08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

138. mál, læknaskipunarlög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er orðið margra ára ískyggilegt vandamál að fá hið opinbera til að hlutast til um, að íbúar læknishéraðanna í dreifbýlinu búi við slík kjör, að þeir geti talið viðunandi. Slikt hefur dregizt úr hömlu ár frá ári og því ætíð, eftir því sem árin hafa liðið, sigið meir og meir á ógæfuhlið í þessu efni. Það mun hafa verið árið 1960, að samþykkt var á Alþingi áskorun til hæstv. ríkisstj. að leggja fram till. til úrbóta í þessu efni. 1961 lagði ríkisstj. fram till. um breytingu á læknaskipunarlögunum frá 1955, sem gekk

í þá átt að bæta kjör héraðslækna í sambandi við greiðslur vegna læknisstarfa, en um hækkun á embættislaunum þeirra var ekki að ræða. Þessu frv. hæstv. ríkisstj. fylgdi svo álitsgerð og till. landlæknis varðandi málið. Lagði landlæknir þar til m.a., að greiddar yrðu launabætur til héraðslækna í nokkrum héruðum, sem næst 50% í þeim héruðum, þar sem íbúar voru færri en 600, en um 331/3 % til lækna í þeim héruðum, þar sem íbúar væru frá 600–800. Hafði landlæknir ætlazt til og gert till. um, að héraðslæknar í 16 læknishéruðum nytu á þennan hátt nokkurra launabóta og þá fyrst og fremst ætlazt til þess, að hæstu launabæturnar féllu til þeirra héraðslækna, sem þjónuðu erfiðustu og fámennustu læknishéruðunum. Þá lagði landlæknir einnig til, að auk þessa skyldi einu sinni fyrir allt lagt til ríkisframlag til að koma upp í fámennustu læknahéruðunum nokkrum lyfjabirgðum og lækningatækjum og einfaldasta útbúnaði í lækningastofu og í íbúðir. Ekkert af þessum till. landlæknis fann þó náð fyrir augum hv. Alþ. Og mátti þó ætla, að þaðan kæmu till., sem eitthvað væri upp úr leggjandi, að þar væri um að ræða mann, þ.e. landlækninn, sem þekkti bezt, hvar skórinn kreppti og væri líklegur til að koma með till. um einhverjar úrbætur, sem við væri litið af héraðslæknunum.

Þegar svona var komið, að þessar till. landlæknis höfðu ekki verið teknar upp í þær till., sem heilbrigðismálastjórnin lagði fyrir Alþingi, lögðum við hv. 3. þm. Norðurl. e. fram brtt. við frv. ríkisstj., þar sem tekin voru upp aðalatriðin í umbótatill. landlæknis. Var þar fyrst á blaði 50% staðaruppbót eða launabót til lækna í fámennustu læknishéruðunum og enn fremur, að betur yrði búið að héraðslæknunum í sambandi við ýmis hlunnindi eða fríðindi, eins og um lyfjaforða og annað það, sem landlæknir hafði hreyft að æskilegt væri, að tekið væri til greina vegna læknishéraðanna.

Eftir verulegt þóf hér á hv. Alþingi um málið fékkst nokkur leiðrétting í sambandi við lækningatæki og umbúnað í lækningastofum, en engin launabót eða önnur fríðindi til handa héraðslæknunum.

Það er fjarri mér að halda því fram, þótt till. okkar hv. 3 þm. Norðurl. e. hefðu verið samþykktar óbreyttar, að þá hefðu þær ráðið öruggum úrslitum í sambandi við það vandamál, sem við var að stríða. En þó hefði með samþykkt þeirra komið í ljós nokkur veruleg viljayfirlýsing frá því opinbera að reyna að gera meira en frv. hæstv. ríkisstj. bar með sér til þess að mæta þeim kröfum og þörfum, sem öllum var ljóst, að væru fyrir hendi í þessu máli, því að sú afgreiðsla, sem varð í málinu, hlaut í raun og veru að auka trúleysi á, að það opinbera vildi nokkru teljandi fórna til hagsmuna fyrir erfiðustu læknishéruð dreifbýlisins.

Af fyrrgreindri álítsgerð landlæknis má ætla, að hann hafi ekki alls kostar verið ánægður með meðferð þessa læknamáls á þingi 1961– 62 og kemur það fram, ef maður lítur á grg. þessa frv. Hefur landlæknir snemma á árinu 1964 skrifað hæstv. heilbrmrh. bréf og lagt fast þar að, að þetta læknavandamál yrði tekið upp að nýju og nefnd skipuð í málið til að rannsaka það betur. Og það frv. um læknaskipunarlög, sem hér liggur nú fyrir, er árangur starfa þeirrar n., sem hæstv. ráðh. skipaði í málið.

