30.04.1965
Neðri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég kynni nú bezt við, að hæstv. ráðh. væri við, hann yrði kannske látinn vita af því, af því að mig langaði til þess að ítreka nokkrar spurningar, sem ég kom með til hans í gær.

Hæstv. samgmrh. hafði þann hátt í gær að flytja í sinni ræðu um þetta mál ýmislegt um launakröfur flugmanna og það var greinilegt, að þetta áróðursplagg, sem hæstv. ráðh. var með, var a.m.k. náskylt því, sem Vinnuveitendasambandið hafði gefið út. Það átti auðsjáanlega að vera „agitasjón“ í þm. og öðrum um, að mönnum bæri ekki að taka afstöðu með þessum mönnum, sem þarna stæðu í verkfalli. Ég svaraði í gær með því að setja fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðh., sem ég bað hann um að upplýsa hér fyrir okkur. Ég bað hann um að láta okkur fá á þinginu núna, meðan þetta mál væri til umr., upplýsingar um tekjur ýmissa einstakra atvinnurekenda hér á landinu, ekki tekjur þær, sem taldar væru fram til skatts, heldur þeirra almennu, raunverulegu tekjur, þannig að við hefðum ofurlítinn samanburð. Við vitum, að meginið af okkar atvinnurekendum er skattfrjálst og það, sem þeir þar að auki ættu að borga, er eiginlega svikið undan skatti í skjóli þeirrar löggjafar, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett.

Ég beindi enn fremur til hans fsp. viðvíkjandi Loftleiðum. Ég spurði um laun þau, sem forstjórar Loftleiða hefðu og ég held, að fulltrúi Loftleiða hafi setið nokkuð nærri honum í gær, svo að hann hefði kannske átt að geta gefið honum upplýsingar um það, og það virðist ekkert óeðlilegt, að hæstv. ráðh. gæfi þm. upplýsingar um, hverjar eru tekjur forstjóra Loftleiða. Og ég spurði alveg sérstaklega í því sambandi, hvað þær mundu vera háar og hvernig þeir gætu byggt aðrar eins lúxusvillur og þeir væru að byggja suður á Arnarnesi. Ef það á að fara að ræða hérna persónuleg mál einstakra flugstjóra og fara að básúna það út, að þeir hafi 300 þús. kr. hærri laun, en þeir raunverulega hafa, þá væri gott að upplýsa, hvernig forstjórar Loftleiða geta leyft sér að byggja villur upp á 2 millj. eða meira. Hver eru launin? Hæstv. ráðh. hefur engu svarað. Hér í gamla daga var sagt, að þögn væri sama og samþykki. Gengur hæstv. ráðh. inn á, að þetta séu svo botnlaus skattsvik hjá þessari yfirstétt hér í Reykjavík, að það þýði yfirleitt ekki að vera að tala um það frekar, en þýði að láta skattalögregluna garfa nokkuð í þessu, því að hún sé bara send heim og hringt til ráðh. og sagt að hætta við að vera að rannsaka þetta, því að það sé stórhættulegt fyrir Sjálfstfl.? Það er alveg sama, hvað spurt er að. Ég var að spyrja um afkomu Loftleiða. Hver er gróði Loftleiða? Hvernig standa Loftleiðir? Geta Loftleiðir staðið undir þessu? Ekkert svar. Það er yfirleitt ekki að tala um að ræða svona mál með rökum. Það er ekki reynt. Það eina, sem hæstv. ríkisstj, stendur á, er — ég kalla það handaflið, bara að hendurnar séu réttar upp hjá sjórnarliði, stjórnað auðsjáanlega frá heila ráðh., en ekki heila þeirra sjálfra, því að þeirra þm. eru venjulega ekki við, þegar verið er að ræða málið til þess, eins og Anatole France komst einhvern tíma að orði, að guð hjálpaði sínum englum þannig, að hann firrti þá því að hugsa, eins virðist það vera með stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., að þeir reyna að halda sér burt frá öllum rökræðum, til þess að þeir falli ekki í þá freistni að fara að hugsa eitthvað um málið. Hæstv. ríkisstj. treystir einvörðungu á valdið til þess að pína sín mál hér í gegn.

