íslenzkur þjóðarbúskapur getur borið. Þessu verður nú einu sinni ekki breytt.

En hver voru viðbrögð hv. 4. þm. Norðurl. e. einmitt við kjaradómnum á sínum tíma? Í sjálfu sér ætti að vera óþarfi að rifja það upp í þessari hv. d. Ég býst við, að flestum hv. þm. sé það í fersku minni, frá því að umr. um kjaradóminn fóru fram í nóv. 1963. Þá voru bornar fram kröfur um almennar kauphækkanir, sem námu ekki minna en 40%. Var því nú haldið fram, að atvinnuvegirnir gætu auðveldlega tekið á sig 40% hækkun? Nei, slíkt var allt of mikil fjarstæða, til þess að nokkur verkalýðsleiðtogi og þá ekki heldur hv. 4, þm. Norðurl. e. léti sér fara slíkt um munn. Það, sem þessar háu kröfur voru byggðar á, var eins og ég man, að það var orðað í Vinnunni, málgagni Alþýðusambands Íslands, að vegna kjaradómsins hefðu orðið þær raskanir á öllum launahlutföllum í landinu, að ekki yrði hjá því komizt, að verkalýðurinn hæfist handa um að rétta hlut sinn í því efni. Þó að launakjör opinberra starfsmanna væru e.t.v. ekki — a.m.k. þeirra hærra launuðu — meira, en í mesta lagi 2/3 af því, sem greitt var í því Norðurlandanna, þar sem þessi kjör eru verst, var það talin svo mikil röskun á launahlutföllum, að verkalýðurinn yrði að fara fram á stórfelldar launahækkanir, jafnvel þótt viðurkennt væri af þessum mönnum, að verulegur hluti slíkra launahækkana hlyti að renna út í sandinn í hækkuðu verðlagi. En eftir sem áður yrðu þessar hækkanir að eiga sér stað, þótt ekki væri annað, en rétta launahlutföllin, eins og það var orðað, eða með öðrum orðum að ná meira eða minna aftur af því, sem opinberir starfsmenn að þeirra dómi höfðu ranglega borið úr býtum með kjaradómnum.

Það mundi út af fyrir sig gleðja mig, ef sú ræða, sem hv. þm. flutti hér áðan, þýddi það, að hann hefði gerbreytt um skoðun í þessu efni. En ég efast um það og sannfærist ekki um það, fyrr en eitthvað það hefur gerzt, sem væri auðsýnileg staðfesting á því, að um slíka hugarfarsbreytingu væri hjá honum að ræða.

Herra forseti. Ég mun nú láta máli mínu lokið. Ég vildi aðeins að lokum minnast á það, að þær tölur, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér um þá kjararýrnun, sem hefði átt sér stað, frá því að viðreisnin hófst, eru auðvitað algerlega villandi. Hitt er auðvitað annað mál og það ber að harma, að verkalýðnum hefur ekki tekizt að hækka raunverulegar tekjur sínar til samræmis við það, sem þjóðartekjurnar hafa vaxið. Þetta er staðreynd, þrátt fyrir það þótt kauphækkanir hafi orðið hér meiri en í nokkru nágrannalanda okkar. Þó að ég vilji síður en svo komast svo að orði, að verkföll séu úrelt, — það er ekki mín skoðun, að afnema eigi verkfallsréttinn, þó að nauðsynlegt geti verið í vissum tilfellum að takmarka hana, — þá má ekki loka augunum fyrir því, sem er einmitt skýring á því, að árangurinn af verkfallsbaráttu verkalýðsins að undanförnu, þegar metið er í raunverulegum kjarabótum, hefur orðið svo lítill sem raun er á, en með því á ég við það, að núverandi leiðir, sem farnar eru til lausnar kjaradeilunum, eru í rauninni arfur frá þjóðfélagsháttum, sem eru ekki lengur til. Ef við förum t.d. aftur til tímans fyrir fyrri heimsstyrjöldina, og þarf ekki að fara svo langt aftur í tímann, þá gat verkamaðurinn yfirleitt reiknað með því, að þær kauphækkanir, sem honum tókst að knýja fram, hvort sem þær voru meiri eða minni, yrðu raunhæfar. Atvinnurekendur höfðu þá ekki neina möguleika á því að velta kauphækkunum yfir í verðlagið. Það gerði samkeppnisaðstaða þeirra og þeir þjóðfélagshættir, sem voru á þeim tíma. Sem dæmi um það má einmitt nefna þetta, að þá var sjaldnast um að ræða almennar kauphækkanir eins og nú, heldur var það þannig, að fengju verkamennirnir kjarabót, þá leið ár og dagur þangað til iðnaðarmenn fengu samsvarandi kauphækkun og enn lengri tími þangað til opinberir starfsmenn, verzlunarmenn og aðrir fengu kjarabætur. Þetta gerði það að verkum, að kjarabæturnar þá voru raunhæfar, þannig að kaupgjaldsbaráttan var þá fyrst og fremst kjarabarátta. Nú er það hins vegar þannig, vegna þess að kauphækkanirnar eru almennar og oft umfram það, sem framleiðslunni nemur, að það er tiltölulega auðvelt fyrir atvinnurekendur að velta þeim af sér yfir í verðlagið. Þessi breyttu þjóðfélagslegu viðhorf gera það að verkum, að það er ekki hægt að hjakka í sama farinu og áður, að einblína á kaupstreituna. Í nágrannalöndum okkar hefur verkalýðshreyfingin lagað baráttu sína eftir þessum breyttu aðstæðum, með þeim árangri, að þar hefur verkalýðurinn getað hrósað meiri kjarabótum, en hér þrátt fyrir miklu minni kauphækkanir. Ég veit, að hv. 4. þm. Norðurl. e. vill af einlægni vinna að því, að sama leið verði farin hér. Það myndaðist nokkur vísir til þess með júní samkomulaginu á s.l. ári. Hvort framhald verður svo á því, það leiðir reynslan ein í ljós. En það er þetta, sem launþegunum fyrst og fremst er nauðsynlegt, að þeir mega ekki staðna í þeim baráttuaðferðum, sem voru góðar og gildar á sínum tíma og líklegar til árangurs, en eiga ekki við, miðað við þá þjóðfélagshætti, sem nú eru. Þar verður að fara aðrar leiðir og liggur siður en svo í þessu, að ég telji það æskilegt að takmarka verkfallsréttinn. Meðan verkalýðnum hefur ekki tekizt að ná fótfestu með öðru móti, er það ekki rétt. En aðalatriðið er þetta, að fundnar verði leiðir til þess með sem beztri samvinnu milli atvinnurekenda, verkamanna og ríkisstj. á hverjum tíma, að hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum fari vaxandi, eftir því sem framleiðsluaukningin hverju sinni leyfir.