29.04.1965
Neðri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að ógilda löglega boðað verkfall og löglega háð verkfall flugmanna. Enn fremur er gert ráð fyrir í þessu frv., að launa– og kjaramál flugmanna í sérstökum tilfellum skuli ákveðin af gerðardómi. Hér er því gert ráð fyrir afbrigðilegum afskiptum ríkisvaldsins af vinnudeilum. Skýringar hafa verið gefnar á því hér, hvers vegna nauðsynlegt hefur þótt að grípa inn í þessa vinnudeilu á þennan afbrigðilega hátt. Hæstv. flugmálaráðh., sem hér talar fyrir þessu máli fyrir hönd ríkisstj., hefur sínar skýringar. Og hverjar eru þær? Hvernig stendur á því, að það þarf að snúast við þessari vinnudeilu á annan hátt, en lög landsins gera ráð fyrir um vinnudeilur yfirleitt? Jú, skýringar hæstv. ráðh. eru þær, að Loftleiðir h/f í þessu tilfelli verði fyrir tilfinnanlegu tjóni af verkfallinu. Í öðru lagi segir hæstv. ráðh., að Loftleiðir verði fyrir verulegum álítshnekki, m.a. erlendis. Og í þriðja lagi er svo það tekið fram af hæstv. ráðh. og í grg, frv., að það sé þjóðarnauðsyn að leysa þessa deilu sem fyrst. Ég verð nú að segja það, að mikið þykir mér þessar skýringar vera almenns eðlis og væru líklegar til þess að geta gilt um hvaða vinnudeilu sem væri og er því í rauninni alveg ófullnægjandi skýring frá hæstv. ráðh. að telja upp atriði eins og þessi til þess að réttlæta það, að hér eigi að fara með þetta mál eftir öðrum leikreglum, en landslög hafa gert ráð fyrir í slíkum tilfellum sem þessum.

Hér er ekki um nein afbrigðileg rök að ræða. Auðvitað er enginn vafi á því, að sérhver vinnuveitandi, sem verður fyrir því, að verkfall er gert á hann, verður fyrir einhverju tjóni, meira eða minna. Á því er auðvitað heldur enginn vafi, að í fjölda mörgum tilfellum verða vinnuveitendur fyrir álítshnekki, m.a. hjá sínum viðskiptaaðilum, þegar þeir lokast inni í verkfalli með einum eða öðrum hætti. Hvað halda menn t.d. um það, þegar verkfall stöðvar siglingaflota okkar, t.d. skip Eimskipafélags Íslands? Ætli það standi ekki eitthvað svipað á? Eða hvað halda menn, að sé t.d. um þau stóru samtök hér í landinu, sem standa fyrir því að selja til útlanda fiskafurðir okkar, gera fyrir fram samninga, lokast inni síðan í verkföllum og geta ekki staðið við gerða samninga? Vitanlega verða allir þessir aðilar ýmist fyrir álítshnekki í sambandi við þá samninga, sem þeir hafa gert eða þeir verða fyrir beinu tjóni. Þetta er hin almenna niðurstaða, sem yfirleitt verður í slíkum tilfellum sem þessum. Þessi deila er ekkert sérstakt í þeim efnum.