Í þessu frv. koma m.a. fram till. landlæknis frá 1961 um launabætur til dreifbýlislæknanna, svo og ýmsar aðrar réttarbætur, t.d. varðandi afleysingu í orlofi lækna, aðstoðarlán til læknastúdenta, sem vilja taka að sér héraðslæknisstörf, aðstoðarlán vegna bílakaupa héraðslækna, utanfararstyrki o. fl. Þá má nefna till. um framlag ríkisins til að greiða ákveðinni tölu hjúkrunarkvenna 2/3 launa, ef þær starfa í dreifbýlislæknishéruðunum.

Það má hiklaust segja, að allar þessar till. séu út af fyrir sig mjög þakkarverðar, svo langt sem þær ná, en hefðu þurft að vera nokkru meiri í vissum tilfellum og gjarnan mátt koma fyrr fram. En þessu frv. og þeim fríðindum, sem þar eru tekin upp, fylgir böggull. Um leið og hæstv. ríkisstj. leggur til umræddar réttarbætur til handa héraðslæknum dreifbýlisins, vill hún afnema með lögum fimm verst settu útkjálka læknishéruðin og að hlutaðeigandi sveitarfélög séu færð undir nágrannalæknishéruðin.

Heilbrigðisstjórnin með hæstv. ráðh. í fararbroddi virðist hafa gefizt upp á að leysa læknavandamálið, a.m.k. erfiðustu læknishéraðanna, og hyggst því höggva á hnútinn með því að losna framvegis við formlegar kröfur fólksins um, að það opinbera leggi til lækna eins og nú er gert ráð fyrir og það virðist svo því miður, að okkar ágæti landlæknir hafi gefizt upp í þessu stríði og fallizt á það, að umrædd fimm læknishéruð verði lögð niður. Það má vel vera, að það sé að vonum, að þessi ágæti maður hafi að vissu marki lagt árar í bát í þessu efni, þegar þess er minnzt, að hann fékk ekki fyrir nokkrum árum fram þær óskir, sem hann taldi nauðsynlegar til þess að bæta þá aðstöðu, sem hann hafði við að stríða í sambandi við að útvega dreifbýlinu héraðslækna.

Skv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, er eins og ég sagði, gert ráð fyrir að leggja niður fimm erfiðustu útkjálka læknishéruðin og það lítur ekki út fyrir, að það eigi að hafa neinn hægagang á því. Það er að vísu gert ráð fyrir skv. frv., að þessi læknishéruð, sem falla þá niður, séu auglýst þrisvar sinnum, áður en þetta lagaákvæði tekur endanlegt gildi. Mér skilst, að löglegt sé að auglýsa embætti, t.d. læknishéruð, með mánaðar millibili og ef það er rétt, þá mætti svo fara, að þessi fimm læknishéruð yrðu lögð niður einhvern tíma eftír mitt þetta ár. Og með því telur heilbrigðismálastjórnin málið „leyst“, ef maður má nota það orð, sem verður þá að vera innan gæsalappa. En fólkið í þessum héruðum situr eftir vonlaust um að fá lækni, situr eftir í vonleysi og með sárt ennið.

Ég tel, að ef svo illa fer, að fækkun læknishéraðanna verði samþykkt, þá mætti vænta þess, að svona yrði ekki haft hratt á um að lögfesta læknishéraðafækkunina og mætti ekki minna vera, en að þau fríðindi, sem nú eru loks boðin fram í þessu efni, fengju að sýna sig einhver ár, áður en úrskurðað væri, að vonlaust gæti talizt, að þau kæmu að notum í hlutaðeigandi læknishéraði.

