09.03.1965
Neðri deild: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

138. mál, læknaskipunarlög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til læknaskipunarlaga hefur verið mikið rætt hér á tveimur fundum í hv. d. og það hafa komið fram ýmsar aths. við þetta frv. frá þm. Vestf., sem ég þarf ekki að orðlengja mikið um, því að þeir hafa komið fram með rök fyrir því, sem við höfum út á þetta frv. að setja. Hins vegar vil ég taka það fram, að við, sem komum úr dreifbýlinu, hljótum í heild að fagna mjög þessu frv., því að það gerir það að verkum, að það mun verða betra að fá lækna í mörg læknishéruð, sem á mörgum undanförnum árum hafa oft og tíðum ekki haft lækna langtímum saman. En í sambandi við þá ræðu, sem 11. þm. Reykv, flutti s. 1. fimmtudag, vil ég lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég tel, að þau hlunnindi, sem héraðslæknum í dreifbýlinu er gefinn kostur á með þessu frv., eigi ekki að skapa nein fordæmi fyrir aðrar stéttir að fara fram á það sama. Og ég tel, að það sé hættulegt fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að fara að bera fram slíkar kröfur í sambandi við þessi mál, því að við hljótum að verða um það sammála allir, hvar í flokki sem við erum, að læknisstarfið er í raun og veru hafið yfir öll önnur störf, og við megum sízt við því, sem erum búsett um hinar dreifðu byggðir landsins, að missa læknisþjónustuna, og þess vegna hygg ég, að það sé ekki til neins góðs að fara að setja slíkar kröfur fram, sem geta kostað þjóðfélagið stórfellda útgjaldaaukningu, og ég vænti þess, að a.m.k. flestir af sam flokksmönnum þessa hv. þm. séu sammála mér og þeim öðrum, sem ræddu þetta atriði málsins hér á þingfundi í gær.

Eins og eðlilegt er, vekur það alltaf nokkurt umtal, þegar leggja á niður ákveðin störf, og það er ósköp eðlilegt, að það hafi verið víða rætt á Vestfjörðum, að það eigi að leggja niður þrjú læknishéruð. En þá verðum við fyrst og fremst að gæta að því, hvernig hefur verið búið að þessum héruðum á undanförnum árum og hvernig ástandið þar er og hvort það sé þrátt fyrir þær miklu bætur, sem verða gerðar á kjörum héraðslækna, nokkur möguleiki fyrir því, að héraðslæknar sitji í þessum ákveðnu læknishéruðum.

Ég vil þá fyrst nefna Flateyjarlæknishérað, og þá vil ég vekja athygli á því, að á árinu 1943 voru 358 íbúðir í Flateyjarlæknishéraði, á árinu 1960 voru þeir 137 og 1964 voru þeir 119. Frá 1960 hafa 6 menn, þar af einn læknastúdent, gegnt Reykhólahéraði, sem er næsta læknishérað og því hefur tvívegis, samtals yfir 6 mánuði, verið gegnt af Búðardalslækni á þessu tímabili. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég tel ekki útlit fyrir, að læknishérað, sem hefur aðeins 119 íbúa, hafi möguleika á því að fá lækni í framtíðinni, þó að kjör héraðslækna verði stórbætt, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Og þá er ekki spurningin, að það sé verið að taka lækni af þessu læknishéraði, sem engan lækni hefur haft í fjöldamörg ár, heldur er það spurningin, hvernig við getum bezt tryggt læknisþjónustu slíks héraðs sem þessa og það gerir þetta frv. með stórbættum kjörum héraðslækna, en ég vil benda á það, að ég tel miklu heppilegra, að þessu læknishéraði verði þjónað frá Reykhólahéraði ,en frá Stykkishólmi, bæði vegna vegalengdar og sömuleiðis vegna þess, að Reykhólalæknishérað er tiltölulega mjög fámennt hérað og því eðlilegt, að það sé stækkað að verulegu leyti til þess að gera afkomu þess manns, sem því kemur til með að gegna, sem allra bezta.

Í sambandi við Djúpavíkurlæknishérað, sem áður hét Reykjarfjarðarhérað, voru íbúar í Djúpavíkurhéraði árið 1943 535, 1960 287 og 1964 267. Það er mjög líkt ástatt með það hérað og með Flateyjarhérað, að þar hefur orðið stórfelld fólksfækkun á þessum tíma, þó að þar séu samt meira en helmingi fleiri íbúar en í Flateyjarhéraði 1964. Frá árinu 1960 hafa alls 5 læknar gegnt Hólmavíkurhéraði og þar af aðeins núverandi læknir skipaður, en hinir settir. Frá árinu 1944–1960 hafa verið settir 20 héraðslæknar í Árneshéraði, fyrstu árin framan af í nokkra mánuði í senn, einkum að sumrinu og síðan hvað eftir annað verið settur læknir í Hólmavíkurlæknishéraði til þess að gegna Árneshéraði. Ég segi fyrir mitt leyti, að skoðun mín er sú sama og hvað viðvíkur Flateyjarlæknishéraði, að ég tel ekki möguleika á því þrátt fyrir stórfellda kjarabót að fá fastan lækni í Djúpavíkurhérað og þess vegna hygg ég, að það heppilegasta fyrir íbúana í Djúpavíkurhéraði sé að tryggja sem bezt afkomu héraðslæknisins í Hólmavíkurhéraði og þar með skapa þeim lækni svo góðar tekjur, að menn vilji sækja um það hérað, en komi ekki nokkra mánuði í senn, eins og verið hefur nú í mörg undanfarin ár, svo sem ég gat um áðan.

