26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma hingað í ræðustól og tilefnið er furðuleg ræða hv. frsm. meiri hl. hér áðan. Að vísu gerði hv. síðasti ræðumaður þeirri ræðu nokkur skil, en ég vildi aðeins hafa orð á því líka, sem mér fannst sérkennilegt við þá ræðu.

Hv. frsm, ræddi fyrst um verkfallsréttinn og samningsfrelsið og löggjöfina um þessi réttindi og mér virtist hann ekki vera andvígur þeim lagabálki í sjálfu sér eða vera með till. um breytingu á þeim lögum. En hins vegar vildi hann greinilega gera sér mannamun, þegar um framkvæmd þessara nefndu lagaákvæða væri að ræða. Og þá vildi hann skipta og það kom greinilega fram í ræðu hans, — hann vildi skipta starfsstéttunum annars vegar eftir því, hvort um hálaunamenn væri að ræða eða láglaunamenn og hins vegar eftir því, hvort stéttirnar væru mannmargar eða mannfáar. Væri um hálaunamenn að ræða og fámennar stéttir, þá var svo að heyra á þessum hv. þm., að þá vildi hann ógjarnan láta þessi ákvæði um verkfallsrétt og samningsfrelsi gilda nema þá að einhverju og litlu leyti. Öðru máli gegndi, ef um fjölmennar stéttir eða um láglaunamenn væri að ræða. Mér þykir rétt að benda á þetta atriði í ræðu þessa hv. þm., sem er Alþfl: maður, að þannig vill hann láta framkvæma þessi mikilsverðu lög, að það fari eftir tekjum og það fari eftir mannfjölda. Það gerir ekkert til, þótt níðzt sé á mönnum, ef það eru hátekjumenn og það gerir heldur ekkert til, þótt það sé níðzt á stéttum, ef þær eru fámennar. Þetta eru hans hugmyndir bersýnilega um almenn mannréttindi.

Þessi hv. þm., frsm. meiri hl., ræddi nokkuð, eins og eðlilegt er, um verkföll. Og hann ræddi, eins og góðir Sjálfstfl.–menn gera oft, um skaðsemi verkfalla, um það tjón, sem verkföll orsökuðu í þjóðfélaginu. Ég hefði ekki verið hissa á þessum ummælum, ef þau hefðu ekki komið úr munni Alþfl.–manns. En ég vil benda á, að sagan sýnir og sannar, að þetta er alrangt. Verkföll hafa ekki orðið þjóðinni til tjóns. Hér á landi hafa verkföll verið mörg og stór allt frá byrjun þessarar aldar. Og það er enginn efi á því, að vinnudeilur og verkföll hafa orðið til þess að lyfta þjóðinni upp efnahagslega, fjárhagslega og menningarlega, og þá fyrst og fremst starfsstéttum þjóðarinnar, sem munu vera oft og tíðum 50–90%. Það er gamalt slagorð atvinnurekenda og þeirra þjóna að gera mikið úr skaðsemi verkfalla. En staðreyndin er þveröfug. Verkföllin hafa orðið til mikils góðs með okkar þjóð.

Það var einnig auðheyrt á ræðu hv, frsm. meiri hl., eins og einnig var auðheyrt á ræðum hæstv. samgmrh., að þessir aðilar, þ.e.a.s. stjórnarliðið í heild dregur taum Loftleiða í þessu máli á kostnað flugmanna. Þetta fer ekki á milli mála. Það er auðvitað í samræmi við þá afstöðu stjórnarliðsins til þessa máls, að það óskar eftir því eindregið, að gerðardómur fjalli um málið. Þeir telja sig sem sé sannfærða um, að gerðardómur muni dæma í málinu flugmönnum – starfsmönnum – í óhag. Þess vegna er það, sem svona mikil áherzla er lögð á, að þessi leið verði farin.

Ég rakti það hér við 1. umr., hvernig hæstv. ríkisstj. hefði aftur og aftur gert árásir á fámennar starfsstéttir og stéttir tiltölulega hálaunaðra manna á undanförnum árum. Þetta er a.m.k. í sjötta sinn, sem árás er gerð á þessar stéttir. Því miður hafa starfsstéttirnar, sem fyrir þessu hafa orðið, ekki mætt árásinni af nógu mikilli hörku. Og það þyrfti sannarlega að verða einhvern tíma, áður en langt um líður, að öflug mótstaða kæmi fram af hálfu þessara stétta. Félag ísl. atvinnuflugmanna hefur nú birt yfirlýsingu, þar sem lýst er fordæmingu félagsins á því frv., sem hér liggur fyrir og þar er sagt berum orðum, að þetta stéttarfélag vilji ekki og muni ekki una þessari lausn málsins. Ég vona, að félagið sýni festu í eftirleiknum, eftirmálunum að þessu máli og að þeim megi takast að sýna hæstv. ríkisstj. fram á, að slík vinnubrögð, slíkt ofríki sem hún hefur hér í frammi borgi sig ekki fyrir hana sjálfa.

Ég hef heyrt, að ætlunin sé að afgreiða þetta mál endanlega úr þessari hv. d. nú þegar í dag, að meiningin sé m.ö.o. að ljúka 2. og 3. umr. málsins á einum degi. Þetta tel ég óviðunandi og ósæmilegt að bjóða hv. d. upp á. Ég skal minna á, að frv. þessu, sem fyrir liggur, var útbýtt á Alþ. 21. apríl. Síðan liðu 5 dagar og það var ekki fyrr en 26. apríl, að málið er tekið á dagskrá til 1. umr. Ég tel hreinan óþarfa og ekkert mæla með því, að málið sé útkljáð að fullu hér í hv. d. í dag og ég vil að lokum beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann sjái sóma hv. d. borgið í þessu máli og taki málið ekki fyrir til 3. umr. í dag.