30.04.1965
Neðri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að ganga á vissan hátt til móts við stjórnarandstöðuna og láta afgreiðslu þessa máls ekki bera þannig að eins og það sé verið að rétta verkalýðsstéttinni einhverja sérstaka gjöf á hátíðisdegi hennar með þessu frv., heldur hefur hæstv. ríkisstj. gengið inn á það, að 3. umr. eða lokaumr. um þetta mál verði frestað til mánudags og málið þar af leiðandi ekki afgreitt fyrr, en eftir helgi. Ég mun í tilefni af þessu draga nokkuð úr því máli, sem ég hafði ætlað mér að flytja hér, þar sem það getur gefizt tækifæri til þess við 3. umr., ef hún fer þá nokkurn tíma fram. En ég vildi segja í framhaldi af þessu, að ég álít, að það væri lang hyggilegast af hæstv. ríkisstj. að draga þetta frv. alveg til baka, jafnframt því að Vinnuveitendasambandið hætti öllum afskiptum af þessari deilu, því að ég er sannfærður um það, að ef þeir tveir aðilar, sem þá eru eftir, flugmennirnir og Loftleiðir, fá einir að fást við um þetta mál, mun ekki standa lengi á því, að samningar takist. Fallist hæstv. ríkisstj. hins vegar ekki á þetta, álít ég hyggilegt af henni að gera það, sem hv. seinasti ræðumaður benti á, að tafarlaust verði hafnar samninga umleitanir og unnið að því að leysa deiluna, án þess að framhald þurfi að vera á meðferð þessa máls hér á Alþingi.

Mér finnst rétt að gera það að nokkru umtalsefni, sem einkum hefur verið haldið fram af hæstv. ríkisstj, og stuðningsmönnum hennar til réttlætingar því frv., sem hér liggur fyrir, en mér virðist þó, að mest áherzla hafi verið lögð á að ræða að tjaldabaki. En þau rök eru einkum þau, að þar sem hér sé um hátekjumenn að ræða, flugstjórana og flugmennina á þessum stóru vélum, sé ekki óeðlilegt, að beitt sé gerðardómi í viðskiptum við þá. Ég vil í þessu sambandi benda á, að í grg, fyrir þessu frv. er því hins vegar ekki haldið fram sem rökstuðningi fyrir frv., að hér sé um hátekjumenn að ræða og þess vegna sé rétt að beita gerðardómi gagnvart þeim, heldur er í grg. frv. eingöngu lögð áherzla á það, að hér sé um deilu að ræða, sem hafi nokkurt tjón í för með sér og þess vegna sé réttlætanlegt að leysa hana með gerðardómi. Ég hygg, að út frá þessum ummælum í sjálfri grg. Megi bezt gera sér ljóst, að hverju er stefnt með þessu frv., því að þótt þannig sé látið í veðri vaka, að hér eigi fyrst og fremst að láta gerðardóminn ná til stéttar, sem hefur háar tekjur, er ekki síður stefnt að því að skapa með þessu fordæmi til að láta hin sömu lög eða svipuð lög ná síðar til þeirra stétta, sem lægri tekjur hafa. Það verða menn að gera sér vel ljóst í þessu sambandi, að ef einhver réttur er tekinn af einhverri ákveðinni stétt, með hvaða röksemd sem það er, eru næstu stéttir í hættu á eftir. Rétturinn er ekki þannig, að hann eigi að vera mismunandi eftir því, hvar menn standa í stétt eða hvern litarhátt menn hafa eða þar fram eftir götunum. Rétturinn verður að vera einn og hinn sami. Ef hann er skertur á einhverjum, er opnuð leið til þess, að á eftir verði hann skertur á öðrum. Þess vegna lit ég fyrst og fremst þannig á, þegar ég er að beita mér gegn þessu frv., að ég sé að berjast fyrir rétti hinna lægra settu í þjóðfélaginu, rétti lágtekjumanna í þjóðfélaginu, vegna þess að ég tel mikla hættu á, að verði einhverjir aðrir aðilar sviptir verkfallsréttinum, verði það sama látið ganga yfir lágtekjumennina, áður en lýkur. Þess vegna lít ég þannig á, að með því að berjast gegn þessu frv. sé ekki verið að berjast neitt sérstaklega fyrir rétti hátekjumanna, heldur sé fyrst og fremst verið að berjast gegn réttindum þeirra, sem lægri laun hafa og jafnvel meiri þörf á réttlætingu mála sinna, því að ef rétturinn er tekinn af öðrum, mun hann bráðlega verða tekinn af hinum einnig.