Þá er talað um það, að það sé þjóðarnauðsyn að leysa þessa vinnudeilu. Er meiri þjóðarnauðsyn að leysa þessa vinnudeilu, en allan þorrann af vinnudeilum? Mundi t.d. hæstv. ráðh., sem hér talar fyrir þessu frv., leggja í það að halda því fram, að það væri meiri þjóðarnauðsyn að leysa þessa vinnudeilu nú á þessari stundu heldur en t.d. að leysa vinnudeilu, sem yrði, þegar samningarnir renna út á komandi sumri, 5. júní og mundi, ef til verkfalla leiddi, stöðva allan síldveiðiflota landsmanna? Ætli það væri ekki þjóðarnauðsyn í því tilfelli að reyna að leysa deiluna? Ég held það. Og ég held, að þannig sé þessu varið í langflestum tilfellum, þegar um vinnudeilur er að ræða, að vissulega er nauðsynlegt að reyna að leysa deiluna. En okkar landslög hafa gert ráð fyrir því, að til slíkra deilna geti komið, og okkar lög hafa lagt sérstakar reglur fyrir um það, hvernig við slíku skuli brugðizt. En þá er um það að spyrja í rauninni í þessu tilfelli: Er þá hér um svo lítilvægt mál að ræða í sjálfu sér, að það sé í rauninni ekki ástæða til þess, að deila þurfi að rísa upp um flutning á slíku frv, sem þessu, þar sem gert er ráð fyrir því, að launakjörin skuli úrskurðuð af sérstökum gerðardómi? Nei, hér er ekki um neitt smámál að ræða, það veit hæstv. ríkisstj, mæta vel, hér er ekki um nýtt mál að ræða. Hliðstæð mál hafa verið flutt áður og ríkisstj. veit það mæta vel, að hér er einmitt komið að einu því máli varðandi lausn á launa– og kjaradeilum, sem launþegasamtökin í landinu eru hvað andvígust. Þau hafa alltaf mótmælt því harðlega, að vinnudeilur væru leystar á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Hér er því ríkisstj. með því að flytja þetta frv. á sérstaklega viðkvæmum tíma varðandi lausn á kjaramálum í landinu yfirleitt að fitja upp á máli, sem hún veit, að svo að segja öll launþegasamtökin í landinu standa sem veggur á móti. Það er því engu líkara en ríkisstj. sé að egna launþegasamtökin í landinu með því að bregðast á þennan hátt við þessari deilu, sem hér er gert.

Það hlýtur líka að vakna sú spurning í sambandi við þessi viðbrögð ríkisstj. og þau rök, sem hún reynir nú að tefla fram í málinu: Er þá í rauninni ekki alveg augljóst mál, að það er útilokað með öllu að heimila yfirleitt nokkurn tíma verkfall t.d. hjá Loftleiðum? Veldur stöðvun í öðrum tilfellum hjá Loftleiðum félaginu ekki tjóni og álitshnekki? Er ekki með þessu í rauninni verið að halda því fram, að það verði gjörsamlega að svipta það fólk allt, sem hjá þessu fyrirtæki starfar, verkfallsrétti, ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur í öllum tilfellum, því að ég get ekki séð nokkurn mun á því nú í þessu tilfelli og í öðrum, engan?

Ég sagði hér fyrr í minni ræðu, að löggjafinn hafi gert ráð fyrir því, að til vinnudeilna gæti komið, ef ekki tækjust samningar með eðlilegum hætti á milli vinnuveitenda og launþega. Í þeim lögum, sem marka þar meginstefnuna, er beinlínis gert ráð fyrir því, að með tilteknum hætti geti stéttarfélag boðað verkfall til þess að reyna að koma kröfum sínum fram. Í þeim lögum er einnig gert ráð fyrir því, að sérstakur sáttasemjari ríkisins eigi að skipta sér af samningunum. Í þeim lögum er einnig gert ráð fyrir því, að sá sáttasemjari geti þurft að leggja fram sérstakar sáttatillögur, sem eigi að bera undir atkvæðagreiðslu hjá viðkomandi deiluaðilum. Okkar löggjöf gerir því fyllilega ráð fyrir því, hvernig fara skuli að í vinnudeilum og meginkjarninn í þessari löggjöf byggist á því, að það eigi að leggja sig fram um það að reyna að ná samningum á milli aðila. Það er vitanlega vegna þess, að menn hafa slegið því föstu gegnum langan lærdóm í þessum efnum, að það er hollast og bezt, að þessir aðilar geti samið um slík mál sem þessi, þ.e.a.s. launa- og kjaramálin. Það er ábyggilegt, að þeir aðilar, sem ekki geta samið um launa- og kjaramálin, heldur þurfa á ytri aðstoð að halda til þess að lögþvinga eitthvað fram, munu ekki heldur geta unnið saman, þegar til lengdar lætur. Af því er það, sem gert er einmitt ráð fyrir, að þannig sé haldið á málunum, að það skapist eðlilegt aðhald að báðum aðilum, bæði launþegum og eins vinnuveitendum, í slíkum málum sem þessum, að þeir verði að sýna ákveðna ábyrgð og taka á sig ákveðnar skyldur einmitt í sambandi við það, hvernig eigi að leysa þessi mál.