Það er upplýst hér, að það hefur komið fram till. um að fresta þessu máli og reyna að semja og það hafi verið hæstv. ríkisstj., sem hafi neitað, flugmennirnir hafi tekið mjög vel í þetta og Loftleiðir hafi líka tekið vel í þetta og það þótti mér vænt um að heyra. Hvað sýnir þetta? Það sýnir, að það eru einhverjir aðrir aðilar, sem standa þarna á bak við, einhverjir aðrir aðilar, sem hafa áhuga á að koma af stað þessari deilu, sem nota bæði Loftleiðir og hæstv. ríkisstj. sem leiksopp.

Það var kannske engin tilviljun, að það var einmitt Vinnuveitendasamband Íslands, sem hafði gefið út áróðursplögg í þessu, sem hæstv. ráðh, var að endurtaka hér og í því fskj., sem er prentað á þskj. 548 með nál, minni hl. samgmn. í Ed., sem er frá stjórn íslenzkra atvinnuflugmanna, þar segir frá því, með leyfi hæstv. forseta, að í marzmánuði s.l. hófust viðræður fulltrúa Félags íslenzkra atvinnuflugmanna, fulltrúa Loftleiða h/f og Vinnuveitendasambandsins um samningsgerð varðandi kaup og kjör flugmanna, sem starfa á flugvélum af gerðinni RR 400. Flugmenn höfðu þá þegar starfað á þessum flugvélum frá því í júní 1964 gegn því, að laun yrðu síðar greidd samkv. þeim samningi, er gerður yrði. Ég skal síðar koma að því, hvað þessi tími táknar, en það, sem þarna virðist liggja fyrir er, að Vinnuveitendasambandið hafi eins og tekið í höndina á Loftleiðum, skoðað þá eins og einhvern lítinn krakka, sem þyrfti að leiða í þessu. Þeir væru ekki færir um að tala við sína flugmenn, þess vegna þyrfti Vinnuveitendasambandið að taka í hendurnar á forstjórunum og leiða þá um, hvernig þeir ættu að heyja þessa samninga. Það væri gott að fá nokkrar upplýsingar í því sambandi um afstöðuna milli Loftleiða og Vinnuveitendasambandsins. Hvað eru Loftleiðir að láta Vinnuveitendasambandið hafa sig að sannast að segja einhverjum leiksoppi í þessum efnum? Það er talað um í þeim forsendum, sem ríkisstj. setur fyrir þessu frv., að það geti verið álítshnekkir fyrir Loftleiðir, ef þetta verkfall standi lengi. Það er þegar orðinn álitshnekkir fyrir Loftleiðir og sá álítshnekkir liggur í því, að Loftleiðir hafa látið þessa litlu klíku hafa sig til þess að fá sig inn í Vinnuveitendasambandið og láta þá stjórna sér síðan eins og krökkum og neyða sig út í að stöðva þessar vélar. Loftleiðir og þeirra stjórn eru að leiða álítshnekki yfir sig með þessu. Þeir vita, að þarna er um að ræða sótsvarta klíku afturhaldsseggja, sem ekki sjá nokkurn skapaðan hlut, ekkert annað en að reyna að kúga menn. Hvað eru þeir að láta flækja sig inn í þetta? Hafa ekki verkalýðsfélögin hér undanfarið, þegar þau hafa átt í deilum við Vinnuveitendasambandið, hafa þau ekki bjargað Loftleiðum? Hafa þau ekki bjargað Loftleiðum frá því að lenda í vinnudeilum, gefið þeim sérstaka undanþágu til þess að bjarga þeim, af því að verkalýðssamtökunum er