Ég fyrir mitt leyti fordæmi alveg þessa till. um fækkun læknishéraðanna og það sjónarmið, sem á bak við býr. Í stað þess tel ég, að það hefði verið skylt að auka laun og fríðindi til þessara læknishéraða, sem erfiðasta aðstöðu eiga, t.d. að staðaruppbót lækna í umræddum fimm læknishéruðum væri boðin fram sem 100% af þeim lögboðnu almennu launum lækna og að varðandi lyfjaforða, læknisáhöld og annað slíkt, sem gæti auðveldað búsetu læknis á hlutaðeigandi stöðum, þá væri einu sinni fyrir allt a.m.k. lagt fram sem svaraði 100% af nauðsynlegum hlutum í því efni. Og ef slík till. væri lögfest, að launin væru helmingi hærri, en í almennari og auðveldari læknishéruðum og annað fleira gert til þess að laða lækni að og ef slík tilraun bæri ekki árangur eftir einhver ár, mætti segja, að það væri frekar réttlætandi að koma þá með till. um að leggja eitthvað af þessum útkjálka læknishéruðum niður. Það mætti segja, að það opinbera hefði þá sýnt nokkra og raunar verulega viðleitni til þess að bæta úr í þessu efni.

Þetta læknafrv. gerir m.a. ráð fyrir að leggja fram nokkurt fé til að hjálpa dreifbýlis læknishéruðunum til að halda hjúkrunarkonur. Um leið og ég vil ákveðið leggja til, að atriðin um að fella niður viss læknishéruð verði numin úr frv., þá vil ég leggja það til, að t.d. þessi fimm erfiðustu læknishéruð fái framlag að fullu frá ríkinu til þess að launa hjúkrunarkonu á tilteknum stöðum í læknishéruðunum, meðan enginn héraðslæknir hefur fengizt.

Það hafa undir þessum umr. komið fram harðvítug mótmæli gegn niðurskurði á læknishéruðunum, t.d. mótmæli frá tveimur hv. þm. Vestfjarðakjördæmis og þeir bentu á þau vandkvæði, sem væru til staðar á þeim landssvæðum, sem hlutaðeigandi læknishéruð eru. Ég vil bæta við umsögn um eitt af þessum fimm læknishéruðum, þar sem ég er vel kunnugur, það er Bakkagerði í Norður-Múlasýslu. Það er lagt til, að það verði eitt af þeim læknishéruðum, sem á að leggja niður með þeim hætti, sem frv. ber með sér. En þar eru aðstæður þannig, að í venjulegu árferði er bílleiðin opin 4–5 mánuði ársins, þaðan að Egilsstöðum, sem íbúar Borgarfjarðarhrepps eiga að sækja lækni til. Aðra árstíma má gera ráð fyrir, að læknar komist ekki yfir fjöllin af Fljótsdalshéraði til Borgarfjarðar nema fótgangandi og þá er í snjóum stundum lífshætta vegna snjóflóða að fara um skriður, sem leiðin liggur um. Sjóleiðin kemur þá ekki heldur til greina og ekki heldur sú litla aðstaða, sem um er að ræða í Borgarfirði í sambandi við sjúkraflug. Ég mótmæli því ákveðið og algerlega fyrir hönd íbúa

Borgarfjarðarlæknishéraðs, að það hérað sé nú afnumið með lögum. Það eru mörg ár síðan það læknishérað ásamt öðrum slíkum í dreifbýlinu var stofnað og þá viðurkennd sú mikla nauðsyn, að læknir væri þar til staðar. Slík nauðsyn hefur auðvitað aukizt og margfaldazt með tilkomu vélvæðingar undanfarinna ára, vélvæðingar, sem jafnvel hefur náð til útkjálka héraðanna, svo sem til Borgarfjarðar, því að þar er nú bæði frystihús og síldarmjölsverksmiðja, og af slíkri starfsemi stafar auðvitað stórhætta á lífi og limum og í fásinninu þar hafa slík slys orðið eins og víða annars staðar og öryggísleysið í þeim tilfellum hefur aukið ótta fólksins að búa við þær aðstæður að hafa ekki til læknis að leita, hvað sem út af ber, nema eftir langri og torsóttri leið.

Er afsakanlegt að afnema nú með lögum alla von fólksins um, að þjóðfélagið vilji gera eitthvað til þess að bæta úr þessu ástandi? Ég segi nei.

Þetta máli gæti gefið tilefni til að tala um áhuga og vilja stjórnarvaldanna að vinna að jafnvægi í byggð landsins og að afstýra því, að fleira fólk í dreifbýlinu, en orðið er gefist upp á að lífa áfram og starfa í sínum heimabyggðum. Inn á þau mál skal ég þó ekki fara. En ég leyfi mér að benda hæstv. ríkisstj. á, að í viðbót við allar heilbrigðar og eðlilegar kröfur dreifbýlisfólksins um tryggari lífsafkomu, en nú á sér stað, er þó frumkrafa hvers manns sú, að þeir búi við viðunandi lífsöryggi, ekki síður í dreifbýlinu, en annars staðar.