Mér finnst fróðlegt, að menn geri sér grein fyrir því, hvers vegna það ástand hefur ríkt hér í rúman mánuð, að stærstu samgöngutæki Íslendinga og dýrustu hafa verið stöðvuð. Hverjum er það að kenna, að þessi stöðvun hefur átt sér stað? Er það flugmönnum að kenna, að þessi stöðvun hefur átt sér stað? Er það þeim mönnum að kenna, sem strax í upphafi þessa verkfalls buðust til að lækka kröfur sínar um 20%? Ber sú afstaða vott um það, að það sé enginn samkomulagsvilji þar fyrir hendi? Ég segi nei. Ég segi, að þessi framkoma bendi ekki til þess, að það virðist ekki vera fyrir hendi samkomulagsvilji hjá flugmönnum. Ég hef ekki heldur trú á því, að ef Loftleiðir hefðu einar fengið að fjalla um þetta mál, hefði ekki samkomulag orðið í deilunni. Ég tel þess vegna ekki, að það sé flugmenn eða Loftleiðir hér um að saka, hve löng þessi deila er orðin. Þessi deila er orðin svona löng fyrst og fremst vegna þess, að það hefur frá upphafi verið fyrirætlun Vinnuveitendasambandsins og hæstv. ríkisstj. að leysa þessa deilu með lögþvinguðum gerðardómi og skapa með því fordæmi til þess að leysa aðrar deilur, sem á eftir koma, á svipaðan hátt. Og ég skal nefna nokkur atriði, sem ég álít, að sanni mál mitt í þessum efnum.

Ég nefni það í fyrsta lagi, að í þessari deilu hafa verið færri og styttri sáttafundir, en í flestum deilum öðrum. Það hefur verið minni áherzla á þennan veg lögð á það að ná samkomulagi í þessari deilu, en í flestum deilum öðrum. Hvers vegna hefur það átt sér stað? Hefur það verið vegna þess, að menn hafa viljað leysa þessa deilu með samkomulagi eða stefnt hafi verið að einhverju öðru? Ég vil enn fremur benda á það, að enn hefur ekki komið fram nein sáttatill. af hálfu sáttasemjara til lausnar þessari deilu. Ég minnist þess ekki, að það hafi áður verið gert, þegar líkt hefur staðið á og nú, að það hafi verið rokið til og flutt frv. á Alþ. um gerðardóm og stefnt að því að leysa deilu með gerðardómi, áður en sáttasemjari hefur lagt fram till. til samkomulags í viðkomandi deilu. Hvers vegna er ekki beðið eftir því, að sáttasemjari leggi slíka till. fram? Hvers vegna er verið að flytja frv. um gerðardóm, áður en það er gert? Einfaldlega vegna þess, að það er stefnt að því að leysa þessa deilu á annan veg, en með venjulegu samkomulagi. Það er stefnt að því að leysa hana með lögbundnum gerðardómi, eins og liggur fyrir í þessu frv. Ég vil enn fremur benda á það, að sú hefur verið venjan í slíkum deilum áður, þegar alvarlega hefur horft um samkomulag að skipuð hefur verið sérstök sáttanefnd sáttasemjara til aðstoðar til að reyna að leysa deiluna. Það hefur ekki verið gert í þessari deilu. Ég hygg, að það sé erfitt að benda á fordæmi þess, að slík sáttanefnd hafi ekki verið skipuð og hún látin reyna, hvað hún kæmist, áður en gerðardómslög væru sett til lausnar deilu. Ég vil enn fremur benda á það, að þau óvenjulegu vinnubrögð áttu sér stað í þessari deilu, að Vinnuveitendasamband Íslands gaf út um málið — ekki grg., heldur hreina árásargrein á hendur flugmönnunum, árásargrein, þar sem farið var mjög rangt og villandi með staðreyndir og kröfur flugmannanna sagðar miklu hærri, en þær þá voru orðnar. Til hvers var þetta gert? Hefði Vinnuveitendasambandið gert þetta, ef það hefði ætlað sér að stuðla að skjótri lausn í þessari deilu? Áreiðanlega ekki. Þessi árásargrein Vinnuveitendasambandsins var gefin út til þess að hleypa illu blóði í deiluna til að koma í veg fyrir það, að samkomulag yrði, til þess að það skapaðist frekari grundvöllur fyrir það, sem nú er verið að gera, að reyna að leysa deiluna með lögþvinguðum gerðadómi.