vel við þær, vel við Loftleiðir? Hvað eru þeir að láta þetta Vinnuveitendasamband pína sig undir sína stjórn, undir sína vitlausu handleiðslu, þessa klíku af skattsvikurum eða þennan skattfrjálsa peningaaðal, væri kannske réttara að segja? Ég vil alvarlega gefa Loftleiðum það ráð að hafa sig út úr þessu sambandi ég veit, að þeir geta ekki gert það núna, meðan þeir eru í þessu verkfalli, en að láta verða sitt fyrsta verk, þegar það sé búið, að segja sig úr þessu. Og mig langar til að fá einar upplýsingar hér nú þegar: Hvað hafa Loftleiðir greitt mikið fé til Vinnuveitendasambands Íslands á síðasta ári og öðrum árum? Hvað er það mikið, sem þeir hafa greitt? Og hver er munurinn á þeim kröfum, sem flugmenn gera núna til launa og þessu, sem Loftleiðir hafa greitt til Vinnuveitendasambands Íslands? Ég vona, að tölurnar verði lagðar á borðið fyrir okkur. Ætli Loftleiðir hefðu ekki með því að vera utan við Vinnuveitendasambandið getað borgað flugmönnunum meginhlutann af því, sem á milli ber, og kannske miklu meira? Ég býst við, að Vinnuveitendasamband Íslands sé anzi dýrt í rekstri. Þeir eru það yfirleitt okkar atvinnurekendur, kunna ekki að stjórna, setja allt í stopp og sjá ekki neinar framfarir, nema þegar verkalýðshreyfingin rekur þá til þess, en eru sérfræðingar í að stöðva atvinnufyrirtæki, fyrir utan hvað þeir eru miklir sérfræðingar í að tapa. Til allrar hamingju eru Loftleiðir ekki farnar að læra af þeim enn þá, hvað það snertir. Ég vil þess vegna vonast til þess, að Loftleiðir láti það verða sitt fyrsta verk að læra af þeim vitleysum, sem þeir hafa gert og er nauðsynlegt fyrir ung fyrirtæki, sem eru að vinna sig upp,og segi sig úr þessu Vinnuveitendasambandi. Það er ekki aðeins til þess, að það sé betra fyrir þá að semja við sína eigin flugmenn, heldur getur líka verið betra fyrir Loftleiðir að lenda ekki á milli, þegar íslenzk verkalýðsstétt og þessi peningaaðall, þessi skattfrjálsi peningaðall, fara að slást um sín eiginhagsmunamál. Þá er bezt fyrir menn, sem verkalýðshreyfingin vill vel, félag, sem verkalýðshreyfingin vill vel, eins og Loftleiðir, að vera þarna utan við, lenda ekki í þeirri klemmu. M.ö.o.: sú svarta hönd, sem þarna gægist alls staðar fram, er Vinnuveitendasambandið og þá fyrst fer að verða skiljanlegt, af hverju þetta frumvarp er fram komið. Það er Vinnuveitendasambandið, sem heimtar af ríkisstj., að þessi deila sé notuð til þess að setja prófstein, hvað dásamlegt ráð gerðardómur sé, þessir vitleysingar, sem ekki eru farnir að læra enn þá frá því 1942. .Ég vil minna Sjálfstfl, sérstaklega á, að Framsfl. segist vera búinn að læra af því. Mér þykir leiðinlegt, að Alþfl. skuli vera búinn að gleyma því, að hann fór út úr stjórn 1942. En ég held, að það sé kominn tími fyrir Sjálfstfl. til þess að læra, einmitt þá, sem nú stjórna Sjálfstfl.

