26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það voru nú aðeins örfá orð út af síðari ræðu hv. 9. landsk. þm. Það eru ekki mörg orð, sem ég þarf að hafa um þessa ræðu hv. þm., því að það er reynslan, að þegar menn byrja að hrópa kommúnistar, kommúnistar eða önnur slík nöfn, þá eru menn tæplega á því stigi, að það séu eigandi mikil orðaskipti við þá, meðan þeir eru í því sálarástandi. Og þó að maður þekki svona upphrópanir frá illa uppöldum götustrákum, þá á maður því yfirleitt ekki að venjast hér í hv. d., þó að þessi hv. þm. geri nú undantekningu frá því, sennilega vegna þess, að samvizkan er ofurlítið mórauð og segi ég honum það ekki til lasts, þegar um þetta málefni er að ræða, sem hann er hér að reyna að verja, en þarna kemur í ljós, eins og oft er, að sannleikanum verður hver sárreiðastur og það munu hafa verið þau ummæli, sem ég hafði hér um það, að hann hefði valið sér nýja húsbændur, sem sérstaklega komu illa við fínu taugarnar hjá honum.

En hv. þm. sagði, að það væri nú öðru nær, en að hann hefði valið sér nokkra nýja húsbændur, hann hefði yfirleitt enga húsbændur aðra en sína samvizku og það væri hún ein, sem réði afstöðu hans til mála hér á hv. Alþ. Þetta er nú kannske hægt að segja þeim, sem eru ókunnugir heimilisháttum hér á hv. Alþ. hin síðari ár, en varla okkur, sem höfum horft á þetta kaghýdda lið hæstv. ríkisstj. greiða hér atkv. í hverju málinu á fætur öðru ár eftir ár gegn betri vitund og gegn betri samvizku og verið veinandi undan meðferðinni á sjálfu sér.

Það var svo til marks um málflutning þessa hv. þm. að öðru leyti, að hann var að reyna að færa fram einhver líkindi fyrir því, að okkar samúð með verkfalli flugmanna mundi standa í einhverju sambandi við það, að við værum að reyna að komast til valda með þessu verkfallsbrölti. Ég veit nú ekki, hvað svona tilraunir eiga að þýða. Ég held, að engum skyni bornum manni geti dottið neitt slíkt í hug, enda er mér ekki heldur kunnugt um, að nokkur flokkur, hvorki kommúnistar né aðrir, hafi komizt til valda nokkurs staðar með verkföllum. En það getur vel verið, að þetta sé einhver sagnfræði, sem þessi hv, þm. hefur uppgötvað.

Þetta var almennt um það, sem hv. þm. sagði, en ég ætla að taka aðeins nokkur önnur atriði úr ræðu hans, sem voru nær því, að um þau væri ræðandi á sæmilega skynsamlegan hátt.

Það var þá fyrst það, að það væru engin rök í þessu máli, þó að íslenzkir atvinnuflugmenn hefðu lýst því yfir, að þeir mundu ekki una því að taka laun öðruvísi, en sem frjálsir viðsemjendur, um sín launakjör, Alþingi gæti auðvitað ekki tekið tillit til þess, þó að einhverjir hótuðu því að fara ekki eftir lögum. Ég vil benda hv. þm. á, að hér er dálítil hugsanavilla á ferðinni, því að frv. gerir ekki ráð fyrir því að knýja íslenzka atvinnuflugmenn í neitt vistarband hjá h/f Loftleiðum. Það aðeins ákveður, hvaða kaup og kjör skuli gilda á Rolls Royce 400. En þau kveða ekki á um það, að meðlimir íslenzkra atvinnuflugmanna skuli vinna hjá þessu fyrirtæki. Þeir eru eftir sem áður frjálsir að því að velja sér húsbændur, alveg eins og þessi hv. þm.

Um það atriði, að forsendan fyrir útreikningum mínum, þegar ég var að greina frá því, hvað bæri á milli viðsemjendanna í þessari deilu, að þær væru skakkar, þá vil ég geta þess, að forsendurnar tók ég upp úr þeim útreikningum, sem atvinnurekendur hafa gert í málinu og hv. þm. hefur í höndum. Og ég held, að hann, þessi erindreki atvinnurekenda hér í hv. d., geti ekki haft neitt við það að athuga.

Ég lagði sama grundvöll að mínum útreikningum og atvinnurekendurnir hafa gert í þeirri skýrslu, sem þeir létu hv. samgmn. í té.