Auðvitað fer enginn launþegi í verkfall að tilefnislausu. Verkfall er ekki aðeins fórn fyrir þann vinnuveitanda, sem verður að standa frammi fyrir verkfalli. Verkfall er vitanlega fórn líka fyrir þann launþega, sem verður að leggja niður vinnu og hætta að taka kaup. Og auðvitað er gert ráð fyrir því, að hver einstakur launþegi hugsi út í þessa staðreynd og auðvitað er líka gert ráð fyrir því, að hans félagssamtök, sem viðurkennd eru í vinnulöggjöfinni, séu líka ábyrgur aðili, sem hugsi út í það, um hvað er að tefla. Og á sama hátt er þetta vitanlega hjá vinnuveitandanum. Hann verður vitanlega að hugsa um rekstur síns fyrirtækis og hag þess og hann getur ekki staðið tillitslaust í verkfalli og látið rekstur sinn falla niður. Á þann hátt á vitanlega í gegnum samningaleiðina að pressa báða aðila til þess að mætast við samningaborðið á eðlilegan hátt og ljúka þeirri athöfn með eðlilegum samningi, með því, sem við köllum frjálsa samninga. En það er auðvitað ekkert nýtt fyrirbæri hjá okkur, að sérstaklega atvinnurekendur í vissum tilfellum vilja reyna að komast undan þessum vanda. Þeir vilja að vísu geta notað viss ákvæði vinnulöggjafarinnar, þau ákvæði vinnulöggjafarinnar, sem eiga að skapa aðhald og vissa ábyrgð á hendur launþegasamtökunum. En þeir hugsa sér, ef þeir sérstaklega hafa ríkisstj., sem þeir álíta, að þeir geti hreyft til eins og þeim þóknast, þá vilja þeir skjóta sér undan sínum vanda og óska eftir því, að ríkisstj. leysi þá úr öllum vanda og höggvi á hnútinn á svipaðan hátt og hér er lagt til.

Það er vitanlega alveg augljóst mál, að í þessu tilfelli hafa grundvallarreglurnar, sem gert er ráð fyrir að vinna út frá í okkar vinnulöggjöf, verið brotnar. Hér hafa ekki farið fram samningar með eðlilegum hætti á milli beggja aðila.

Það kemur hér fram, að verkfall hafi skollið á 3. apríl. 20. sama mánaðar, 20. apríl birtist hér á Alþ. þetta frv. Það er því alveg gefið mál, að ríkisstj., sem þarf vitanlega að halda fund um málið, kannske meira, en einn fund, um svona mál, hefur því tekið sína ákvörðun líklega 18.–19. Það kemur þá í ljós, að það hefur verið á páskadag eða annan páskadag. Kannske hún hafi þá tekið sína ákvörðun rétt fyrir páska. Verkfallið hefur varla verið búið að standa meira, en tvær vikur, þegar ríkisstj. er búin að taka ákvörðun um það að skerast í leikinn. Og það er upplýst, að hvorugur aðilinn, hvorki Loftleiðir né heldur Félag flugmanna, hefur óskað eftir þessum afskiptum ríkisvaldsins. Hvorugur aðilinn hefur óskað eftir þeim. Það liggur einnig fyrir, að sáttasemjari ríkisins hefur ekki séð ástæðu til þess á þessu stigi málsins að leggja fyrir almenna sáttatillögu til atkvæðagreiðslu hjá báðum aðilum. Þetta er þó alveg viðtekin regla og beinlínis gert ráð fyrir þessu í vinnulöggjöfinni. Nei, málið var ekki komið svo langt. Og ríkisstj. hafði ekki heldur séð ástæðu til þess, sem í mörgum öðrum tilfellum hefur verið gert, að óska eftir því, að sett yrði sérstök sáttanefnd til aðstoðar sáttasemjara ríkisins. Nei, yfir allt þetta er stigið. En ríkisstj. er ákveðin í því að skerast í málið á þann hátt, sem þetta frv. ber vott um. Hún er ákveðin í því að slá því föstu í þessu tilfelli að svipta flugmennina þeim rétti, sem þeim var þó veittur samkv. vinnulöggjöfinni eins og öðrum þeim, sem í stéttarfélögum eru.