Ég bendi enn fremur á það, að hæstv. ríkisstj. hagar sér þannig í þessu máli, að hún leggur þetta frv. fram hér á Alþ. fáum klukkutímum áður, en þingið er að fara í 4 daga frí. Til hvers var það gert? Hvers vegna mátti ekki bíða eftir því, að þingið kæmi aftur úr þessu fríi og málið þá lagt fram, en þessir fjórir dagar notaðir til þess að reyna að ná samkomulagi? Þetta var einfaldlega gert til þess að koma í veg fyrir, að þessir dagar yrðu notaðir til þess að ná samkomulagi, vegna þess að af hálfu Vinnuveitendasambandsins og ríkisstj. hefur alltaf frá upphafi verið stefnt að því að leysa þessa deilu ekki með samkomulagi, heldur með lögþvinguðum gerðardómi, vegna þess að þessir aðilar hafa ekki haft fyrst og fremst í huga þessa deilu, heldur þau átök, sem fram undan eru í sambandi við kjaramálin. Þessir aðilar hafa viljað skapa fordæmi fyrir því, að þau átök eða þær deilur mætti leysa með lögþvinguðum gerðardómi. Ég held, að því betur sem menn athuga þessar staðreyndir, þá verði þeim það ljósara, að ástæðan til þess, að þessi stóru og dýru samgöngutæki Íslendinga hafa verið stöðvuð í rúman mánuð og þetta verkfall er búið að standa þetta lengi, það stafar einfaldlega af því, að strax frá upphafi hefur verið stefnt að því af hálfu Vinnuveitendasambandsins og ríkisstj. að leysa þetta mál með lögþvingun, en ekki með samkomulagi, vegna þess að þessir aðilar hafa haft allt önnur mál í huga, en þessa deilu. Þeir hafa haft í huga kjarasamningana, sem eru fram undan við verkalýðsstéttirnar og hafa viljað skapa fordæmi fyrir því, að hægt væri að leysa þær deilur á svipaðan hátt.

Mér finnst rétt að víkja nokkuð að því, sem borið hefur talsvert á í þessum umræðum og eins þegar kjaradómurinn eða gerðardómurinn í máli verkfræðinga var hér til meðferðar. Þá var þannig á málum haldið af hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmönnum, að það væri síður en svo, að þeir bæru hátekjumenn fyrir brjósti, nú væru það orðnir stjórnarandstæðingar, sem fyrst og fremst bæru hátekjumenn fyrir brjósti og hugsuðu um þeirra hag. Ég held, að það sé ekki hægt að hugsa sér öllu meiri hræsni, en þegar hæstv. ráðherrar og þeirra stuðningsmenn eru að tala um það, að þeir beri ekki hátekju– og gróðamenn fyrir brjósti. Ég held, að það viti það allir, að í hinni ýmiss konar milliliða starfsemi hér í þessu landi og þá sérstaklega í sambandi við húsabrask og húsasölur á sér stað hin stórkostlegasta gróðasöfnun margra einstaklinga, en þeir aðilar, sem þessar atvinnugreinar stunda, húsbyggingarnar og húsabraskið í sambandi við þær, taka margföld laun margir hverjir á við það, sem verkfræðingarnir og flugmennirnir hafa. Og það ber ekki mikið á því, að hæstv. ríkisstj. vilji hrófla við hagsmunum og gróðamöguleikum þessara manna. Það ber ekki mikið á því, að hún sé að flytja lög um gerðardóm eða eitthvað þess háttar, sem gæti orðið til þess að skerða aðstöðu og gróðamöguleika þessara manna. Síður en svo. Þvert á móti er á flestan hátt stefnt að því með lánsfjárhöftum og öllu slíku, að þessir menn hafi sem mesta og bezta möguleika, braskararnir, til að safna sem mestu fé í sína vasa. Þar ber síður en svo á því, að hæstv. ríkisstj. sé andstæð hátekjumönnum og gróðamönnum, heldur einmitt hið gagnstæða. En þegar menn með sérþekkingu eiga hlut að máli, eins og verkfræðingar og flugmenn, þá verður allt annað upp á teningnum hjá hæstv. ríkisstj. Þá fær hún allt í einu mikinn áhuga á því að vera á móti hátekjumönnum og þykist sýna það í verki með því að flytja frv. eins og þetta og þá er deilt á okkur stjórnarandstæðinga fyrir það, að við séum að bera hátekjumenn fyrir brjósti.