Þá vil ég minnast á þriðja læknishéraðið, sem viðkemur Vestfjörðum, en það er Suðureyrarlæknishérað. Á það lít ég allt öðrum augum. Með lögunum 1955 var Suðureyrarhérað tekið í lög sem sérstakt læknishérað og héraðið var svo auglýat laust til umsóknar 15. ágúst 1957 og til veitingar frá 1. jan. 1958, og var læknir settur í héraðið frá þeim tíma og sat sá læknir til 4. október 1963. Síðan hafa tveir læknakandidatar gegnt héraðinu um stuttan tíma og nú í vetur hefur Flateyrarlæknir gegnt því. Suðureyrarhérað hefur algera sérstöðu. Bæði er það nokkuð stórt hérað, 1958 voru íbúar þess 409, og þar hefur orðið um 10% fjölgun íbúa síðan og eins og getið var um hér í umr. í gær, er yfirleitt allan veturinn fjöldi af aðkomufólki á Súgandafirði, því að þarna er stór og mikil verstöð. Eins ber að taka tillit til þess, sem einnig kom fram hér í umr. í gær, að þegar þetta einangraða læknishérað varð að sjálfstæðu héraði, brá hreppsnefndin þar fljótt og vel við og byggði myndarlegan læknisbústað og sjúkraskýli, sem er með því allra bezta, sem ég hef séð á Vestfjörðum og þótt víðar væri leitað og meðan samgöngur við þennan stað eru ekki traustari og betri en þær eru nú, kemur að mínum dómi ekki til greina að leggja Suðureyrarlæknishérað niður eða sameina það Flateyrarlæknishéraði.

Mér barst rétt í þessu bréf frá hreppsnefnd Suðureyrarhrepps, þar sem hún mótmælir þessu ákvæði í frv. til nýrra læknaskipunarlaga, sem ég hef þegar minnzt á, en í niðurlagi bréfsins segir hreppsnefndin, með leyfi forseta:

„Jafnframt því að skora á hv. Alþ. að fella niður þann lið umrædds frv., sem gerir ráð fyrir að sameina Súgandafjörð öðru læknishéraði, vill hreppsnefndin lýsa þeirri skoðun sinni, að hún telur ýmsa liði frv. stórauka möguleika til þess, að hin minni og afskekktari læknishéruð landsins verði setin í framtíðinni.“

Þetta frv. kemur til með að verða til meðferðar í heilbr.- og félmn., og eiga Vestfirðingar 3 fulltrúa í þeirri n., sem allir eru á sömu skoðun um það, að Suðureyrarlæknishérað verði áfram sjálfstætt læknishérað og ég er ekkert hræddur um það, að aðrir þm. sömuleiðis, sem hlustað hafa á þessi rök. verða á sömu skoðun og við þm. Vestf. erum og höfum lýst hér í hv. þd. Hins vegar vil ég geta þess í sambandi við þau önnur læknishéruð, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, að ég ætla ekki að ræða hvað snertir Raufarhafnarhérað og Bakkagerðishérað. Ég hef ekki kunnugleika til þess. En ég hef hlustað á rök manna fyrir því og að sjálfsögðu tekur n. það mál til athugunar. Hins vegar þykir mér eðlilegt, samkv. þeim ákvæðum frv., að þessi héruð, sem verða lögð niður eða sameinuð öðrum héruðum, skuli auglýsa þrisvar í röð með þeim kjörum, sem ákveðin eru í 6. gr. frv., mér finnst mjög eðlilegt, að n. taki það til athugunar að setja þá nánari ákvæði um auglýsinguna, þannig að það sé ekki hægt að auglýsa þau þrisvar í röð með stuttu millibili, heldur t.d. þau séu auglýst í 3 ár einu sinni á ári og það væri til þess að milda mjög þetta ákvæði og mér finnst eðlilegt, að n. taki það til velviljaðrar athugunar og eins deildin.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en ég fagna í heild þessu frv. og þakka heilbrmrh. og ríkisstj. í heild fyrir að hafa lagt það fram. Þó að við höfum í þessu tilfelli gert aths., vitum við, að það er vilji fyrir því frá hendi allra að taka tillit til þeirra raka, sem fram hafa komið í þessum umr., og vænti ég þess, að þetta mál fái góða afgreiðslu hér á hv. Alþ. og allir geti mjög vel við afgreiðslu þess unað.