Þá sagði hann, að það væri ekki mikill vandi að segja til um það, hverjar væru sambærilegar launastéttir hér á landi, það væru þeir flugmenn, sem ynnu á DC 6. En það vill svo hlálega til, að deilan stendur einmitt um það, hvaða mismunur skuli vera á kjörum flugmanna á DC 6 og Rolls Royce 400. Um það eru höfuðatriði deilunnar, hvaða mismunur skuli vera þar á kjörum bæði hvað vinnuskilyrði og kaup snertir.

Þá sagði hv. þm., að hann sæi ekki, hvað sáttanefnd hefði átt að gera í þessari deilu, því að sáttasemjari hefði reynt allt, sem hugsanlegt hefði verið að gera til sátta í deilunni. Ég bið menn að taka ekki orð mín svo, að ég hafi verið með neinar ásakanir á hendur sáttasemjara. Ég þekki hann það af reynslunni, að ég veit, að hann hefur auðvitað gert allt það, sem í hans valdi stóð í þessu máli. En hvað gat sáttasemjari raunverulega gert, ef mál stóðu þannig að, að tjaldabaki hafi verið samið um það, að gerðardómur yrði settur og atvinnurekendur höfðu slíkt í bakvasanum? Hvað gat þá sáttasemjari gert, þegar búið var að móta þvergirðingsafstöðu Vinnuveitendasambandsins með slíkum hætti? Sáttanefnd af hálfu ríkisstj. í þessari deilu hefði í fyrsta lagi verið greinilegur vottur um það, að engar lögþvinganir ættu að eiga sér stað, og hins vegar um það, að ríkisstj. legði áherzlu á sættir í deilunni. Þess vegna hefði sáttanefnd í þessari deilu einmitt verið mikils virði.

Þá sagði hv. þm., að það væri ósatt, að atvinnurekendur hefðu afturkallað nokkur þau boð, sem boðin hefðu verið í deilunni og vitnaði til þess, sem fram hefði komið í viðræðum við deiluaðila á fundi þeirra með samgmn. En það sanna í þessu máli er það, að fulltrúi Vinnuveitendasambandsins, sem var mættur á fundinum, viðurkenndi, að þetta væri rétt, en bætti því hins vegar við, að eins og þið kannizt nú við, Jón og Björn, sem oft hafið verið í samningum, þá segir maður ýmislegt, sem maður meinar ekki alveg. Það var efnislega það, sem hann sagði. En hins vegar viðurkenndi hann algerlega, að þetta væri rétt, sem fram hefði komið hjá atvinnuflugmönnum, að þeir hefðu raunverulega haft orð um það, að þeir tækju aftur og væru algerlega óbundnir af því, sem þeir hefðu áður boðið. Þetta er sannleikurinn í því máli og þingmaðurinn fer því algerlega með staðlausa stafi, þegar hann segir, að það gagnstæða hafi komið fram á fundinum.

Þá ræddi hv. þm. enn um það, að það bæri að líta á verkfallsréttinn aðeins sem nauðvörn þeirra fátækustu í þjóðfélaginu og auðvitað væri hægt að misnota verkfallsréttinn, þannig að löggjafarvaldið og ríkisvaldið yrði að skerast í leikinn. Það er auðvitað hverju orði sannara, að auðvitað er hægt að misnota verkfallsréttinn, eins og mörg önnur þjóðfélagsleg réttindi og það er líka rétt, að vissulega getur þá komið til greina, að þjóðfélagið verði með einhverjum hætti að grípa í taumana. En ég vil bara benda hv. þm. á og öðrum, sem eru þessarar skoðunar, að það eru ýmsar aðrar leiðir, sem ríkisvaldið hefur í þessum efnum, heldur en slíkar lögþvinganir sem hér er um að ræða. Ef t.d. einhver stétt tekur sér óhæfilega há laun með slíkum hætti, þá er hugsanlegt t.d. að jafna metin með sköttum eða öðru klíku og í því þarf ekkert ofbeldi að felast. Hins vegar tel ég mig hafa rakið þannig gang þessarar deilu, að það sé ljóst, að hér er ekki um neina misnotkun á verkfallsréttinum að ræða. Hér er í fyrsta lagi farið fullkomlega löglega að á alla grein og ástæður eru ríkar fyrir því, að atvinnuflugmenn hafa orðið að fara þessa leið, sem þeir hafa farið.