09.03.1965
Neðri deild: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

138. mál, læknaskipunarlög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að ræða sérstaklega það frv., sem hér liggur fyrir, því að það hefur verið gert mjög rækilega af öðrum hv. þm. En það er eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega árétta, — atriði, sem hér hefur komið fram, — áður en frv. gengur til nefndar.

Ég vildi alveg sérstaklega taka undir það með hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að ég álít nauðsynlegt, að kennslufyrirkomulag og sérstaklega próffyrirkomulag hjá læknadeild háskólans verði tekið til endurskoðunar. Ég held, að það hljóti eitthvað að vera að í þessum efnum, sem þarfnist endurskoðunar, svo mörg eru dæmi þess, að menn falli þarna við próf og það oft og tíðum hinir ágætustu og beztu námsmenn. Og það er líka staðreynd, að á undanförnum árum hafa skilyrðin verið hert í þessum efnum, — prófin hafa verið hert verulega frá því sem áður var. Og þess veit ég ýmis dæmi, að það virðist stafa af hreinum smámunum, þegar menn hafa verið felldir við próf. Mér er alveg sama, hvaða skýrslur hæstv. ráðh. kann að koma með í þessu sambandi og hvað hann kann að vitna til annarra landa. Samt er ég hræddur um, að þarna sé ekki allt með felldu. Þess vegna vildi ég beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að þó að ekki séu nein sérstök ákvæði um þetta atriði í frv., taki hún það sérstaklega til athugunar, m.a. á þann veg að kveðja til sín þá menn, sem ráða mestu um störf þessarar deildar og kennslufyrirkomulag og einnig verði leitað álits stúdentanna sjálfra um það, sem þeir kunna að telja ábótavant. En það skulum við gera okkur fullkomlega ljóst, að svo mikill er læknaskorturinn þegar orðinn, — og þó horfur á, að hann verði enn þá meiri, þegar hinir nýju spilalar verða teknir til notkunar, sem nú eru í byggingu, — að það þarf að gera alveg sérstakar ráðstafanir í þessum efnum að fjölga læknunum. Sá læknaskortur, sem hefur verið mest talað um í þessu sambandi úti um landið, er ekki siður að verða tilfinnanlegur hér í höfuðstaðnum og þó sérstaklega þegar spítalaplássið eykst þar, eins og verða mun á næstu missirum. Það er satt að segja hart til þess að vita, ef það stafar að einhverju leyti af því námsfyrirkomulagi, úreltu námsfyrirkomulagi, sem við búum við, að mörgum efnilegum mönnum sé bægt frá því að læra þessa nauðsynlegu og merkilegu fræðigrein. En það er alveg víst, að það eru yfirleitt ekki nema efnilegustu og duglegustu námsmennirnir, sem leggja inn á þá braut að nema læknisfræðina og það eru menn, sem leggja mikið á sig, til þess að ná þeim árangri, sem að er stefnt og þess vegna má það ekki koma fyrir, að það sé einhver smámunasemi í sambandi við próf eða úrelt próffyrirkomulag, sem veldur því að þeir geta ekki náð því marki, sem að er stefnt.

Ég vil einnig taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá hv. 3. þm. Reykv. og fleirum, að ég álít nauðsynlegt, að námsstyrkir til þessara manna séu mjög auknir. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að seinustu missirin eða seinustu árin hafa námsstyrkir eða námslán farið lækkandi, ef miðað er við dýrtíðina. Það lá hér fyrir hv. Alþ. í vetur skýrsla frá stjórn þess sjóðs, sem sér um úthlutun á námslánunum. Þar kom alveg skýrt fram, að það vantaði mjög mikið á þá fjárveitingu, sem Alþ. veitti til námslána, til þess að það væri hægt að veita námslán sambærileg við það, sem höfðu verið veitt árið 1962, ef tekið var tillit til aukinnar dýrtíðar á þeim tíma. Við nokkrir framsóknarmenn fluttum till. um það, að framlag ríkisins til námslauna og námslána yrði hlutfallslega eins mikið og hafði verið á undanförnum árum, en sú till. náði ekki fram að ganga hér á Alþingi.

Það er að vísu alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að það er ákaflega gott, að þeir menn, sem stunda nám, geti að einhverju leyti, meðan þeir eru á námsbrautinni, unnið við atvinnuvegina að sumri til, eins og hann minntist á. En ég held, að hæstv. forsrh. geri sér ekki grein fyrir því, að það er búið að þyngja læknanámið svo mikið, að þetta er ákaflega miklum örðugleikum bundið. Læknarnir þurfa helzt að eyða öllum sínum tíma til þess að stunda þessa námsgrein. Og jafnvel þó að þeir kunni að einhverju leyti að geta unnið tíma og tíma utan við námið, þá hrekkur það allt of skammt til þess að sjá þeim farborða, eins og t.d. er ástatt um marga þeirra, að þeir hafa fyrir fjölskyldum að sjá og þurfa þess vegna að standa undir meiri kostnaði, en ella. Og satt að segja er ég hálfhissa, að hæstv. forsrh. skuli koma hér upp og vera að telja það eftir, sem þessir menn kunna að fá í námslán og námsstyrki. Hæstv. menntmrh. hefur stundum sagt hér á þessum stað, að það væri engu fé betur varið en því, sem færi til aukinnar menntunar og til að afla þjóðinni sem beztra fræðimanna á sem flestum sviðum. Ég sé það á því, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að hann er ekki sammála hæstv. menntmrh. um þetta atriði og það tel ég vera ákaflega miður farið.

Ég vil sem sagt taka undir það, sem hér hefur komið fram, að í sambandi við þetta mál láti hv. n., sem fær málið til athugunar, fara fram athugun á því kennslufyrirkomulagi og próffyrirkomulagi, sem er í læknadeild og n. kynni sér orsakir þess, vegna hvers margir námsmenn falla þar við próf og í mörgum tilfellum verði þetta til þess, að þeir hætti námi. Enn fremur verði það tekið til athugunar af hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, hvaða möguleikar eru til þess að hækka námslaunin.

Ég vil svo að síðustu segja aðeins örfá orð í tilefni af því sem hæstv. forsrh. lét falla, rétt áður, en ég kom hingað. Ég ætla að vísu ekki að fara að rifja upp eða rekja þau atriði, sem hann minntist á, eða að fara að hefja neinn eldhúsdag í þessum efnum. En ég held, að hjá því verði ekki komizt að segja, að það hefur vissulega þurft svipuhögg á hæstv. ríkisstj. til þess að knýja hana til aðgerða í heilbrigðismálunum. Það nægir alveg í þeim efnum að benda á hina mörgu hálfbyggðu spítala, sem hafa blasað við sjónum manna hér á undanförnum árum og fyrir löngu gætu verið komnir í notkun, hefði ríkisstj. sýnt nokkurn dug eða framtak í því að hraða þessum byggingum. Það hefur sannarlega bæði hér á Alþingi og víðar, m.a. frá læknum og hjúkrunarkonum, þurft svipuhögg á hæstv. ríkisstj. til að knýja hana til aðgerða í þessum efnum. Og nú er ástandið í þessum efnum þannig hjá hæstv. ríkisstj., að þegar þessir spítalar loksins komast upp, blasir við stórkostlegur skortur á læknum og hjúkrunarkonum, vegna þess að ríkisstj. hefur vanrækt þann undirbúning, sem nauðsynlegur var í þeim efnum.