Ég skal fullkomlega kannast við það, að það er mín skoðun, að menn með óvenjulega og sérstæða sérþekkingu, sérþekkingu, sem er þannig vaxin, að hún er eiginlega eftirsótt á alþjóðlegum vettvangi, hvar sem er, ég tel, að það sé óhjákvæmilegt, að þessir menn hafi góð laun, því að annars munu þeir leita til annarra staða. Og ég tel, að það sé meginundirstaða þess, að við getum lyft þessu þjóðfélagi á hærra stig, að við getum skapað betri lífskjör á þessu landi, að við metum sérþekkinguna rétt og borgum hana samkv. því. Og ég tel, að það sé hið mesta hagsmunamál einmitt þeirra stétta, sem lægri laun hafa og minna bera úr býtum, að við notum þessa sérþekkingu sem bezt til þess að skapa hér margvíslegar framkvæmdir og framfarir og þar með undirstöðuna undir það, að hægt sé að láta alla þjóðina búa við betri kjör. Þess vegna þori ég að koma fram hvar sem er og skammast mín ekkert fyrir það, þó að ég mæli gegn gerðardómum í máli verkfræðinga og flugmanna og annarra þeirra, sem sérþekkingu hafa og viðurkenni, að þessum mönnum beri að hafa sæmileg laun fyrir sína vinnu og meiri en hinir, sem geta ekki lagt sömu sérþekkingu af mörkum eða hafa ekki yfir :henni að ráða.

Ég held, að það megi í stuttu máli segja, að munurinn á afstöðu okkar stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna í þessum efnum sé sá, eins og ég nú hef rakið, að við, sem í stjórnarandstöðunni erum, viljum verðlauna þekkinguna, stjórnarsinnar vilja verðlauna braskið. Og ég held, að ef menn bera þetta tvennt saman, þá muni þeir fljótt komast að raun um, hvort heppilegra og hollara sé fyrir þjóðfélagið að verðlauna sérþekkinguna eða verðlauna braskið. Ég a.m.k. skammast mín ekkert fyrir það og held því hiklaust fram hvar sem er og þótt ég sé tortryggður hjá láglaunamönnum fyrir það, að ég álit, að við eigum að leggja miklu meiri áherzlu á það að verðlauna sérþekkinguna, en að verðlauna braskið.

Ég hét því hér áðan, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur fallizt á að fresta lokaumræðu þessa máls til mánudags, að vera ekki langorður og mun því sleppa ýmsu, sem ég hefði ella séð tækifæri til að láta koma hér fram. En það, sem ég vil segja að síðustu, er það, að ég álít, að það sé heppilegt og æskilegt að koma þeirri framtíðarskipan á, ef mögulegt er, að íslenzku flugfélögin dragist sem allra minnst inn í verkfallsátök hér á landi. Íslenzku flugfélögin starfa það mikið á erlendum vettvangi, að það er mjög óheppilegt, ef þau verða fyrir miklum truflunum vegna verkfallsátaka, sem kunna að verða hér innanlands. Þess vegna álít ég, að það eigi að vera sameiginlegt mál, framtíðarmál allra aðila, flugmanna og flugfélaganna og þjóðarinnar í heild, að stefna að því, að reynt sé að finna þann grundvöll, sem geri það mögulegt, að verkföll hamli ekki þessum fyrirtækjum, en þó að sjálfsögðu á þann veg, að eðlilegur samningsréttur og verkfallsréttur starfsmanna þeirra sé ekki skertur. Ég held, að það sé grundvallaratriði þess, að slíku samkomulagi verði komið á, að þeir aðilar, sem hér eiga mest hlut að máli, eins og t.d. flugmenn og flugfélögin, standi utan stéttarátakanna í landinu. Og þann skilning hygg ég, að flugmenn hafi þegar sýnt í verki, því að mér er tjáð það, að þeir hafi fyrir nokkru sagt sig úr Alþýðusambandi Íslands og þar með viljað standa utan við þær deilur, sem þau samtök kynnu að dragast inn í. Ég álít, að flugfélögin eigi að gera nákvæmlega hið sama. Ég álít það nauðsyn, ég vil ekki segja lífsnauðsyn, en mikla nauðsyn fyrir þau, að þau standi utan stéttarsamtakanna og séu ekki aðilar að Vinnuveitendasambandinu og ég held, að öll meðferð og öll þróun þessarar deilu hafi sýnt, hvílík nauðsyn það sé fyrir Loftleiðir og fyrir Flugfélag Íslands að vera ekki í Vinnuveitendasambandi Íslands, því að það er trú mín, ef Loftleiðir hefðu ekki verið aðili að þeim samtökum, að þá væri þessi deila nú löngu leyst.