En þá er komið að hinu atriðinu, sem hæstv. samgmrh. lætur hér í skína, að komið hafi verið í þessu tilfelli í algert óefni og því sé hér í rauninni um nauðungarráðstöfun af hálfu ríkisvaldsins að ræða. Ég held, að það liggi nú nokkuð ljóst fyrir, að þarna er um algeran fyrirslátt að ræða. Hér var ekki komið í nein þrot í þessum efnum. Það var ekki búið að reyna á eðlilegan hátt á samningsvilja aðila. Það var ekki búið að gera þeim það nægilega ljóst, að á þeim hvíldi ákveðin ábyrgð og skylda í þessum efnum og það var því ekki búið að fullnægja grundvallarreglum okkar vinnulöggjafar að reyna að knýja það fram, að samningar gætu átt sér stað. Mín skoðun er sú, að þvert á móti séu allar líkur til þess, að hefði verið haldið áfram á eðlilegan hátt, hefðu samningar náðst. Maður skyldi næstum halda það, að í þessu tilfelli væri stéttarfélag flugmanna, því að það leynir sér nú ekki, að að því félagi er spjótunum beint í þessum efnum, það er greinilega sökudólgurinn í þessu, eins og málið hefur verið flutt af þeim, sem til þess grípa að vilja leysa málið á þennan hátt, — maður gæti næstum haldið það, að sú skoðun væri uppi, að flugmenn eða stéttarfélag þeirra í þessu tilfelli væri miklu óábyrgara en önnur stéttarfélög, það væri ekki hægt að treysta því fyrir þessum þýðingarmikla rétti, sem verkfall er og að fylgja þeim reglum, sem markaðar eru í vinnulöggjöfinni.

Svipað þessu kom hér fram í öðru tilfelli viðvíkjandi sérmenntuðum mönnum. Það var í sambandi við íslenzka verkfræðinga. Þar greip ríkisstj. inn í á alveg óeðlilegan hátt og svipti þá þeim réttindum, sem aðrir landsmenn hafa. Og það vill nú reyndar einnig þannig til, að það var sami hæstv. ráðh., sem stóð fyrir því. Því var beinlínis haldið hér fram, að það væri ekki hægt að trúa þessum mönnum fyrir þessum almennu réttindum, því að þeir misnotuðu réttindin svo. Ljótt er það, ef það er svo, að þær vinnustéttir í okkar landi, sem eru sérstaklega vel menntaðar, langskólagengnar, sérmenntaðar, þær sem menn á ýmsum tyllidögum nú á dögum tala mjög hátíðlega um, að öll framtíð þjóðarinnar velti fyrst og fremst á, — ef þessar stéttir eru einmitt þannig gerðar, að það sé ómögulegt að trúa þeim fyrir almennum mannréttindum, sem hefur þótt sjálfsagt að veita öðrum. Þá horfir eiginlega ekki glæsilega að standa fyrir því að ala upp meira af slíku fólki, ef ekki er hægt að búast við álíka ábyrgð af því og af hinum almenna borgara. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að það er eins hægt að semja á eðlilegan hátt, bæði við íslenzka verkfræðinga og íslenzka flugmenn, eins og við annað starfsfólk í landinu, ef að því er farið með eðlilegum hætti. En bolabrögð á svipaðan hátt og hér eru viðhöfð, þau vitanlega eru öllum til ills í þessum efnum. Eða hver varð reynslan í sambandi við bolabrögð ríkisstj. gagnvart íslenzkum verkfræðingum? Reynslan hefur orðið sú, að þjóðin hefur tapað mörgum tugum verkfræðinga úr landi og þær stofnanir ríkisins, sem sérstaklega þurfa á verkfræðingum að halda, eru svo að segja verkfræðingalausar nú og geta ekki staðið undir þeim verkefnum, sem þær áttu að standa undir og höfðu áður staðið undir. Nú hefur þurft að fara bakdyraleiðina til þessara manna, til þess að komast fram hjá þeim ofbeldisreglum, sem ríkisstj. hefur sett í þessum efnum, þurft að taka þá til starfa einnig í beinni þjónustu ríkisins með öðrum hætti en áður var og þá gátu þeir vitanlega fengið laun greidd a.m.k. eins há og þau, sem þeim var bannað að taka eftir réttum leikreglum. Það skyldi þó ekki fara svo hjá okkur, að með því að beita íslenzka flugmenn slíkum ofbeldisaðgerðum eins og hér er stefnt að, yrði niðurstaðan eitthvað svipuð, að þeir neituðu, eins og hér hefur verið upplýst, að vinna samkv. launa- og starfskjörum, sem þeim væru úrskurðuð af slíkum gerðardómi sem þessum, og þeir notuðu síðan sína alþjóðlegu menntun svipað og verkfræðingarnir og leituðu annað. Þá hefði flugmálaráðh. loksins unnið heldur óheppilegt verk fyrir þjóðina.