Það er þess vegna greinilegt, að þessi svarta hönd Vinnuveitendasambandsins er þarna á bak við. Það skapar hætturnar í þessu máli. Þá er hitt, sem ég minntist á áðan. Flugmenn hafa starfað á þessum flugvélum frá því í júní 1964 gegn því, að laun yrðu síðan greidd samkvæmt þeim samningi, sem gerður yrði. M.ö.o.: flugmennirnir eru búnir að starfa upp undir ár og það samkv. launum, sem á að semja um eftir á. Er þetta ekki allgóður tími til þess að ná samningum? Hvað hefur getað hindrað, að ekki var samið á þessum tíma? Er það nokkuð nema eitt, sem hefur getað hindrað það? Er það nokkuð nema það, að Vinnuveitendasamband Íslands hafi þegar sagt og hafi sagt allt síðasta ár: Það má ekki semja við þessa flugmenn, það má ekki semja við þá, við ætlum okkur að láta ríkisstj. hafa það í vasanum, nota þetta mál til þess að sýna klærnar gagnvart verkalýðssamtökunum? Og það er beðið frá því í júní 1964 til maí 1965 til þess að sýna klærnar.

Hvað sagði verkalýðshreyfingin, þegar hún gerði samninginn 5. júní í fyrra? Hún sagði, að þetta væri vopnahlé og þegar það eru stríðsaðilar í einu landi, sem gera vopnahlé, þá er vaninn að taka til við friðarsamninga undireins. Ég lagði áherzlu á það hér í gær, að ríkisstj. hefði að engu leyti notað þennan tíma. Nú eru liðnir 11 mánuðir, síðan þessi samningur var gerður og hún hefur að engu leyti notað þennan tíma. Vopnahléið verður bráðum á enda. Það var hægt einmitt að undirbúa friðarsamningana á þessu þingi, eins og ég hvað eftir annað frá því í október í haust er búinn að leggja áherzlu á. Það hefur ekki verið gert. Og ef það eru einhverjir menn, sem koma og segja, þegar verkföll byrja í júní: Við skulum bara endilega fá tíma, rétt tíma til að hugsa, — þá væri rétt að segja þessum mönnum, að þeir eru búnir að hafa þennan tíma, heilt ár eru þeir búnir að hafa.

Þá vil ég koma að einu máli, sem fleiri hafa minnzt á hér líka. Í sambandi við flugmennina er um að ræða sérstaklega tæknimenntaða menn. Ég veit ekki, hvort ríkisstj. er sérstaklega uppsigað við tæknimenntaða menn, ég veit ekki, hvort hún er slíkt nátttröll í þeim heimi, sem við lífum í, að henni sé sérstaklega illa við það, að tæknimenntaðir menn séu á Íslandi, nema það séu útlendir menn, helzt fengnir á vegum Ameríkana og helzt þrefalt dýrari, en innlendir menn. En það lítur út fyrir það, því að það er ekki fjandskapazt við neina aðila eins og þá tæknimenntuðu menn, flugmenn, verkfræðinga og aðra slíka. Og ef hæstv. ríkisstj. heldur, að þeir tæknimenntuðu menn, vegna þess að þeir gera kröfur um há laun, þá sé hægt að svínbeygja þá, þá eru í hæstv. ríkisstj. meiri álfar, komnir út úr verri hól, en mér hefði nokkurn tíma dottið í hug. Þróunin í öllu þjóðfélaginu er sú, að það verði fleiri og fleiri og stærri og stærri hluti af öllum verkalýð tæknimenntaðir menn, sem koma til með að gera kröfur um mjög há laun. Það tímabil, sem nú er fram undan, er þannig, að eftir 20–30 ár verður allur verkalýðurinn tæknimenntaður og það eru þeir, sem gera kröfur um, að atvinnureksturinn borgi sig, en ekki atvinnurekendur, þessir smábraskatvinnurekendur, sem flækjast fyrir í þessu öllu saman nú. Þeir verða ekki til þá. Tæknimenntaðir menn gera eðlilega alvarlegar kröfur.

Ég skal bara benda hæstv. ríkisstj. á, vegna þess að hún hefur aldrei haft tíma til að hugsa þessi mál, að það eru að vaxa upp núna í heiminum vísindamenn, sem hafa á sínu valdi m.a. öll þau drápstæki, sem sköpuð eru og um leið líka öll þau tæki, sem geta smám saman gert vinnu manna svo að segja óþarfa á jörðinni. Vísindamenntunin, sem þeir eru að fá aðgang að nú, er slík, að allir stjórnmálamenn, í hvaða landi sem er, standa frammi fyrir þessum vísindamönnum þannig, að gagnvart þeim hafa þeir ekkert annað að gera, en heyra og hlýða, ef þessir menn vilja tala, vegna þess að þekking þeirra á því, sem öðrum eru huldir leyndardómar tilverunnar, er slík, vald þeirra í krafti þeirrar þekkingar er það mikið, að það er öllum svokölluðum valdamönnum gert að taka tillit til þeirrar þekkingar. Það er hlutur, sem bæði peningaaðallinn í þjóðfélögunum og ríkisstj. hans eiga enn þá eftir að læra. Og þótt í litlu sé hér heima hjá okkur, þá er tími til kominn fyrir hæstv. ríkisstj. að læra það, að tæknimenntaðir menn láta ekki bjóða sér það, sem jafnvel íslenzkur verkalýður er vaxinn upp úr að láta bjóða sér. Það eru gerðardómar, það eru þrælalög, það er að vera meðhöndlaðir eins og þrælar, en ekki sem frjálsir menn. Þessu þarf hæstv. ríkisstj. að átta sig á. Og ef hún litur svo á, að henni beri að vera erindrekar fyrir einhverja atvinnurekendur, sem hvorki hafa skilið þetta né neitt annað, yfirleitt ekkí neitt af efnahagslögmálum þjóðfélagsins, því að á þau hafa þeir alltaf verið blindir, þá er mjög illa farið. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. ætti að reyna að átta sig nú strax í sambandi við þá tæknimenntun, sem þarna er um að ræða, að þessar aðferðir, sem verkalýðurinn hratt af sér fyrir tveim áratugum, eru ekki aðferðir, sem þýðir að reyna að beita við þá.

