03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í ræðu minni áðan lagði ég einmitt höfuðáherzlu á þann þátt deilunnar, sem snýst um vinnutímann og hvíldartímann. Og það er skoðun mín, að það sé í raun og veru hin viðkvæmasta hlið þessa máls og sú, sem torleystust er. En eins og hv. 3. þm. Vestf. var að ljúka við að segja hér núna rétt áður, en ég gekk í ræðustólinn, hefur það dregizt, frá því að loftferðal. voru sett og allt fram á þennan dag, að þessi reglugerð kæmi frá hæstv. ráðh. og það er allt of langur dráttur. Skömmu eftir að l. voru komin og gerðu ráð fyrir, að þessi mikilvægu öryggisákvæði yrðu sett með reglugerð, þurfti auðvitað að fá hugmyndir flugmanna og annarra sérfróðustu manna um þessi mál og að þeim fengnum, á hvern veg sem þær voru, bar ráðh. að setja þessi reglugerðarákvæði. Þessi dráttur hefur orðið svo langur, að óverjandi er. Mér líka ekki þau svör hæstv. ráðh., að hann taldi sig ekki geta sett reglugerðina, fyrr en búið væri að semja um þetta viðkvæma atriði. Um það er ekkert í l., að hann eigi að bíða eftir því. Hann á að kalla eftir hugmyndum þessara aðila og vitanlega getur hann ekki beðið endalaust eftir því og hann er ekki heldur eftir orðalagi l. bundinn af þeim hugmyndum, sem fram koma. Hann á að setja reglugerðarákvæði að fengnum till., þegar hann hefur fengið till., á hann að setja reglugerðina. En enn þá segist hann ekki hafa fengið þessar till. Og nú leggur hann í frv. fyrir gerðardómsmennina að ákveða vinnutíma og önnur starfskjör flugmanna. Og nú spyr ég: Ætlar þá hæstv. ráðh. að setja reglugerðina um hvíldartímann í samræmi við gerðardómsniðurstöðuna um hvíld? Ég trúi því varla, að hann byggi á slíkum grundvelli og tel, að hann megi ekki úr þessu bíða með það að leysa þessa hlið deilunnar eins og landslög gera ráð fyrir, þ.e.a.s. með setningu reglugerðar. Þá stendur aðeins deiluatriðið um eitt og það eru launin.

Ég hef ekki tekið eftir því fyrr og held, að ekki hafi verið vikið að því í umr., að flugmennirnir hafa starfað á Rolls Royce flugvélum hjá Loftleiðum frá því í júní byrjun 1964 gegn því, að laun þeirra yrðu síðar greidd samkv. þeim samningi, sem stóð fyrir dyrum að gera. Ef þetta er rétt, sem ég vil ekki að óreyndu véfengja, að þeir hafi í góðri trú unnið hálft ár á þessari tegund véla og fái svo gerðardómslög á sig á eftir, finnst mér það vera í raun og veru ljótur þáttur í þessu máli, ef flugmennirnir eru sem sagt búnir að vinna þarna hálft árið 1964 í góðri trú um, að þetta yrði leyst með samkomulagi á milli réttra aðila á eftir, en fá svo þvert nei hjá sínum viðsemjendum og gerðardóm frá ríkisstj. Ég hef ekki heldur heyrt því haldið fram, að þegar flugmennirnir slógu um 25% af kröfum sínum, áður en verkfall hófst; þá hafi komið gagntilboð frá atvinnurekendum um einhverja verulega tilslökun á móti og það finnst mér bera vott um mikla stífni, mikinn stirðbusaskap í samningum, ef ekkert gagntilboð framkallast við það, að annar aðallinn slær 25% af kröfum sínum. Ég þori að fullyrða, að það kæmi illt blóð í flesta, sem sætu við samningaborð, þegar þeir gerðu svo stórfellda tilraun til þess að ná samkomulagi, að leggja til hliðar fjórða part af framlögðum kröfum, ef þeir fengju ekkert nema steinhljóð eða neitun, en það virðist hafa gerzt hér. Mér virðist því eftir þessum upplýsingum að dæma, að tilslökun hafi verið frá hendi flugmannanna í þessari deilu, en litill tilslökunarvilji sýndur frá hendi Vinnuveitendasambandsins, sem hefur farið með málsvörn fyrir Loftleiðir í þessu máli. Ég er ekkert ókunnugur því, að þegar við höfum staðið í samningum við atvinnurekendur, hafa atvinnurekendur oft sagt og kveinkað sér við: Ef við réðum okkur sjálfir, mundum við koma með tilboð og nálgast ykkar sjónarmið, en við bara fáum það ekki fyrir Vinnuveitendasambandinu og ef við vildum fara og halda okkar fram, vofa stórkostleg viðurlög við, sem mundu „rúinera“ okkur. — Þeir telja sig alveg á valdi atvinnuveitendasambandsins, þegar út í deilu er komið. Þá geta þeir ekki sagt sig úr samtökunum nema með því að borga gífurlegar sektir. Það er staðreynd, að Félag ísl. atvinnuflugmanna var í Alþýðusambandi Íslands á sínum tíma, og það ræddi við okkur þann vanda, að það væri hætta á því, að flugfélögin drægjust inn í íslenzkar vinnudeilur, ef félag þeirra starfandi flugmanna væri í verkalýðssamtökunum og til þess að eiga sinn hlut að því að afstýra, að flugfélögin drægjust inn í íslenzkar vinnudeilur, töldu þeir rétt, að þeir gengju úr Alþýðusambandinu og við féllumst á þetta sjónarmið. Við töldum svo mikið í húfi um framtíð flugfélaganna, að við vildum ekkert gera til þess, að þau drægjust inn í slíkar deilur. Og þeir fóru með mesta friði og vinsemd úr okkar samtökum. En til þess að þessi ráðstöfun þeirra kæmi að gagni, þurftu flugfélögin að gera aðra tilsvarandi ráðstöfun. Þau þurftu að stíga það skref, bæði Flugfélag Íslands og Loftleiðir, að ganga úr Vinnuveitendasambandi Íslands, en það hafa þau ekki hirt um að gera og það tel ég mjög miður, að þau skyldu ekki gera, því að ég álít rétt að stuðla að því, að þessi samtök, sem eiga vitanlega í mjög harðri samkeppni á heimsmælikvarða, reyni að haga störfum sínum svo, að þau séu sem allra minnst háð deilum á íslenzkum vinnumarkaði.

