12.11.1964
Efri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

10. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki stórvægilegt. Það er búið að fara gegnum Nd., en efni þess er að hækka ákvæði í lögum úr 1000 kr. í 3000 kr. varðandi hámark þess tjóns, sem hin sérstaka ákæruregla í 2. málsgr. 256 gr. hegningarlaganna miðast við, en hún er í því fólgin, að ef tjónið af broti nemur ekki yfir tiltekinni upphæð, í þessu tilfelli 3000 kr., og engin sérstök atvik auka saknæmi þess og sökunautur hefur ekki áður reynzt sekur um auðgunarbrot, þá skal því aðeins höfðað opinbert mál, að sá krefjist, sem misgert er við.

Eins og fram kemur í grg., var þetta hámark hækkað 1950 seinast úr 50 kr. í 1000 kr., og er nú lagt til að hækka það úr 1000 kr. í 3000 kr., en þessi hækkunartillaga er borin fram í samráði við hegningarlaganefnd, og saksóknara ríkisins, og miðast við breyttar aðstæður verðlags og annars, frá því að hámarkið var ákveðið 1950.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. allshn.