26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Alfreð Gíslason:

Herra forsetl. Hæstv. samgmrh. beindi nokkrum orðum sínum til mín í ræðu sinni fyrr í kvöld. Það er ekki margt, sem ég þarf að gera athugasemdir við í sambandi við þau orð hæstv. ráðh.

Hann veitti mér viðurkenningarorð í einu atriði, en ég verð að taka fram, að því miður á ég ekki .þau viðurkenningarorð skilið. Hann gat þess, að hv. 6. þm. Sunnl. hefði lagt til, að þetta frv. yrði fellt nú þegar við þessa umr. Ég gerði nákvæmlega hið sama í lok minnar ræðu. Ég skoraði á hv. þdm. að fella þetta frv. nú við 1, umr.

Þá fann hæstv. ráðh. mjög að því, að ég skyldi ekki hafa bent á neinar leiðir til lausnar á þessu vandamáli. Ég get skilið það að vissu leyti, að hann sé óánægður með það. En hér er um að ræða eina ákveðna leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið og annað er ekki til umr. að svo stöddu.

Hæstv. ráðh. var mjög sléttmáll í ræðu sinni í kvöld og brosmildur og varð oft litíð upp á áheyrendapallana. Hann sagðist þess fullviss með sjálfum sér, að flugmennirnir mundu vera meira á sínu máli en stjórnarandstæðinganna, sem hér hefðu talað, þ.e.a.s. hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að flugmenn innst í hjarta sínu væru fylgjandi því, að gerðardómur fjallaði um mál þeirra. Ef hæstv. ráðh. hefur nú verið svona viss um þetta, hvers vegna reyndi þá ekki hæstv. ríkisstj. þá leið í málinu að leita til deiluaðila, flugmanna Loftleiða, með uppástungu um, að þessir aðilar legðu deiluna af fúsum og frjálsum vilja í gerð? Slíkt samkomulag milli tveggja deiluaðila að leggja mál í gerðardóm af fúsum og frjálsum vilja er allt annað en lögþvingaður gerðardómur. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Var þetta athugað? Hann telur víst, að flugmennirnir hefðu gengið að þessu og hvað þá Loftleiðir. Kannske hefur hæstv, ráðh. aldrei rætt við Loftleiðir um þetta mál yfirleitt, ekki komizt að félaginu fyrir Vinnuveitendasambandinu. Um það er mér ekki kunnugt.

Hæstv. samgmrh. vék nokkrum orðum að verkfræðingum og læknum þessa lands í tilefni ummæla minna um þvingunarlög, sem þessar stéttir hefðu verið beittar af hæstv. ríkisstj. og hann hneykslaðist á því, að ég taldi, að almenningi hefði verið gerður miklu meiri greiði með því að beita verkfræðingana ekki þvingun, eins og gert var. En ég vil endurtaka þá skoðun mína, að þjóðinni í heild hefði verið gerður miklu meiri greiði með því, að hæstv. ríkisstj. hefði aldrei lagt út á þá braut að ofsækja verkfræðingastétt landsins, eins og ríkisstj. hefur gert frá upphafi sinna vega. Ég sýndi fram á það með órækum tölum hér í fyrra, þegar síðustu þvingunarlög voru hér til umr., að brottför verkfræðinga af landinu hefði aldrei orðið meiri, en síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Verkfræðingar og þar með beztu verkfræðingar þjóðarinnar hafa flúið land vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. í þeirra garð. Haustið 1961 voru læknar í Reykjavík beittir sömu þvingunum. Hér í Reykjavík hefur aldrei borið á læknaskorti, en nú síðustu missirin, siðan læknar voru beittir þvingun í Reykjavik af hæstv. ríkisstj. með valdboði laganna, er farið að bera á læknaskorti í Reykjavík. Þetta er að mínum dómi algerlega sök hæstv. ríkisstj. Afleiðingin verður sú, sem þegar er komin á daginn, að héraðslæknar utan af landi eru farnir að leita til Reykjavíkur í hin auðu rúm þar. Þetta eru afleiðingarnar og þessar afleiðingar bitna á almenningi.

Þá hafði hæstv. ráðh. mörg og fögur orð um ágæti viðreisnarinnar. Ég gerði í minni ræðu fyrr í dag nokkra grein fyrir, hvers eðlis það ágæti er og skal ekki endurtaka það. Hann taldi kjör almennings í landinu vera mjög góð og það væri viðreisninni að þakka. Ég vil nú ekki taka undir það, að kör almennings í landinu séu góð og ef almenningur hefur peningaráð, þá er það vegna óvenjulega mikillar vinnuþrælkunar og það er engin blessun, hvorki fyrir verkamenn sjálfa né þjóðina í heild. Nei, það er ekki viðreisnin, sem hefur bjargað þjóðinni 5–6 síðustu árin. Það sem bjargað hefur þjóðinni fyrst og fremst síðustu árin, er einmuna gott árferði til lands og sjávar. Þar við hefur bætzt hækkandi verðlag á íslenzkum afurðum erlendis. Þetta hefur gert það að verkum, að almenningur í landinu hefur ekki liðið skort, þrátt fyrir „viðreisn'' hæstv. ríkisstj.