Ég ætla að spyrja hæstv. ríkisstj. að því: Ef flugmennirnir, eftir að þessi gerðardómalög væru sett, ynnu ekki, eru þá nokkrir aðrir flugmenn til, sem mundu vinna á þessum vélum? Hvað er ríkisstj. yfirleitt að hugsa? Er hún bara að láta Vinnuveitendasambandið, þessa klíku, reka sig út í svona hluti án þess að hafa hugmynd um, hvað við tekur og ætlar bara að koma hér til okkar, eins og stundum áður og fórna höndum á eftir og segja: Mér datt þetta bara ekki í hug. — Hvers konar stjórn er þetta að verða á landinu?

Ég spurði hæstv. ráðh. að því í gær, hvort hann hefði sett reglugerð um vinnutímann. Og það er upplýst hérna núna, að það sé ekki búið að setja hana. Hann upplýsti það ekkí, en ég verð að taka trúanlegt, að það sé ekki búið að setja hana. Og það er meira að segja komið fram, ég held, að það hafi verið flugmálastjóri, sem hafi sagt það í samgmn., að það mundi taka eina sex mánuði að setja þessa reglugerð. Hvað gerðist hér í fyrra, þegar við vorum að ræða hér frv. til laga um loftferðir? Það gerðist það, að þá var flutt hér till. af 4 þm. úr öllum flokkum, brtt. hér í Nd. á þskj. 413 við frv. um loftferðir. Flutningsmennirnir voru Pétur Sigurðsson, Jón Skaftason, Sigurður Ingimundarson og ég. Og hún var m.a. um að koma inn nýrri gr., sem átti að verða 54. gr., um hámarkstíma, og mjög nákvæmlega tekið upp og hæstv. ráðh. gæti fengið þetta blað að láni, það er búið að liggja eitt ár í þingtíðindunum, ef þekkingarleysi skyldi hafa staðið í vegi fyrir því, að hann setti reglugerð um vinnutímann. Þetta var samið með hliðsjón af vinnutíma, sem er annars staðar, með hliðsjón af samningum, sem gerðir hafa verið. Ég held, að þegar þessar brtt. voru ræddar hér, atkv. greidd um þær, þá hafi kannske munað einu eða tveimur atkv., að það færi í gegn og yrði að lögum, en í staðinn fyrir var sett inn í lög niðurlag á 52. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til þess að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“