Það var ekki laust við það, meðan flugmennirnir voru í okkar samtökum og Loftleiðir áttu mikið í húfi með að stöðvast ekki á sínum byrjunarárum, að Alþýðusambandið fengi ámæli af því eða væri jafnvel brigzlað um eitthvert samspil við Loftleiðir, þegar við reyndum að hlífa Loftleiðum eins og við gátum og reyndum að halda félaginu utan við verkfallsátökin. En samt sem áður láta flugfélögin það undir höfuð leggjast að ganga úr samtökum atvinnurekenda og eru þar meðlimir, borga sjálfsagt of fjár í þau samtök, þó að flugmennirnir hafi gert það, sem þeir gátu, til þess að þessi fyrirtæki drægjust ekki inn í íslenzkar vinnudeilur. Ég taldi, þegar þeir túlkuðu þetta mál við okkur í Alþýðusambandinu, að þeir væru að gera rétt og ég er alveg viss um það nú, að þeir hafa gert rétt í þessu. En þetta skref af þeirra hendi kemur bara ekki að gagni, af því að gagnaðilarnir draga þá eftir sem áður inn í vinnudeilur hér á landi.

Það hefur verið mjög imprað á því, að frv. sé borið fram til að bjarga fjárhag Lofleiða. Mín skoðun er hins vegar sú, að fjárhag Loftleiða hefði verið langbezt borgið með því að sýna mikla lipurð í því að koma til móts við kröfur flugmannanna. Þetta er ekki stærri hópur en svo, að undir því hefði fjárhagur Loftleiða tvímælalaust risið og sómi félagsins mestur að vera sem sanngjarnastur í samningum við sitt starfsfólk og þessi leið, sem farin hefur verið, sem leitt hefur til hins langa verkfalls og mun e.t.v. leiða til þvingunarlöggjafar, er búin að verða Loftleiðum margfalt dýrari, en hin vinsamlega og friðsamlega leið hefði nokkurn tíma orðið. Á því er enginn vafi.

Ég tel það alvarlegt, ef gerðardómsleiðin verður nú reynd og það reynist svo, sem flugmennirnir hafa sagt, að þeir vinni ekki samkv. gerðardómskröfum, en þá má fyllilega búast við því, að þessir okkar færu menn hrekist úr landi. Og það mundu flestir harma, hygg ég, einnig þeir, sem missa þá úr þjónustu sinni. Ég er ekki í vafa um það, að þeir mundu kannske harma það mest, ef sú yrði raunin á. En ég held, að alvarlegast fyrir hæstv. ríkisstj. yrði það, eins og ég áðan sagði, ef hún hefði sett lög, flugvélarnar færu ekki af stað eftir sem áður, flugmennirnir úr landi, þá stæði hún a.m.k. ekki heiðri krýnd fyrir afskipti sín af málinu.