En eins og hér hefur verið bent á, er þetta mál ekki einungis varðandi samtök flugmanna. Hér er auðvitað um stefnumarkandi mál að ræða í sambandi við lausn vinnudeilna í landinu, því að það væri vitanlega blindur maður, sem ekki sæi það, að eins og hægt er að fara þessa leið gagnvart einu stéttarfélagi, er vitanlega í vissum öðrum tilfellum hægt að nota sömu leiðina gagnvart öðrum. Og við efumst ekkert um, að það eru til þau öfl innan ríkisstj. og þau mörg, sem styðja stjórnina, sem eggja hana í sífellu til þess að nota einmitt þessa leið út úr öllum vanda. Og ríkisstj. hefur sýnt það hvað eftir annað, að hún hefur einmitt fallið fyrir þessum áeggjunum þessara manna og flutt hér á Alþ. till. í þessa átt, þótt hún hafi stundum verið rekin til baka aftur. Hér er því um stefnumarkandi mál að ræða. Hér er í rauninni í sambandi við afgreiðslu þessa máls ekki verið að deila um launakjör flugmannanna, það er ekki verið að deila um það, hvort er sanngjarnara, að flugstjórar í hæsta launaflokki hafi 40 eða 50 þús. kr. á mánuði. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um hitt, hvort það telst nú vera nauðsynlegt að svipta stéttarsamtök flugmanna þeim almennu réttindum til þess að standa að samningum, sem önnur stéttarfélög í landinu hafa. Um það snýst deilan.

Það er vitanlega ekkert nýtt atriði í svona deilum eins og þessum, að það sé slengt fram hvers konar tölum um kaupkröfur aðila, sem standa í vinnudeilum. Verkamenn hafa aldrei svo sett fram sínar kröfur, að það hafi ekki birzt í þeim blöðum, sem eru þeim óvinveitt, hinar hrikalegustu tölur um þeirra kröfur. Fólk ætlar varla að trúa því, að svona mikil ósvífni geti verið til staðar, þegar það sér þessar tölur uppfærðar. En það skal líka játað, að oft og einatt eru kröfur hjá næstum að segja öllum stéttarfélögum, sem settar eru fram við samningsborðið í upphafi samninga, æðiháar. Það er eins og þær hafi oft og tíðum verið settar fram með það í huga, að þær mundu lækka eitthvað í meðferðinni við samningaborðið. Því er það, að tölur, sem er verið að slengja hér fram, bæði í þessum umr. og í skrifum um þetta mál, útreiknaðar af vinnuveitendum um það, hvað ýtrustu kröfur flugmanna í þessu tilfelli séu nú háar, segja ekki nema sáralítið um innihald málsins. Meira að segja halda menn áfram þessari blekkingastarfsemi á þann hátt, að hér í þessum umr. margendurtaka menn þær kröfur, sem settar höfðu verið fram fyrst í deilunni, en búið er að falla frá fyrir löngu og gera aðrar kröfur miklu lægri. En samt þykir auðvitað sjálfsagt að endurtaka í sífellu hæstu töluna, sem menn geta með einhverju móti fundið, en deilan vitanlega snýst ekki um á neinn hátt.

Mér sýnist á því, sem hér hefur verið sagt, að málið hafi þó verið komið þannig, að þar sem deilt var um hæstu laun, hafi ekki skakkað nema eitthvað 7–8 þús. kr. á mánuði á milli deiluaðila. Ekki dettur mér í hug að trúa því, að það hefði ekki verið hægt að finna lausn á slíku, ef haldið hefði verið áfram á eðlilegan hátt og hefðu vinnuveitendurnir í þessu tilfelli ekki vitað, að þeir gátu fengið ríkisstj. til þess að snúast þannig við málinu eins og nú hefur verið gert.

Ég held, að það sé meira, en svo kominn tími til þess, að hæstv. ríkisstj. geri sér fulla grein fyrir því, að þess háttar vinnubrögð sem hér eru viðhöfð í sambandi við lausn á kjaradeilu fá ekki staðizt. Hún á að hætta slíkum vinnubrögðum. Þau gera aðeins illt verra.