Þetta var sett inn og þetta var hæstv. ráðh. falið fyrir réttu ári. Og hvernig hefur hæstv. ráðh. staðið í stöðu sinni? Þessi hæstv. ráðh., sem nú fer fram á það við okkur hér á Alþ., að við setjum hér í gegn á nokkrum dögum þetta frv. hans, hvernig hefur hann staðið í stöðu sinni? Hann hefur ekki svarað því, að hann hafi sett þessa reglugerð og ég verð að trúa því, að hann hafi ekki sett hana enn þá. Þetta á að vera til að tryggja öryggi, ekki bara hvíldartíma fyrir flugmenn, heldur öryggi farþega. Þetta á að vera m.a. til þess að tryggja álít Loftleiða, tryggja það, að þessir 96% útlendingar, sem með þeim ferðast, geti treyst því, að hér á þessu landi, sem Loftleiðir eru frá, séu mjög ákveðnar reglugerðir, mjög vel hugsað um öryggi farþega, þannig að af hálfu ríkisvaldsins í því landi sé allt gert til þess, að mönnum sé sem óhættast að ferðast með Loftleiðum, til þess að auka sem sé álít Loftleiða. Hvernig hefur hæstv. ráðh. staðið í stöðu sinni? Hefur hann hjálpað til að tryggja þetta öryggi? Hefur hann sett þessa reglugerð, eftir að hann hefur barizt fyrir því í fyrra, að það væri fellt að setja það inn í lög? Nei, hann hefur ekki gert það, eftir því sem mér skilst. Ég vona, að ráðh. kalli fram f, ef ég fer með rangt mál. Hann hefur ekkert gert. (Gripið fram í: Getur hann ekki fengið orðið til þess?) Ja, kannske, en ég er hræddur um, að hann vilji ekki fá orðið, en hann fengist kannske til þess að kalla fram í. Þess vegna held ég nú, að hæstv. ráðh., fyrst hann fær núna hlé, ég er ekki beinlínis að segja, að hann þyrfti að vinna 1, maí, en á sunnudaginn gæti hann vel tekið sér törn. Ég mundi ekki taka það eins alvarlega, þótt hann bryti sjálfan hvíldardaginn og skellti nú reglugerðinni upp og ég býst við, að hann hafi þó undirbúið þetta eitthvað og hugsað eitthvað um þetta og beðið um eitthvert álít og það liggi fyrir hjá honum, svo að hann gæti þó komið reglugerðinni frá sér, m.ö.o. lagt fram ofurlítið til þess að auka álít Loftleiða. Ég býst við, að það væri ekkert skemmtilegt, að það væri allt í einu farið að síma það út, að í þessu landi, sem Loftleiðir séu frá, sé það fellt, þar hafi það verið fellt í þinginu að setja lágmarkshvíldartíma fyrir flugmenn til þess að tryggja öryggi farþeganna, ríkisstj. hafði verið á móti því. Hvað yrði nú sagt, ef ég færi nú að eins og þegar Hitler var að biðja um flugvelli hérna, að síma það út um heim, segja frá því, hvernig þetta væri, hvernig þetta hefði verið, hvernig þetta hefði verið trassað, ef þessu yrði nú slegið upp í stórum blöðum í Ameríku, ég tala nú ekki um, ef Pan American og SAS og allir þessir, sem alltaf eru reiðubúnir til að gera Loftleiðum allt til bölvunar, færu nú að taka þetta upp til þess að lýsa því, hvers konar land þetta væri nú? Þetta þætti víst vera til álitshnekkis fyrir Loftleiðir og náttúrlega yrði mér kennt um það. Ráðh. hefur í heilt ár ekki gert neitt í þessu. Ég get strax sagt það hérna: Ég ætla ekki að gera þetta. En það sýnir bara, hvernig við þurfum hér, stjórnarandstaðan, að reyna að hylma yfir með ríkisstj., hvernig við verðum að reyna að varast, að menn fái að vita sannleikann um, hvernig hún starfar, til þess að valda ekki Loftleiðum álítshnekki úti um allan heim og stórspilla fyrir því fyrirtæki. Það er ekki í einu, heldur er það í öllu, sem verður að reyna að hafa vit fyrir þessari blessaðri ríkisstj. Því segi ég það: Ég held, að fyrst hæstv. ráðh. er nú byrjaður ofurlítið að vitkast og ætlar a.m.k. að breiða feld yfir höfuð sér, ekki í 24, heldur 48 tíma og reyna að hugsa ofurlítið á meðan, aldrei þessu vant, — ég veit, að ráðh. hafa ósköp lítinn tíma til að hugsa yfirleitt, þeir eru alltaf að afgreiða allt mögulegt, — þá vonast ég til þess, að á mánudaginn verði hann orðinn vitrari í þessum hlutum og sjái til þess, að þetta mál komi þá ekki aftur fyrir.

Það var einhver, sem komst svo að orði hér í gær, þegar verið var að ræða þetta mál,og var að minna á það, sem hefði gerzt 9. nóv. 1963, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki treysta sér til að snúa til baka. Ég vil aðeins segja það, að hæstv. ríkisstj. þarf ekki að skammast sín fyrir slíkt. Menn hafa vaxið af slíku og fáir vaxið eins og þeir, sem höfðu þor til þess að gera það. Og það, sem væri synd fyrir okkar þjóð, er að okkar hæstv. ráðh. reyndust of litlir karlar til þess að gera slíkt, og þar með of litlir karlar til þess að stjórna svo góðri þjóð sem við Íslendingar erum.