03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða þetta mál alllengi í báðum d. þingsins, og það er naumast hægt að segja, að nokkur maður hafi orðið til þess að mæla bót því frv., sem hér liggur fyrir, meira að segja tæplega hæstv. ráðh., sem stendur þó í forsvari fyrir flutningi þess, þar til nú, að hér kemur í ræðustólinn maður, sem telur, að þetta sé í raun og veru alveg sjálfsagt eða það sé eiginlega það eina, sem hægt sé að gera í þessu máli núna. Og það er, held ég, táknrænt, að þetta er kannske eini stórbóndinn, sem situr hér á þingi, málsvari afturhaldsins úr sveitunum. Þar fengu þeir fylgismanninn.

Hv. þm. sagði, að hann gæti ekki litið svo á, að gerðardómur, lögþvingaður gerðardómur, geti verið nein kúgun. Hann gat þess einnig, að hann sem bóndi byggi við slíkan gerðardóm. Mætti ég nú spyrja þennan þm.: Hver væru kjör hans og hver væru kjör annarra, sem búa við sams konar gerðardóm, skulum við segja, ef þeir, sem miðað er við, þ.e.a.s. verkamennirnir í þjóðfélaginu, hefðu ekki verkfallsréttinn, hver væru þá kjör þessara manna? Nei, það er ósköp þægilegt að fá alltaf sitt á þurru, þegar aðrir eru búnir að draga það á land. En þannig er einmitt ástatt um það málsatriði, sem hér um ræðir. En hjá hinum, sem ekkert hafa að selja nema sína eigin vinnu, ef tekið er af þeim frelsið til þess að hafa eitthvað um að segja, hvað þeir selja vinnu sína á, þá er um kúgun að ræða alveg ótvírætt.

Hann sagði einnig, þessi hv. þm., að við yrðum að búa við lög í landi. Það er alveg rétt, við eigum að búa við lög. Það eru til lög í þessu landi um meðferð þeirra mála, sem hér um ræðir. En það nægir ekki þeim, sem hér eiga hlut að máli, því auðfélagi, sem hér á hlut að máli, heldur þurfa að koma til sérstök lög. Það er svo líka rétt, að auðvitað eigum við að hlíta dómsúrskurðum, þegar rétt er farið með mál fyrir dómstólum. En þetta er ekki dómstólamál. Hér er ekki um dómstólamál að ræða. Hér er mál, sem á að semja um, en ekki neinir dómstólar eiga að úrskurða um.

Ég vil segja það, að ég ætlaði ekki að taka til máls hér. En hæstv. ráðh. tók loksins til máls við þessa umr. í dag. Hann sagði þá til svars við fsp., sem borin var fram við hann á þá leið, hvenær gerðardómur ætti að ljúka störfum, að það væri sagt í frv., að úrskurður gerðardóms skyldi gilda frá gildistöku l. og fram í febrúarmánuð 1968, ef ég man rétt og flugmenn gætu því vel við unað vegna þessara ákvæða í frv. En hver er kominn til með að segja, hver verður niðurstaða gerðardómsins? Gerðardómurinn getur nákvæmlega eins farið niður fyrir þau kjör, sem flugmenn hafa í dag, eins og skaffað þeim eitthvað meira. Það er þessi óvissa um, hvað kemur út úr gerðardómnum, auðvitað, sem flugmenn náttúrlega geta ekki unað til lengdar. Það er alveg augljóst mál. Þeir eiga sem sagt engan veginn víst einu sinni að halda því, sem þeir hafa í dag, hvað þá heldur að fá meira. Þó geri ég ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. muni sjá til þess, til þess að forðast enn meiri vandræði, að það verði þó þannig haldið á málum, að ekki komi til þess, að um kauplækkun verði að ræða.

Hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. vildi, að málin leystust með samningum og það væti alltaf hennar álít í vinnudeilum. Ég vil minna aftur á atriði, sem ég minnti á hér við 2. umr. þessa máls, að flugfélögin hafa notið aðstoðar ríkisvaldsins oftar en nú, þegar um verkfall hefur verið að ræða. Það var 1961, þegar verkamenn í Reykjavík stóðu í verkfalli. Þá voru mál þannig, að laun verkamanna höfðu verið skert um 20% og vel það með gengisfellingarlögum og öðru, sem á undan var gengið. Þegar brbl. voru sett, var búið að gefa flugfélögunum viku lengri frest, en öðrum aðilum í deilunni, þá var búið að semja við stóra aðila, sem hlutu að marka það, sem samið yrði um sem heildarlausn. En þá kemur ríkisstj. til, gefur út brbl., sem banna verkföll hjá flugfélógunum. Það var búið að semja um 10% kauphækkun fyrir verkamenn upp í þessi 20%, sem var búið að taka áður. Hvers vegna lagðist nú ekki hæstv. ríkisstj. þá á þá sveiflna að knýja fram samninga, því að endanlega vill hún samninga og friðsamlega lausn? Það var einfaldlega vegna þess, að þá vildi hún ekki, að samið yrði og atvinnurekendasamtökin raunar ekki heldur, þ.e.a.s. þeir afturhaldssömu í þeirra röðum. Það átti að sýna verkamönnunum, að það borgaði sig ekki að hækka launin, eins og þá átti að gera. Þess vegna voru þessi brbl. sett 1961 og það stuðlaði m.a. af því, að verkfallið stóð enn í 3 vikur. Svo er hægt að koma hér, tala í blíðlegum tón og segja, að hæstv. ríkisstj. og ráðh. allir náttúrlega vilji ævinlega friðsamlega lausn málanna.

Nú hefur þetta verkfall staðið í mánuð. Ég held, að það sé að verða hálfur mánuður, sem þetta frv. er búið að liggja fyrir Alþ. Allan þennan tíma hefur náttúrlega ekkert verið gert til lausnar málanna annað, en að málið hefur legið hér. Það er alveg fráleitt, þegar mál standa svona; að hæstv. ríkisstj. grípi inn í á þennan hátt, alveg fráleitt. Það, sem auðvitað bar að gera, var að knýja á um samninga. Ég get vel fallizt á það út af fyrir sig, að það eigi ekki einvörðungu annar aðilinn sök hér. Ég held, að bresti á um, hvernig haldið hefur verið á málum. Það má vel vera, að það sé vegna þess, að næg kunnátta í þessum efnum er ekki fyrir hendi. En hvað um það: Það, sem þó fyrst og fremst ræður hér, er áreiðanlega afstaða atvinnurekendasamtakanna, sem ríkisstj. getur haft mikil áhrif á. Ef hún lætur undan þeim, þá er náttúrlega ekki að sökum að spyrja. Þá fer eins og nú er komið. Ef hún stendur á móti, þá neyðast þeir til að semja. Það er það, sem hæstv. ríkisstj. átti nú að gera.

Hæstv. ráðh. sagði að lokum, að stjórnarandstæðingar vildu ekki leysa þetta verkfall, þeir vildu, að verkfallið héldi áfram. Hvaðan í ósköpunum telur hæstv. ráðh. sig hafa heimíld til að geta sagt svona hluti? Ég held, að við

höfum hér í umr. og hvarvetna annars staðar, sem við höfum getað haft afskipti af þessu máli, túlkað allt önnur sjónarmið. Það væri búið að semja, ef ríkisstj. hefði ekki látið undan atvinnurekendasamtökunum að grípa inn í þetta mál á þennan hátt. Og ég tel, að það sé ekki aðeins illa farið hvað þessa deilu snertir, heldur einnig þau mjög svo vandasömu samningamál, sem nú standa fyrir dyrum.