Ég mun ekki hér í þessum umr. fara að þreyta kapp við einn eða neinn varðandi launakröfurnar sjálfar, sem settar hafa verið fram í þessari deilu. Fyrir mér er sá hluti þessa máls aukaatriði við afgreiðslu þessa frv. Frv. snýst, eins og ég hef tekið fram, í rauninni um allt annað. Hér er verið að taka afstöðu til alveg stefnumarkandi máls, hvernig á að bregðast við í sambandi við lausn á vinnudeilum yfirleitt. En það er kannske í þessu máli eins og stundum áður, að hæstv. ríkisstj. er komin út í ógöngur og hún treystir sér ekki til þess að snúa til baka, jafnvel þó að hún sjái það nú, að hún hefur valið ranga leið. En ég held samt, að þegar allar líkur benda til þess, að þetta mál muni leiða til þess, að flugmennirnir neiti að starfa samkv. þeim kjör

um, sem ákveðin yrðu af gerðardómnum og það mundi þá leiða til þess, að við töpuðum þessum ágætu starfskröftum um lengri eða skemmri tíma, þá hygg ég, að ríkisstj, sjái, að hér geti verið mikill vandi á höndum og það getur orðið mesti bjarnargreiði fyrir Loftleiðir að knýja þetta fram. Ég get ekki heldur neitað því, að mér kemur til hugar, að hér séu kannske ekki Loftleiðir einar á ferðinni. Ég tek eftir því, að svo er frá skýrt í bréfi frá stjórn Félags ísl, atvinnuflugmanna, þar sem skýrt er frá þessum samningsviðræðum, að þetta félag hafi átt viðræður nokkrum sinnum við fulltrúa Loftleiða og Vinnuveitendasambandsins og ég hygg, að það muni vera rétt, að Vinnuveitendasambandið hafi komið þarna nokkuð nærri, en það er einmitt sama Vinnuveitendasambandið, sem er nú að reyna að búa sig í stakkinn til átakanna í vor. Það hefur ekkert farið leynt, að Vinnuveitendasamband Íslands hefur gjarnan viljað leysa allar vinnudeilur einmitt á þennan hátt og víð höfum mörg dæmi um það, að vinnuveitendur í landinu hafa beinlínis tekið það fram, að þeir hafi verið reknir áfram af Vinnuveitendasambandinu til þess að standa að ákveðnum kjörum og reglum, sem þeir annars voru ekki svo hrifnir af. Það skyldi þá ekki vera þáttur Vinnuveitendasambandsins, sem einnig hefði haft nokkur áhrif á forustumenn Loftleiða í þessum efnum að fara á þann hátt út í deiluna, sem hér er gert og mér er ómögulegt að sjá annað, en hljóti að verða Loftleiðum til mikils tjóns, eins og á málinu er haldið.

Ég vil að endingu beina þeim orðum til hæstv. ráðh., að hann íhugi nú sitt mál vandlega, úr því sem komið er í þessu máli. Hann hefur ekki lakara fordæmi í nokkuð hliðstæðu tilfelli en það, að á meðan Ólafur Thors var hér aðalforsvarsmaður hans flokks á Alþ., var hann a.m.k. nægilega stór maður til þess í svipuðu tilfelli og hér um ræðir að láta niður falla kröfuna um valdbeitingu. Ég held, að hæstv. ráðh., sem stendur að flutningi þessa frv., geti farið hér nákvæmlega sömu leið, hann geti hætt við að láta gera þetta frv. að lögum og hann geti enn þá snúið sér til beggja deiluaðila og sagt við þá, að það sé hans krafa, að þeir snúi sér nú að samningunum í fullri alvöru og reyni að leysa málið með frjálsum samningum, því að það efast ég ekkert um, að hæstv. ráðh. viðurkenni eins og flestir aðrir, að þeir aðilar, vinnuveitendur og launþegar, sem ekki geta samið um launakjör og starfskjör sín á milli með eðlilegum hætti, munu ekki heldur geta unnið saman til neinnar frambúðar með eðlilegum hætti. Það mun eins gilda um þessa aðila og aðra, þessi almenna regla og því er það alveg nauðsynlegt, að staðið sé eins fast á þessari reglu að halda við frjálsa samninga og hægt er og forðast lagaleg afskipti ríkisvaldsins af deilum, sem ekki er þörf á að grípa inn í.